Kenningar forseta
29. Kafli: Lifa með öðrum í sátt og samlyndi


29. Kafli

Lifa með öðrum í sátt og samlyndi

„Við viljum lifa í friði með öllum mönnum.“

Úr lífi Josephs Smith

Eitt af því sem Síðari daga heilagir þráðu á upphafsárunum var einfaldlega að fá að lifa eftir trúarbrögðum sínum í friði. En frið var hvergi að finna hvert sem þeir fluttu. Árið 1833, aðeins tveimur árum eftir að staður fyrir samansöfnunina var vígður í Missouri, hrakti múgur hina heilögu frá Jackson-sýslu, Missouri (sjá bls. 279). Meðlimir kirkjunnar fundu sér athvarf til bráðabirgða í Clay-sýslu, Missouri, og hófu síðan að flytjast til norðurhluta Missouri árið 1836. Flestir þeirra settust að í Caldwell-sýslu, en sú sýsla hafði nýlega verið stofnuð af löggjafarþinginu til landnáms fyrir landflótta Síðari daga heilaga. Far West, sem var hérað, blómstraði brátt sem nýlenda Síðari daga heilagra.

Spámaðurinn Joseph Smith bjó enn í Kirtland, Ohio, en í janúar 1838 neyddist hann til að flytja sökum þess að hann óttaðist um líf sitt. Hann ferðaðist yfir 1400 kílómetra með fjölskyldu sinni til Far West og sameinaðist hinum heilögu sem þar bjuggu. Síðar á árinu 1838 seldu eða yfirgáfu flestir hinna heilögu heimili sín og fylgdu spámanninum til Missouri. Spámaðurinn liðsinnti meðlimum kirkjunnar, sem streymdu á landsvæðið, með því að úthluta þeim landi nærri Far West, þar sem hinir heilögu gátu hafið landnám. Árið 1838 var hornsteinn musterisins í Far West vígður og veitti það hinum heilögu von um að þeir fengju að koma á fót varanlegri byggð, þar sem þeir gætu notið velmegunar og friðsældar. Til allrar óhamingju upplifðu hinir heilögu álíka togstreitu og í Jacksonsýslu, sem aðskildi þá frá öðrum íbúum þar, og um haustið 1838 tóku múgur og varnarlið enn að ógna þeim.

Dag einn, er spámaðurinn heimsótti foreldra sína á heimili þeirra í Far West, ruddist vopnað varnarlið þar inn og sagðist vera komið til að drepa hann fyrir glæpi sem hann átti að hafa framið. Móðir spámannsins, Lucy Mack Smith, lýsti sáttargjöf hans:

„[Joseph] leit vingjarnlega og brosandi á þá, gekk til þeirra og tók í hönd þeirra allra, sem sannfærði þá um að hann væri hvorki glæpamaður né hræsnari. Þeir hikuðu við og gláptu líkt og draugur hefði gengið þar hjá.

Joseph settist niður, ræddi við þá og útskýrði fyrir þeim skoðanir og tilfinningar fólksins, sem nefnt var mormónar, þá erfiðleika sem það hefði þurft að þola, hina illu meðferð sem það hefði sætt af hendi óvina sinna frá upphafi kirkjunnar. Hann sagði þeim að illvilji og lastmælgi hefðu fylgt því frá því að það kom til Missouri, og að það hefði að hans vitund aldrei brotið nein lög. En hefði það gert það, væri það reiðubúið að sæta lögum. …

Að þessu loknu reis hann á fætur og sagði: ,Móðir góð, ég held ég fari nú heim. Emma býst við mér.‘ Tveir mannanna spruttu upp og sögðu: ,Farðu ekki einn, því þér er ekki óhætt. Við fylgjum þér og veitum þér vernd.‘ Joseph þakkaði þeim fyrir og fór í fylgd þeirra.

