2010–2019
Löngunin að komast heim
Október 2017


Löngunin að komast heim

Snúið sálu ykkar að ljósinu. Hefjið ykkar eigin dásamlegu ferð heim. Þegar þið gerið svo, verður líf ykkar betra, gleðiríkara og stefnufastara.

Nýverið, er við áttum samfund með Thomas S. Monson forseta, þá tjáði hann af miklum innileika og gleði hve heitt hann elskaði Drottin og vissi að Drottinn elskaði sig. Kæru bræður og systur, ég veit að Monson forseti en þakklátur fyrir kærleika ykkar, bænir og tryggð til Drottins og fagnaðarerindis hans.

Undrahundurinn Bobbie

Fyrir nærri því öld síðan, þegar fjölskylda frá Oregon fór í sumarleyfisferð til Indíana - eitthvað um 3.200 km leið - týndi hún hundi sínum, Bobbie. Hin örvæntingafulla fjölskylda leitaði árangurslaust að hundinum. Bobbie fannst hins vegar ekki.

Þau fóru heim í mikilli sorg, en með hverjum kílómetra fjarlægðust þau ástkæran hund sinn.

Sex mánuðum síðar var fjölskyldan steinhissa að finna Bobbie á dyraþrepinu í Oregon. “Skítugur, horaður, fætur hruflaðir inn að beini - [hann] virtist hafa gengið alla vegalengdina … á eigin spýtur.”1 Fólk um gjörvöll Bandaríkin varð hugfangið af sögu Bobbie og hann varð þekktur sem Undrahundurinn Bobbie (Bobbie the Wonder Dog).

Bobbie er ekki eina dýrið sem hefur gert vísindamenn ráðþrota með ótrúlegri ratvísi og eðlisávísun að komast heim. Hópar af Höfðingjafiðrildinu (Monach Butterfly) fljúga 4.800 km leið árlega í hlýrra loftslag sem er heppilegra fyrir þá. Leðurskjaldbakan syndir yfir Kyrrahafið frá Indónesíu til stranda Kaliforníu. Hnúfubakar synda frá kaldari sjó við Norðurskaut og Suðurskaut til miðbaugs og til baka. Enn ótrúlegra er kannski krían, sem flýgur frá norðurheimskautsbaugi til Suðurskauts og til baka á hverju ári, eitthvað í kringum 97 þús km.

Þegar vísindamenn rannsaka þessa heillandi hegðun, spyrja þeir spurninga eins og: „Hvernig vita þau hvert á að fara?“ og: „Hvernig lærir næsta kynslóð þessa hegðun?“

Þegar ég les um þetta sterka eðli dýranna, kemst ég ekki hjá því að velta fyrir mér: „Er mögulegt að mannveran sé gædd svipaðri þrá - eða innra leiðarkerfi, ef svo má að orði komast - sem dregur hana til síns himneska heimilis?”

Ég trúi því að sérhver maður, kona og barn hafi skynjað kall himinsins á einhverjum tímapunkti í lífinu. Djúpt inni í okkur er löngun til að teygja sig einhvern veginn handan hulunnar og faðma okkar himnesku foreldra sem við þekktum og elskuðum einu sinni.

Sumir bæla hugsanlega þessa löngun niður og deyfa sál sína gagnvart kallinu. Þeir sem ekki slökkva á þessu ljósi innra með sér geta tekist á við ótrúlegt ferðalag - undursamlegt farflug til himnesks loftslags.

Guð kallar á ykkur.

Hinn háleiti boðskapur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er að Guð er faðir okkar, að hann lætur sér annt um okkur og að til sé leið til baka til hans.

Guð kallar á ykkur.

Guð þekkir hverja hugsun ykkar, sorgir og mestu vonir. Guð veit um öll þau skipti sem þið hafið leitað hans. Hve oft þið hafið fundið takmarkalausa gleði. Öll þau skipt sem þið hafið grátið í einmanaleika. Öll þau skipti sem þið hafið fundist þið vera hjálparvana ráðvillt eða reið.

