2010–2019
Burðarmenn himnesks ljóss
Október 2017


Burðarmenn himnesks ljóss

Sem handhafar prestdæmis Guðs og sem lærisveinar Jesú Krists eruð þið burðarmenn ljóss.

Eldri maður stóð í biðröð á pósthúsi til að kaupa frímerki í afgreiðslunni. Ung kona tók eftir því að hann átti í erfiðleikum með að ganga og bauðst til þess að sýna honum hvernig kaupa mætti frímerki í sjálfsala til að spara tíma. Eldri maðurinn sagði: „Takk fyrir, en ég kýs að bíða. Vélin spyr mig ekki um gigtina mína.“

Stundum hjálpar það að tala við einhvern sem lætur sér annt um mann.

Sársauki, sorgir og veikindi er eitthvað sem við öll göngum í gegnum. Augnablik óhappa, eymdar og ólána geta orðið nokkuð fyrirferðamikil á harða diski sálarinnar.

Varðandi líkamlega heilsu okkar, þá sættum við okkur við öldun og veikindi sem hluta af ferðalagi jarðlífsins. Við leitum aðstoðar fagaðila sem hafa þekkingu á mannslíkamanum. Þegar við þjáumst af tilfinningalegu álagi eða andlegum sjúkdómum, hittum við sérfræðinga sem fást við slíka bresti.

Rétt eins og við stöndum andspænis líkamlegum og tilfinningalegum áskorunum, þurfum við einnig að glíma við andlegar áskoranir. Flestir okkar hafa upplifað tímabil í lífi okkar þegar ljós vitnisburðarins brennur skært. Hugsanlega höfum við einnig upplifað tíma er himneskur faðir virðist vera fjarri. Til eru tímar er við metum andlega hluti af öllu hjarta. Svo eru til tímar þegar þeir virðast ekki eins dýrmætir eða eru minna virði.

Í dag langar mig að ræða um andlega velferð, hvernig við getum læknast af stöðnun og gengið á vegi fjörmikillar og andlegrar heilsu.

Andleg veikindi

Stundum koma andleg veikindi af völdum syndar eða tilfinningarlegra sára. Stundum á andleg afturför sér stað svo ofurhægt, að við vitum varla hvað sé á seyði. Andlegur sársauki og áhyggjuefni geta ágerst á löngum tíma, eins og lagskipt setlög og íþyngt andanum þar til það er orðið óbærilegt. Þetta getur til dæmis gerst þegar skyldur okkar í vinnunni, á heimilinu og í kirkjunni eru orðnar svo miklar að við missum sjónar á gleði fagnaðarerindisins. Okkur gæti jafnvel farið að líða eins og við hefðu ekkert meira að gefa eða að það sé okkur um megn að halda boðorð Guðs.

Þrátt fyrir að andlegir erfiðleikar séu raunverulegir, þá þýðir það ekki að þeir séu ólæknandi.

Við getum læknast andlega.

Janvel hin dýpstu andlegu sár, já líka þau sem virðast ólæknandi, geta gróið.

Kæru vinir mínir, læknandi kraftur Jesú Krists er ekki horfinn í dag.

Græðandi snerting frelsarans getur umbreytt lífi í dag eins og hún gerði á hans dögum. Ef við bara sýnum trú, getur hann tekið í hönd okkar, fyllt sálu okkar himnesku ljósi og talað til okkar hin blessuðu orð: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!.”1

Myrkur og ljós

Hvað eina sem veldur okkur andlegum verkjum, þá á það allt eitt sameiginlegt: Ljósleysið.

Myrkur minnkar getu okkar til að sjá skírt. Það þrengir sýn okkar á því sem áður var auðsætt og skírt. Þegar við stöndum í myrkri, þá er líklegra að við tökum lakari ákvarðanir, vegna þess að við sjáum ekki hætturnar á vegi okkar. Þegar við stöndum í myrkri, þá er líklegra að við missum von, vegna þess að við sjáum ekki friðinn og gleðina sem bíða okkar ef við bara höldum áfram að reyna.

Á hinn bóginn gerir ljósið okkur kleift að sjá hluti eins og þeir raunverulega eru. Það gerir okkur kleift að greina milli sannleiks og villu, milli þess sem máli skiptir og þess sem litlu skiptir. Þegar við stöndum í ljósinu getum við tekið réttlátar ákvarðanir sem byggjast á sönnum reglum. Þegar við stöndum í ljósinu, göngum við í „fullkomnu vonarljósi,”2 því við sjáum jarðnesku erfiðleika okkar frá eilífu sjónarhorni.

Við hljótum andlega lækningu þegar við göngum út úr skugga heimsins og inn í hið ævarandi ljós Krists.

