„6.–12. janúar: ,Hlýðið á, ó þér [lýður]‘: Kenning og sáttmálar 1,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Kenning og sáttmálar 1,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
6.–12. janúar: „Hlýðið á, ó þér [lýður]“
Kenning og sáttmálar 1
Í nóvember 1831 var kirkja Jesú Krists einungis eins og hálfs árs gömul. Þótt hún væri vaxandi, þá var hún enn einungis lítt þekktur hópur trúaðra sem bjó í tiltölulega smáum bæjum, leiddur af spámanni á miðjum þrítugsaldri. Guð leit þó á þessa trúuðu sem þjóna sína og sendiboða og hann vildi að opinberanirnar sem hann hafði gefið þeim yrðu birtar heiminum.
Kenning og sáttmálar, kafli 1 er formáli Drottins, eða inngangur, að þessum opinberunum. Það sýnir glögglega að þó að meðlimir kirkjunnar hafi verið fáir, þá var ekkert smávægilegt við boðskapinn sem Guð vildi að hinir heilögu miðluðu. Hann er „aðvörunarraust“ öllum „íbúum jarðar,“ og býður þeim að iðrast og koma á „ævarandi sáttmála“ Guðs (vers 4, 8, 22). Þjónarnir sem bera fram þennan boðskap eru „hinir veiku og einföldu.“ En auðmjúkir þjónar er einmitt það sem Guð kallar eftir – þá og nú – til að koma kirkju sinni „úr móðu og úr myrkri“ (vers 23, 30).
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
„Hlýðið á, ó þér [lýður].“
Formáli er kynning bókar. Hann undirstrikar efni og tilgang bókarinnar og býr lesandann undir lesturinn. Þegar þið lesið kafla 1 – „formála“ Drottins að Kenningu og sáttmála (vers 6) – gætið þá að efni og tilgangi Drottins með opinberunum sínum. Hvað lærið þið sem mun hjálpa ykkur í námi ykkar í Kenningu og sáttmálum á þessu ári? Þið gætuð t.d. ígrundað merkingu þess að „hlýða á rödd Drottins“ í þessum opinberunum (vers 14) eða að „[kanna] þessi boð“ (vers 37).
Sjá einnig formála Kenningar og sáttmála.
Kenning og sáttmálar 1:4–6, 23–24, 37–39
Drottinn mælir fyrir munn þjóna sinna, þar á meðal síðari daga spámanna.
Kafli 1 byrjar og endar á yfirlýsingu Guðs um að hann mæli fyrir munn útvaldra þjóna sinna (sjá vers 4–6, 23–24, 38). Skrifið það sem þið lærið af þessari opinberun um:
-
Drottin og rödd hans.
-
Af hverju þörf er á spámönnum á okkar tíma.
Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera af því sem þið finnið?
Hvenær hafið þið heyrt rödd Drottins fyrir munn þjóna hans? (sjá vers 38).
Þú gætuð líka ímyndað ykkur að vinur sem veit ekki um lifandi spámenn sé að lesa kafla 1 með ykkur. Hvaða spurningar gæti vinur ykkar haft? Hvaða vers mynduð þið vilja ræða við vin ykkar til að hjálpa honum eða henni að skilja hvað ykkur finnst um að hafa spámenn á okkar tíma?
Þið gætuð haft áhuga á að vita að þegar ráð öldunga kom saman árið 1831 til að ræða um að birta opinberanir Josephs Smith, þá voru sumir á móti hugmyndinni. Þeir fyrirvörðu sig fyrir veikleika Josephs í rituðu máli og höfðu áhyggjur af því að útgáfa opinberananna gætu valdið hinum heilögu auknum erfiðleikum (sjá Heilagir, 1:140–43). Hvað hefðuð þið lagt til mála ef þið hefðuð verið í þessu ráði? Hvaða innsýn finnið þið í kafla 1 sem gæti hafa hjálpað? (sjá t.d. vers 6, 24, 38).
Íhugið að hafa sálm eins og „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál“ (Sálmar, nr. 20) með í námi ykkar og tilbeiðslu. Finnið orðtök í sálminum sem kenna sömu reglur og eru í versum í kafla 1.
Sjá einnig Topics and Questions, „Prophets,“ Gospel Library.
Drottinn talar til okkar gegnum þjóna sína, spámennina.
Kenning og sáttmálar 1:12–30, 34–36.
Endurreisnin hjálpar mér að takast á við síðari daga áskoranir.
