Kenningar forseta
10. Kafli: Bæn og persónuleg opinberun


10. Kafli

Bæn og persónuleg opinberun

„Börn Guðs hafa flau forréttindi að koma til Guðs og hljóta opinberun.“

Úr lífi Josephs Smith

F yrir júní 1829 höfðu margir mikilvægir atburðir gerst varðandi endurreisn fagnaðarerindisins. Himnarnir lukust upp með Fyrstu sýninni og Guð talaði að nýju til manna á jörðinni. Spámaðurinn Joseph Smith hafði fengið í hendur töflur Mormónsbókar og var að þýða helgan boðskap hennar. Hið helga prestdæmi hafði verið endurreist og helgiathöfn skírnar var á ný tiltæk börnum Guðs. Hver þessara atburða á rætur að rekja til bænheyrslu sem spámaðurinn hlaut er hann leitaði leiðsagnar frá Drottni.

Þegar dró að lokum þýðingarstarfsins leitaði spámaðurinn enn að nýju leiðsagnar frá Drottni. Moróní gaf Joseph fyrirmæli um að sýna töflurnar engum manni, nema honum væri boðið það. Af þeim sökum upplifði hann sig afar einmana og byrðum hlaðinn við þýðingu taflnanna. Hann komst þó að því af sjálfum heimildunum, að Drottinn myndi sjá til þess að þrjú sérstök vitni bæru heiminum vitni um að Mormónsbók væri sönn (sjá 2 Ne 11:3; Eter 5:2–4).

Joseph Smith sagði: „Næstum samstundis eftir þessa uppgötvun, fengu Oliver Cowdery, David Whitmer og … Martin Harris (sem kom til að kanna hvernig verkinu miðaði) þá hugmynd að biðja mig að spyrja Drottin hvort hann vildi veita þeim þann heiður að vera þessi þrjú sérsöku vitni.“1 Spámaðurinn bað um leiðsögn í bæn og hlaut opinberun um að mönnunum þremur yrði leyft að sjá töflurnar, og einnig sverð Labans, Úrím og Túmmím og Líahóna (sjá K&S 17).

Nokkrum dögum síðar héldu spámaðurinn og mennirnir þrír út í skóg nærri heimili Whitmers í Fayette, New York og tóku að biðjast fyrir að þeim yrðu veitt þessi stórkostlegu forréttindi. Martin fannst hann óverðugur og dró sig í hlé. Spámaðurinn skráði það sem næst gerðist: „Við … höfðum ekki beðist fyrir lengi, þegar við sáum ákaflega bjart ljós fyrir ofan okkur í loftinu, og sáum engil [Moróní] standa frammi fyrir okkur. Hann hélt á töflunum sem við höfðum beðist fyrir um að þessir fengju að sjá. Hann fletti einn síðu af annarri, svo við sæjum þær og táknin á þeim örugglega.“2 Mennirnir heyrðu einnig rödd Guðs bera vitni um sannleiksgildi þýðingarinnar og gefa þeim fyrirmæli um að skrá það sem þeir höfðu séð og heyrt. Joseph fór síðan til að finna Martin, sem hafði beðist fyrir annars staðar í skóginum. Þeir báðust fyrir saman og sáu sömu sýn og heyrðu sömu rödd.

Móðir Josephs Smith, sem heimsótti spámanninn í Fayette á þessum tíma, minntist gleði og léttis sonar síns eftir þessa vitrun: „Þegar Joseph kom inn [á heimili Whitmers], settist hann við hlið mér. ,Faðir! Móðir! Þið vitið ekki hve glaður ég er nú. Drottinn hefur sýnt þremur öðrum töflurnar, auk mín, og þeir hafa einnig séð engil og verða því að bera vitni um þann sannleika sem ég hef kunngjört, og þeir vita sjálfir að ég reyni ekki að blekkja fólk. Mér líður sem þungu fargi sé af mér létt, sem var að því komið að sliga mig. En nú verða þeir að bera hluta þess og ég gleðst í hjarta yfir að þurfa ekki lengur að vera sem einn í heiminum‘ “3

