2010–2019
Mormónsbók: Hvernig væri líf þitt án hennar?
Október 2017


Mormónsbók: Hvernig væri líf þitt án hennar?

Á undraverðan og einstakan máta þá kennir Mormónsbók okkur um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans.

Árið 1986 var mér boðið að flytja sérstakan fyrirlestur við háskóla í Accra, Ghana. Þar hitti ég fjölda fyrirmenna, þar á meðal afrískan ættflokkakonung. Þegar við spjölluðum saman á undan fyrirlestrinum þá talaði konungurinn einungis við mig í gegnum túlk sinn. Ég svaraði túlkinum og túlkurinn þýddi síðan svar mitt fyrir konunginn.

Eftir fyrirlestur minn gekk konungurinn beint til mín, í þessa sinn án túlksins. Mér til mikillar undrunar þá talaði hann fullkomna ensku, meira að segja breska ensku!

Konungurinn virtist ráðvilltur. „Hver ert þú?“ spurði hann.

Ég svaraði og sagði „Ég er vígður postuli Jesú Krists.“

Konungurinn spurði: „Hvað geturðu kennt mér um Jesú Krist?“

Ég svaraði honum með spurningu: „Má ég spyrja hvað þú veist þegar um hann?“

Svar konungsins sýndi að hann var mikill áhugamaður um Biblíuna og einstaklingur sem unni Drottni.

Ég spurði hann því næst hvort hann vissi um þjónustu Jesú Krists á meðal fólksins í Ameríku til forna?

Eins og ég reiknaði með þá gerði hann það ekki.

Ég útskýrði fyrir honum að eftir krossfestingu og upprisu frelsarans þá hefði hann farið til fólksins í Ameríku til forna, þar sem hann kenndi fagnaðarerindið. Hann skipulagði kirkju sína og bað lærisveina sína að halda heimildir um þjónustu hans á meðal þeirra.

Ég hélt áfram: „Sú heimild er það sem við þekkjum sem Mormónsbók. Hún er annað vitni um Jesú Krist. Hún helst í hendur við Biblíuna.“

Þegar hér var komið varð konungurinn orðinn mjög áhugasamur. Ég snéri mér að trúboðsforsetanum sem var þarna með mér og spurði hvort hann hefði eintak af Mormónsbók með sér. Hann dró eina upp úr skjalatösku sinni.

Ég opnaði hana í 3. Nefí 11. kapítula og saman lásum við konungurinn ræðu frelsarans til Nefítanna. Ég gaf honum síðan eintak af Mormónsbók. Svar hans er fast í huga mínum og hjarta að eilífu. „Þú hefðir getað gefið mér demanta og rúbína, en ekkert er mér dýrmætara en þessi viðbótar þekking um Drottinn Jesú Krist.“

Eftir að hafa upplifað kraft orða frelsarans í 3. Nefi, þá lýsti konungurinn yfir: „Ef ég snýst til trúar og geng í kirkjuna þá mun ég koma með allan þjóðflokk minn með mér.“

„Ó, konungur, þannig virkar það ekki,“ svaraði ég honum. „Trúskipti eru persónulegur hlutur. Frelsarinn þjónaði Nefítunum einum í einu. Hver einstaklingur fær sitt vitni og vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists.“1

Ljósmynd
Jesús Kristur þjónar Nefítunum

Bræður mínir og systur, hver dýrmæt er Mormónsbók ykkur? Ef ykkur væri boðnir demantar og rúbínar eða Mormónsbók, hvort mynduð þið velja? Af fullri hreinskilni, hvort er ykkur dýrmætara?

Minnist þess að á sunnudagsmorgunhluta aðalráðstefnunnar í apríl 2017, þá bauð Thomas S. Monson forseti okkur að „læra og ígrunda Mormónsbók daglega af kostgæfni.“2 Margir hafa brugðist við þessu boði spámannsins.