Í Kenningu og sáttmálum, kafla 1 útskýrir Drottinn af hverju hann endurreisti fagnaðarerindi sitt. Athugið hversu margar ástæður þið getið skráð við lestur versa 12–23. Hvernig er tilgangi Drottins með endurreisninni að nást fram, samkvæmt ykkar skilningi?
Drottinn vissi að alvarlegar áskoranir myndu verða á okkar tíma (sjá vers 17). Hvað finnið þið í versum 17–30, 34–36 sem hjálpar ykkur að finna frið og fullvissu, þrátt fyrir þessar áskoranir?
Sjá einnig Russell M. Nelson, „Horfa til framtíðar í trú,“ aðalráðstefna, október 2020.
Drottinn notar „[hina] veiku og einföldu“ til að ná fram verki sínu.
Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 1:19–28, gætuð þið hugleitt merkingu þess að vera þjónn Drottins. Hvaða eiginleikum vill Drottinn að þjónar hans búi yfir? Hverju er Drottinn að áorka fyrir tilstilli þjóna sinna? Hvernig eru spádómarnir í þessum versum að uppfyllast í heiminum og í lífi ykkar?
Leitið að Jesú Kristi. Ritningunum er ætlað að vitna um frelsarann og fagnaðarerindi hans. Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 1, hugleiðið þá að merkja eða setja skýringu við vers sem kenna ykkur eitthvað um Jesú Krist.
Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Kenning og sáttmálar 1:4, 37–39
Drottinn varar mig við andlegri hættu með spámönnum sínum.
-
Til að hefja umræðu um aðvaranir Drottins, gætuð þið rætt aðvaranir sem koma frá öðrum um hættur sem við fáum ekki séð. Dæmi um það gætu verið hált gólf, væntanlegt ofsaveður eða aðvífandi bílaumferð. Þið og börn ykkar gætuð ef til vill skoðað dæmi um viðvörunarmerki og borið þessar viðvaranir saman við aðvaranirnar sem Drottinn gefur okkur. Hvernig aðvarar Drottinn okkur, samkvæmt Kenningu og sáttmálum 1:4, 37–39? Hverjar eru nýlegar aðvaranir hans til okkar? Þið gætuð kannski horft á eða lesið hluta af nýlegum boðskap aðalráðstefnu og fundið dæmi um „aðvörunarraust“ Guðs.
-
Syngið lag um spámenn, eins og síðasta versið í „Fylgið spámanninum“ (Barnasöngbókin, 58). Miðlið vitnisburði ykkar um að spámaðurinn mælir orð Guðs.
Endurreisnin hjálpar mér að takast á við síðari daga áskoranir.
-
Til að hvetja til umræðna um Kenningu og sáttmála 1:17, gætuð þið og börn ykkar ímyndað ykkur að þið séuð að búa ykkur undir ferðalag. Hverju mynduð þið pakka niður? Ef þið vissuð fyrirfram að það myndi rigna eða að dekk myndi springa á bílnum ykkar eða langferðabílnum, hvaða áhrif hefði það þá á hvernig þið mynduð búa ykkur undir ferðalagið? Lesið saman vers 17 og ræðið það sem Drottinn vissi að myndi koma fyrir okkur. Hvernig bjó hann okkur undir það? (Ef nauðsyn krefur, útskýrið þá að „hörmungar“ séu skelfilegir hlutir.) Hvernig hjálpa boðorð Guðs okkur að takast á við áskoranir samtímans?
Drottinn kallaði Joseph Smith til að vera spámaður.
-
Til að læra um hlutverk Josephs Smith við að endurreisa fagnaðarerindi frelsarans, gætuð þið og börn ykkar horft á mynd af frelsaranum og mynd af Joseph Smith (sjá myndirnar í þessum lexíudrögum) og rætt það sem frelsarinn gaf okkur fyrir tilstilli Josephs Smith. Börn ykkar gætu fundið dæmi í Kenningu og sáttmálum 1:17, 29. Segið börnum ykkar hvernig þið vitið að Guð „kallaði … þjón [sinn] Joseph Smith yngri og talaði til hans frá himni“ (vers 17).
© 1998 David Lindsley
Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er Drottins „sanna og lifandi kirkja.“
-
Hvað felst í því að segja að kirkjan sé „sönn og lifandi“? Til að fá börn ykkar til að hugsa um þessa spurningu, gætuð þið ef til vill sýnt þeim lifandi og dauða hluti – eins og lifandi plöntu og dauða plöntu. Hvernig getum við vitað hvort eitthvað sé lifandi? Þið gætuð síðan lesið Kenningu og sáttmála 1:30 og rætt hvað það gæti þýtt fyrir kirkjuna að vera „sönn og lifandi.“
Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.