2010–2019
Hvers vegna kirkjan
Október 2015


Hvers vegna kirkjan

Það er þess virði að stoppa og íhuga hvers vegna Jesús Kristur velur að nota kirkju, sína kirkju, til að framkvæma verk sitt og föðurins.

Allt mitt líf hefur aðalráðstefna kirkjunnar verið uppörvandi, andlegur viðburður og kirkjan sjálf hefur verið staður sem hægt er að heimsækja til að kynnast Drottni. Ég geri mér grein fyrir því að það eru þeir sem líta á sig sem trúaða eða andlega, en hafna samt kirkjustarfi eða þörfinni á slíkri stofnun. Trúariðkun er þeim alfarið persónuleg. Þrátt fyrir það þá er kirkjan hans sköpun, sem við beinum andríki okkar að – Jesú Krists. Það er þess virði að stoppa og íhuga af hverju hann velur að nota kirkju, sína kirkju, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, til að framkvæma það starf sitt og föður hans, „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“1

Allt frá tímum Adams hefur fagnaðarerindi Jesú Krists verið kennt og nauðsynlegar, sáluhjálpandi athafnir, eins og skírn, verið framkvæmdar í gegnum prestdæmisreglu sem byggir á fjölskyldunni.2 Er samfélagið þróaðist og varð flóknara en einungis stórfjölskyldan ein og sér, þá kallaði Guð einnig aðra spámenn, sendiboða og kennara. Við lesum um formlegri uppsetningu á tímum Móse, sem fól í sér öldunga, presta og dómara. Í sögu Mormónsbókar stofnaði Alma kirkju með prestum og kennurum.

Svo í kringum miðbik tímans, skipulagði Jesús starf sitt á þann hátt að fagnaðarerindið gæti verið sett á stofn samtímis á meðal margra þjóða og ólíkra hópa. Kirkja Jesú Krists var grundvölluð á „[postulum] og [spámönnum], en [með] Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.“3 Hún var einnig með fleiri embættismenn, eins og hina Sjötíu, öldunga, biskupa, presta, kennara og djákna. Jesús stofnaði kirkjuna í vesturheimi á sama hátt, eftir upprisu sína.

Eftir fráhvarfið og upplausn kirkjunnar sem hann hafði skipulagt á meðan hann var hér á jörðu, þá endurreisti Drottinn kirkju Jesú Krists, enn á ný, í gegnum spámanninn Joseph Smith. Hinn forni tilgangur er hinn sami, að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists og að framkvæma sáluhjálpandi helgiathafnir – með öðrum orðum, að færa fólk til Krists.4 Nú, fyrir tilverknað þessarar endurreistu kirkju, er loforðið um upphafningu, innan seilingarfjarlægðar fyrir jafnvel anda hinna dánu sem vissu ekkert um náð frelsarans í lifanda lífi.

Hvernig nær kirkja hans að koma tilgangi Drottins í verk? Það er mikilvægt að gera okkur grein fyrir því að endanlegur tilgangur Guðs er framþróun okkar. Þrá hans er að við höldum áfram „frá náð til náðar, þar til [við höfum] náð fyllingu“5 alls sem hann getur veitt. Það krefst meira en þess að vera bara góður eða finnast maður vera andlegur. Það krefst trúar á Jesú Krist, iðrunar, skírnar með vatni og heilögum anda og að standast allt til enda.6 Þetta er nær ómögulegt að framkvæma í einangrun, svo að ein aðal ástæða þess að Drottinn hefur kirkju, er sú að skapa samfélag heilagra sem munu styðja hver annan á hinum „krappa og þrönga vegi, sem liggur til eilífs lífs.“7

„Og frá [Kristi] er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.

… Þeir láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,

þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.“8

Jesú Kristur „upphóf og fullnaði trú þeirra.“9 Að sameina okkur líkama Krists, kirkjunni, er mikilvægur þáttur í að taka á okkur nafn hans.10 Okkur er sagt að kirkjan til forna hafi „[komið] oft saman til að fasta og biðja og ræða hvert við annað um sálarheill sína“11 og „til að hlýða á orð Drottins.“12 Það á einnig við um kirkjuna í dag. Við kennum og lyftum hvert öðru, sameinuð í trú, og vinnum að því að uppfylla hlutverk lærisveinsins, „verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.“ Við vinnum að því að hjálpa hvert öðru að verða einhuga í „þekkingunni á syni Guðs,“13 þar til sá dagur kemur að „[menn] skulu ekki framar kenna hver öðrum, … og segja: ‚Lærið að þekkja Drottin,‘ því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir – segir Drottinn.“14

Í kirkjunni lærum við ekki einungis guðlega kenningu, við upplifum líka framkvæmd hennar. Sem líkami Krists, þá þjóna þegnar kirkjunnar hver öðrum í raunveruleika daglegs lífs. Öll erum við ófullkomin, við gætum móðgað og orðið móðguð. Við reynum hvert annað með okkar eigin persónulegri sérvisku. Í líkama Krists, þá verðum við að fara út fyrir hugmyndir og upphafin orð og takast á við raunverulegar aðstæður, er við lærum „að búa saman í kærleika.“15

Þessu trúfélagi er ekki aðeins umhugað um sjálfið, meira um að við erum öll kölluð til að þjóna. Við erum augu, hendur, höfuð, fætur og aðrir líkamshlutar Krists og „ennfremur eru þeir limir … nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbygðara lagi.“16 Við þörfnumst þessara kallana og þurfum að þjóna.

