2010–2019
Iðrun er ávallt jákvæð
Október 2017


Iðrun er ávallt jákvæð

Um leið og við stígum á veg iðrunar, þá bjóðum við endurleysandi krafti frelsarans í líf okkar.

Fyrir nokkrum árum var Gordon B. Hinckley viðstaddur háskóla-fótboltaleik. Hann var þar til að tilkynna að leikvangurinn yrði nefndur eftir ástkærum þjálfara til margra ára, sem var við það að setjast í helgan stein. Leikmenn þráðu innilega sigur í leiknum til að heiðra þjálfara sinn. Hinckley forseta var boðið að vitja leikmanna í búningsherberginu, til að hvetja þá áfram. Innblásnir af orðum hans hélt þetta lið á þessum degi áfram að keppa til sigurs og endaði í efsta sætinu þetta tímabilið.

Í dag ætla ég að ræða við þá sem kunna að hafa áhyggjur af því að þeir eru ekki farsælir í lífinu. Sannleikurinn er auðvitað sá að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“1 Þótt það kunni að vera sigursæl tímabil í fótboltanum, þá á það ekki við um lífið sjálft. Ég ber vitni um að frelsari okkar, Jesús Kristur, gerði fullkomna friðþægingu að veruleika og gaf okkur gjöf iðrunar – leiðina að fullkomnu vonarljósi og sigur lífs.

Iðrun leiðir til hamingju

Of oft sjáum við iðrun sem eitthvað ömurlegt og þjakandi. Áætlun Guðs er hins vegar hamingjuáætlun, ekki vansældaráætlun! Iðrun er uppbyggjandi og göfgandi. Það er syndin sem leiðir til óhamingju.2 Iðrun er undankomuleiðin okkar! Líkt og öldungur D. Todd Christofferson útskýrði: „Án iðrunar verða engar raunverulegar framfarir eða endurbætur í lífinu. … Aðeins fyrir iðrun hljótum við aðgang að friðþægingu og náð Jesú Krists og sáluhjálp. Iðrun … vísar leiðina til frelsis, fullvissu og friðar.“3 Boðskapur minn til allra – einkum þó æskufólksins – er sá að iðrun er ávallt jákvæð.

Þegar við ræðum um iðrun, þá vísum við ekki aðeins til sjálfsbetrunar. Sönn iðrun er meira en það – hún er innblásin af trú á Drottin Jesú Krist og mátt hans til að fyrirgefa syndir okkar. Líkt og öldungur Dale G. Renlund kenndi: „Án frelsarans … verður iðrun einfaldlega aumkunarverð atferlistilhliðrun.“4 Við getum sjálf reynt að breyta eigin hegðun, en einungis frelsarinn megnar að afmá syndir og létta byrðir okkar og koma okkur á veg hlýðni, af styrk og fullvissu. Gleði iðrunar er meiri en gleði þess að lifa þokkalegu lífi. Hún er gleði fyrirgefningar, af því að verða aftur hreinn, og komast nær Guði. Þegar þið hafið eitt sinn upplifað slíka gleði, þá dugar ekkert minna.

Sönn iðrun knýr okkur til að skuldbundinnar hlýðni – sáttmála, sem hefst með skírn og endurnýjun í hverri viku við kvöldmáltíð Drottins, sakramentið. Þar tökum við á móti loforðinu um að „andi hans [geti] ætíð [verið] með [okkur],“5 með þeirri gleði og friði sem fylgir hans stöðuga samfélagi. Það er ávöxtur iðrunar og er einmitt það sem gerir iðrun að gleðiefni!

Iðrun krefst þolgæðis

Ég ann dæmisögunni um glataða soninn.6 Það er eitthvað átakanlegt við þá stund er hinn glataði kemur „til sjálfs sín.“ Þar sem hann sat í svínastíunni og þráði „að seðja sig á drafinu, er svínin átu,“ varð honum loks ljóst að hann hafði ekki aðeins sóað arfleifð sinni, heldur líka eigin lífi. Í þeirri trú að faðir hans tæki hann aftur til sín –– ef ekki sem son, þá hið minnsta sem þjón – þá ákvað hann að segja skilið við eigin uppreisnaranda og fara aftur heim.

Ég velti oft fyrir mér hinum þungu sporum tilbaka. Skyldi hann hafa fengið bakþanka og hugsað með sér: „Hvernig mun faðir minn taka á móti mér?“ Kannski hefur hann jafnvel tekið einhver skref aftur í áttina að svínunum. Hugsið ykkur hve allt hefði verið öðruvísi ef hann hefði gefist upp. Trúin hélt honum gangandi og trúin knúði föður hans til að vona og vænta af þolinmæði, þar til loks:

„Er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.

En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.

Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. …

Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.“

Iðrun er fyrir alla

Bræður og systur, við erum öll glötuð. Við þurfum að „koma til sjálfs okkar“ – yfirleitt oftar en einu sinni – og velja veginn sem leiðir okkur aftur heim. Það verður að daglegu vali, allt okkar líf.

