„13.–19. janúar: ‚Ég sá ljósstólpa‘: Joseph Smith – Saga 1:1–26,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Joseph Smith – Saga 1:1–26,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
Lundurinn helgi, eftir Greg Olsen
13.–19. janúar: „Ég sá ljósstólpa“
Joseph Smith – Saga 1:1–26
Þið gætuð sagt að Kenning og sáttmálar sé bók bænheyrslu: Margar hinna helgu opinberana í þeirri bók bárust sem svör við spurningum. Spurningin sem ýtti öllu af stað – sú sem kveikti síðari daga úthellingu opinberunar – var spurð af 14 ára dreng. „Orrahríð orða og deilna“ (Joseph Smith – Saga 1:10) hafði gert Joseph ráðvilltan um trúmál og samband hans við Guð. Þið getið ef til vill fundið samsvörun í þessu. Við finnum margar andstæðar hugmyndir og sannfærandi raddir á okkar tímum. Þegar við viljum fara í gegnum þessi skilaboð og finna sannleikann getum við gert það sem Joseph gerði. Við getum spurt spurninga, lært ritningarnar, ígrundað og loks spurt Guð. Sem svar við bæn Jósefs kom ljóssúla niður af himni. Guð faðirinn og Jesús Kristur birtust og svöruðu spurningum hans. Vitnisburður Josephs um þessa undursamlegu upplifun, staðfestir að hver sá sem „[skortir] visku, [getur] beðið Guð ásjár“ (Joseph Smith – Saga 1:26). Við getum öll meðtekið, ef ekki himneska sýn, þá hið minnsta skýra sýn, upplýsta himnesku ljósi.
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Joseph Smith er spámaður endurreisnarinnar.
Sögu Josephs Smith er ætlað að gera okkur „staðreyndirnar heyrinkunnar,“ því sannleikurinn um Joseph hefur oft verið afskræmdur (Joseph Smith – Saga 1:1). Hvað styrkir vitnisburð ykkar um guðlega köllun hans er þið lesið Joseph Smith – Saga 1:1–26?
Sjá einnig Heilagir, 1:3–19.
Hvernig öðlast ég svör við bænum mínum?
Hefur ykkur einhvern tíma „skort visku“ eða þið verið ráðvillt yfir ákvörðun sem þið þurftuð að taka? (Joseph Smith – Saga 1:13). Upplifunin sem Joseph Smith hlaut árið 1820 getur þjónað sem tilvalið mynstur fyrir ykkar eigin persónulegu opinberun. Þegar þið til að mynda kannið Joseph Smith – Sögu 1:5–25, gætið þá að upplifunum sem þið finnið samsvörun í. Hvað lærið þið um:
-
Hvernig Joseph bjó sig undir helga upplifun með bæn? (sjá vers 8, 11, 14–15).
-
Hlutverk ritningarnáms við að leitast eftir opinberun? (sjá vers 11–12).
-
Hvað gera skal þegar þið takist á við andspyrnu? (sjá vers 15–16, 21–26).
-
Að meðtaka og bregðast við svörum sem þið hljótið? (sjá vers 18–25).
Hvetjið til miðlunar. Að rannsaka ritningarnar kallar á hughrif frá heilögum anda. Að miðla þessum hughrifum getur boðið heilögum anda að bera öðrum vitni, sem og einstaklingnum sem miðlar.
Hvaða aukinn skilning getið þið hlotið við lestur greinar Henrys B. Eyring forseta „The First Vision: A Pattern for Personal Revelation“? (Liahona, feb. 2020, 12–17).
Þið gætuð líka leitað að öðrum dæmum í ritningunum um fólk sem á samskipti við Guð. Myndir í Trúarmyndabók eða í öðrum bókum Kom, fylg mér gætu vakið hugmyndir. Reynið að svara spurningunum sem áður voru tilgreindar fyrir hvert dæmi sem þið finnið. Hvaða upplifanir hafið þið hlotið af bænheyrslu? Hvað getið þið gert öðrum til hjálpar svo þau megi líka hljóta góðar upplifanir?
Sjá einnig Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020; Topics and Questions, „Personal Revelation,“ Gospel Library.
Joseph Smith sá Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist.
Joseph Smith treysti að Guð myndi svara bæn sinni, en hefði ekki getað gert sér í hugarlund hvernig svarið átti eftir að gjörbreyta lífi hans – og alls heimsins. Þegar þið lesið um reynslu Josephs, hugleiðið þá hvernig Fyrsta sýnin hefur breytt lífi ykkar.
Fyrsta sýnin opinberaði til dæmis nokkur sannindi um Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist, sem voru ólík því sem margir trúðu á tíma Josephs. Þegar þið lesið Joseph Smith – Sögu 1:15–20, skuluð þið íhuga að skrifa niður mismunandi leiðir til að fullgera yfirlýsingu eins og þessa: „Vegna þess að Fyrsta sýnin gerðist, þá veit ég að …“
Hvaða tilfinningar hafið þið þegar þið veltið fyrir ykkur reynslu Josephs og allt sem hlaust af henni?
Sjá einnig „Ask of God: Joseph Smith’s First Vision“ (myndband), Gospel Library; „Fyrsta bæn Josephs Smith,“ Sálmar, nr. 10.
Spyrjið Guð: Fyrsta sýn Josephs Smith
Hluti af Bresti einhvern ykkar visku, eftir Walter Rane
Af hverju eru til mismunandi frásagnir um Fyrstu sýnina?