Þeir mannanna sem eftir urðu stóðu vörð við dyrnar, meðan hinir voru í burtu, og ég heyrði eftirfarandi samræður sem þeim fór á milli:

Fyrsti liðsforingi: ,Leið þér ekki undarlega þegar Smith tók í höndina á þér? Ég hef aldrei fundið neitt slíkt áður.‘

Annar liðsforingi: ,Mér leið eins og ég gæti ekki hreyft mig. Ég mundi aldrei nokkurn tíma skaða eitt hár á höfði þessa manns.‘

Þriðji liðsforingi: fietta er í síðasta sinn sem þið sjáið mig koma til að drepa Joe Smith eða mormónana.‘ …

Þeir mannanna sem fóru með syni mínum hétu því að yfirgefa varnarliðið og fara til síns heima, og sögðust fylgja honum hvert sem hann færi, ef hann hefði einhver not af þeim.“1

Joseph Smith sigraðist á fordómum og fjandskap og kom á friði við marga þá sem áður höfðu verið óvinir hans, með því að mæla fram sannleikann í vinsemd og hreinskilni.

Kenningar Josephs Smith

Við getum lifað í sátt og samlyndi við aðra, ef við reynum að vera friðflytjendur.

„Jesús sagði: ,Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.‘ [Matt 5:9.] Ef þjóðin, fylkið, samfélagið eða fjölskyldan ætti að vera þakklát fyrir eitthvað, væri það fyrir að friður ríkti.

Friður, yndislega barn himins! – Friður líkt og ljós frá hinu mikla foreldri, seðjar, lífgar og gleður réttláta sem rangláta og er undirstaða hamingju á jörðu og himnasælu á himni.

Sá sem ekki reynir af öllum sínum mætti, huga og sál, og með áhrifum sínum bæði heima og að heiman – og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama – að leita friðar og varðveita hann sér til góðs og velsældar og til heiðurs fylki sínu, þjóð og landi, á engan rétt á að krefjast miskunnar af mönnum, eða biðja um vinsemd kvenna, eða njóta verndar ríkisins.

Hann er líkur tréormi sem etur sitt eigið líffæri og nærist á eigin líkama, og [eyðileggur] eigin velsæld og lífsánægju.

Samfélag slíkra er ekki fjarri víti á jörðu og ætti ekki að njóta velþóknunar hinna frjálsu eða lofs hinna huguðu.

Ó, hlýðið á friðflytjandann! Því þau orð og þær kenningar sem úr munni hans koma eru sem regn í þurrki og fersk sem döggin. Þau eru sem mildar skúrir á grængresið og hóflegt regn á jurtirnar.

Lífsgleði, dyggð, ást, mannúð, góðvild, samúð, manngæska og vinskapur gerir lífið að alsælu. Og menn, litlu minni en englar, sem nota mátt sinn, forréttindi og þekkingu í samræmi við reglur og skipan opinberana frá Jesú Kristi, búa saman í einingu, og hin ljúfa angan sem berst með andvara þeirrar gleði og ánægju sem í samfélagi hinna réttlátu ríkir, er sem sterkur ilmur hinnar helgu olíu sem dreypt var á höfuð Arons, eða sem höfgandi ilmur er berst frá akri arabískra kryddjurta. Já, slík er rödd friðflytjandans –

Hún er eins og tónlist himinhvolfanna –

er heillar sálina og sefar óttann,

og gerir heiminn að paradís,

og menn að dýrmætum perlum.“2

„Kæru bræður, haldið áfram í bróðurlegri elsku, gangið í hógværð og í bæn svo þið verðið ei yfirbugaðir. Keppið eftir því sem til friðarins heyrir, líkt og ástkær bróðir okkar Páll sagði, svo þið verðið börn föður okkar á himnum [sjá Róm 14:19].“3

„Góðvilji til allra, skynsemi og siðfágun sem eykur okkur dyggð, og gott fyrir illt er … betur fallið til lækningar laskaðra samfélaga, en vísun til vopna eða óvinsamlegar deilur. … Kjörorð okkar er því, að friður megi ríkja meðal allra! Ef við gleðjumst í elsku Guðs, færum þá rök fyrir þeirri gleði, sem allur heimurinn fær hvorki mótmælt né staðist.“4

„Við viljum lifa í friði með öllum mönnum.“5

Við getum komið á friði með því að heiðra hvert annað og líta fram hjá misbrestum.

