2022
Hvað er í raun lotning?
Mars 2022


„Hvað er í raun lotning?“ Líahóna, Mars/Apríl 2022.

Hvað er í raun lotning?

Þegar við aukum skilning okkar á lotningu, verðum við betur í stakk búin til að sýna lotningu, jafnvel við ólíklegustu aðstæður.

Ljósmynd
maður með heyrnartól

Vegna nokkurra einstakra upplifana minna, hef ég verið að hugsa um merkingu lotningar. Dallin H. Oaks forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, skilgreinir hana svona:

„Tilbeiðsla felur oft í sér breytni, en sönn tilbeiðsla felur alltaf í sér sérstakt hugarfar.

„Hugarfar tilbeiðslu vekur djúpar tilfinningar trúmennsku, lofgjörðar og aðdáunar. Tilbeiðsla sameinar elsku og lotningu og vekur hollustu, sem færir anda okkar nær Guði.” 1

Hvað kemur í hug ykkar, er þið hugsið um lotningu? Myndu eftirfarandi sviðsmyndir á sakramentissamkomu vera lýsandi fyrir lotningu eða skort á lotningu?

  1. Barn teiknar í litabókina sína.

  2. Ungur maður útdeilir sakramentinu með heyrnartól á höfði sér.

  3. Maður sem hoppar og veifar höndum í æsingi.

  4. Ung kona að spila leik í símanum sínum.

  5. Trúboði hrópar tilviljunarkennt.

  6. Kona situr alltaf í anddyrinu, aldrei í kapellunni.

  7. Maður liggur á dýnu í gangvegi kapellunnar.

  8. Hópur meðlima er með hávaða og látbragð.

  9. Unglingsstúlka situr undir stólnum sínum.

  10. Kona gengur fram og tilbaka aftast í kapellunni.

Flest værum við sammála um að öskrandi trúboði á sakramentissamkomu sýndi minni lotningu en börn sem teikna myndir, svo þau hafi eitthvað fyrir stafni. Við skulum gefa okkur stund til að íhuga dæmin um mögulega lotningu eða skort á lotningu, með þessum 10 sönnu sviðsmyndum – sem ég hef sjálfur upplifað persónulega á kirkjusamkomum.

  1. Barn teiknar í kirkju. Þessi iðja er almenn og gild meðal næstum allra meðlima. Við vitum að slíkt er yfirleitt ekki skortur á lotningu, nema við leyfum því að trufla okkur.

  2. Maður sem útdeilir sakramentinu og hlustar jafnframt á tónlist í heyrnartólum. Slíkt væri afar óviðeigandi í flestum tilvikum. Ég ætla þó að segja „alla söguna.“ Ég þekkti mann sem á sterkan vitnisburð og hefur þjónað í trúboði og meðtekið hinar ýmsu kallanir. Á síðustu árum hefur hann hins vegar gerið greindur með hugklofaskapgerð. Hann notar heyrnartól til að hlusta á ljúfa, friðsæla tónlist sem hjálpar við að útiloka stöðugar raddir sem herja á huga hans. Með hjálp heyrnartólanna getur hann fundið andann og þjónað öðrum af lotningu.

  3. Maður sem stekkur upp og veifar höndum í æsingi. Sagan öll: Þessi mállausi bróðir með einhverfu verður spenntur í hvert sinn sem hann sér biskupinn á pallinum. Hann lætur gleði sína í ljós með því að veifa höndum og hoppa.

    Ljósmynd
    Children attend primary. One has a service dog and another is in a wheelchair.
  4. Ung kona að spila leik í símanum sínum. Sagan öll: Þessi systir berst við félagskvíða og spilar leiki í símanum sínum. Hún á í raun betur með að stjórna kvíða sínum og hlusta á hinn flutta boðskap af lotningu þegar hún beinir kvíða sínum að öðru.

  5. Trúboði hrópar tilviljunarkennt. Sagan öll: Þegar ég var í trúboðsskólanum, var þar trúboði með tourettesjúkdóm á mínu svæði. Öðru hverju hrópaði hann upp yfir sig í námsbekknum, matarsalnum og á kirkjusamkomum. Ekki var litið á hegðun hans sem skort á lotningu; við sáum fljótt að hann var fús til að þjóna, áhugasamur um að miðla fagnaðarerindinu og ríkur af andanum.

  6. Kona situr í anddyrinu í hverri viku og aldrei í kapellunni. Sagan öll: Þegar ég starfaði fyrir kirkjuna í Salt Lake City, skrifaði systir til Skrifstofu fatlaðra á okkar svæði um reynslu sína af áfallastreituröskun vegna herþjónustu sinnar. Af því að símhringing eða annar skyndilegur hávaði gæti vakið minningarbrot í huga hennar, þá sat hún aldrei í kapellunni, svo hún yrði engum óviljandi til skaða.

  7. Maður liggur á dýnu í gangvegi í kapellu. Sagan öll: Þegar ég flutti í nýja deild, kom mér á óvart að sjá bróður á færanlegu sjúkrabeði í kapellunni. Þessi maður var með mikla fötlun og gat aðeins sótt kirkju á þennan hátt. Mér var fljótt ljóst að þetta var eðlilegt í deild hans og vandist því fljótt. Að hann væri þarna, var ekki lotningarleysi, heldur í raun þvert á móti. Var það ekki frelsarinn sem læknaði mann sem látinn var síga ofan í mannþröng af vinum sínum í eigin beði? (sjá Lúkas 5:18–20).

  8. Hópur meðlima er með hávaða og mikið látbragð. Sagan öll: Heyrnarlaus söfnuður getur verið „hávær“ þeim sem heyra í söfnuðinum. Í samfélagi heyrnarlausa er það ekki skortur á lotningu ef einhver er með hávaða, hlær eða hóstar hátt, en það telst skortur á lotningu ef meðlimir sýna táknmál um veraldlega hluti á sakramentissamkomu.