Einn mannanna í deild minni ólst ekki einungis upp án stuðnings foreldra sinna, heldur voru foreldrar hans andvígir því að hann starfaði innan kirkjunnar. Hann sagði þetta á sakramentissamkomu: „Faðir minn skilur ekki hvernig einhverjir myndu fara í kirkju þegar þeir gætu farið á skíði, en ég kann því vel að fara í kirkju. Í kirkjunni erum við öll á sömu leið og ég finn fyrir innblæstri á þeirri leið, frá sterkum ungdómi, hjartahreinum börnum og því sem ég sé og læri af öðrum fullorðnum. Ég fæ styrk af samverunni og er spenntur yfir þeirri gleði sem fylgir því að lifa eftir fagnaðarerindinu.“

Deildir og greinar kirkjunnar bjóða upp á vikulegar samkomur sem veita hvíld og endurnýjun, stund og stað til þess að skilja heiminn eftir úti – hvíldardaginn. Það er dagur til að „gleðjast yfir Drottni,“17 til að reyna þá andlegu lækningu sem kemur með sakramentinu og til að meðtaka hin endurnýjuðu loforð um að hafa anda hans með okkur.18

Ein af stærstu blessunum þess að vera hluti af líkama Krists er að vera ávítaður fyrir syndir okkar og mistök, þó að okkur finnist það kannski ekki blessun á því augnabliki. Við eigum það til að afsaka og rökstyðja mistök okkar og stundum vitum við hreinlega ekki hvar við þurfum að bæta okkur og hvernig við eigum að fara að því. Án þeirra sem geta ávítað okkur „tímanlega með myndugleik, þegar heilagur andi hvetur til þess,“19 þá gæti okkur skort hugrekki til að breytast og fylgja meistaranum enn betur. Iðrun er einstaklingsbundin, en kirkjan sér okkur fyrir samfélagi í því oft svo sársaukafulla ferli.20

Í þessari umræðu um kirkjuna, sem líkama Krists, þá verðum við að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi þá vinnum við ekki að því að snúa fólki til trúar á kirkjuna, heldur á Krist og fagnaðarerindi hans, sem er trúarumbreyting sem kirkjan aðstoðar við.21 Mormónsbók tjáir það best, en þar segir að fólkið hafi„[snúist] til trúar á Drottinn,“ og [sameinast] í kirkju Krists.22 Í öðru lagi þá verðum við að minnast þess að í upphafi þá var kirkjan fjölskyldan, og jafnvel í dag þegar þetta eru tvær aðskildar stofnanir, þá veita fjölskyldan og kirkjan hvor annarri þjónustu og styrk. Hvorug kemur í hinnar stað, og jafnvel þegar kirkjan er upp á sitt besta, þá er hún sannlega ekki staðgengill foreldranna. Tilgangur þess að kenna fagnaðarerindið og helgiathafnir prestdæmisins, sem kirkjan framkvæmir, eru til þess að fjölskyldur uppfylli skilyrði eilífs lífs.

Það er önnur mikilvæg ástæða þess að frelsarinn vinnur í gegnum kirkju, sína kirkju, hún er til að ná að framkvæma nauðsynlega hluti sem einstaklingar eða smærri hópar gætu ekki komið í verk. Eitt skýrt dæmi er að takast á við fátækt. Það er staðreynd að sem einstaklingar og fjölskyldur, þá hugsum við um líkamlegar þarfir annarra „[látum]af hendi rakna hver til annars, jafnt í stundlegum sem andlegum efnum, í samræmi við þarfir þeirra og nauðsyn.“23 Hins vegar er getan til að hugsa um hina fátæku og þurfandi margfölduð til að mæta víðari þörf þegar við vinnum saman í kirkjunni og vonast er til þess að sjálfsbjörg verði raunin fyrir mjög marga.24 Ennfremur veitir kirkjan, Líknarfélag hennar og prestdæmissveitir, fjölda fólks aðstoð á mörgum stöðum sem hafa orðið fyrir náttúruhamförum, stríði og ofsóknum.

