Kenningar forseta
14. Kafli: Orð vonar og huggunar þegar dauða ber að


14. Kafli

Orð vonar og huggunar þegar dauða ber að

„Við hvað getum við huggað okkur þegar dauða ber að? Við höfum ríkari ástæðu til vonar og huggunar, vegna okkar dánu, en allir aðrir á jörðinni.“

Úr lífi Josephs Smith

Ástvinamissir var tíður í lífi spámannsins Josephs Smith. Hinn 15. júní 1828 dó Alvin, elsti sonur Josephs og Emmu, stuttu eftir fæðingu, í Harmony, Pennsylvaníu. Þegar Joseph og Emma fluttu frá New York til Kirtland, Ohio, í febrúar 1831, var Emma með barni að nýju og í þetta skiptið gekk hún með tvíbura. Stuttu eftir komu Josephs og Emmu til Kirtland fluttu þau í bjálkakofa á sveitabýli Isaacs Morley, sem var meðlimur kirkjunnar. Þar fæddust Thadeus litli og Louisa, hinn 30. apríl, en ævi þeirra var stutt, því þau dóu nokkrum stundum eftir að þau komu í heiminn.

Á sama tíma, í nágrannabænum Warrensville, Ohio, missti bróðir John Murdock eiginkonu sína, Juliu, sem hafði fætt heilbrigða tvíbura. Bróðir Murdock sá sér ekki fært að annast nýfædda tvíburana, þar sem hann átti fimm börn fyrir og bað því Joseph og Emmu um að ættleiða þá. Joseph og Emma tóku þakklát við hvítvoðungunum tveimur í fjölskylduna, en þeir voru nefndir Joseph og Julia. Það var mikill harmur er Joseph litli lést ellefu mánuðum síðar, í mars 1832, af völdum mislinga og kulda, sömu nótt og múgur tjargaði og fiðraði spámanninn. Með þessum missi höfðu syrgjandi foreldrarnir fylgt fjórum af fimm börnum sínum til grafar, Julia var eina barnið sem eftir lifði.

Af ellefu börnum Josephs og Emmu – níu blóðskyldum og tveimur ættleiddum – náðu aðeins fimm fullorðinsaldri: Julia, fædd 1831; Joseph III, fæddur 1832; Frederick, fæddur 1836; Alexander, fæddur 1838; og David, fæddur í nóvember 1844, fimm mánuðum eftir dauða föður síns. Don Carlos, 14 mánaða gamall sonur Josephs og Emmu, lést árið 1841, og sonur sem fæddist þeim árið 1842 lést samdægurs.

Joseph missti einnig þrjá bræður. Ephraim lést stuttu eftir fæðingu árið 1810, eldri bróðir Josephs, Alvin, lést árið 1823, 25 ára að aldri, og yngri bróðir hans, Don Carlos, lést einnig 25 ára að aldri árið 1841.

Spámaðurinn varð fyrir öðrum sárum missi þegar faðir hans, sem hann hafði reitt sig á til ráðgjafar og styrks, lést í Nauvoo, Illinois, árið 1840. Þegar faðir Josephs gerði sér ljóst að dauðinn nálgaðist, kallaði hann fjölskyldu sína að rúmstokknum. Hann sagði við eiginkonu sína: „Þegar ég lít á börn mín og mér verður ljóst að þótt þau hafi verið alin upp til að starfa að verki Drottins, þurfa þau samt að takast á við erfiðleika og sorgir meðan þau lifa á jörðinni, finnst mér það sárt og ég kvíði því að þurfa að yfirgefa ykkur umkringd óvinum.“1

Síðan talaði hann við hvern son sinn og dóttir og veitti þeim sína síðustu blessun. Líkt og skráð er af móðir spámannsins mælti hann þessi hughreystandi orð til spámannsins Josephs:

„ ,Sonur minn, Joseph, þú ert kallaður til hárrar og helgrar köllunar. Þú ert jafnvel kallaður til að gjöra verk Drottins. Vertu ávallt staðfastur og þú munt blessaður og börn þín að þér förnum. Þú munt ná að ljúka verki þínu.‘

Þá hrópaði Joseph, grátandi: ,Ó, faðir minn, mun ég gera það?‘ Faðir hans sagði: ,Já, þú munt lifa þangað til þú hefur unnið það verk sem Guð hefur falið þér. Þetta er blessun mín til þín áður en ég dey, í nafni Jesú Krists.‘ “2

Þessi erfiða reynsla spámannsins Josephs Smith, og innblásinn skilningur hans á friðþægingu frelsarans, gerði honum kleift að veita hinum mörgu heilögu er syrgðu heitt þráða huggun.