„Von okkar er sú að bræðurnir séu varkárir varðandi tilfinningar hver annars, sýni elsku og heiðri hver annan meira en sig sjálfa, líkt og Drottinn krefst.“6

„Við ættum að dásama dyggðir þess sem vill gjöra gott, en ekki minnast á bresti hans án hans vitundar.“7

„Mannkyn hér í heimi er í dag sjálfselskt að eðlisfari, metnaðargjarnt og keppist við að setja einn ofar öðrum. Þó eru sumir fúsir til að byggja upp aðra jafnt og sjálfa sig.“8

„Hinir Tólf og allir heilagir ættu að vera fúsir til að játa allar sínar syndir og hylja ekki sumar þeirra. Þeir ættu að vera auðmjúkir og ekki að upphefja sjálfa sig, varast drambsemi og ekki hneigjast til þess að setja einn ofar öðrum, heldur breyta hver öðrum til góðs, biðja fyrir hver öðrum, heiðra bróður sinn og tala um nafn hans af virðingu, en ekki rægja hann og baktala.“9

„Ef þið látið af öllu illu umtali meðal ykkar, rógburði, smásálarlegri hugsun og tilfinningu, auðmýkið ykkur sjálf og leggið rækt við hverja reglu dyggðar og elsku, munu blessanir Jehóva hvíla á ykkur og þið munuð lifa góða og dásamlega daga. Friður og velsæld munu ríkja innan veggja ykkar.“10

Við getum ræktað einingu í samfélögum okkar með því að virða frelsi allra manna til trúarlífs samkvæmt sinni eigin samvisku.

Trúaratriðin 1:11: „Vér krefjumst þeirra réttinda að fá að tilbiðja almáttugan Guð, eftir því sem eigin samviska býður, og viðurkennum sömu réttindi til handa öllum mönnum. Lofum þeim að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað sem þeim þóknast.“11

„Við teljum þessa reglu réttláta og hana ætti hver einstaklingur að ígrunda vandlega, að allir menn eru skapaðir jafnir og allir hafa rétt á að hugsa sjálfstætt um allt er tengist samviskunni. Okkur leyfist því ekki að svipta einhvern þeim rétti að hugsa sjálfstætt, sé það í okkar valdi, því það er ein af hinum bestu gjöfum himins, sem náðarsamlega er veitt mannkyni.“12

„Ég er afar frjálslyndur og umburðarlyndur gagnvart öllum trúarsöfnuðum og túarhópum. Réttindi og frelsi að eigin samvisku eru mér helg og kær og ég fyrirlít engan, þótt skoðanir hans séu ólíkar mínum.“13

„Hinir heilögu geta borið vitni um hvort ég sé fús til að fórna eigin lífi fyrir bræður mína. Sé sannreynt að ég sé fús til að deyja fyrir ,mormóna,‘ þá fullyrði ég djarflega frammi fyrir himnum, að ég er jafn fús til að deyja til varnar réttindum öldungakirkjunnar, baptista eða sérhvers góðs manns einhvers trúarsafnaðar. Því ef troðið væri á réttindum Síðari daga heilagra af einhverjum ástæðum, yrði einnig troðið á réttindum rómverksk kaþólskra, eða einhvers annars trúarsafnaðar, sem þætti óvinsæll og of veikburða til að verja sig sjálfur.

Það er frelsisástin sem innblæs sál mína – hið borgaralega og trúarlega frelsi alls mannkyns. Afar mínir innrættu mér frelsisást meðan þeir hömpuðu mér á hnjám sínum. …

Ef ég tel mannkyn fara villu vegar, á ég þá að láta það afskiptalaust? Nei. Ég mun lyfta því upp, og á þess eigin hátt, takist mér ekki að sýna fram á að minn háttur sé betri, með rökvísi einni saman, því sannleikurinn fer sínar eigin leiðir.“14

„Við ættum ávallt að varast þá fordóma, sem birtast á svo furðulegan hátt og eru mönnum svo eðlislægir, er beinast gegn vinum okkar, nágrönnum og bræðrum í heiminum, sem kjósa að hafa aðrar skoðanir en við, einnig hvað trúnni viðkemur. Trúarbrögð okkar eru á milli okkar og Guðs. Trúarbrögð þeirra eru á milli þeirra og Guðs.“15

