2010–2019
Þrjár systur
Október 2017


Þrjár systur

Við berum ábyrgð á okkar eigin lærisveinsþjónustu og það hefur lítið, ef nokkuð, að gera með það hvernig aðrir koma fram við okkur.

Kæru systur og vinir, það er þýðingarmikið og yndislegt að hefja aðalráðstefnuna á heimsfundi systranna. Ímyndið ykkur bara, systur á öllum aldri, með fjölbreyttan bakgrunn, þjóðerni og tungumál, sameinaðar í trú og kærleika á Drottinn Jesú Krist.

Þegar við nýverið áttum samfund með okkar ástkæra spámanni, Thomas S. Monson forseta, þá tjáði hann okkur hve heitt hann elskaði Drottin. Ég veit að Monson forseti en þakklátur fyrir kærleika ykkar, bænir og trúfestu gagnvart Drottni.

Endur fyrir löngu, í fjarlægu landi, bjuggu þrjár systur.

Fyrsta systirin var leið. Hún var ósátt við allt frá nefi hennar út á höku og frá húð hennar að tám, ekkert var nægilega gott fyrir hana. Þegar hún talaði komu orðin stundum klaufalega út og fólk hló að henni. Þegar einhver gagnrýndi hana eða „gleymdi“ að bjóða henni eitthvert, þá roðnaði hún og gekk á brott og fann sér leynistað þar sem hún gat andvarpað og velt því fyrir sér hvers vegna líf hennar hafði orðið svona dapurlegt og gleðisnautt.

Önnur systirin var reið. Henni fannst hún sjálf vera mjög vel gefin, en það var alltaf einhver annar sem fékk hærri einkunnir en hún í prófum í skólanum. Henni fannst hún vera fyndin, falleg, nýmóðins og heillandi. Það virtist samt alltaf vera einhver sem var fyndnari, fallegri, meira nýmóðins eða meira heillandi.

Hún var aldrei fyrst með neitt og það þoldi hún ekki. Lífið átti ekki að vera svona!

Stundum réðst hún að öðrum og það virtist sem að hún væri alltaf bara einum andardrætti frá því að hneykslast á einu eða öðru.

Að sjálfsögðu gerði þetta hana ekki viðkunnalegri né vinsælli. Stundum gnísti hún tönnum, kreppti hnefana og hugsaði með sér: „Lífið er svo ósanngjarnt!“

Svo var það þriðja systirin. Ólíkt hinum systrum sínum, þá var hún eiginlega bara glöð. Það var ekki af því að hún væri gáfaðri eða fallegri eða betri en systur hennar. Nei fólk hunsaði hana stundum og forðaðist líka. Stundum gerði það gys af því sem hún klæddist eða því sem hún sagði. Stundum sagði það kvikindislega hluti um hana. Hún leyfði því hins vegar ekki að trufla sig of mikið.

Þessi systir elskaði að syngja. Hún var ekkert sérstaklega lagviss og fólk hló að henni út af því, en það stoppaði hana ekki. Hún átti það til að segja „Ég ætla ekki að leyfa öðru fólki og skoðanir þeirra að halda mér frá því að syngja!“

Staðreyndin að hún hélt áfram að syngja, gerði fyrstu systurina sorgmædda og þá aðra, reiða.

Mörg ár liðu og það kom að því að systurnar komu að sínum ævilokum á jörðunni.

Fyrsta systirin, sem uppgötvaði ítrekað að það var enginn skortur á vonbrigðum í lífinu, dó loks leið.

Önnur systirin, sem fann sér alltaf eitthvað nýtt daglega til að svekkja sig á, dó reið.

Þriðja systirin, sem lifði lífinu syngjandi söngva sína af öllum krafti, með sjálfsöruggt bros á andliti sínu, dó glöð.

Að sjálfsögðu er lífið aldrei svona einfalt, og fólk hefur fleiri víddir en systurnar þrjár í þessari sögu. Jafnvel ýkt dæmi eins og þessi, geta kennt okkur eitthvað um okkur sjálf. Ef þið eruð eins og flest okkar, þá kannist þið kannski við ýmsa takta í ykkur sjálfum frá einni, tveimur eða jafnvel öllum þremur systrum Við skulum skoða hverja þeirra fyrir sig.

