2022
Sjá auglit Guðs í óvinum okkar
Mars 2022


„Sjá auglit Guðs í óvinum okkar,“ Líahóna, Mars/Apríl 2022.

Sjá auglit Guðs í óvinum okkar

Þessar lexíur í 1. Mósebók í Gamla testamentinu um að sigrast á átökum og erjum geta verið fyrirmynd fyrir eigið líf.

Ljósmynd
tvær hendur toga í reipi á móti tveimur öðrum höndum

Myndskreyting eftir David Green

Sem sáttasemjari, hef ég öðlast mikla visku um það hvernig leysa skal ágreiningsmál og bjóða fram sátt með því að skoða fordæmi og kenningar Jesú Krists í Nýja testamentinu. Nýja testamentið er hins vegar ekki eina helgiritið sem hefur veitt mér leiðsögn á starfsferlinum. Gamla testamentið veitir furðu djúpa innsýn, sem getur hjálpað okkur þegar við festumst í skaðlegum átökum og árekstrum.

Hvað eru skaðleg átök og árekstrar? Það er þegar vanhæfni okkar til að leysa vanda í samvinnu við aðra verður til að skaða okkur sjálf eða aðra.

Skaðlegum átökum fylgir ótti við sársauka, bæði vegna væntinga og átakanna sjálfra, ótti við að vera ekki elskuð eða skilin eins við viljum vera skilin, og ótti við að finna ekki lausn á vandanum sem hrjáir okkur. Þegar við leyfum að slíkur ótti taki völdin, finnst okkur við ekki lengur geta leyst ríkjandi vanda og upplifum oft örvæntingu, vansæmd eða úrræðaleysi.

Flestum finnst átök af slíkum toga vera skaðleg og því dagar fólk uppi með gagnlausar aðferðir, eins og hjásneiðingar, hagræðingar eða samkeppni, og reynir á þann hátt að láta átökin hverfa. Í skaðlegum átökum er það því miður svo að ekkert af þessu virkar í raun.

Já, okkur ber að forðast átök og erjur (sjá 3. Nefí 11:29). Við ættum þó aldrei að sneiða hjá, gefast upp á eða gera atlögu að fólki sem við deilum við. Þess í stað ættum við að læra hvernig elska á þá sem við deilum við. Það krefst þess að við sýnum óvinum okkar kærleika, hina hreinu ást Krists (sjá Moróní 7:47).

Jesús kenndi að auðvelt væri að elska þá sem elska okkur. Hann sagði líka: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður“ (Matteus 5:44). Frelsarinn biður okkur að elska eins og hann gerir og verða fullkomin eins og hann er (sjá Jóhannes 13:34; 3. Nefí 12:48). Þetta getur þýtt að vera fús til að elska aðra, jafnvel þótt sú elska virðist áhættusöm. Við gætum hikað við það, því okkur er eðlislægt að forðast hættu. Að ákveða að elska þá sem gætu sært okkur, gerir okkur hins vegar kleift að láta af ótta og fyllast kærleika.

Slík elska krefst hugrekkis mitt í átökum. Það krefst þess að við opnum okkur sjálf gagnvart þeim sem við deilum við með því að „[sýna langlyndi og góðvild, … leita ekki okkar eigin, reiðast ekki, vera ekki langrækin, …breiða yfir allt, trúa öllu, umbera allt.] … „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ (sjá 1. Korintubréf 13:4–5, 7–8). Í kærleikanum felst slíka elska, með engri tryggingu um að sá sem við deilum við muni gera það sama.

Elska gerir okkur mögulegt að sjá þá bræður okkar og systur sem við deilum við svo skírum augum að þrár þeirra og þarfir verða jafn mikilvægar okkar eigin, hvernig svo sem þeir sjá okkur. Við gerum hvað sem þarf til að finna lausnir sem uppfylla þarfir þeirra, engu síður en okkar.

Tvær frásagnir í Gamla testamentinu eru dásamleg dæmi um slíka elsku.

