2022
Drottinn var með Jósef
Mars 2022


„Drottinn var með Jósef,“ Líahóna, Mars/Apríl 2022.

Kom, fylg mér

1. Mósebók 37–41

Drottinn var með Jósef

Þegar við förum í gegnum hæðir og lægðir lífsins, getum við lært margt af fordæmi hins forna spámanns, Jósefs.

Ljósmynd
Jósef frá Egyptalandi útskýrir drauma Faraós

Jósef útskýrir drauma Faraós, eftir Jean Adrien Guignet, Musée des Beaux-Arts, Rouen, France / Bridgeman Images

Fyrir nokkrum árum varð fjölskylda mín full eftirvæntingar þegar við komust að því að eiginkona mín, Terri, ætti von á fjórða barni okkar. Við komumst síðan að því, eftir nokkra mánaða meðgöngu, að heilsufar Terriar gæti verið í hættu. Öruggasti valkosturinn var að hún legðist inn á spítala, þar sem hún nyti stöðugrar umönnunar. Hún þurfti að vera rúmliggjandi til að lengja meðgöngutímann eins og mögulegt var.

Þetta var erfiður og dimmur tími fyrir fjölskylduna okkar, einkum Terri. Hún var svo einmana og ég hafði þá áskorun að annast þrjú ung börn með atvinnu minni og þjónustu sem biskup. Lífið var erfitt og skipulagslaust.

Í einmanaleika sínum fann Terri huggun í texta fallegs sálms:

Hjarta mitt fyllir fró þín nálægð hrein,

freistinga valdið sigrar náð þín ein.

Þú gegnum skin og skúr mig leiðir hér,

og skjól mér veitir, Herra, dvel hjá mér. 1

Drottinn var með okkur

Það fór svo að lokum að þörf var á bráðaskurðaðgerð til að koma syni okkar, Jace, í heiminn. Bæði móðir og sonur nutu öruggrar umönnunar, því Terri var þegar á spítala. Við fundum vernd Drottins í lífi okkar.

Jace fæddist fjórum vikum fyrir tímann og var settur á vökudeild. Við fórum heim án barnsins okkar. Á þeim mánuðum sem á eftir fylgdu fórum við daglega á spítalann. Lífið virtist sveiflast niður í lægð.

Við urðum þó aftur vitni að hendi Drottins. Jace náði nægum þroska til að við gátum tekið hann heim og hápunkturinn var að við sameinuðumst sem fjölskylda.

Þá bárust þau tíðindi að Jace væri með sagittal synostosis, ástand þar sem beinin í höfuðkúpunni gróa ótímabært saman. Af því leiðir að höfuðið vex ekki. Eina lausnin var skurðaðgerð til að fjarlægja stóran hluta af höfuðkúpu Jace þegar hann var aðeins þriggja mánaða gamall. Við tókumst á við þessa áskorun með bænum og prestdæmisblessunum. Aftur sáum við hönd Drottins í lífi okkar. Bænum var svarað. Blessanir urðu að veruleika. Skurðaðgerðin heppnaðist vel. Lífið lyftist aftur upp í hæðir.

Hvílíkur rússíbani! Drottinn kenndi okkur þó ótal margt í þessari lífsins ferð. Við vissum að hann var með okkur í þessu öllu.

Jósef fór í gegnum hæðir og lægðir

Ljósmynd
Jósef seldur til Egyptalands

Jósef seldur til Egyptalands, eftir William Brassey Hole, © Look And Learn / Bridgeman Images

Þegar við lærum um líf Jósefs í Gamla testamentinu, komumst við að því að lífsferð hans sveiflaðist á milli hæða og lægða á víxl. Við lærum líka að Drottinn var alltaf með honum, í góðu og slæmu.

Yfirhöfnin sem Jakob gaf Jósef var fagurt tákn um þá elsku sem Jakob bar til Jósefs. Hún var þó líka ergjandi áminning fyrir bræður Jósefs um samband Jósefs og föður hans.

Þegar bræðurnir fóru til að gæta sauða föður síns, bað Jakob Jósef að athuga með þá. Jósef fór eins og hann bar beðinn. Hann villtist þó á leiðinni. Drottinn sendi því mann til að leiðbeina Jósef, svo hann fynndi bræður sína (sjá 1. Mósebók 37:15–17).

Þegar bræður Jósef ráðgerðu að drepa hann, virtist það ekki tilviljun að ferðamannalest ætti þar leið hjá á leið til Egyptalands. Í stað þess að drepa Jósef, eða skilja hann eftir í gryfjunni til að deyja, seldu bræður hans hann ferðamannalestinni. (Sjá 1. Mósebók 37:25-28.)