Allt sitt líf leitaði Joseph Smith Guðs í bæn til að hljóta þá hjálp og leiðsögn sem hann þarfnaðist. Einn meðlimur kirkjunnar minntist þess að hafa heyrt hann biðjast fyrir í Kirtland, Ohio, á mjög svo erfiðum tíma í lífi hans: „Aldrei fram að þessu hefi ég heyrt mann ræða við skapara sinn líkt og hann væri við hlið hans að hlusta, líkt og ástúðlegur faðir hlustar á hlýðið barn sitt í sorgum þess. … Hann sýndi hvorki yfirlæti né hækkaði rödd sína í ákafa, heldur talaði hann í skýrum viðræðutón, líkt og þegar menn ræða við vin undir fjögur augu. Mér fannst í raun, að væri hulunni svipt frá, gæti ég séð Drottin standa frammi fyrir þeim auðmjúkasta þjóni hans sem ég hafði nokkurn tíma séð.“4

Kenningar Josephs Smith

Guð mun bænheyra okkur og tala til okkar nú, rétt eins og hann talaði til hinna heilögu til forna.

„Hvers vegna ætti það að vera að einhverju leyti ótrúlegt að Drottni þóknist að tala til mannanna á ný á þessum síðustu dögum, þeim til sáluhjálpar, þar sem okkur er ljóst að hann hefur aldrei gefið í skyn með nokkru sem hingað til hefur verið opinberað, að hann hafi algjörlega hætt að tala til mannanna þegar þeir leita til hans á réttan hátt?

Þið kunnið að furða ykkur á þessari fullyrðingu, að ég skyldi segja til sáluhjálpar mannanna á þessum síðustu dögum, þar sem við höfum þegar í fórum okkar umfangsmikla bók með því orði hans, sem hann hefur áður gefið. En þið viðurkennið þó að orðið sem talað var til Nóa, hefði ekki nægt Abraham, eða þess var ekki krafist af Abraham að hann yfirgæfi fæðingarland sitt til að leita sér arfleifðar í ókunnu landi með því orði sem talað var til Nóa, heldur hlaut hann sjálfur fyrirheit beint frá Drottni og gerði sitt til að þau uppfylltust og var af þeim sökum nefndur vinur Guðs. Ísak, sonur fyrirheitsins, þurfti ekki að binda vonir sínar við fyrirheitin sem föður hans, Abraham, voru gefin, heldur naut hann þeirra forréttinda að hljóta fullvissu um að hann nyti velþóknunar himins, því að Drottinn talaði beint til hans.

Geti einhver maður hagað lífi sínu eftir opinberun sem öðrum er gefin, er þá ekki viðeigandi að ég spyrji hvers vegna það hafi verið nauðsynlegt að Drottinn talaði til Ísaks, sem hann og gerði, líkt og skráð er í 26. kapítula 1. Mósebókar? En þar endurtekur Drottinn, eða lofar öllu heldur að nýju, að hann muni uppfylla eiðinn sem hann hafði áður unnið Abraham. Hvers vegna þessi endurtekning við Ísak? Hvers vegna hafði fyrsta fyrirheitið ekki sama gildi fyrir Ísak eins og fyrir Abraham? Var Ísak ekki sonur Abrahams? Gat hann ekki bara hreinlega trúað orðum föður síns sem manni Guðs? Ykkur kann að finnast hann hafa verið sérstakur maður, ólíkur mönnum þessa síðustu daga, og því hafi Drottinn veitt honum sérstakar og öðruvísi blessanir, þar eð hann var ólíkur mönnum nú til dags. Ég játa að hann hafi verið sérstakur maður, og að hann hafi ekki aðeins hlotið sérstakar blessanir, heldur og miklar blessanir. En öll þau sérkenni sem ég fæ séð í manninum, eða það sem hann hafði fram yfir nútímamenn, er að hann var heilagri og fullkomnari frammi fyrir Guði og kom til hans hreinni í hjarta og með sterkari trú en menn gera nú til dags.

Það sama mætti segja um það sem skráð er um Jakob. Hvers vegna talaði Drottinn til hans um þetta sama fyrirheit, eftir að hann hafði fyrst veitt það Abraham og síðan Ísaki? Hvers vegna gat Jakob ekki látið sér nægja orðin sem töluð höfðu verið til föður hans?