Esaú og Jakob

Ljósmynd
Esaú og Jakob hittast

Esaú og Jakob faðmast, eftir Robert T. Barrett

Í 1. Mósebók 25 er sagt frá fjölskylduerjum tveggja bræðra, Esaú og Jakobs, sona Ísaks. Esaú seldi Jakobi frumburðarétt sinn fyrir súpuskál (sjá 1. Mósebók 25:30–31). Síðar, eftir leiðsögn frá móður hans, lést Jakob vera Esaú til að hljóta síðustu blessun Ísaks (sjá 1. Mósebók 27:6–29).

Esaú hataði Jakob og strengdi þess heit að drepa hann. Jakob flúði og leitaði dvalar hjá frænda sínum, Laban. (Sjá 1. Mósebók 27:41–45.) Jakob kom sér í vandræði við frænda sinn og neyddist til að fara aftur heim (sjá 1. Mósebók 31). Jakob varð ljóst að hann varð að mæta Esaú, sem hafði fjölmennari hersveit. Hann óttaðist um líf sitt og líf fjölskyldu sinnar (sjá 1. Mósebók 32:7–8).

Á þeim degi sem þeir áttu að hittast, sendi Jakob mikinn fjölda geita, úlfalda, nautgripa, sauðfé og asna til sáttagjörðar. Hann hneigði sig líka sjö sinnum er hann nálgaðist Esaú. Esaú brást við á þann hátt sem Jakob átti ekki von á. Esaú grét, faðmaði bróður sinn og sagði enga þörf vera fyrir fórnir til sáttargjörðar.

Jakob varð hrærður af elsku Esaú og sagði:

„Hafi ég fundið náð í augum þínum þiggðu þá gjöfina af mér. Þegar ég sá auglit þitt var sem ég sæi auglit Guðs og þú hefur tekið vel á móti mér.

Ég bið þig að þiggja gjöfina sem þér var færð því að Guð hefur verið mér góður og ég hef allt sem ég þarfnast. Jakob lagði að honum þar til hann þáði gjöfina“ (1. Mósebók 33:10–11).

Þrennt sem þarf til að lifa í friði

Jakob sýndi hér fyrirmynd elsku sem mér hefur þótt afskaplega árangursrík leið til að leita sátta við þá sem hafa breytt ranglega gegn okkur eða við gegn þeim.

Í Sálmunum 85:11 er greint frá skilyrðum sáttargjörðar: „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.“ Sáttargjörð Jakobs og Esaú uppfylla skilyrðin í Sálmunum.

Jakob og Esaú þuftu hugrekki til að gangast við þeim sannleika að þeir voru ekki óvinir – þeir voru bræður. Það þurfti miskunn til að fyrirgefa hvor öðrum. Það þurfti réttlæti – réttvísi að þeim toga sem færir til rétts vegar það sem við eða aðrir hafa aflagað – til að Jakob byði Esaú hluta af því sem hann hafði verið blessaður með. Þegar allt þetta þrennt var fyrir hendi, var þeim mögulegt að lifa saman í friði.

Við getum fylgt þessari sömu fyrirmynd í lífi okkar.

Þegar við erum föst í skaðlegum deilum, getur ótti okkar við deiluefnið og ótti okkar gagnvart öðrum verið lamandi eða fengið okkur til að gera eitthvað sem gerir hlutina verri, ekki betri. Við teljum okkur oft trú um að hvaðeina sem við reyndum til að rjúfa hið skaðlega ferli, myndi ekki virka. Við verðum vantrúuð á að aðrir geti breyst.

Fordæmi Jakobs sýnir þó líka aðferð til að sigrast á slíkri baráttu. Jakob tókst á við óttann við bróður sinn og óttann við deiluefni þeirra. Hann sóttist meira eftir „sameiginlegri sátt“ en að „varðveita eigin hagsmuni“ á þessari stundu, svo hann fór til bróður síns og bauð honum bæði sannleika og réttlæti fyrir öll rangindi sem hann hafði beitt hann. Esaú, sem eitt sinn vildi drepa Jakob, mildaðist og að nýju var rúm fyrir miskunn og frið. Jakob fann leið til að elska óvin sinn og með því að gera það, sá hann „auglit Guðs“ blasa við sér.