Hönd Drottins var aftur að verki þegar ferðamannalestin seldi Pótífar Jósef, lífvarðarforingja Faraós. Jafnvel sem þjónn, snéri Jósef hverri reynslu upp í eitthvað gott. Pótífar fól Jósef yfirumsjá með húsi sínu. Hann fól allt sem hann átti í hendur Jósefs. (Sjá 1. Mósebók 39:4.) Jósef hafði upplifað hæðir og lægðir í lífsferð sinni. Hann naut nú þeirra forréttinda að sjá um hús Pótífars.

Þessi hápunktur varði þó ekki lengi. Þegar Jósef flúði hið ósiðlega athæfi eiginkonu Pótífars, ásakaði hún hann um ósiðsemi. Þótt hún hefði ásakað hann ranglega, hefði Jósef auðveldlega getað verið líflátinn. Það undraverða gerðist að hann var einungis settur í fangelsi. Hönd Drottins verndaði Jósef enn og aftur.

Undraverð trú

Hvað hefðuð þið gert, ef þið ykkur hefði verið varpað ranglega í fangelsi? Ef einhver hefði ástæðu fyrir biturð og vonleysi, þá var það Jósef. Hinar miklu hæðar og lægðar sveiflur, gætu auðveldlega hafa fengið hann til að hugsa: „Til hvers að reyna að þjóna Guði? Allt sem hann gerir er að refsa mér.“ Jósef varð þó ekki bitur eða kenndi Drottni um og gafst ekki upp. Hin undraverða trú hans brást aldrei.

Jafnvel á dimmum dögum fangelsisvistar, yfirgaf Drottinn ekki Jósef. Fyrst sá Drottinn Jósef fyrir tækifæri til að túlka drauma yfirþjónsins og bakarans (sjá 1. Mósebók 40). Síðan, nokkrum árum eftir það, þegar Jósef gafst kostur á að túlka draum Faraós, sagði hann að þessi hæfileiki væri frá Guði (sjá 1. Mósebók 41:16). Faraó leysti Jósef ekki aðeins úr haldi, heldur „setti hann yfir allt Egyptaland“ (1. Mósebók 41:43). Eftir áraraða þrautir og þjáningar Jósefs, gerði Guð Jósef mögulegt að verða mikill áhrifavaldur í landinu, aðeins Faraó var fremri – sem var enn ein hæð í lífi Jósefs.

Guð lætur það verða okkur til góðs

Jósef hitti loks bræður sína aftur, sem höfðu bruggað launráð gegn honum og selt hann í ánauð. Hann hefði getað verið bitur. Hann hefði getað ásakað þá fyrir „ósanngirni sem vekur reiði,“ sem þeir höfðu sýnt honum. 2

Jósef var þó ljóst að hæðir og lægðir lífsins væru í höndum Drottins. Orð hans til bræðra sinna eru lýsandi fyrir þann skilning:

„,Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs.‘ Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna.

‚Verið því óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.‘ Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra“ (1. Mósebók 50:20–21).

Þegar við sveiflumst í gegnum hæðir og lægðir lífsins, hve dásamlegt það er að vita að Guð lætur það verða okkur til góðs. Drottinn útskýrði þessa sömu reglu fyrir síðari daga Joseph:

„Verðir þú kallaður til að þola andstreymi, …

Verðir þú ákærður með alls kyns fölskum ásökunum, ráðist óvinir þínir á þig, rífi þeir þig frá samfélagi föður þíns og móður … og þú dreginn í fangelsi, …

… vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs“ (Kenning og sáttmálar 122:5–7).

Það hafa alltaf verið harðindi

Þegar ég og Terri tókumst á við áskoranir okkar, fundum við huggun í þessum orðum spámanns Guðs:

„Ég vil að þið vitið að það hafa alltaf verið erfiðleikar í jarðlífinu og munu alltaf verða. Með því að vita það sem við vitum og lifa eins og okkur ber að lifa, þá er í raun ekkert rúm, engin afsökun, fyrir svartsýni og örvæntingu. …

… Ég vona að þið trúið ekki að öllum erfiðleikum heimsins hafi verið komið fyrir á lífsleið ykkar, eða að hlutirnir hafi aldrei verið verri en fyrir ykkur persónulega, eða að aldrei muni rætast úr hlutunum. Ég fullvissa ykkur um að þeir hafa verið verri og að þeir munu alltaf verða betri. Þeir gera það alltaf – einkum þegar við lifum og elskum fagnaðarerindi Jesú Krists og gefum því tækifæri til að blómgast í lífi okkar.“ 3

Af sögunni af Jósef og hinum miður góðu atburðum sem gerast í heiminum umhverfis, er auðvelt að ráða að slæmir hlutir gerast fyrir gott fólk. Réttlátt líf merkir ekki að við munum sneiða hjá sorg og erfiðleikum í lífinu. Drottinn mun þó vera með okkur, á sama hátt og hann var með Jósef í mótlæti hans. Prófraunir munu óhjákvæmilega koma. Ef við hins vegar tökumst á við þær ákveðin í því að hlýða á hann, mun Drottinn vernda og innblása okkur, á sama hátt og Jósef.