Því betur sem við skiljum og hagnýtum okkur kenniregluna um ljósið, því betur getum við varist andlegum veikindum sem þjá eða trufla okkur á allan hátt, því betur getum við þjónað sem kraftmiklir, hugrakkir og auðmjúkir prestdæmishafar – sannir þjónar og lærisveinar ástkærs og eilífs konungs okkar.

Ljós heimsins

Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.”3

Hvað merkir þetta?“

Einfaldlega þetta: Sá sem auðmjúklega fylgir Jesú Kristi mun meðtaka og njóta ljóssins frá honum. Þetta ljós mun verða skærara uns það hrekur burt jafnvel hið svartasta myrkur.

Það þýðir að til er kraftur, sterk áhrif, sem geisla út frá frelsaranum. Það „kemur úr návist Guðs til að fylla ómælisgeiminn.”4 Sökum þess að kraftur þessi upplífgar, upphefur og upplýsir líf okkar, kalla ritningarnar hann gjarnan ljósið, en hann er einnig þekktur sem andi og sannleikur.

Í Kenningu og sáttmálum lesum við: „Því að orð Drottins er sannleikur, og það sem er sannleikur er ljós, og það sem er ljós er andi, já, andi Jesú Krists.”5

Þetta djúpa innsæi - að ljósið er andi sem er sannleikur og að þetta ljós skín á hverja sál sem í heiminn kemur - er jafn mikilvægt og það er fullt vonar. Ljós Krists upplýsir og fyllir sál allra sem hlýða á rödd andans.6

Ljós Krists fyllir ómælisgeiminn.

Það fyllir jörðina.

Það getur fyllt sérhvert hjarta.

“Guð fer ekki í manngreinarálit.”7 Ljós hans er öllum aðgengilegt, stórum sem smáum, ríkum sem fátækum, lánsömum sem ólánsömum.

Ef þið opnið huga ykkar og hjarta fyrir ljósi Krists og fylgið frelsaranum í auðmýkt, munið þið hljóta meira ljós. Setning á setningu ofan munið þið safna meira ljósi í sálu ykkar, örlítið hér og örlítið það, uns myrkrið er horfið úr lífi ykkar.8

Guð mun opna augu ykkar.

Guð mun gefa ykkur nýtt hjarta.

Ást, ljós og sannleikur Guðs mun valda því að ýmislegt í ykkur sem liggur í dvala mun endurfæðast í nýju lífi í Jesú Kristi.9

Drottinn lofaði: „Og sé auglit yðar einbeitt á dýrð mína, mun allur líkami yðar fyllast ljósi og ekkert myrkur skal í yður búa. Og sá líkami, sem er fullur af ljósi skynjar allt.”10

Þetta er hin afgerandi lækning fyrir andleg veikindi. Myrkrið víkur fyrir ljósinu.

Samlíking fyrir andlegt myrkur

Hins vegar mun Guð ekki neyða okkur til að meðtaka ljósið.

Ef okkur líður vel í myrkrinu, þá er ólíklegt að hjörtu okkar munu breytast.

Við þurfum að hleypa ljósinu á virkan hátt inn til að breytingar geti átt sér stað.

Á tíma mínum sem flugstjóri farþegavéla flaug ég um allan heim og var ávallt hrifinn af því hve fögur og fullkomin sköpun Guðs er. Það sem mér fannst sérlega hrífandi er sambandið milli jarðar og sólar. Ég lít á þetta sem djúpstæða lexíu um það hvernig myrkur og ljós eru.

Eins og við allir vitum, breytist nóttin yfir í dag og dagurinn yfir í nótt á 24ra tíma fresti.

Hvað er þá nóttin?

Nóttin er ekkert annað en skuggi.

Jafnvel á dimmustu nóttum hættir sólin ekki að geisla frá sér ljósi. Hún skín alltaf jafn skært. Helmingur jarðar er samt í myrkri.

Brotthvarf ljóssins veldur myrkri.

Þegar húmar að kveldi þurfum við ekki að örvænta og hafa áhyggjur af því að slokknað sé á sólinni. Við drögum ekki þá ályktun að sólin sé ekki til staðar eða sé dauð. Við skiljum að við erum í skugga, að jörðin heldur áfram að snúast og að sólargeislarnir muni að lokum skína á okkur á ný.

Myrkrið er ekki til tákns um að ekkert ljós sé til. Oftast merkir það að við stöndum ekki á réttum stað til að fá ljós. Meðan á hinum nýafstaðna sólmyrkva stóð lögðu margir mikið á sig til að komast inn í alskugga tunglsins mitt á sólbjörtum degi.

Á líkan hátt skín andlegt ljós stöðugt á öll sköpunarverk Guðs. Satan mun gera allt til að koma okkur í skugga sem hann skapar eða sem við sköpum sjálf. Hann vill þvinga okkur til að skapa okkar eigin myrkva. Hann vill þrýsta okkur inn í myrkurhjúp ríkis síns.