Samt, hver saga ykkar er - hvort sem þið hafið hrasað, misstekist, verið buguð, bitur, svikin eða sigruð - skuluð þið vita að þið eruð ekki ein. Guð kallar samt á ykkur.

Frelsarinn réttir út arma sína til ykkar. Með óendanlegri ást sinni talar hann til ykkar, eins og hann gerði við fiskimennina sem fyrir löngu síðan stóðu við strönd Galíleuvatns: „Kom, fylg mér.“2

Ef þið ljáið honum eyra, mun hann tala við ykkur strax í dag.

Þegar þið gangið leið lærisveinsins – þegar þið færist í átt að himneskum föður – þá er eitthvað innra með ykkur sem staðfestir að þið hafið heyrt kall frelsarans og snúið hjörtum ykkar að ljósinu. Það mun segja ykkur að þið séuð á réttri leið og að þið séuð að snúa heim á leið.

Síðan í árdaga hafa spámenn Guðs hvatt fólk síns tíma að „hlýð[a] raustu Drottins Guðs þíns, … varðveit[a] skipanir hans og lög … og [snúa] … til Drottins Guðs þíns af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.”3

Ritningarnar gefa okkur þúsund ástæður hvers vegna við ættum að gera svo.

Leyfið mér í dag að nefna tvær ástæður fyrir því að við ættum að snúa til Drottins.

Í fyrsta lagi þá verður líf ykkar betra.

Í öðru lagi þá mun Guð nota ykkur til að bæta líf annarra.

Líf ykkar verður betra

Ég ber vitni um að þegar við hefjum eða höldum áfram á því ótrúlega ferðalagi sem leiðir til Guðs, mun líf okkar verða betra.

Þetta þýðir ekki að við munum aldrei mæta sorg. Við þekkjum öll einhverja fylgjendur Krists sem verða fyrir áföllum og óréttlæti - Jesús Kristur sjálfur þjáðist meira en nokkur annar. Rétt eins og Guð „lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða,“ svo og mun hann leyfa hinum réttlátu sem ranglátu að fást við mótlæti.4 Reyndar sýnist líf okkar stundum vera erfiðara vegna þess að við erum að reyna að lifa eftir trú okkar.

Nei, að fylgja frelsaranum mun ekki afmá alla ykkar erfiðleika. Það mun hins vegar fjarlægja hindranirnar milli ykkar og aðstoðarinnar sem himneskur faðir vill veita ykkur. Guð mun verða með ykkur. Hann mun leiða ykkur. Hann mun ganga við hlið ykkar og jafnvel bera ykkur þegar neyð ykkar er mest.

Þið munuð finna hina ljúfu ávexti andans: „Kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild [og] trúmennsku.“5

Þessir andlegu ávextir eru ekki árangur stundlegrar hagsældar, velgengni eða láns. Þeir koma frá því að fylgja frelsaranum og geta orðið förunautar okkar, jafnvel mitt í dýpstu stormum.

Eldur og eimyrja dauðlegs lífs geta ógnað og hrætt okkur, en þeir sem snúa hjörtum sínum til Guðs verða umvafðir friði hans. Gleði þeirra mun ekki linna. Þeir munu ekki verða yfirgefnir eða gleymdir.

„Treystu Drottni af öllu hjarta,“ kennir ritningin okkur, „en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“6

Þeir sem hlýða hinu innra kalli og leita Guðs, þeir sem biðja, trúa og ganga veginn sem frelsarinn hefur fyrirbúið - jafnvel þótt þeir hrasi af og til á leiðinni - hljóta þá huggandi staðfestingu að „allt [muni] vinna saman að velfarnaði [þeirra].“7

Því að Guð „veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.“8

„Því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp.“9

Drottinn spyr af gæsku sinni:

Viljið þið upplifa varanlega gleði?