Hvers vegna var nauðsynlegt að Drottinn talaði til Ísraelsmanna, þegar nær dró fyrirheitinu um frelsun þeirra úr Egyptalandi? Fyrirheitið, eða orðin sem Abraham hlaut, var að niðjar hans skyldu þjóna í ánauð og þjakaðir í fjögur hundruð ár, og að því loknu hljóta mikinn fjárhlut. Hvers vegna reiddu þeir sig ekki á fyrirheit þetta og héldu burt án þess að bíða frekari opinberunar þegar þeir höfðu verið í ánauð í Egyptalandi í fjögur hundruð ár, og fóru algjörlega eftir fyrirheitinu sem Abraham hafði verið gefið um að þeir héldu burt? …

“… Ég kann að trúa að Enok hafi gengið með Guði. Ég kann að trúa að Abraham hafi átt samskipti við Guð og engla. Ég kann að trúa að Ísak hafi með beinni íhlutun Drottins fengið staðfestingu á sáttmálanum sem gerður var við Abraham. Ég kann að trúa að Jakob hafi talað við heilaga engla og heyrt rödd skapara síns, að hann hafi glímt við engil þar til hann hafði sigur og hlotið blessun. Ég kann að trúa að Elía hafi verið tekinn upp til himins í eldlegum vagni með eldlegum hestum. Ég kann að trúa að hinir heilögu hafi séð Drottin og talað við hann augliti til auglitis eftir upprisu hans. Ég kann að trúa að hebreskur söfnuður hafi komið til Síonfjalls og borgar Guðs lifandi, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla. Ég kann að trúa að þeir hafi litið inn í eilífðina og séð dómara allra, og Jesú, meðalgöngumann hins nýja sáttmála.

En mun allt þetta veita mér fullvissu, eða leiða mig þangað sem eilífur dagur ríkir, með klæði mín óflekkuð, hrein og hvít? Verð ég ekki öllu heldur sjálfur, fyrir eigin trú og kostgæfni við að halda boðorð Drottins, að hljóta fullvissu um eigin sáluhjálp? Nýt ég ekki sömu forréttinda og hinir heilögu til forna? Og mun ekki Drottinn bænheyra mig og hlusta á harmakvein mín, líkt og hann gerði í þeirra tilviki, ef ég kem til hans á sama hátt og þeir gerðu?“5

Við getum beðist fyrir um allt sem við tökum okkur fyrir hendur.

Sarah Granger Kimball sagði: „Í skóla spámannanna … , þegar Joseph Smith gaf bræðrunum fyrirmæli, bauð hann þeim að leggja allt undir Drottin í bæn.“6

„Leitist við að þekkja Guð í herbergjum ykkur, ákallið hann úti á ökrum ykkar. Fylgið leiðsögn Mormónsbókar og biðjið fyrir fjölskyldum ykkar, nautgripum, hjörðum og korni ykkar, og fyrir öllum ykkar eigum [sjá Al 34:18–27]; biðjið Guð um að blessa allt ykkar erfiði og hvaðeina sem þið fáist við.“7

„Vanrækið ekki skyldur ykkar í fjölskyldunni, en ákallið Guð um blessanir hans, ykkur til handa, fjölskyldum ykkar, nautgripum og hjörðum og öllu sem ykkur tilheyrir – svo þið njótið friðar og velmegunar – og er þið gerið það, ,biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.‘ [Sjá Sálm 122:6.]“8

Bæn sem spámaðurinn skráði í ágúst 1842 sýnir þrá hans eftir að hljóta visku frá Guði: „Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra manna … , lít til þjóns þíns, Josephs, á þessum tíma, og gef að honum veitist trú á nafn sonar þíns, Jesú Krists, í meiri mæli en þjónn þinn hefur áður þekkt, jafnvel trú Elía; og lát ljós eilífs lífs lýsa í hjarta hans og aldrei hverfa þaðan; og lát orð eilífs lífs streyma í sál þjóns þíns, svo hann þekki vilja þinn, lögmál þín, fyrirmæli og dóm þinn, til að breyta eftir því. Megi gjafir guðlegrar náðar, dýrðar og sæmdar falla yfir þjón þinn, af gnægð miskunnar, líkt og dögg fellur á Hermon-fjall.“9

Þegar við biðjum í trú og einfaldleika, hljótum við blessanir sem Guð veit að við þörfnumst.