Þótt kvíðinn sé mikill yfir að takast á við deilur á þennan hátt, þá er þetta árangursríkara en nokkuð annað til sáttagjörðar. Kristileg elska gerir okkur kleift að sjá með sanni þá sem við eigum erfitt með, sem veldur grundvallar breytingu hjá bæði okkur og þeim.

Jósef og bræður hans

Ljósmynd
Jósef frá Egyptalandi sættist við bræður sína

Jósef frá Egyptalandi, eftir Michael T. Malm

Einni kynslóð á eftir Jakob sjáum við annað áhrifaríkt dæmi um elsku Jósefs, yngsta sonar Jakobs.

Afbrýðissamir bræður Jósefs selja hann í ánauð á yngri árum hans. Bræðrum Jósefs fannst faðir þeirra taka hann fram yfir þá og að Jósef nyti meira eftirlætis. Jósef þurfti að líða mikið vegna óvildar bræðra sinna. Hann var viðskila við fjölskyldu sína árum saman, varð að lokum þjónn og um tíma fangelsaður. Drottinn hjálpaði honum að lokum að sigrast á raun sinni og verða máttugur stjórnandi í Egyptalandi. (Sjá 1. Mósebók 37–45.)

Bræður hans áttu líka erfitt á tíma hungursneiðar og fóru til Egyptalands hungraðir og bugaðir. Þegar þeir komu til Jósefs, þekktu þeir hann ekki og sárbáðu um aðstoð.

Jósef hafði allan rétt til að varpa bræðrum sínum í fangelsi, til að ná fram réttlæti á þeim. Það var einmitt það sem þeir áttu skilið. Þess í stað ákvað hann að sýna þeim miskunn – að fyrirgefa þeim og elska þá.

„Komið hingað til mín,“ sagði hann við þá. Þeir gengu til hans og hann sagði: „Ég er Jósef, bróðir ykkar, sem þið selduð til Egyptalands.

En verið ekki daprir og ásakið ykkur ekki fyrir að hafa selt mig hingað. Það var Guð sem sendi mig hingað á undan ykkur til að bjarga lífi“ (1. Mósebók 45:4–5).

Jósef fyrirgaf ekki aðeins bræðrum sínum, heldur sá líka bætandi tilgang í erjum þeirra. Hann viðurkenndi hönd Guðs í öllu og að þeir hefðu allir komist af, þrátt fyrir þrengingarnar: „Guð hefur sent mig hingað á undan ykkur til þess að halda við kyni ykkar á jörðinni og tryggja ykkur fjölda niðja“ (1. Mósebók 45:7).

Ljósmynd
hendur með slakt reipi

Álíka mynstur getur myndast í lífi okkar, ef við viðurkennum að sárar deilur geti í raun leitt til þess að fjölskyldur okkar og samfélög verði sterkari og við vinnum að sameiginlegum lausnum.

Við munum öll upplifa átök og erjur. Það verður sárt. Stundum yfirgengilega. Ég furða mig alltaf á þeim sársauka sem aðrir upplifa þegar þeir láta flækja sig í deilur, einkum við ástvini. Sá sársauki og ótti þarf þó ekki að verða sögulokin.

Við getum valið að sjá deilumál og fólk sem við eigum í deilum við öðrum augum, á sama hátt og Jósef gerði. Við getum valið að láta af reiði, gremju og ásökunum og umfaðmað óvini okkar.

Við getum valið elsku fram yfir ótta og uppgötvað – eins og Jakob, Esaú og Jósef og bræður hans gerðu – að óvinir okkar eru bræður okkar og systur. Með því að kappkosta að ná sáttum við þau, getum við líka séð auglit Guðs.