Þráið þið að skynja í hjörtum ykkar þá gleði sem er æðri öllum skilningi?10

Snúið þá sálu ykkar að ljósinu.

Hefjið ykkar eigin dásamlegu ferð heim.

Þegar þið gerið svo, verður líf ykkar betra, gleðiríkara og stefnufastara.

Guð mun nota ykkur

Í ferð ykkar aftur til himnesks föður verður ykkur brátt ljóst að sú ferð snýst ekki bara um eigið líf? Nei, vegurinn leiðir ykkur óhjákvæmilega til þess að þið verðið öðrum börnum Guðs til blessunar – bræðrum ykkar og systrum. Hið áhugaverða varðandi ferðalagið, er að þegar þið þjónið Guði og þegar þið annist og blessið samferðafólk ykkar, munuð þið sjá miklar framfarir í eigin lífi, á þann hátt sem þið fáið ekki ímyndað ykkur.

Ef til vill teljið þið að þið séuð ekki sérlega hjálpleg; ef til vill teljið þið að þið séuð öðrum ekki mikil blessun. Oft, þegar við lítum í eigin barm, sjáum við aðeins takmörk okkar og ófullkomleika. Við hugsum ef til vill að við ættum að vera „meira -ari“ í einhverju til að Guð geti notað okkur - klárari, ríkari, með meiri útgeislun, hæfileikaríkari, andlegri. Blessanir koma ekki eins mikið vegna hæfileika ykkar, heldur meira vegna vals ykkar. Og Guð alheimsins mun vinna innra með og í gegnum ykkur, og magna upp auðmjúk verk ykkar fyrir sinn eigin tilgang.

Verk hans hafa ávallt þokast áfram eftir þessari mikilvægu reglu: „Af hinu smáa sprettur hið stóra.“11

Þegar Páll postuli ritaði hinum heilögu í Korintuborg, sagði hann að ekki yrðu margir meðal þeirra taldir vitrir að hætti heimsins. Það skipti ekki máli, því að „Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.”12

Í öllu verki Guðs er helling af fólki sem telur sig vera óhæft. Það þjónaði hinsvegar á auðmjúkan hátt, treysti á náð Guðs og loforð hans: „Og armur þeirra skal vera armur minn og ég mun vera skjöldur þeirra … og ég mun girða lendar þeirra, og … ég [mun] vernda þá.”13

Síðastliðið sumar fékk fjölskylda mín dásamlegt tækifæri til að heimsækja sögustaði kirkjunnar í austurhluta Bandaríkjanna. Við endurlifðum sögu þess tíma á sérstakan hátt. Fólk sem ég hafði lesið um - fólk eins og Martin Harris, Oliver Cowdery og Thomas B. Marsh - urðu mér raunverulegri er við gengum þar sem þeir gengu og íhuguðum þær fórnir sem þeir færðu til að byggja upp ríki Guðs.

Þeir áttu sér marga frábæra eiginleika sem gerðu þeim kleift að aðstoða á mikilsverðan hátt við endurreisn kirkju Jesú Krists. Þeir voru samt einnig mennskir, veikgeðja og fallvaltir, rétt eins og þú og ég. Sumir urðu ósammála spámanninum Joseph Smith og féllu frá kirkjunni. Síðar skiptu sumir þeir sömu um skoðun, auðmýktu sig og sóttust á ný eftir félagsskap hinna heilögu.

Við gætum haft tilhneigingu til að dæma þessa bræður og aðra líka þeim. Við gætum sagt: „Ég hefði aldrei yfirgefið spámanninn Joseph.“

Þótt satt megi reynast, vitum við í raun ekki hvernig það var að lifa á þessum tíma í þessum kringumstæðum. Nei, þeir voru ekki fullkomnir, en hve uppörvandi það er að vita að Guð gat samt notað þá. Hann þekkti styrkleika og veikleika þeirra og hann veitti þeim einstakt tækifæri á að leggja sitt framlag, eitt vers, eina laglínu, í lofsöng Endurreisnarinnar.

