Vitnisburður spámannsins Josephs Smith
Orð spámannsins Josephs Smith sjálfs um tilkomu Mormónsbókar eru þessi:
„Um kvöldi hins… tuttugasta og fyrsta dags septembermánaðar [1823] … að ég hóf að ákalla almáttugan Guð …
Meðan ég ákallaði Guð, sá ég ljós birtast í herbergi mínu, og jókst það stöðugt, uns birtan var orðin þar meiri en um hábjartan dag. Skyndilega birtist maður við rúmstokk minn, og sveif hann í lausu lofti, því að fætur hans námu ekki við gólf.
Hann var klæddur víðum kyrtli, óviðjafnanlega hvítum. Hann var hvítari en nokkuð jarðneskt, sem ég hafði nokkru sinni séð, enda trúi ég ekki, að nokkur jarðneskur hlutur geti orðið jafn frábærlega hvítur og ljómandi. Hendur hans voru berar, svo og handleggirnir nokkuð ofan við úlnliði, og auk þess var hann berfættur og fótleggir hans berir nokkuð upp fyrir ökkla. Hann var einnig ber um höfuð og háls. Ég gat séð, að hann klæddist kyrtli þessum einum, því að hann var opinn, svo að ég sá í bringu hans.
Kyrtill hans var ekki aðeins framúrskarandi hvítur, heldur var og öll persóna hans svo dýrðleg, að orð fá því ekki lýst, og yfirbragð hans var sannarlega sem leiftur. Herbergið varð óumræðilega bjart, en þó ekki allt eins bjart og hið næsta manninum. Í fyrstu varð ég óttasleginn, þegar ég sá hann, en óttinn hvarf mér von bráðar.
Hann ávarpaði mig með nafni og sagði mér, að hann væri sendiboði, sem sendur væri á minn fund úr návist Guðs og héti Moróní. Guð ætlaði mér verk að vinna og nafn mitt yrði talið tákn góðs og ills með öllum þjóðum, kynkvíslum og tungum, eða að bæði yrði talað vel og illa um það með öllum lýðum.
Hann sagði, að bók væri geymd, letruð á gulltöflur, þar sem lýst væri fyrri íbúum þessarar álfu og sagt frá uppruna þeirra. Hann sagði og, að hún hefði að geyma fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis, eins og frelsarinn hefði fengið það íbúunum til forna —
Einnig að tveir steinar greyptir í silfurboga — og steinar þessir, festir við brjóstplötu, mynduðu það sem kallast Úrím og Túmmím — væru með töflunum, en umráð og notkun steinanna hefði til forna eða fyrr á tímum gert menn að ‚sjáendum,‘ og hefði Guð útbúið þá til þess að þýða bókina. …“
„Hann sagði og, að þegar ég hefði fengið töflurnar, sem hann hefði talað um — því að enn væri ekki komið að því að ég fengi þær — mætti ég engum sýna þær, ekki heldur brjóstplötuna með Úrím og Túmmím, nema þeim, sem mér yrði boðið að sýna þær, ella yrði mér tortímt. Meðan hann ræddi við mig um töflurnar, opnaðist mér hugarsýn, svo að ég sá staðinn þar sem töflurnar voru geymdar, og það svo skýrt og greinilega að ég þekkti hann aftur þegar ég kom þangað.
Eftir þessar samræður sá ég að ljósið í herberginu tók að safnast umhverfis þann, sem við mig hafði talað, og hélt svo áfram, þar til aftur var myrkt í herberginu, nema rétt umhverfis hann. En þá sá ég skyndilega opnast göng beint upp til himins, að því er virtist, og hann sté upp, þar til hann hvarf með öllu, og herbergið varð aftur eins og það hafði verið, áður en þetta himneska ljós birtist.
Ég lá og hugleiddi hve einstakt þetta atvik hefði verið, og furðaði mig mjög á því, sem þessi sérstæði sendiboði hafði sagt mér, en þá uppgötvaði ég allt í einu, mitt í hugleiðingum mínum, að aftur tók að birta í herberginu, og á augabragði, að því er virtist, birtist sami himneski sendiboðinn aftur við rúmstokk minn.
Hann tók til máls og endurtók nákvæmlega það sama og hann hafði sagt við fyrri heimsóknina, án minnstu breytingar. En að því búnu sagði hann mér frá miklum dómum, sem yfir jörðina kæmu, með mikilli eyðingu af völdum hungursneyðar, hernaðar og drepsótta. Hann sagði, að þessir þungbæru dómar kæmu yfir jörðina á okkar tímum. Þegar hann hafði skýrt mér frá þessu, sté hann aftur upp á sama hátt og áður.
Þegar hér var komið, hafði þetta haft slík áhrif á huga minn, að mér kom ekki blundur á brá, og ég lá agndofa vegna þess, sem ég hafði bæði séð og heyrt. En mikil varð undrun mín, þegar ég sá sama sendiboðann enn við rúm mitt og heyrði hann endurtaka, eða hafa yfir á ný, það sama og áður. Og hann bætti við, mér til varnaðar, að Satan mundi reyna að freista mín (vegna fátæktar fjölskyldu minnar) til að ná töflunum í auðgunarskyni. Slíkt bannaði hann mér og sagði, að eina markmið mitt með því að ná þeim skyldi vera að vegsama Guð, og ég mætti ekkert annað takmark hafa en byggja upp ríki hans, ella næði ég þeim ekki.
Eftir þessa þriðju heimsókn sté hann enn til himins eins og áður, en ég tók á ný að íhuga þessa einkennilegu reynslu mína. En næstum þegar eftir að hinn himneski sendiboði var horfinn mér til himins í þriðja sinn, gól haninn, og ég varð þess áskynja, að dagur var í nánd, þannig að samræður okkar hlutu að hafa staðið alla nóttina.