  9. Unglingsstúlka situr undir stólunum. Sagan öll: Þegar ég var unglingur sat ein af stúlkunum á mínum aldri alltaf undir stólnum sínum í námsbekknum. Þessi unga systir hafði alist upp á mörgum fósturheimilum og fann sig aðeins örugga á lokuðu svæði. Frá þessu, hefur mér lærst að við getum ekki vænst þess að nemendur læri séu þeir í uppnámi, óöruggir eða stjarfir. Nemendur verða að finna sig örugga til að geta lært og, það sem mikilvægast er, að finna elsku frelsarans.

  10. Kona gengur fram og tilbaka aftast í kapellunni. Sagan öll: Þetta er í raun ég sjálf. Ég hafði háð baráttu við kvíða í meira en áratug, alvarleg kvíðatímabil og annan heilsufarsvanda. Á þessum tímum, get ég aðeins farið í kirkju ef mér er fært að hreyfa mig. Að ganga um eða hafa eitthvað til að leika mér að í höndunum, er stundum eina leiðin fyrir mig til að beina athyglinni að ræðumönnunum og finna fyrir andanum. 

Satan nýtir sér þá staðreynd að við þekkjum oft ekki alla söguna, að við vitum ekki alltaf hvaða áskoranir bræður okkar og systur takast á við dag hvern . Hann vill ekki að við hugsum um það að flestir meðlimir eru að gera sitt allra besta, hvernig sem það horfir við öðrum. Sviðsmyndirnar sem ég taldi upp hér að ofan, geta verið sjaldgæfar, en þær eru lýsandi fyrir hinar mörgu persónulegu áskoranir sem almennir meðlimir upplifa í kirkjusókn sinni.

Ég trúi að Satan vilji fá okkur til að trú því að tilbeiðsla okkar takmarkist af baráttu, ágreiningi eða veikleika annarra. Ég hef í raun komist að því að það er einmitt á þeim stundum sem virðast truflandi að ég læri mest um elsku frelsara míns.

Það sem ég hef lært um lotningu

Ljósmynd
kona notar táknmál

1. Lotning er val og hæfileiki.

Það er undir mér komið að finna til lotningar. Of oft finn ég ekki til lotningar, því ég leyfi að eitthvað trufli mig. Því meiri andlegan aga sem ég tem mér og þjálfa anda minn til að einblína á það sem mestu skiptir, því betur gengur mér að taka fulla ábyrgð á sambandi mínu við föður minn á himnum.

2. Ein stærð hentar ekki öllum hvað varðar lotningu

Fjölskylduvinur sem var í fangelsi í 17 ár bauð andann velkominn í klefann sinn með því að búa til líkön af musterum úr pappír. Lotning getur verið ríkjandi við allar aðstæður, ef við bjóðum andann velkominn.

3. Mögulegt er að stuðla að lotningu, en hún er persónulegt val.

Lotning á rætur í innri skuldbindingu við að leggja rækt við „hugarfar tilbeiðslu.“ Hún getur aðeins verið ríkjandi ef við sannlega finnum og sýnum elsku okkar til Drottins og annarra meðlima. Faðir minn sagði mér eitt sinn að þegar við öxlum þá ábyrgð að finna til lotningar, mun viðhorf okkar breytast frá að vera „þú ert að trufla tilbeiðslu mína hér!“ yfir í „þú er í fínu lagi. Þú ert velkominn hér. Þú dregur alls ekki úr lotningu minni, því ég hef valið að finna fyrir lotningu.“ Okkur verður þá ljóst að breytni annarra þarf ekki að hafa hafa áhrif á persónulegt samband okkar við frelsara okkar og himneskan föður. Auðvitað er það svo, að þegar við tökum persónulega ábyrgð á eigin lotningu, þá þýðir það ekki að við getum leitt hjá okkur hvernig eigin framkoma gæti haft áhrif á upplifun annarra. Viðleitni okkar til að finna lotningu, getur aukið elsku okkar til þeirra sem bræðra og systra okkar.

Þjónusta frelsarans

Í dásamlegu fordæmi um þjónustu, hafði frelsarinn meðaumkun með manni sem í dvaldi aragrúi af öndum. Þótt maðurinn hefði verið hrópandi og farið um klæðalaus, neitaði Jesú honum ekki um lækningu. Það var einungis eftir lækninguna að þessi maður gat setið „[klæddur] og heilvita við fætur Jesú“ og spurt hvort hann mætti vera með honum. (Sjá Lúkas 8:27–39; sjá einnig Markús 5:1–20.)

Á sama hátt sagði Jesús ekki drengnum með óhreinan anda að hætta að velta sér, freyða og gnísta áður en hann gerði hann heilan (sjá Markús 9:17–27). Hann sá þetta ástand sem jarðneska reynslu, ekki andlega annmarka. Það voru aðeins farísearnir sem hann vísaði frá sér, því sjálfsréttlæti þeirra og dramb kom í veg fyrir lækningu.

Með því að auka skilning okkar á lotningu, verðum við betur í stakk búin til að kenna og þjóna að hætti frelsarans. „Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs“ (sjá Kenning og sáttmálar 18:10). Við getum sýnt lotningu, jafnvel við ólíklegustu aðstæður.

Ef til vill hefur lotning í augum Drottins minna að gera með að sitja kyrr og tala mildlega og meira að gera með rósemd hugans og mildi hjartans.

Höfundur býr í Texas, Bandaríkjunum.

Heimildir

  1. Dallin H. Oaks, Pure in Heart (1988), 125.