Kenningar Josephs Smith

Þegar ástvinir eða vinir deyja, hljótum við mikla huggun í þeirri vitneskju að við hittum þá aftur í komandi heimi.

Hinn 7. apríl 1844 talaði spámaðurinn á ráðstefnu í Nauvoo. Hann talaði um vin sinn King Follett, sem hafði nýlega látist: „Ástkæru heilagir, ég óska eftir athygli þessa safnaðar er ég tala um mál sem varða hina dánu. Dauði okkar ástkæra bróður, öldungs King Follett, sem kramdist til bana í brunni er á hann féll stórt kerald fullt af grjóti, hefur leitt huga minn að þessu málefni. Vinir hans og ættingjar hafa beðið mig að ræða þetta mál, og þar sem margir í söfnuðinum, og einnig þeir sem búa í þessari borg og nágrenni hennar, hafa misst ástvini, finn ég mig knúinn til að ræða það almennt við ykkur og útskýra vitneskju mína um það, eftir því sem mér er fært og andinn blæs mér í brjóst. Ég þarfnast bæna ykkar og trúar, að ég hljóti leiðsögn hins almáttuga Guðs og njóti gjafar heilags anda, svo ég geti kunngjört sannleikann og að þið megið auðveldlega skilja mál mitt, og að sá vitnisburður megi sannfæra hjörtu ykkar og huga um þann sannleika sem ég útskýri. …

… Ég veit að vitnisburður minn er sannur: Hverju hafa þessir syrgjendur glatað? Ættingjar þeirra og vinir skilja aðeins við líkama sinn um stund. Þeir andar sem áður lifðu hjá Guði hafa yfirgefið leirmusteri sitt, en aðeins um stund, ef svo má að orði komast, og nú lifa þeir á stað þar sem þeir geta rætt saman alveg eins og við gerum hér á jörðinni. …

… Hvað höfum við til huggunar varðandi okkar dánu? Við höfum ástæðu til undursamlegrar vonar og huggunar gagnvart okkar dánu, hvar sem við erum á jörðinni, því við höfum séð þau ganga verðug meðal okkar og andast síðan í örmum Jesú. …

Þið sem syrgið öldung King Follett hafið ástæðu til að fagna yfir dauða hans, því eiginmaður þinn og faðir ykkar er farinn og bíður upprisu hinna dánu – þegar fullkomnun fæst, því í upprisunni mun vinur ykkar rísa upp í fullkominni hamingju og fara í himneska ríkið. …

Ég hef heimild til að segja, með valdi heilags anda, að þið hafið ekkert tilefni til að óttast, hann er farinn í híbýli hinna réttlátu. Syrgið ei, grátið ei. Ég veit það fyrir vitnisburð heilags anda, sem í mér er, og þið getið beðið þess að ástvinur ykkar komi fram til að dvelja með ykkur að morgni hins himneska heims. …

Ég á föður, bræður, börn og vini sem farið hafa í heim andanna. Þau eru fjarri aðeins stutta stund. Þau eru í andanum og við munum brátt sjá þau aftur. Sá tími er senn fyrir dyrum að lúðurinn gjalli. Þegar við förum munum við heilsa mæðrum okkar, feðrum, vinum og öllum þeim sem okkur eru kærir, sem sofnað hafa í trú á Jesú. Þar verður hvorki ótti við múg, ofsóknir, né illgjarnar málsóknir og handtökur; þar mun ríkja eilíf hamingja.“3

Öldungur Lorenzo D. Barnes lést er hann þjónaði sem trúboði í Englandi. Spámaðurinn talaði um lát hans á samkomu sem haldin var í hinu ófullgerða Nauvoo-musteri: „Ég ætla að segja ykkur hvað ég vil. Ef ég verð kallaður á morgun til að liggja í þessari gröf, mun ég taka í hönd föður míns að morgni hinnar fyrstu upprisu, og hrópa ,faðir minn‘ og hann mun segja, ,sonur minn, sonur minn,‘ um leið og steinninn klofnar og áður en við stígum úr gröfunum.

Og ættum við að hugleiða á þennan hátt? Já, ef við lærum hvernig við eigum að lifa og deyja. Þegar við leggjumst niður hugleiðum við hvernig við getum risið upp að morgni. Og ánægjulegt er fyrir vini að leggjast niður saman, í ástarörmum hvor annars, að hvílast og vakna í faðmlögum og hefja samræður að nýju.