Án þess að hafa styrk kirkju hans til aðstoðar, þá gæti verk frelsarans, sem er að flytja fagnaðarerindið til alls heimsins, aldrei gengið upp.25 Þá væru hinir postullegu lyklar ekki til staðar, uppbyggingin, fjármálaleg geta og tryggð og fórnir hundruð þúsunda trúboða sem er nauðsynleg til að framkvæma þetta starf. Munum að „þetta fagnaðarerindi um ríkið verður [að prédika] um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“26

Kirkjan getur byggt og starfrækt musteri, hús Drottins, þar sem hægt er að framkvæma nauðsynlegar helgiathafnir og gera sáttmála. Joseph Smith sagði að tilgangur Guðs með því að safna fólki sínu saman, á hvaða veraldartíma sem er, væri til að „reisa Drottni hús þar sem hann getur opinberað fólki sínu helgiathafnir húss síns og dýrð ríkis síns og kennt því leið sáluhjálpar, því að ákveðnar helgiathafnir og reglur er aðeins mögulegt að kenna og iðka í húsi sérstaklega byggðu í þeim tilgangi.“27

Ef maður trúir því að allir vegir liggi til himna eða að það séu engin skilyrði fyrir sáluhjálp, þá mun hann eða hún ekki sjá neinn tilgang í því að boða fagnaðarerindið eða að endurleysa lifandi og látna með helgiathöfnum og sáttmálum. Við erum samt ekki bara að tala um ódauðleika, heldur einnig eilíft líf og hvað það varðar, þá er vegur fagnaðarerindisins og sáttmála fagnaðarerindisins, nauðsynlegur. Frelsarinn þarfnast kirkju til að gjöra þetta aðgengilegt fyrir öll börn Guðs, bæði lifandi og látna.

Síðasta ástæða þess að Drottinn hafi stofnað kirkju sína, sem ég mun minnast á, er sú sérstakasta – því þegar öllu er á botninn hvolft, þá er kirkjan, ríki Guðs á jörðunni.

Þegar verið var að stofna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á 4. áratugi 19. aldar, þá sagði Drottinn við spámanninn Joseph Smith: „Lyftið hjörtum yðar og fagnið, því að yður hefur verið gefið ríkið, eða með öðrum orðum, lyklar kirkjunnar.“28 Með valdi þessara lykla, þá varðveita embættismenn prestdæmis kirkjunnar hreinleika kenninga frelsarans og réttmæti endurleysandi helgiathafna hans29 Þeir aðstoða við að undirbúa þá sem vilja meðtaka þær, dæma um verðugleika og hæfni þeirra sem sækjast eftir þeim og síðan framkvæma þeir þær.

Með lyklana að ríkinu geta þjónar Drottins borið kennsl á sannleika og fals og enn á ný sagt valdsmannslega: „Svo segir Drottinn.“ Því miður eru sumir ósáttir við kirkjuna, því þeir vilja skilgreina sinn eigin sannleika, en staðreyndin er sú að það er framúrskarandi blessun að meðtaka „[þekkingu] á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu vera,“30 að svo miklu leyti sem Drottinn er tilbúinn að opinbera það. Kirkjan varðveitir og birtir opinberanir Guðs – hinar kirkjutilskipuðu ritningar.

Þegar Daníel túlkaði drauminn fyrir Nebúkadnesar konung Babýlóníu, og sagði konunginum það „er verða [myndi] á hinum síðustu dögum,“31 þá lýsti hann því yfir að „Guð himnanna [myndi] hefja ríki sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annari þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“32 Kirkjan er það síðari daga ríki sem spáð var fyrir um, ekki skapað af manni en stofnað af Guði á himnum og mun velta áfram eins og steinninn sem „ losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann,“ til að fylla jörðina.33

Hlutskipti hennar er að stofna Síon, í undirbúningi fyrir endurkomu hans og þúsund ára stjórnartíð Jesú Krists. Áður en sá dagur kemur, þá verður þetta ekki stjórnmálalegt ríki – því frelsarinn sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“34 Það er fremur varðveisla valds hans á jörðunni, framkvæmdaaðili hans heilögu sáttmála, umsjónarmaður musteris hans, verndari og prédikari sannleika hans, söfnunarstaður fyrir hinar dreifðu ættir Ísraels og „vörn og athvarf fyrir storminum og hinni heilögu reiði, þegar henni verður skilyrðislaust úthellt yfir gjörvalla jörðina.“35

Ég lýk með bón og bæn spámannsins:

„Ákallið Drottin, svo að ríki hans breiðist út á jörðunni og íbúar hennar megi veita því viðtöku og vera viðbúnir komandi dögum, þegar mannssonurinn kemur í himni niður, klæddur ljóma dýrðar sinnar, til að mæta því Guðs ríki, sem reist er á jörðu.

Megi því ríki Guðs breiðast út, svo að ríki himins megi koma og þú, ó, Guð, megir dýrðlegur verða á himni sem á jörðu, og óvinir þínir verði yfirbugaðir, því að þinn er heiðurinn, mátturinn og dýrðin, alltaf og að eilífu.“36

Í nafni Jesú Krists, amen.