Leyfið mér að segja ykkur að hvorki ég né hinn átta ára gamli Riley vissum að það væri verið að taka mynd af okkur. Takið eftir að Riley er að lesa Mormónsbók með aðstoð „Guðsbarnið eitt ég er“ bókamerkis.

Ljósmynd
Nelson forseti og Riley læra ritningarnar

Það gerist eitthvað kröftugt þegar barn Guðs leitast við að læra meira um hann og ástkæran son hans. Þessi sannleikur er hvergi kenndur skýrar eða kröftugar en í Mormónsbók

Síðan að Monson forseti setti fram þessa áskorun, hef ég reynt að fylgja ráði hans Meira en bara að lesa, þá sagði hann að hann hefði gert „lista um hvað Mormónsbók er, hvað hún staðfestir, hvað hún hrekur, hvað hún uppfyllir, hvað hún skýrir og hvað hún opinberar. Að skoða Mormónsbók á þennan hátt, hefur veitt mér innsýn og innblástur! Ég mæli með því við ykkur.

Á meðan á þessum sex mánuðum stóð, hef ég einnig boðið ýmsum hópum - þar með talið bræðrunum í Tólfpostulasveitinni, trúboðum í Chile og trúboðsforsetum og eiginkonum þeirra sem hittust í Argentínu, að hugleiða þrjár tengdar spurningar sem ég hvet ykkur til að hugsa um í dag:

Í fyrsta lagi, hvernig myndi líf ykkar vera án Mormónsbókar? Í öðru lagi, hvað mynduð þið ekki vita? Loks í þriðja lagi, hvað mynduð þið ekki hafa?

Áköf svör þessara hópa komu beint frá hjörtum þeirra. Hér eru nokkur svaranna.

„Án Mormónsbókar, væri ég ráðvilltur gagnvart andstæðum kenningum og skoðunum um svo marga hluti. Ég myndi vera eins og ég var áður en ég fann kirkjuna, þegar ég var að leita að þekkingu, trú og von.“

Annar sagði: „Ég myndi ekki vita hvaða hlutverk heilagur andi getur spilað í lífi mínu.“

Annar: „Ég myndi ekki hafa skýra hugmynd um tilgang minn hér á jörðu!“

Enn annar svaraði : „Ég mundi ekki vita að það væri áframhaldandi ferli eftir þetta líf. Vegna Mormónsbókar þá veit ég að það er raunverulega líf eftir dauðann. Það er lokamarkmiðið sem við stefnum að.“

Þetta síðasta svar fékk mig til að hugleiða líf mitt fyrir tugum ára síðan, sem ungur skurðstofukandídat. Ein af erfiðustu skyldum skurðlæknis er að þurfa stundum að tilkynna fjölskyldunni þegar ástvinur hefur látist. Á því sjúkrahúsi sem ég vann var sérstakt herbergi útbúið með fóðruðum veggjum þar sem fjölskyldumeðlimir gátu meðtekið slíkar fréttir. Þar tjáðu sumir sorg sína með að lemja höfði sínu við þessa fóðruðu veggi. Ég þráði að kenna þessum einstaklingum að þó það sé erfitt að lifa ástvini sína þá sé dauðinn nauðsynlegur þáttur í ódauðlegri tilvist okkar. Dauðinn leyfir okkur að halda áfram yfir í næstu tilveru.3

Annar svaraði spurningu minni þannig: „Ég átti mér ekki líf áður en ég las Mormónsbók. Jafnvel þó að ég hefði beðið bæna og farið í kirkju alla mína ævi þá hjálpaði Mormónsbók mér að eiga raunveruleg samskipti við himneskan föður í fyrsta sinn.

Annar sagði: „Án Mormónsbókar myndi ég ekki skilja að frelsarinn þjáðist ekki einungis fyrir syndir mínar heldur getur hann læknað sársauka minn og sorgir.“4

Enn annar: „Ég myndi ekki vita að við höfum spámenn til að leiða okkur.“

Að sökkva okkur almennilega í sannleika Mormónsbókar getur breytt lífinu til frambúðar. Eitt barnabarna okkar sem er trúboði, systir Olivia Nelson, lofaði trúarnema að ef að hann myndi lesa Mormónsbók daglega, þá myndu prófeinkunnir hans hækka. Hann gerði það og þær hækkuðu.