Mynduð þið álíta það kynlegt, ef ég segðist hafa hlotið opinberun í sýn varðandi þetta áhugaverða efni? Þeir sem dáið hafa í Jesú Kristi geta vænst þess, þegar þeir koma fram, að hljóta alla þá fyllingu gleðinnar sem þeir höfðu eða nutu hér.

Sýnin var svo greinileg, að ég sá í raun menn áður en þeir risu upp úr gröfinni, líkt og þeir stæðu upp hægt og rólega. Þeir tóku í hendur hver annars og sögðu: ,Faðir minn, sonur minn, móðir mín, dóttir mín, bróðir minn, systir mín.‘ Og þegar röddin kallar og býður hinum dánu að rísa upp, hver væru þá mín fyrstu gleðiviðbrögð, ef ég lægi við hlið föður míns? Að sjá föður minn, móður mína, bróður minn, systur mína. Og þegar þau væru mér við hlið, myndi ég faðma þau að mér og þau mig. …

Hugsunin um algjöra tortímingu er mér kvalafyllri en dauði. Ef ég ætti enga von um að sjá föður minn, móður, bræður, systur og vini að nýju, myndi hjarta mitt samstundis bresta, og ég myndi hverfa niður í gröf mína. Sú von, að sjá ástvini mína að morgni upprisunnar, gleður sál mína, og veldur því að ég mun ekki láta hugfallast andspænis hinu illa í lífinu. Það er líkt og þeir séu í langri ferð og við endurkomu þeirra verður gleði okkar því meiri. …

Ég beini huggunarorðum til Marcellus Bates [meðlims kirkjunnar sem hafði misst eiginkonu sína]. Brátt munt þú verða í návist eiginkonu þinnar, í heimi dýrðar, og einnig ástvinir bróður Barnes, og allir hinir heilögu sem syrgja. Þetta er okkur öllum rödd aðvörunar, um að vera einlæg, kostgæfin og hætta allri ofurkátínu, hégómagirnd og glópsku, og vera viðbúin því að deyja á morgun.“4

Foreldrar sem áttu börn sem dóu, munu fá þau til sín í upprisunni eins og þau voru þegar þau voru lögð til hvílu.

Spámaðurinn sagði við útför hinnar tveggja ára gömlu Marian Lyon: „Rödd aðvörunar hefur hljómað að nýju meðal okkar, sem ber vott um ótrygga tilveru mannsins, og í frístundum mínum hef ég íhugað þetta efni og spurt þessarar spurningar: Hvers vegna eru ungbörn, saklaus börn, tekin frá okkur, einkum þau sem virðast greindust og áhugaverðust. Helstu ástæður þess sem í huga minn koma eru þessar: Þessi heimur er ákaflega ranglátur, og hann … verður æ ranglátari og spilltari. … Drottinn tekur marga í burtu, jafnvel ungbörn, svo þau megi komast hjá öfund mannsins, og sorg og illsku þessa heims. Þau voru of hrein, of yndisleg til að lifa á jörðinni, þess vegna, ef réttilega er hugsað, höfum við ástæðu til að fagna í stað þess að syrgja, því þau eru frelsuð frá hinu illa og við munum senn fá þau á ný. …

… Enginn munur er á því að deyja ungur eða aldraður nema sá að hinn fyrri lifir lengur í himnaríki, í eilífu ljósi og dýrð, og frelsast því fyrr frá þessum vansæla, rangláta heimi. Þrátt fyrir alla þessa dýrð, missum við um stund sjónar á henni, og syrgjum missi okkar, en við syrgjum ekki líkt og þeir sem enga von eiga.“5

„Menn geta spurt: ,Munu mæður hafa börn sín í eilífðinni?‘ Já! Já! Mæður, þið munuð hafa börn ykkar, því þau munu hljóta eilíft líf, þar sem skuld þeirra er greidd.“6

„Börn … hljóta að rísa upp, rétt eins og þau dóu. Við getum fagnað yfir að okkar indælu ungbörn munu hljóta sömu dýrð – sömu fegurð í himneskri dýrð.“7

Joseph F. Smith, sjötti forseti kirkjunnar, sagði: „Joseph Smith kenndi þá kenningu að þau ungbörn sem deyja, munu rísa upp sem börn, og er hann benti á móður látins barns, sagði hann: ,Þú munt njóta þeirrar gleði, ánægju og fullnægju að ala upp þetta barn, eftir upprisu þess, allt þar til það hefur náð fullum þroska andans.‘ …