Andlegt myrkur getur brugðið gleymskuhulu jafnvel í kringum þá sem eitt sinn gengu í ljósinu og glöddust í Drottni. Guð heyrir hins vegar auðmjúkar bænir okkar á þeim stundum þegar myrkrið er hvað mest, er við segjum: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.”11

Á dögum Alma áttu margir í basli við að meðtaka andlega hluti og „vegna trúleysis síns“ komst ljós og sannleikur Guðs ekki inn í sálir þeirra og þeir „hertu hjörtu sín.”12

Við erum burðarmenn ljóssins

Bræður, það er undir okkur komið að standa á réttum stöðum til að sjá hið dýrðlega ljós og sannleik fagnaðarerindis Jesú Krists. Jafnvel þegar nóttin skellur á og heimurinn sýnist dimmur, getum við gengið í ljósi Krists, haldið boðorð hans og vitnað djarflega um raunveruleika og mikilleika hans.

Sem handhafar prestdæmis Guðs og sem lærisveinar Jesú Krists eruð þið burðarmenn ljóss. Haldið áfram að gera það sem nærir hið dýrðlega ljós hans. “Haldið ljósi yðar á lofti”13 og látið það skína „meðal mannanna“ – ekki svo að þeir sjái og vegsami ykkur, heldur „að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“14

Kæru bræður, þið eruð verkfæri í höndum Drottins í þeim tilgangi að færa sálum barna himnesks föður ljós og lækningu. Ef til vill finnst ykkur þið ekki vera hæfir til að lækna þá sem eru andlega veikir, áreiðanlega ekki meira en starfsmaður í póststofu er hæfur til að lækna gigt. Ef til vill eruð þið að glíma við eigin erfiðleika. Samt sem áður hefur Drottinn kallað ykkur. Hann hefur veitt ykkur valdsumboð og ábyrgð til að teygja ykkur til þeirra sem eru í nauðum. Hann hefur veitt ykkur helgan prestdæmiskraft sinn til að færa ljós í myrkrið og upplyfta og blessa börn Guðs. Guð hefur endurreist kirkju sína og hið dýrmæta fagnaðarerindi sitt „sem læknar hrjáða sál.”15 Hann hefur undirbúið leiðina fyrir andlega velferð, að við fáum lækningu við stöðnun og göngum sterkir áfram að fjörlegri og andlegri heilsu.

Í hvert sinn sem þið snúið hjörtum ykkar í auðmjúkri bæn til Guðs munið þið finna ljós hans. Í hvert sinn sem þið leitið orðs hans og vilja í ritningunum mun ljósið verða bjartara. Í hvert sinn sem þið sjáið einhvern í nauðum og fórnið þægindum ykkar er þið teygið ykkur til þeirra í kærleika mun ljósið víkka og aukast. Í hvert sinn sem þið hafnið freistingum og veljið hreinleika, í hvert sinn sem þið biðjist fyrirgefningar eða fyrirgefið öðrum, í hvert sinn sem þið vitnið djarflega um sannleikann, mun ljósið hrekja myrkrið á braut og draga aðra að ykkur sem einnig leita ljóssins.

Íhugið ykkar eigin reynslu, augnablik þjónustu við Guð og náungann, er dýrðlegt ljós hefur upplýst tilveru ykkar – í heilögu musteri, við sakramentisborðið, við hljóðlátt augnabliki íhugunar, heima hjá fjölskyldunni eða við prestdæmisþjónustu. Deilið reynslu ykkar með fjölskyldunni, vinum og sérstaklega með ungmennum ykkar sem eru að leita að ljósi. Þau þurfa að heyra frá ykkur að með þessu ljósi kemur von og lækning, jafnvel í heimi mikils myrkurs.

Kristur færir von, gleði og lækningu við sérhvert andlegt sár eða krankleika.16 Þeir sem upplifa þessi hreinsandi áhrif verða að verkfærum í höndum ljóss lífsins til að færa öðrum ljós.17 Þeir munu skynja það sem Lamóní konungur skynjaði: “Þetta ljós hafði fyllt sál hans slíkri gleði, að skýjum myrkursins hafði verið svipt burtu og ljós ævarandi lífs verið tendrað í sálu hans.”18

Kæru bræður mínir og vinir, það er verk okkar að leita Drottins uns ljós ævarandi lífs hans brennur skært inni í okkur og vitnisburðir okkar verða öruggir og sterkir, jafnvel í niðdimmunni.

Það er bæn mín og blessun að ykkur megi takast að uppfylla örlög ykkar sem prestdæmishafar hins almáttuga Guðs og sem gleðiríkir burðarmenn hins dýrðlega ljóss. Í hinu helga nafni Jesú Krists, meistara okkar, amen.