Fórnarlambið

Fyrsta systirin sá sjálfa sig sem fórnarlamb, einhvern sem varð alltaf fyrir áhrifum1 Það virtist sem eitt af öðru héldi áfram að henda hana og gera hana óhamingjusama. Með þessa nálgun í lífinu þá var hún að veita öðrum stjórn á því hvernig henni leið og hegðaði sér. Þegar við gerum þetta þá stjórnumst við af öllum skoðunum sem blása hjá og á þessum tímum samfélagsmiðla, sem sífellt eru nærri, þá blása þessir vindar með krafti fellibyls.

Kæru systur, hvers vegna ættuð þið að afhenda hamingju ykkar einhverjum, eða hópi einhverra, sem er alveg sama um ykkur og hamingju ykkar?

Ef þið standið ykkur að því að hafa áhyggjur af því sem aðrir segja um ykkur, má ég þá leggja til þetta móteitur; munið hverjar þið eruð. Munið að þið eruð af konunglegu húsi Guðs ríkis, dætur himneskra foreldra sem ríkja í alheiminum.

Þið eruð með andlegt erfðarefni Guðs. Þið hafið einstakar gjafir sem eiga uppruna sinn í andlegri sköpun ykkar og sem voru þróaðar í langri fortilveru ykkar. Þið eruð börn hins miskunnsama og eilífa föður á himnum, Drottins herskaranna, þess sem skapaði alheiminn, dreifði stjörnunum um víðan geim og staðsetti pláneturnar á sinn útvalda stað á sporbraut.

Þið eruð í hans höndum.

Mjög góðum höndum.

Kærleiksríkum höndum.

Umhyggjusömum höndum.

Ekkert sem neinn getur nokkru sinni sagt getur breytt því. Orð þeirra eru merkingarlaus í samanburði við það sem Guð hefur sagt um ykkur.

Þið eruð dýrmæt börn hans,

Hann elskar ykkur.

Jafnvel þegar þið hrasið, jafnvel þegar þið snúið frá honum, þá elskar Guð ykkur. Ef ykkur finnst þið týnd, yfirgefin eða gleymd, óttist ekki. Hinn góði hirðir mun finna ykkur. Hann mun leggja ykkur á herðar sér. Hann mun bera ykkur heim.2

Kæru systur, leyfið þessum guðdómlega sannleika að smjúga djúpt inn í hjörtu ykkar. Þá munið þið uppgötva að það eru til margar ástæður fyrir því að vera ekki leið því að þið hafið eilíf örlög til að uppfylla.

Hinn ástkæri frelsari heimsins gaf líf sitt svo að þið gætuð valið að gera þau örlög raunveruleg. Þið hafið tekið á ykkur nafn hans, þið eruð lærisveinar hans. Vegna hans getið þið klæðst kufli eilífrar dýrðar.

Sú sem hataði

Önnur systirin var reið út í heiminn. Eins og leiða systirin þá fannst henni að vandamálin í lífi hennar væru einhverjum öðrum að kenna. Hún kenndi fjölskyldu sinni um, vinum sínum, yfirmanni, samstarfsmönnum, lögreglunni, nágrönnunum, kirkjuleiðtogunum, tískunni, krafti sólgosa og einfaldri óheppni. Hún réðst að þeim öllum.

Hún sá sig ekki sjálfa sem vonda manneskju. Þvert á móti þá fannst henni að hún væri einungis að standa með sjálfri sér. Hún trúði því að allir aðrir væru hvattir áfram af eigingirni, smámunasemi og hatri. Henni fannst hinsvegar að hún væri hvött áfram af góðum ásetningi, réttlæti, ráðvendni og kærleika.