„Biðjið í auðmýkt við hásæti náðarinnar, svo andi Drottins verði ætíð með ykkur. Minnist þess að við hljótum ekkert án þess að spyrja. Biðjið þess vegna í trú, og þið munuð hljóta blessanir sem Guð veit að þið þarfnist. Biðjið án girndar í hjarta, til að fullnægja fýsn ykkar, biðjið heldur í einlægni um hinar bestu gjafir [sjá K&S 46:8–9].“10

„Dyggð er ein helsta reglan sem veitir okkur sjálfstraust til að komast nær föður okkar á himnum, til að æskja vísdóms af hans hendi. Ef þið þess vegna varðveitið þessa reglu í hjarta ykkar, getið þið beðið hann af fullu sjálfstrausti frammi fyrir honum og því mun úthellt yfir höfuð ykkar [sjá K&S 121:45–46].“11

„Lát bænir hinna heilögu ná til himins, svo þær nái eyrum Drottins hersveitanna, því kröftug bæn hinna réttlátu megnar mikils [sjá Jakbr 5:16].“12

Henry W. Bigler sagði: „Ég heyrði Joseph Smith eitt sinn segja um bænargjörð til himnesks föður: ,Verið skýr og skorinorð og biðjið um það sem þið hafið þörf fyrir, á sama hátt og þið færuð til nágranna og segðuð: Getur þú lánað mér hest til að fara til myllunnar.‘ “13

Við getum hlotið persónulega opinberun með heilögum anda.

„Börn Guðs njóta þeirra forréttinda að koma til Guðs og hljóta opinberun. … Guð fer ekki í manngreinarálit. Við njótum öll sömu forréttinda.“14

„Við trúum að fyrir gjöf heilags anda og í nafni Jesú Krists, eigum við rétt á opinberunum, sýnum og draumum frá Guði, okkar himneska föður, sem og á ljósi og vitsmunum, varðandi allt sem við kemur okkar andlegu velferð, ef við höldum boðorð hans og erum verðug frammi fyrir honum.“15

„Menn geta notið góðs af því að fara eftir fyrsta hugboði anda opinberunar. Þegar þið t. d. finnið flæði hreinna vitsmuna, geta hugmyndir skyndilega vaknað. Þegar þið svo farið eftir hugboðinu, getið þið sama dag eða fljótlega séð það verða að veruleika, (þ. e.) sú hugsun, sem andi Guðs kallaði fram í huga ykkar, mun rætast og því getið þið, með því að nema anda Guðs og skilja hann, náð smám saman stjórn á reglu opinberunar, uns þið fullkomnist í Kristi.“16

„Ég á gamla útgáfu af Nýja testamentinu á latínu, hebresku, þýsku og grísku. … Ég er þakklátur Guði fyrir að eiga þessa fornu bók, en ég er honum þakklátari fyrir gjöf heilags anda. Ég á elstu bók í heimi, en sú bók er í hjarta mínu, já, gjöf heilags anda. … Heilagur andi . býr í mér og hefur meiri skilning en allur heimurinn, og ég á samfélag við hann.“17

„Engin maður getur hlotið heilagan anda án þess að hljóta opinberanir. Heilagur andi er opinberari.“18

Þegar John Taylorþjónaði sem forseti Tólfpostulasveitarinnar, sagði hann: „Ég minnist ummæla Josephs Smith um mig fyrir meira en 40 árum. Hann sagði: ,Öldungur Taylor, þú hefur verið skírður, hlotið gjöf heilags anda með handayfirlagningu og verið vígður hinu heilaga prestdæmi. Ef þú heldur áfram að fylgja leiðsögn þessa anda, mun hann ávallt leiða þig réttilega. Stundum kann það að stangast á við dómgreind þína, en hafðu ekki áhyggjur af því, farðu að boði hans, og ef þú ert trúr hljóðri rödd hans, mun hann smám saman verða að reglu opinberunar í þér, svo að þú vitir alla hluti.‘ “19

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Veitið athygli mikilvægi bænar af reynslu Josephs Smith og vitnanna þriggja varðandi Mormónsbók (bls. 123–25). Hvernig hefur bænin haft áhrif á reynslu ykkar af Mormónsbók? Hvaða aðra þætti lífs ykkar hefur bænin áhrif á?

  • Hvað kemur upp í huga ykkar þegar þið lesið málsgreinina á bls. 125? Þegar þið veltið þessari fullyrðingu fyrir ykkur, íhugið þá hvað þið getið gert til að bæta viðræður ykkar „við skapara [ykkar].“

  • Hvers vegna getum við ekki reitt okkur eingöngu á opinberanir frá liðnum tímum? (Sjá dæmi á bls. 126–28.) Hvers vegna þurfum við stöðugar persónulegar opinberanir?