Ljósmynd
Systir Olivia Nelson

Kæru bræður og systur, ég ber vitni um að Mormónsbók er sannarlega orð Guðs. Hún inniheldur svörin við flestum aðkallandi spurningum lífsins. Hún kennir kenningar Krists.5 Hún útlistar og útskýrir mikið af hinum „skýra og dýrmæta“6 sannleika sem var týndur í gegnum aldirnar og í gegnum fjölda þýðinga á Biblíunni.

Mormónsbók veitir fyllsta og áreiðanlegasta skilninginn á friðþægingu Jesú Krists sem hægt er að finna nokkurs staðar. Hún kennir hvað það þýðir í raun að vera endurfæddur. Frá Mormónsbók lærum við um samansöfnun hinna dreifðu Ísraelsættar. Við vitum hvers vegna við erum hér á jörðu. Þessi sannleikur og annað álíka er kennt á kraftmeiri og meira sannfærandi máta í Mormónsbók en í nokkurri annari bók. Fullan kraft fagnaðarerindis Jesú Krists er að finna í Mormónsbók. Punktur.

Mormónsbók lýsir bæði upp kenningar meistarans og kemur upp um brögð andstæðingsins.7 Mormónsbók kennir sanna kenningu til að hrekja falskar trúarhefðir - eins og hina röngu iðkun ungbarnaskírna.8 Mormónsbók veitir lífinu tilgang með því að hvetja okkur til að íhuga möguleika eilífs lífs og „óendanlega sælu“9 Mormónsbók splundrar þeim fölsku kenningum að hamingjuna megi finna í ranglæti10 og að einstaka góðmennska sé það eina sem þarf til að komast í návist Guðs.11 Það gerir að engu þær hugmyndir að opinberun hafi endað með Biblíunni og að himnarnir séu innsiglaðir í dag.

Þegar ég hugsa um Mormónsbók, hugsa ég um orðið kraftur. Sannleikur Mormónsbókar hefur kraft til að lækna, hugga, endurreisa, hjálpa, styrkja, hughreysta og gleðja sálir okkar.

Kæru bræður og systur mínar, ég lofa ykkur að ef þið lesið Mormónsbók með bæn í huga daglega, þá munið þið taka betri ákvarðanir – daglega. Ég lofa að er þið íhugið það sem þið lærið, þá munu gáttir himins opnast og þið munið hljóta svör við spurningum ykkar og leiðsögn fyrir líf ykkar. Ég lofa ykkur því að er þið sökkvið ykkur daglega í Mormónsbók, þá getið þið verið vernduð gegn vonsku þessara tíma, þar á meðal hinni grípandi plágu kláms og annara deyfandi fíkna.

Hvenær sem ég heyri fólk segja, þar á meðal mig sjálfan, „ég veit að Mormónsbók er sönn“ þá langar mig til að hrópa: „Það er gott, en það er ekki nóg!“ Við þurfum að upplifa frá „innstu hjartans rótum“12 að Mormónsbók er án efa orð Guðs. Við verðum að upplifa það svo djúpt að við myndum ekki vilja lifa einn dag án hennar. Ég gæti umorðað orð Brigham Young forseta með því að segja: „Ég vildi að ég hefði rödd sjö þruma til að vekja fólkið upp“13 til sannleika og krafts Mormónsbókar.

Við þurfum að vera eins og þessi ungi trúboði sem þjónar í Evrópu, sem upplifði sannleikann í Mormónsbók svo djúpt að hann bókstaflega hljóp með eintak af þessu helga riti til manns í garði sem hann og félagi hans höfðu nýverið fundið.

