Ritningar
Nokkrar skýringar á Mormónsbók


Nokkrar skýringar á Mormónsbók

Mormónsbók er heilagt heimildarrit um þjóðir Ameríku að fornu og var letruð á málmplötur. Þetta rit er meðal annars samantekt úr eftirfarandi heimildum:

  1. Töflur Nefís, sem voru tvenns konar; smærri töflurnar og stærri töflurnar. Hinar fyrrnefndu voru að mestu helgaðar trúarlegum efnum ásamt þjónustu og kenningum spámannanna, en hinar síðarnefndu fjölluðu aðallega um sögu viðkomandi þjóðar (1 Nefí 9:2–4). Frá tímum Mósía eru þó einnig á stærri töflunum atriði, sem hafa mikið trúarlegt gildi.

  2. Töflur Mormóns, sem geyma útdrátt Mormóns úr stærri töflum Nefís ásamt mörgum skýringum. Þessar töflur geymdu einnig framhald af sögu Mormóns ásamt viðauka sonar hans, Morónís.

  3. Töflur Eters, sem kynna sögu Jaredítanna. Þessa heimild stytti Moróní, bætti við eigin athugasemdum, og tengdi hana aðalsögunni undir heitinu „Bók Eters.“

  4. Látúnstöflurnar, sem Lehí og fólk hans flutti með sér frá Jerúsalem árið 600 f.Kr. Þær geyma „hinar fimm bækur Móse … og heimildir um Gyðingana allt frá upphafi fram til stjórnarára Sedekía, konungs í Júda; en … auk þessa … spádóma hinna heilögu spámanna“ (1 Nefí 5:11–13). Margar tilvitnanir af þessum töflum, þar sem vitnað er í Jesaja og aðra spámenn Biblíunnar, en einnig í aðra sem þar eru ekki nefndir, birtast í Mormónsbók.

Mormónsbók skiptist í fimmtán meginhluta eða þætti, sem allir, að einum undanteknum, nefnast bækur, og bera þær oftast nafn meginhöfunda sinna. Fyrsti hlutinn (fyrstu sex bókunum lýkur með Omní) er þýðing á smærri töflum Nefís. Milli bóka Omnís og Mósía er innskot, sem nefnist Orð Mormóns. Þetta innskot tengir heimildaskrá Nefís á smærri töflunum við útdrátt Mormóns úr stærri töflunum

Lengsti hlutinn, frá Mósía til og með 7. kapítula Mormóns, er þýðing á útdrætti Mormóns úr stærri töflum Nefís. Lokahlutann, frá 8. kapítula Mormóns og til enda bókarinnar, letraði Moróní, sonur Mormóns. Hann lauk fyrst frásögninni af lífi föður síns, en gerði síðan útdrátt úr Jaredítaheimildunum (sem er Bók Eters) og bætti þar næst við þeim hluta, sem okkur er kunnur undir heitinu Bók Morónís.

Árið 421 e.Kr., eða þar um bil, innsiglaði Moróní, síðasti spámaður og sagnaritari Nefíta, hinar helgu heimildir og fól þær Drottni, til að leiða þær fram á síðari dögum, eins og rödd Guðs fyrir munn hinna fornu spámanna hafði sagt fyrir um. Árið 1823 vitjaði þessi sami Moróní, þá upprisin vera, spámannsins Josephs Smith og afhenti honum því næst hinar áletruðu töflur.

Um þessa útgáfu: Upprunalega titilsíðan sem er næst á undan efnissíðunni, kemur af plötunum og er hluti af hinum helga texta. Formálarnir, sem eru með óbreyttu letri, eins og í 1. Nefí og strax á undan 9. kapítula Mósía, eru einnig hluti af þessum helga texta. Skáletraðir formálar, eins og sjá má í fyrirsögn kaflanna, eru ekki hluti af upprunalegum texta heldur hjálpartexti til þæginda við lestur.

Nokkrar smávægilegar textavillur hafas læðst inn í eldri útgáfur Mormónsbókar á ensku og haldist þar. Í þessari útgáfu eru þær leiðréttar og virðist textinn nú í samræmi við handrit og fyrri útgáfur sem Joseph Smith ritskoðaði.