  • Lesið undirkaflann sem hefst á bls. 128. Tilgreinið kenningar spámannsins um hvenær við eigum að biðja og um hvað við eigum að biðja. Hvernig geta þessar kenningar orðið ykkur til hjálpar við persónulegar bænir? Hvernig getið þið hjálpað fjölskyldu ykkar við fjölskyldubænir?

  • Lærið kenningar spámannsins á bls. 128–29 um hvernig við eigum að biðja. Hvert er gildi þess að nota „skýrt og skorinort“ mál þegar við biðjum? Hvernig getur réttlátt líferni veitt okkur nægilegt sjálfstraust til að komast nær himneskum föður í bæn? Hvað hefur stuðlað að vitnisburði ykkar um að Guð heyri og svari bænum?

  • Lesið alla sjöttu málsgreinina á bls. 129. Hvenær hafið þið notið góðs af því að fara eftir „fyrsta hugboði“ anda innblásturs? Hvernig getum við lært að þekkja hina hljóðu rödd andans um leið og hún talar til okkar?

Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Kon 19:11–12; Jakbr 1:5–6; He 5:30; 3 Ne 18:18–21; K&S 6:22–23; 8:2–3; 88:63–65

Heimildir

  1. History of the Church, 1:52–53; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 23, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 1:54; “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 24–25, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” handrit 1844–45, bók 8, bls. 11, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. Daniel Tyler, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 15. febr. 1892, bls. 127.

  5. Bréf frá Joseph Smith til frænda síns, Silas Smith, 26. sept. 1833, Kirtland, Ohio; Lucy Mack Smith, í “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” 1845 handrit, bls. 229–32, Skjalasafn kirkjunnar.

  6. Sarah Granger Kimball, í “R. S. Report,” Woman’s Exponent, 15. ágúst 1892, bls. 30.

  7. History of the Church, 5:31; úr “Gift of the Holy Ghost,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júní 1842, 825; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  8. “To the Saints of God,” ritstjórnargrein birt íTimes and Seasons, 15. september 1842, bls. 952; stafsetning færð í nútímahorf; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  9. History of the Church, 5:127–28; greinaskilum bætt við; úr dagbók Josephs Smith, 23. ágúst 1842, nærri Nauvoo, Illinois; dagsetning þessi er ranglega skráð 22. ágúst 1842, í History of the Church.

  10. Bréf frá Joseph Smith og John Whitmer til hinna heilögu í Colesville, New York, 20. ágúst 1830, Harmony, Pennsylvaníu; í sjálfsævisögu Newels Knight og Journal, um 1846–47, bls. 129, Skjalasafn kirkjunnar.

  11. Yfirlýsing skráð af Joseph Smith í febr. 1840 í Philadelphíu, Pennsylvaníu; upphaflega í einkaeigu.

  12. History of the Church, 6:303; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  13. Henry W. Bigler, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 1. mars 1892, bls. 151–52.

  14. Fyrirlestur sem Joseph Smith hélt u. þ. b. í júlí 1839 í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards, í Willard Richards, Pocket Companion, bls. 75, 78–79, Skjalasafn kirkjunnar.

  15. Bréf frá Joseph Smith til Isaacs Galland, 22. mars, 1839, Liberty fangelsi, Liberty, Missouri, gefið út í Times and Seasons, febr. 1840, bls. 54.

  16. History of the Church, 3:381; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. júní 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  17. History of the Church, 6:307–8; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  18. History of the Church, 6:58; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 15. okt. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  19. John Taylor, Deseret News: Semi-Weekly, 15. jan. 1878, bls. 1.

Ljósmynd
Moroni

Í júní 1829 nutu Oliver Cowdery, David Whitmer og Joseph Smith þeirra forréttinda að sjá Moróní og gulltöflurnar. Nokkru síðar, sama dag, sá Martin Harris einnig engilinn og gulltöflurnar.

Ljósmynd
family praying

„Vanrækið ekki skyldur ykkar í fjölskyldunni, en ákallið Guð um blessanir hans, ykkur til handa, [og] fjölskyldu ykkar.“