Oft setjum við iðrun í samband við alvarlegar syndir sem krefjast „gjörbreytingar.“7 Iðrun er þó fyrir alla – þá sem hafa villst af leið á „forboðnum vegum og [eru glataðir],“8 sem og fyrir þá sem hafa „komist inn á [hinn] krappa og þrönga veg“ og þurfa að „sækja fram.“9 Iðrun kemur okkur bæði á rétta veginn og heldur okkur á rétta veginum. Hún er fyrir þá sem eru að vakna til trúar, þá sem hafa trúað um langa tíð og þá sem þurfa að vekja trú sína að nýju. Líkt og öldungur David A. Bednar kenndi: „Flest skiljum við vel að friðþægingin er í þágu syndara. Ég er þó ekki jafn viss um að við skiljum og áttum okkur á að friðþægingin er líka fyrir hina heilögu – fyrir góða karla og konur, sem eru hlýðin, verðug og … reyna stöðugt að bæta sig.“10

Nýlega, er ég heimsótti trúboðþjálfunarsskóla, kom þangað hópur nýrra trúboða. Ég hreifst mjög af þeim er ég fylgdist með þeim og sá ljómann skína úr augum þeirra. Þeir voru svo bjartir, glaðir og áhugasamir. Þá barst mér þessi hugsun: „Þeir hafa upplifað trú til iðrunar. Það var ástæða þess að þeir voru fylltir gleði og von.“

Ég held ekki að í því felist að þeir hafi allir drýgt alvarlegar syndir á fyrri tíma, heldur þekktu þeir aðferð iðrunar; þeir höfðu lært að iðrun er jákvæð og vildu óðfúsir miðla heiminum þeim gleðiboðskap.

Það gerist þegar við upplifum gleði iðrunar. Hugleiðið frásögn Enos. Hann átti sína stund þar sem hann „kom til sjálfs sín“ og eftir að „sekt [hans hafði verið] sópað burtu,“ þá vaknaði strax í hjarta hans þrá eftir velfarnaði annarra. Enos varði það sem eftir var ævi sinnar við að bjóða öllum mönnum að iðrast, sem veitti honum „meiri fögnuð en nokkuð annað í heiminum.“11 Iðrun gerir þetta að verkum; hún snýr hjörtum okkar að samferðafólki okkar, því við vitum að gleðin sem við finnum er ætluð öllum.

Iðrun er ævilangt viðfangsefni

Ég á vin sem ólst upp í lítt virkri fjölskyldu Síðari daga heilagra. Þegar hann var að fullorðnast, þá „kom hann til sjálfs sín“ og ákvað að búa sig undir trúboð.

Hann varð frábær trúboði. Deginum áður en hann átti að fara heim átti trúboðsforsetinn viðtal við hann og bað hann að miðla sér vitnisburði sínum. Hann gerði það og eftir innilegt og tárvott faðmlag, sagði trúboðsforsetinn: „Öldungur, þú gæti gleymt eða afneitað öllu því sem þú hefur vitnað um á nokkrum mánuðum, ef þú heldur ekki áfram að gera það sem hefur þróað þennan vitnisburð þinn.

Þessi vinur minn sagði mér síðar að hann hefði beðist fyrir og lesið ritningarnar daglega frá því að hann fór frá trúboði sínu. Að vera stöðugt „[nærður] hinu góða orði Guðs“ hefur haldið honum „á réttri braut.“12

Þið sem búið ykkur undir trúboð og þið sem eruð að koma til baka, takið eftir! Það er ekki nóg að öðlast bara vitnisburð, þið verið að viðhalda honum og styrkja hann. Líkt og allir trúboðar vita, ef þið hættið að stíga á pedala hjólsins, þá mun það falla og ef þið hættið að næra vitnisburð ykkar, þá mun hann veikjast. Sama regla á við um iðrun – hún er ævilangt viðfangsefni, en ekki einn lífstíðaratburður.

Ég býð öllum sem leita fyrirgefningar – æskufólkinu, hinum ungu fullorðnu, foreldrum, öfum og ömmum og já, jafnvel langöfum og langömmum – að koma heim. Nú er tími til að láta til skarar skríða. Frestið ekki degi iðrunar.13

Þegar þið hafið loks tekið þessa ákvörðun, haldið þá áfram á þeim vegi. Faðir okkar bíður ykkar og þráir að taka á móti ykkur. Hendur hans eru fram réttar „allan liðlangan daginn“ fyrir ykkur.14 Launin eru erfiðisins virði.

Minnist þessara orða Nefís: „Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.”15

Stundum virðist ferðin löng og ströng – þetta er jú ferðin til eilífs lífs. Hún getur þó verið gleðileg, ef við tökumst á við hana í trú á Jesú Kristi og í von á friðþægingu hans. Ég ber þess vitni að um leið og við stígum á veg iðrunar, þá bjóðum við endurleysandi krafti frelsarans í líf okkar. Sá kraftur mun styrkja fætur okkar, útvíkka sýn okkar og efla einbeitingu okkar til að halda áfram, skref fyrir skref, þar til að hinn dýrðlega dag er við loks náum til okkar himnesku heimkynna og heyrum föðurinn segja við okkur: „Vel gert.“16 Í nafni Jesú Krists, amen.