Á lífstíð sinni skráði Joseph Smith reynslu sína í Lundinum helga hið minnsta fjórum sinnum og notaði oft ritara til þess. Þar að auki voru nokkrar frásagnir skráðar af öðrum sem hlustuðu á Joseph segja frá sýn sinni. Þótt frásagnirnar séu að nokkru leyti ólíkar, allt eftir höfundi, áheyrendum og umgjörð, eru þær mótsagnalausar. Hver frásögn hefur sínar sérstöku upplýsingar, svo við fáum betur skilið reynslu Josephs Smith, á sama hátt og hvert guðspjalla Nýja testamentisins auðveldar okkur að skilja þjónustu frelsarans.
Sjá einnig Topics and Questions, „First Vision Accounts,“ Gospel Library.
Ég get verið trú/r vitneskju minni, þótt aðrir kunni að hafna mér.
Eftir hina ótrúlegu Fyrstu sýn sína, vildi Joseph Smith eðlilega deila reynslu sinni með öðrum. Andstaðan sem hann mætti kom honum á óvart. Hvað innblæs ykkur til að vera sönn vitnisburði ykkar er þið lesið frásögn hans? Hvaða önnur dæmi – í ritningunum, frá áum ykkar eða fólki sem þið þekkið – efla ykkur kjark til að vera sönn þeim andlegu upplifunum sem þið hafið hlotið?
Sjá einnig Gary E. Stevenson, „Að næra og gefa vitnisburð ykkar,“ aðalráðstefna, október 2022.
Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Joseph Smith var undirbúinn fyrir það að vera spámaður Guðs.
-
Að læra um æsku Josephs Smith gæti hjálpað börnum ykkar að samsvara sér honum þegar þau læra af reynslu hans. Þau gætu ef til vill haldið á mynd af Joseph Smith og sagt frá því sem þau vita um hann. Ef þörf er á, gætuð þið bætt við einhverjum staðreyndum um hann úr Joseph Smith – Sögu 3–14 (sjá einnig „Kafli 1: Joseph Smith og fjölskylda hans,“ í Sögur úr Kenningu og sáttmálum, 6–8, eða samsvarandi myndband í Gospel Library). Hvað upplifði Joseph Smith sem hjálpaði við að búa hann undir að verða spámaður? Hvað gæti Guð verið að undirbúa okkur fyrir að gera?
3:22Joseph Smith's Family: A family of faith
Hluti af Fyrsta sýn Josephs Smith, eftir Greg Olsen
Guð getur svarað spurningum mínum gegnum ritningarnar.
-
Íhugið að sýna börnum ykkar hinar ýmsu bækur, ásamt ritningunum. Hjálpið þeim að hugsa um spurningar sem þessar bækur geta svarað. Þið gætuð síðan lesið saman Joseph Smith – Sögu 1:10–11, til að gæta að því hvaða spurningar Joseph Smith hafði og hvaða svör hann fann í ritningunum.
-
Börn ykkar gætu fundið orð í versi 12 sem greina frá því hvernig lestur Jakobsbréfisins 1:5 hafði áhrif á Joseph. Þið gætuð síðan miðlað hvert öðru upplifunum þar sem ritningarhluti hafði mikil áhrif á ykkur. Þið gætuð líka sungið saman söng um að lesa ritningarnar, t.d. „Rannsaka og biðja“ (Barnasöngbókin, 66). Hvað kennir söngurinn um ástæðu þess að við lesum ritningarnar?
Himneskur faðir heyrir og svarar bænum mínum.
-
Til að hefja umræðu um það hvernig við eigum samskipti við himneskan föður, gætuð þið ef til vill spurt hvert annað spurninga með ýmsum samskiptaaðferðum, eins og með sms, símtali eða handskrifuðum minnismiða. Hvernig spyrjum við himneskan föður spurninga? Hvernig sýnum við honum að við elskum og heiðrum hann í bænum okkar? Lesið saman Joseph Smith – Sögu 1:16–19 og ræðið hvernig himneskur faðir svaraði bæn Josephs Smith. Þið og börn ykkar gætuð síðan miðlað upplifunum þar sem þið báðuð Guð um hjálp og voruð bænheyrð.
Joseph Smith sá himneskan föður og son hans, Jesú Krist.
-
Ung börn gætu haft gaman af því að standa með útréttan faðm og þykjast vera tré í Lundinum helga, á meðan þið segið þeim frá Fyrstu sýninni. Biðjið börnin að sveifla sér eins og vindurinn blási á þau meðan þið ræðið um Joseph flytja bæn. Biðjið þau síðan að standa mjög kyrr og vera hljóðlát þegar þið segið þeim frá himneskum föður og Jesú birtast Joseph.
-
Eldri börn gætu haft gaman af því að nota eina eða fleiri myndir í þessum lexíudrögum til að segja ykkur hvað þau vita um Fyrstu sýnina. Hvetjið þau til að vísa í Joseph Smith – Sögu 1:14–17 og miðla hugsunum sínum og tilfinningum um reynslu Josephs (sjá einnig „Kafli 2: Fyrsta sýn Josephs Smith,“ í Sögur úr Kenningu og sáttmálum, 9–12, eða samsvarandi myndband í Gospel Library).
3:23Joseph Smith's First Vision: An answer to a humble prayer
Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.