Hve uppörvandi það er að vita, þrátt fyrir að við séum ófullkomin, að ef hjörtu okkar snúa til Guðs, mun hann vera örlátur og góður og nota okkur í sínum eigin tilgangi.

Þeir sem elska og þjóna Guði og náunga sínum og taka auðmjúklega og virkan þátt í verki hans, munu sjá undursamlega hluti gerast í eigin lífi og í lífi þeirra sem þeir elska.

Dyr, sem áður voru lokaðar, munu opnast.

Englar munu fara fyrir þeim og undirbúa leiðina.

Sama skiptir hve staða ykkar í samfélaginu eða í kirkjunni er, Guð mun nota ykkur ef þið eruð fús. Hann mun efla réttlátar þrár ykkar og umbreyta verkunum sem þið sáið í litríka uppskeru góðvildar.

Við komumst ekki þangað á sjálfstýringu

Öll erum við „gestir og útlendingar“14 í þessum heimi. Á margan hátt erum við langt að heiman. Það þarf ekki að þýða að okkur finnist við vera týnd eða yfirgefin.

Ástkær faðir okkar á himnum hefur gefið okkur ljós Krists. Djúpt í sérhverju okkar er himnesk iða sem hvetur okkur til að snúa augun og hjörtun til hans, er við ferðumst til baka til okkar himneskra heimkynna.

Þetta krefst áreynslu. Þið náið ekki leiðarenda án þess að keppast að því að læra um hann, skilja leiðbeiningar hans, fara einlæglega eftir þeim og setja einn fót fram í einu.

Nei, lífið er ekki sjálfakandi bíll. Það er ekki flugvél á sjálfstýringu.

Þið getið ekki bara flotið á vatni lífsins og treyst því að straumurinn muni hrífa ykkur þangað sem þið vonist eftir að komast einhvern daginn. Að vera lærisveinn, krefst þess að þið séuð fús til að synda á móti straumnum, sé þess þörf.

Enginn annar er ábyrgur fyrir ykkar persónulega ferðalag. Frelsarinn mun aðstoða ykkur og undirbúa leiðina frammi fyrir ykkur, en skuldbindingin um að fylgja honum og halda boðorð hans verður að koma frá ykkur sjálfum. Þetta er eina verk ykkar, einu forréttindi ykkar.

Þetta er hið mikla ævintýri ykkar.

Vinsamlegast hlýðið kalli frelsarans.

Fylgið honum.

Drottinn hefur stofnað Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu til að hjálpa ykkur í skuldbindingunni við að þjóna Guði og náunganum. Tilgangur hennar er að hvetja, kenna, upplyfta og innblása. Þessi dásamlega kirkja veitir ykkur möguleika á að auðsýna samúð, að ná til annarra og að endurnýja og halda helga sáttmála. Hún er hönnuð til að blessa ykkur og bæta heimili ykkar, samfélagið og þjóðina.

Komið, verið með okkur og treystið Drottni. Ljáið okkur hæfileika ykkar í þessu undursamlega verki hans. Teygið ykkur til annarra, hvetjið, læknið og styðjið alla þá sem vilja skynja og hlýða þránni eftir æðri heimkynnum okkar. Tökum höndum saman í þessu dýrðlega ferðalagi til himnesks verðurfars.

Fagnaðarerindið er óviðjafnanlegur boðskapur vonar, hamingju og gleði. Það er vegurinn sem leiðir okkur heim.

Þegar við umföðmum fagnaðarerindið í trú og í verki, daglega og hverja stund, munum við komast eilítið nær Guði. Líf okkar verður betra og Drottinn mun nota okkur á einstakan hátt til að blessa þá sem í kringum okkur eru og til að koma til leiðar eilífum tilgangi hans. Um það ber ég vitni og veiti ykkur blessun mína í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.