Árið 1854 hitti ég frænku mína [Agnes Smith], konu frænda míns, Don Carlos Smith, en hún var móðir þessarar litlu stúlku, [Sophronia], sem spámaðurinn Joseph Smith vísaði til, þegar hann sagði móður barnsins, að hún myndi njóta þeirrar gleði, ánægju og fullnægju að ala það upp eftir upprisu þess, allt þar til það næði fullum þroska andans, og að gleði hennar yrði dýpri en hún gæti nokkurn tíma orðið í jarðlífinu, því hún yrði óháð sorg, ótta og vanmætti þessa jarðneska lífs, og einnig að hún myndi búa að meiri þekkingu en hún hafi í þessu lífi. Ég hitti þessa ekkju, móður þessa barns, og hún greindi frá þessum atburði og bar mér vitni um að spámaðurinn Joseph Smith hefði sagt þessi orð við sig, þegar hann talaði við útför litlu dóttur hennar.“8

Mary Isabella Horne og Leonora Cannon Taylor misstu báðar börn sín ung. Systir Horne minntist þess er spámaðurinn Joseph Smith veitti systrunum þessi huggunarorð: „Hann sagði okkur að við myndum taka á móti þessum börnum að morgni upprisunnar, rétt eins og við lögðum þau niður, í hreinleika og sakleysi, og sem mæður þeirra myndum við ala þau upp og annast þau. Hann sagði að börn myndu rísa upp í upprisunni, líkt og þau voru lögð niður, og þau myndu hljóta alla nauðsynlega vitsmuni til að hljóta hásæti, tignir og völd.“9

Þegar við syrgjum dauða ástvina okkar, getum við treyst því að „Guð allrar jarðarinnar muni gera rétt.“

Spámaðurinn sagði við útför hins 24 ára gamla Ephraims Marks: „Þessi stund er afar hátíðleg og yfirþyrmandi. Ég hef aldrei fundið fyrir jafn miklum hátíðleika. Þessa stund minnist ég bróður míns, Alvins, sem lést í New York, og yngsta bróður míns, Dons Carlos Smith, sem lést í Nauvoo. Mér hefur reynst erfitt að lifa á jörðinni og horfa upp á þessa ungu menn, sem við nutum styrks og huggunar af, tekna frá okkur á æskuárum þeirra. Já, það hefur verið erfitt að sætta sig við það. Það hefur stundum hvarflað að mér að ég hefði betur sætt mig við að vera sjálfur kallaður í burtu, ef það væri vilji Guðs, en ég veit að okkur ber að halda ró okkar, vita að þetta er vilji Guðs og sætta okkur við að allt sé eins og vera ber. Það mun aðeins líða stutt stund áður en við verðum kölluð burt á sama hátt. Það getur átt við um mig, sem og ykkur.“10

Hinn 6. júní 1838 skrifaði Joseph Smith til Emmu Smith: „Ég varð sorgbitinn er ég heyrði að Hyrum hefði misst litla barnið sitt. Ég tel að við getum öll að vissu marki samhryggst honum, en við verðum að sætta okkur við hlutskipti okkar og segja, verði Drottins vilji.“11

Hinn 20. janúar 1840 skrifaði Joseph Smith til Emmu Smith: „Ég fékk bréf frá Hyrum sem gladdi hjarta mitt, er ég komst að því að fjölskylda mín væri öll á lífi. En hjarta mitt syrgir þá sem teknir hafa verið frá okkur, en þó ekki án vonar, því ég mun sjá þau öll aftur og verða með þeim. Þess vegna getum við sætt okkur við ákvarðanir Guðs.“12

„Við virðum dauða hinna látnu í Síon, og erum fúsir til að syrgja með syrgjendum, en minnist þess að Guð allrar jarðarinnar mun gera hið rétta.“13

„Mannslátin hafa verið mörg og skilið eftir dapurlegar hugleiðingar, en ekki er hjá því komist. Þegar Guð talar af himni og kallar okkur burt, verðum við að beygja okkur undir þá tilhögun.“14

Spámaðurinn sagði við útför James Adams: „Ég sá hann fyrst í Springfield, [Illinois,] á leið minni frá Missouri til Washington. Hann leitaði mín, mér ókunnugur, fór með mig heim til sín, hvatti mig og gladdi og gaf mér peninga. Hann hefur verið mér trúnaðarvinur. … Hann hlaut opinberun varðandi brottför sína og er farinn til að sinna mikilvægari verkum. Séu menn viðbúnir eru þeir betur settir er þeir fara héðan. Bróðir Adams er farinn til að ljúka upp áhrifamiklum dyrum fyrir hina dánu. Andar hinna réttlátu verða upphafnir til æðri og dýrðlegri verka. Þeir verða því blessaðir í för sinni til andaheims.“15

Ábendingar um nám og kennslu.