Því miður þá er hugsunarháttur reiðu systurinnar allt of algengur. Þetta kom fram í nýlegri könnun sem kannaði ágreining á milli andstæðra hópa. Hluti af þessar könnun fólst í því að vísindamenn ræddu við Palestínumenn og Ísraelsmenn í miðausturlöndum og Repúblikana og Demókrata í Bandaríkjunum. Þeir uppgötvuðu að „öllum hópunum fannst að þeirra málstaður væri hvattur áfram af kærleika, frekar en hatri, en þegar þeir voru inntir eftir því hvers vegna að andstæðingar þeirra væru í þessari baráttu þá vildu þeir meina að hatur væri aðal hvatning þeirra.”3

Með öðrum orðum þá þóttust allir hóparnir vera „góði kallinn“ – réttlátir, góðviljaðir og sannsöglir. Í samanburði þá sáu þeir andstæðinga sína sem „vondu kallana,“ óupplýsta, óheiðarlega og jafnvel illa.

Árið sem ég fæddist var heimurinn sokkinn í hræðilegt stríð sem færð kvalarfullan trega og gríðarlegra sorg í heiminn. Það var mín þjóð sem olli þessu stríði – hópur fólks sem tilgreindi aðra hópa sem illa og hvatti til þess að þeir væru hataðir.

Þeir þögguðu niður í þeim sem þeir kunnu ekki við. Þeir niðurlægðu þá og djöfulkenndu. Þeir töldu þá óæðri, jafnvel ekki mennska. Um leið og þið niðurlægið hóp fólks, þá eruð þið líklegri til að réttlæta orð og ofbeldi gagnvart þeim.

Mér hryllir þegar ég hugsa um það sem gerðist í Þýskalandi á 20. öldinni.

Þegar einhver hefur andstæðar skoðanir við okkur eða er ósammála okkur þá er það freistandi að reikna með því að það sé eitthvað að þeim. Þaðan eru einungis fá skref í það að tengja hinar verstu tilætlanir við orð þeirra og gerðir.

Að sjálfsögðu verðum við alltaf að standa upp fyrir það sem er rétt og það koma þær stundir að við verðum að hækka raddir okkar fyrir þann málstað. Þegar við, hins vegar, gerum svo með reiði eða hatri í hjörtum okkar, þegar við ráðumst á aðra til að særa, niðurlægja eða þagga í þeim, þá er möguleiki á að við séum ekki að gera svo í réttlæti.

Hvað kenndi frelsarinn?

„Ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,

svo að þér reynist börn föður yðar á himnum.“4

Þetta er háttur Drottins. Það er fyrsta skrefið í að brjóta niður þá múra sem skapa svo mikla reiði, hatur, aðskilnað og ofbeldi í heiminum.

Kannski kunnið þið að segja „Já ég væri til í að elska óvini mína, ef þeir væru tilbúnir að gera slíkt hið sama.“

Það skiptir samt engu máli, er það? Við berum ábyrgð á okkar eigin lærisveinsþjónustu og það hefur lítið – ef nokkuð – að gera með það hvernig aðrir koma fram við okkur. Að sjálfsögðu vonum við að þeir endurgjaldi með því að vera skilningsríkir og góðhjartaðir, en kærleikur okkar gagnvart þeim tengist ekki tilfinningum þeirra gangvart okkur.

Kannski mun átak okkar í að elska óvini okkar mýkja hjörtu þeirra og hafa áhrif á þá til góðs. Kannski mun það ekki gerast. Það breytir samt ekki skuldbindingu okkar um að fylgja Jesú Kristi.

Þar af leiðandi munum við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, elska óvini okkar.

Við munum sigrast á reiði eða hatri.

Við munum fylla hjörtu okkar af kærleika gagnvart öllum börnum Guðs.

Við munum rétta út hendina til annarra og þjóna þeim – jafnvel þeim sem gætu „ofsótt [okkur].“5

Hinn sanni lærisveinn

Þriðja systirin er fulltrúi hins sanna lærisveins Jesú Krists. Hún gerði nokkuð sem getur verið mjög erfitt að gera, hún treysti Guði sama þó hún stæði frammi fyrir háði og mótlæti. Henni tókst einhvern vegin að viðhalda trú sinni og von, þrátt fyrir fyrirlitninguna og tortryggnina sem umkringdi hana. Hún lifði í gleði, ekki vegna þess að aðstæður hennar væri gleðilegar heldur vegna þess að hún var glöð.