Ljósmynd
Trúboði á hlaupum

Ég ber vitni um að Joseph Smith var og er spámaður þessa síðasta ráðstöfunartíma. Það var hann sem þýddi þessa helgu bók, í gegnum gjöf og kraft Guðs Þetta er bókin sem mun hjálpa til við að undirbúa heiminn fyrir seinni komu Drottins

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er bókstaflegur og lifandi sonur hins lifanda Guðs. Hann er frelsari og lausnari okkar, hin mikla fyrirmynd og málsvari okkar hjá föðurnum. Hann var hinn lofaði Messías, jarðneski Messías og mun vera Messías þúsundáraríkisins. Ég ber vitni með allri sálu minni að á undraverðan og einstakan máta þá kennir Mormónsbók okkur um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans.

Ég veit að Thomas S. Monson forseti er spámaður Guðs á jörðu í dag. Ég ann honum og styð hann með öllu mínu hjarta. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.

Listi Nelsons forseta um Mormónsbók

Mormónsbók er:

  • Annað vitni um Jesú Krist. Aðal rithöfundar hennar – Nefí, Jakob, Mormón, Moróni – og þýðandi hennar, Joseph Smith voru allir sjónarvottar Drottins.

  • Heimild um þjónustu hans á meðal fólksins sem bjó í Ameríku til forna.

  • Sönn, eins og Drottinn sjálfur hefur vottað.

Mormónsbók staðfestir:

  • Einstaklingstilvist himnesks föður og ástkærs sonar hans, Jesú Krists.

  • Nauðsyn þess að fall Adams ætti sér stað og visku Evu, til að menn mættu gleði njóta.

Mormónsbók hrekur að:

  • Opinberun hafi endað með Biblíunni.

  • Ungabörn þurfi skírn.

  • Hamingjan finnist í ranglæti.

  • Gæska einstaklingsins nægi ekki til upphafningar (þörf er á helgiathöfnum og sáttmálum).

  • Fall Adams hafi litaði mannkyn með „erfðarsyndinni.“

Mormónsbók staðfestir spádóma Biblíunnar um að:

  • „Aðrir sauðir“ sem muni heyra rödd hans.

  • Guð muni gera „dásemdarverk og undur“, talandi „úr duftinu.“

  • „Stafur Júda“ og „Stafur Jósefs“ muni verða eitt.

  • Hinum tvístruðu ættum Ísraels verði safnað saman „á síðari dögum“ og hvernig það muni gerast.

  • Erfðarlandið fyrir ættlegg Jósefs sé Vesturheimur.

Mormónsbók útskýrir skilning á:

  • Fortilveru okkar.

  • Dauðanum. Hann er nauðsynlegur þáttur í hamingjuáætlun Guðs.

  • Lífinu eftir dauðann, sem hefst í paradís.

  • Hvernig hinn upprisni líkami, sameinaður anda sínum, verður ódauðleg sál.

  • Hvernig dómur Drottins verður samkvæmt gjörðum okkar og þrá hjarta okkar.

  • Hvernig helgiathafnir eru réttilega framkvæmdar, t.d. skírn, sakramentið, gjöf heilags anda

  • Friðþægingu Jesú Krists.

  • Upprisunni.

  • Mikilvægu hlutverki engla.

  • Eilífu eðli prestdæmisins.

  • Hvernig mannlegt atferli verður fyrir meiri áhrifum af krafti orðsins en sverðsins.

Mormónsbók opinberar áður óþekktar upplýsingar um að:

  • Skírn hafi verið framkvæmd áður en Jesús Kristur fæddist.

  • Musteri hafi verið byggð og notuð af fólkinu í Ameríku til forna.

  • Jósef, 11.sonur Ísraels, hafi séð fyrir spámannshlutverk Josephs Smith.

  • Nefí (600–592 f.kr) hafi séð fyrir fund og landnám Ameríku.

  • Einfaldir og dýrmætir hlutar Biblíunnar hafi glatast.

  • Ljós Krists sé öllum gefið.

  • Mikilvægi sjálfræðis einstaklingsins og nauðsyn þess að andstæður séu í öllu.

  • Aðvaranir um „leynisamtök.“