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Hverjar eru hugsanir ykkar eða tilfinningar þegar þið lesið frásögnina á bls. 169–70? Hvernig gæti þessi reynsla spámannsins Josephs Smith hafa haft áhrif á kennslu hans um dauða og upprisu?

  • Þessi kafli geymir boðskap sem Joseph Smith miðlaði fólki sem syrgði missi ástvina sinna (bls. 171–73). Í þeim boðskap bauð spámaðurinn „von og huggun“ með því að boða kenningar fagnaðarerindisins og sýna hlustendum hvernig þær eiga við í lífi þeirra. Hvaða sannleikur fagnaðarerindisins veitir ykkur huggun, þegar þið hugsið um ástvini sem hafa dáið eða munu senn deyja? Hvers vegna er þessi sannleikur þýðingarmikill fyrir ykkur?

  • Lesið leiðsögnina sem Joseph Smith veitti þegar hann ræddi um dauða öldungs Barnes, og einnig leiðsögnina um „hvernig við eigum að lifa og deyja“ (bls. 172–73). Hvaða þýðingu hefur þessi leiðsögn fyrir ykkur? Íhugið hvernig líf ykkar myndi breytast, ef þið hefðuð leiðsögn hans í huga.

  • Lesið orð spámannsins til þeirra foreldra sem misstu börn sín (bls. 173–74). Hvernig geta þessar kenningar veitt syrgjandi foreldrum von?

  • Nemið leiðsögn Josephs Smith um að sætta sig við vilja Guðs við dauða ástvina (bls. 175–76). Hvernig getur sú ákvörðun, að sætta sig við vilja Guðs, haft áhrif á tilfinningar okkar, orð okkar og gjörðir? Hvernig gæti ákvörðun okkar hjálpað öðrum?

Ritningargreinar tengdar efninu: Jóh 20:1–29; Mósía 16:7–8; Al 40:11–12; Moró 8:11–20; K&S 42:45–46

Heimildir

  1. Joseph Smith eldri vitnaði í Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” handrit 1844–45, bók 18, bls. 5, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Joseph Smith eldri, blessun veitt Joseph Smith rétt fyrir dauða Josephs Smith eldri, hinn 14. sept. 1840, í Nauvoo, Illinois; vitnað í Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” handrit 1845, bls. 298, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. History of the Church, 6:302–3, 310–11, 315–16; orð í sviga upprunaleg; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  4. History of the Church, 5:361–63; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  5. History of the Church, 4:553–54; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 20. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  6. History of the Church, 6:316; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  7. History of the Church, 6:366; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  8. Joseph F. Smith, “Status of Children in the Resurrection,” Improvement Era, maí 1918, bls. 571.

  9. Mary Isabella Horne, vitnað í History of the Church, 4:556, neðanmálstexta; úr yfirlýsingu frá henni 19. nóvember 1896, í Salt Lake City, Utah.

  10. History of the Church, 4:587; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  11. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 6. júní 1832, Greenville, Indiana; Chicago Historical Society, Chicago, Illinois.

  12. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 20. janúar 1840, Chester-sýslu, Pennsylvaníu; Chicago Historical Society, Chicago, Illinois.

  13. History of the Church, 1:341; úr bréfi frá Joseph Smith til bræðranna í Missouri, 21. apríl 1833, Kirtland, Ohio.

  14. History of the Church, 4:432; úr bréfi frá Joseph Smith til Smiths Tuttle, 9. október 1841, Nauvoo, Illinois.

  15. History of the Church, 6:51–52; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. okt. 1843, í Nauvoo, Illinois; greinargerð Willards Richards og Times and Seasons, 15. sept. 1843, bls. 331; tölublað þetta af Times and Seasons var gefið seint út.

Ljósmynd
Joseph and Emma with twins

Joseph og Emma Smith með tvíburana sem þau ættleiddu stuttu eftir að nýfæddu tvíburarnir þeirra dóu. Joseph og Emma tóku með þakklæti Joseph og Juliu inn í fjölskyldu sína, en Joseph litli lést í mars 1832.

Ljósmynd
mother with daughter

Joseph Smith kenndi að ung börn „hljóta að rísa upp, rétt eins og þau dóu“ og foreldrar munu taka á móti þeim með „sömu fegurð í himneskri dýrð.“