Ekkert okkar kemst í gegnum þetta líf án móttstöðu. Hvernig getum við haldið augliti okkar einbeittu á hina dýrðlegu hamingju sem hinum trúföstu er lofað, þegar svo mörg öfl reyna að draga okkur í burtu?

Ég trúi því að svarið megi finna í draumi sem spámaður dreymdi fyrir þúsundum árum síðan. Spámaðurinn heitir Lehí og draumur hans er skráður í hina dýrmætu og yndislegu Mormónsbók.

Í draumi sínum sá Lehí víðáttumikla sléttu og á henni var undursamlegt tré, fegurra en orð fá lýst. Hann sá einnig hóp af fólki sem voru á leiðinni að tréinu. Þau langaði að smakka stórkostlegan ávöxt þess. Þeim fannst og þau treystu því, að það myndi færa þeim mikla hamingju og varanlegan frið.

Það var mjór stígur sem lá að tréinu og meðfram honum var járnstöng sem hjálpaði þeim að halda sig á veginum. Þar var einnig að finna dökka þoku sem hindraði sýn þeirra á bæði stígnum og tréinu. Kannski enn hættulegri var ómur hláturs og háðs sem kom frá stórri og rúmmikilli byggingu sem stóð nærri. Það sem enn verra var, háðið sannfærði suma sem höfðu komist að tréinu og bragðað á undursamlegum ávexti þess, um að skammast sín og þau ráfuðu burt.6

Kannski byrjuðu þau að efast um að tréið væri eins fallegt og þeim hafði áður fundist. Kannski byrjuðu þau að draga í efa raunveruleika þess sem þau höfðu upplifað.

Kannski fannst þeim að ef að þau snéru frá tréinu þá myndi lífið verða auðveldara. Kannski myndu þau aldrei aftur upplifa háð eða að vera aðhlátursefni.

Í raun þá virtist það fólk sem gerði lítið úr þeim vera mjög hamingjusamt og skemmta sér vel. Kannski yrðu þau boðin velkomin inn í stóru og rúmmiklu bygginguna ef þau yfirgæfu tréið og kannski vera fagnað fyrir dómgreind þeirra, gáfur og fágun.

Haldið ykkur á stígnum

Kæru systur, kæru vinir, ef ykkur finnst erfitt að halda í járnstöngina og ganga stöðug í áttina að frelsun; ef hláturinn og háð annarra sem virðast svo sjálfsörugg, verður til þess að þið efist; ef þið hafið áhyggjur vegna ósvaraðra spurninga eða kenninga sem þið skiljið ekki ennþá; ef þið eruð sorgmædd vegna vonbrigða, þá hvet ég ykkur til að muna draum Lehís.

Haldið ykkur á stígnum!

Aldrei sleppa járnstönginni - orði Guðs!

Ef einhver reynir að fá ykkur til að skammast ykkar fyrir að meðtaka af kærleika Guðs, ekki veita þeim athygli.

Gleymið því aldrei, þið eruð börn Guðs, ykkur er lofað miklum blessunum; ef þið getið lært að gera vilja hans þá munið þið búa með honum aftur!7

Loforð um hrós og samþykki heimsins eru ótrygg, ósönn og endanlega ófullnægjandi. Loforð Guðs eru örugg, sönn og gleðileg - nú og um alla eilífð.

Ég býð ykkur að íhuga trúarbrögð og trú frá hærra sjónarmiði. Ekkert sem boðið er upp á í hinni stóru og rúmmiklu byggingu er sambærilegt við ávexti þess að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists

Sannlega, „það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“8

Ég hef lært fyrir mig sjálfan að vegur lærisveinsins í fagnaðarerindi Jesú Krists, er vegur gleði. Það er vegur öryggis og friðar. Það er vegur sannleika.

Ég ber vitni um að með gjöf og krafti heilags anda, getið þið lært þetta fyrir ykkur sjálf.