Ég reis úr rekkju skömmu síðar og hóf að venju hið nauðsynlega strit dagsins, en þegar ég reyndi að haga vinnu minni eins og endranær, var ég svo farinn að kröftum, að ég var gjörsamlega óvinnufær. Faðir minn, sem vann mér við hlið, varð þess var að eitthvað amaði að mér og sagði mér að fara heim. Ég lagði af stað og ætlaði heim, en þegar ég reyndi að fara yfir girðinguna, sem var umhverfis akurinn, þar sem við vorum, hvarf mér allur máttur, ég hné örmagna til jarðar og lá síðan um tíma rænulaus með öllu.
Það fyrsta, sem ég man, var rödd, sem ávarpaði mig með nafni. Ég leit upp og sá sama sendiboðann og áður standa yfir höfði mér, umlukinn ljósi sem fyrr. Hann endurtók síðan enn á ný allt sem hann hafði sagt mér nóttina áður, og bauð mér að fara á fund föður míns og segja honum frá sýninni og boðum þeim, sem ég hafði fengið.
Ég hlýddi. Ég fór aftur til föður míns úti á akrinum og sagði honum alla söguna. Hann svaraði mér, að þetta væri frá Guði, og sagði mér að fara og gera eins og sendiboðinn hafði boðið. Ég fór af akrinum og hélt til þess staðar, sem töflurnar voru geymdar, að sögn sendiboðans. Og vegna þess hve sýnin hafði verið greinileg, þekkti ég strax staðinn þegar ég kom þangað.
Skammt frá þorpinu Manchester í Ontaríó-sýslu, New York-ríki, er allhá hæð, öllum öðrum hæðum hærri á þeim slóðum. Í vesturhlíð hæðarinnar, skammt þar frá sem hún er hæst og undir allstórum steini, var töflurnar að finna í steinkistu. Steinn þessi var þykkur og bungaði í miðju að ofan, en var þynnri til jaðranna, svo að miðhluti hans sást upp úr jörðunni, en brúnirnar voru þaktar mold allt um kring.
Þegar ég hafði mokað moldinni frá, fékk ég mér vogarstöng, sem ég rak undir brún steinsins, og tókst mér að lyfta honum með nokkru átaki. Ég leit í kistuna, og svo sannarlega sá ég þar töflurnar, Úrím og Túmmím og brjóstplötuna, eins og sendiboðinn hafði sagt. Kista sú, sem þetta var í, var gerð á þann hátt, að steinar voru lagðir saman í einhvers konar steinlím. Á botni kistunnar voru tveir steinar lagðir í kross, og á steinum þessum lágu töflurnar og aðrir hlutir, sem með þeim voru.
Ég gerði tilraun til að taka þær upp, en sendiboðinn bannaði mér það og endurtók að tíminn til að birta þær væri enn ekki kominn og kæmi ekki fyrr en eftir fjögur ár frá þessum tíma að telja. En hann sagði mér, að ég ætti að koma á þennan stað nákvæmlega að einu ári liðnu, og mundi hann þá hitta mig þar, og þetta ætti ég að gera árlega, þar til sú stund rynni upp, að ég fengi töflurnar.
Ég fór því á staðinn árlega, eins og mér hafði verið boðið, og í hvert sinn var sami sendiboðinn þar fyrir, og í sérhverju samtali okkar fékk ég hjá honum fyrirmæli og upplýsingar um fyrirætlan Drottins, hvernig og á hvaða hátt stýra ætti ríki hans hina síðustu daga. …“
„Um síðir var tíminn kominn til að taka töflurnar, Úrím og Túmmím og brjóstplötuna. Hinn tuttugasta og annan dag septembermánaðar árið átján hundruð tuttugu og sjö, þegar ég hafði að vana farið að enn einu ári liðnu á þann stað, þar sem það var geymt, afhenti sami himneski sendiboðinn mér það með þeim fyrirmælum, að ég ætti að bera ábyrgð á því, og ef ég léti það frá mér fara vegna hirðuleysis eða einhverrar vanrækslu minnar, yrði ég útilokaður. En ef ég á hinn bóginn beitti öllu þreki mínu til að varðveita það, þar til hann, sendiboðinn, gerði tilkall til þess, yrði það varðveitt.
Ég komst brátt að ástæðu þess, að ég hafði fengið svo ströng fyrirmæli um að gæta þess og hverju það sætti, að sendiboðinn hafði sagt, að þegar ég hefði gert það, sem af mér væri krafist, kæmi hann til að sækja það. Ekki var það fyrr kunnugt að ég hefði það, en reynt var til hins ýtrasta að ná því frá mér. Í þeim tilgangi var neytt allra klækja, sem hægt var að finna upp. Ofsóknirnar urðu enn grimmilegri og hatrammari en áður, og hópar manna biðu sífellt færis á að ná því frá mér, ef hægt væri. En vegna visku Guðs var það óhult í höndum mínum, uns ég hafði gert við það, sem ætlast var til af mér. Þegar sendiboðinn kom til að sækja það, eins og um hafði verið talað, afhenti ég honum það, og hann hefur það í sinni umsjá til þessa dags, sem er annar dagur maímánaðar árið átján hundruð þrjátíu og átta.“
Nánari frásögn má finna í Hinni dýrmætu perlu, Joseph Smith — Saga.
Hin forna heimild, sem þannig kom fram upp úr jörðunni, sem rödd fólks úr duftinu, og þýdd var á nútímamál fyrir gjöf og kraft Guðs, eins og vottað er á guðlegan hátt, var fyrst birt heiminum á ensku árið 1830 sem The Book of Mormon.