„Þegar við sjáum dyggðuga kosti manna, ættum við ávallt að viðurkenna þá, hver sem skilningur þeirra er varðandi trúarjátningar þeirra og kenningar; því allir menn eru eða ættu að vera frjálsir, hafa óafsalanlegan rétt, og háverðuga og göfuga eiginleika náttúrulögmálsins og búa að sjálfsbjargarhvöt, til að hugsa og gera og segja það sem þeir vilja, og um leið bera virðingu fyrir rétti og forréttindum allra annarra manna, og brjóta ekki á neinum. Ég styð og tileinka mér þessa kenningu af öllu hjarta.“16

„Allir eiga rétt á sjálfræði, því Guð hefur ákvarðað það. Hann hefur gert manninn sjálfráða, veitt honum vald til að velja gott eða illt; að leita hins góða með því að ganga veg heilagleikans í lífinu, sem veitir hugarró og gleði í heilögum anda hér, og fyllingu gleði og hamingju við hægri hönd hans í næsta lífi; eða leita hins illa, með því að syndga og vera í andstöðu við Guð, sem leiðir til fordæmingar sálarinnar í þessum heimi og eilífrar glötunar í komandi heimi. Þar sem Guð hefur gefið hverjum manni slíkt val, höfum við ekki löngun til að svipta hann því. Við viljum aðeins vera sem trúfastir varðmenn, sem samræmist orðum Drottins til spámannsins Esekíel (Esekíel, kafli 33, vers 2, 3, 4, 5), og leyfa öðrum að breyta líkt og þeir best telja.“17

„Það er ein af frumreglum lífs míns, og sú sem ég hef lagt hvað ríkulegasta rækt við frá barnæsku, því faðir minn kenndi mér, að leyfa öllum að hafa frjálsa samvisku. … Í hjarta mér er ég ætíð fús til að deyja til verndar réttindum hinna veikburða og undirokuðu.“18

„Hafið ekki afskipti að trúarbrögðum annarra: Hver ríkisstjórn ætti að leyfa öllum mönnum að njóta trúar sinnar afskiptalaust. Engum manni er heimilt að taka líf annarra sökum ágreinings í trúmálum. Trúarbrögð ættu lög og stjórnvöld að vernda og umbera að fullu, hvort heldur röng eða rétt.“19

„Við munum … leggja rækt við frið og vinskap við alla, sinna okkar eigin málum, og njóta vegsemdar, og með því að virða aðra, virðum við okkur sjálfa.“20

„Þótt ég hafi aldrei neytt kenningum mínum upp á neinn, fagna ég er ég sé fordóma hopa fyrir sannleikanum og hefðir manna hverfa sökum hinna ómenguðu reglna fagnaðarerindis Jesú Krists.“21

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögnina um Joseph Smith er hann talar við meðlimi varnarliðsins (bls. 339–40). Hvers vegna teljið þið að spámanninum hafi tekist að halda ró sinni við þessar aðstæður? Íhugið önnur dæmi þar sem þið hafið séð fólk halda ró sinni við erfiðar aðstæður. Hvað leiddi af breytni þeirra?

  • Lesið bls. 341–42 og takið eftir orðum og orðasamböndum sem spámaðurinn notaði til að lýsa friði og friðflytjendum. Hvaða eiginleikar gera okkur kleift að vera friðflytjendur á heimili okkar og í samfélagi?

  • Lesið aðra málsgreinina á bls. 343. Hvernig líður ykkur þegar þið leitið að brestum í öðrum? Hvernig líður ykkur þegar þið leitið að dyggðum í öðrum? Hvernig teljið þið að öðrum líði þegar þið gefið ykkur tíma til að taka eftir dyggðum þeirra?

  • Lesið þriðju málsgreinina á bls. 343. Hvernig getum við byggt hvert annað upp? Hvað hafa aðrir gert til að byggja ykkur upp? Hvernig getur slík breytni leitt til friðar?