Á sama tíma, ef stígurinn verður ykkur erfiður þá vona ég að þið finnið skjól og styrk í yndislegum félagasamtökum kirkju okkar, Barnafélaginu, Stúlknafélaginu og Líkanarfélagi Þau eru eins og vegvísar á leiðinni, þar sem þið getið endurnýjað sjálfsöryggi ykkar og trú fyrir gönguna sem er framundan. Þau eru athvarf, þar sem þið getið fundið að þið tilheyrið og meðtekið hvatningu frá systrum ykkar og samlærisveinum ykkar.

Það sem þið lærið í Barnafélaginu undirbýr ykkur fyrir viðbótar sannleikann sem þið lærið sem ungar stúlkur. Sá vegur lærisveinsins sem þið gangið í Stúlknafélagskennslunni leiðir að félagskap og systralagi Líknarfélagsins. Með hverju skrefi á leiðinni, er ykkur gefið aukin tækifæri til að sýna kærleika ykkar gagnvart öðrum, til dæmist í gegnum þjónustustörf, umhyggju, kærleika, dyggð og þjónustu.

Það að velja sér þessa leið, leið lærisveinsins, mun leiða að ósegjanlegri hamingju og uppfyllingu guðlegs eðlis ykkar.

Það verður ekki auðvelt. Það mun krefjast alls þess besta sem þið eigið - allrar greindar ykkar, sköpunargáfu, trúar, ráðvendni, styrks, ákveðni og kærleika. Dag einn munið þið svo horfa tilbaka á verk ykkar og hve þakklátar þið munið vera fyrir það að hafa staðið stöðugar, að þið trúðuð og að þið fóruð ekki af stígnum.

Haldið áfram

Það getur verið að það séu margir þættir í lífinu sem þið hafið enga stjórn á. Að lokum munið þið hafa valdið til að velja bæði áfangastað ykkar og mikið af reynslu ykkar á leiðinni. Það er ekki eins mikið geta ykkar eins og val ykkar sem hefur úrslitavaldið í lífi ykkar.9

Þið getið ekki leyft aðstæðum að gera ykkur leiðar.

Þið getið ekki leyft þeim að gera ykkur reiðar.

Þið getið glaðst yfir því að þið eruð dætur Guðs. Þið getið fundið gleði og hamingju í náð Guðs og í kærleika Jesú Krists.

Þið getið verið glaðar.

Ég hvet ykkur til að fylla hjörtu ykkar með þakklæti fyrir ríkulega og takmarkalausa gæsku Guðs. Kæru systur, þið getið þetta! Ég bið þess með allri ástúð sálar minnar að þið megið velja að halda áfram í áttina að lífsins tréi. Ég bið þess að þið munið velja að lyfta upp röddum ykkar og gera líf ykkar að dýrlegri sinfóníu lofs, fagna í kærleika Guðs og í því undri sem kirkja hans og fagnaðarerindi Jesú Krists, getur fært heiminum.

Söngur hins sanna lærisveins getur stundum verið smá falskur og jafnvel of hávær stundum. Þannig hefur það verið frá upphafi tímans.

Hvað okkar himneska föður varðar og þá sem elska og heiðra hann, þá er þetta hin dýrmætasti og fallegasti söngur - hinn göfugi og helgandi söngur um lausnandi kærleika og þjónustu við Guð og náungann.10

Ég skil eftir blessun mína sem postuli Drottins, að þið munið finna styrkinn og hugrekkið, til að dafna í gleði, sem dætur Guðs á sama tíma og þið gangið, dag hvern, á hinum dásamlega vegi lærisveinsins. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá 2 Ne 2:14, 26.

  2. Sjá Lúk 15:4–6.

  3. Boston College, “Study Finds Intractable Conflicts Stem from Misunderstanding of Motivation,” ScienceDaily, 4. nóv. 2014, sciencedaily.com.

  4. Matt 5:44–45.

  5. Matt 5:44.

  6. Sjá 1 Ne 8.

  7. Sjá “I Am a Child of God,” Children’s Songbook, 2–3.

  8. 1 Kor 2:9.

  9. Sja “The Most Inspirational Book Quotes of All Time,” pegasuspublishers.com/blog.

  10. Sjá Alma 5:26.