  • Lesið bls. 343–45 og takið eftir kenningum spámannsins um hvernig við eigum að koma fram við þá sem eru annarrar trúar en við. Hvernig getum við virt rétt annarra til þess að „tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað sem þeim þóknast.“?

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 345. Hvernig getum við miðlað öðrum fagnaðarerindinu og jafnframt borið virðingu fyrir trú annarra?

Ritningargreinar tengdar efninu: Ef 4:31–32; Mósía 4:9–16; 4 Ne 1:15–16; K&S 134:2–4, 7

Heimildir

  1. Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Mack Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 15, bls. 8–10, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 6:245–46; stafsetning færð í nútímahorf; úr “A Friendly Hint to Missouri,“ grein rituð undir leiðsögn Josephs Smith, 8. mars 1844, Nauvoo, Illinois, gefin út í Times and Seasons, 15. mars 1844, bls. 473.

  3. Bréf frá Joseph Smith og fleirum til meðlima kirkjunnar í Thompson, Ohio, 6. febr. 1833, Kirtland, Ohio; Letter Book 1, 1829–35, bls. 26, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. History of the Church, 6:219–20; greinaskilum bætt við; úr “Pacific Innuendo,“ grein rituð undir leiðsögn Josephs Smith, 17. febr. 1844, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. febr. 1844, bls. 443; þetta tölublað Times and Seasons var gefið út seint.

  5. History of the Church, 2:122; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Johns Lincoln og annarra, 21. júní 1834, Clay-sýslu, Missouri, birt í Evening and Morning Star, júlí 1834, bls. 176.

  6. History of the Church, 1:368; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til William W. Phelps og bræðranna í Missouri, 25. júní 1833, Kirtland, Ohio.

  7. History of the Church, 1:444; færsla úr dagbók Josephs Smith, 19. nóv. 1833, Kirtland, Ohio.

  8. History of the Church, 5:388; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 14. maí 1843, í Yelrome, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  9. History of the Church, 3:383–84; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 2. júlí 1839, í Montrose, Iowa; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  10. History of the Church, 4:226; úr bréfi frá Joseph Smith og Hyrum Smith til hinna heilögu í Kirtland Ohio, 19. okt. 1840, Nauvoo, Illinois.

  11. Trúaratriðin 1:11.

  12. History of the Church, 2:6–7; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,“ 22. jan. 1834. birt í Evening and Morning Star, febr. 1834, bls. 135.

  13. Bréf frá Joseph Smith til Isaac Galland, 22. mars 1839, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri, birt í Times and Seasons, febr. 1840, bls. 55–56.

  14. History of the Church, 5:498–99; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júlí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  15. History of the Church, 3:303–4; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri.

  16. History of the Church, 5:156; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til James Arlington Bennet, 8. sept. 1842, Nauvoo, Illinois; eftirnafn James Bennet er ranglega stafsett „Bennett“ í History of the Church.

  17. History of the Church, 4:45, neðanmálsgrein; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Æðsta forsætisráðinu og háráðinu til hinna heilögu sem bjuggu í vestur-Kirtland, Ohio, 8. des. 1839, Commerce, Illinois, birt í Times and Seasons, des. 1839, bls. 29.

  18. History of the Church, 6:56–57; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 15. okt. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  19. History of the Church, 6:304; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  20. History of the Church, 6:221; úr bréfi frá Joseph Smith til ritstjóra Nauvoo Neighbor, 10. febr. 1844, Nauvoo, Illinois, birt í Nauvoo Neighbor, 21. febr. 1844; þetta bréf er ranglega dagsett 19. febr. 1844, í History of the Church.

  21. History of the Church, 6:213; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til Josephs L. Heywood, 13. febr. 1844, Nauvoo, Illinois.

Ljósmynd
Joseph with militiamen

Þegar vopnað varnarlið kom til Far West, Missouri, til að handtaka Joseph Smith „leit [hann] vingjarnlega og brosandi á þá, gekk tilþeirra og tók í höndþeirra allra.“

Ljósmynd
Sermon on the Mount

Í fjallræðunni kenndi frelsarinn: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“