Trúarskóli eldri deildar
1 Biðja í trú


„Biðja í trú,“ kafli 1 í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018)

Kafli 1: „Biðja í trú“

Kafli 1

Biðja í trú

Ljósmynd
Tambora fjall

Árið 1815 var hin indónesíska eyja Sumbava græn og gróskumikil eftir nýfallið regn. Fjölskyldur bjuggu sig undir komandi þurrkatíð, líkt og gert hafði verið á hverju ári um kynslóðir, með hýðishrísgrjónaræktun í skugga eldfjalls að nafni Tambora.

Hinn 5. apríl, tók fjallið að ranka við sér með látum eftir áratuga blund og ausa upp eldi og ösku. Hundruð kílómetra í burtu heyrði fólk hljóð líkt og fallbyssuhvelli. Lítið gos stóð yfir í nokkra daga. Síðan gerðist það að morgni 10. apríl að fjallið hreinlega sprakk. Þrír eldstrókar ruku móti himni og runnu saman í gríðarlegri sprengingu. Glóandi hraunið æddi niður fjallshlíðina og umlukti allt þorpið. Hvirfilvindar geisuðu víða um svæðið, rifu upp tré og þeyttu húsum um koll.1

Ofsinn hélt áfram alla þá nótt og fram á næstu nótt. Askan þakti marga ferkílómetra lands og sjó og var sumstaðar meira en hálfur metri á þykkt. Hábjartur dagur var líkastur nótt. Sjávaröldur risu upp, fóru yfir land, eyddu uppskerum og færðu þorp á kaf. Tambora rigndi eldi og brennisteini í margar vikur.2

Áhrif gossins gætti víða um heim á þeim mánuðum sem fylgdu í kjölfarið. Mikilfengleg sólsetur vöktu hrifningu fólks víða um heim. Að baki þeirrar líflegu litadýrðar voru þó hin banvænu áhrif eldfjallsösku er hvolfdist yfir jörðina. Næsta árið á eftir varð verðurfar viðsjárvert og ofsafengið.3

Gosið olli því að hitastig lækkaði á Indlandi og kólera lagði þúsundir að velli og grandaði fjölskyldum. Í gróskumiklum dölum í Kína skullu á snjóstormar í áður mildu loftslagi og regnflóð eyddi uppskerum. Matarbirgðir í Evrópu gengu til þurrðar, sem olli hungursneyð og skelfingu.4

Hvarvetna leitaði fólk skýringa á þjáningum og dauða af völdum hins einkennilega verðurfars. Bænir og söngl helgra manna barst úr musterum hindúa á Indlandi. Þjáningar og þrautir urðu viðfangsefni kínverskra skálda. Borgarar í Frakklandi og Bretlandi féllu á kné í ótta um að hinar hræðilegu hörmungar sem Biblían spáði um vofðu yfir þeim. Í Norður-Ameríku prédikuðu prestar að Guð væri að refsa hinum villuráfandi kristnu og ýttu undir trúarlegar tilfinningar með aðvörunarraust.

Víða um landið flykktist fólk í kirkjur og á vakningarsamkomur í þeirri von að vita hvernig bjargast mætti frá yfirvofandi eyðileggingu.5


Tamboragosið hafði áhrif á verðurfarið í Norður-Ameríku á því ári sem á eftir fylgdi. Snjókoma og nístings frost varð að vori og árið 1816 varð minnst sem sumarlausa ársins.6 Í Vermont, norðausturhorni Bandaríkjanna, höfðu grýttar hlíðar um áraraðir valdið ergelsi bónda nokkurs að nafni Joseph Smith eldri. Þegar hann og eiginkona hans, Lucy Mack Smith, horfðu á uppskeru sína skreppa saman undan vægðarlausu frostinu þetta árið, þá var þeim ljóst að þau stæðu frammi fyrir gjaldþroti og ótryggri framtíð, ef þau dveldu þar áfram.

Hinn fjörutíu og fimm ára gamli Joseph eldri var ekkert unglamb lengur og tilhugsunin um að fara aftur á byrjunarreit var óvænleg. Honum var ljóst að elstu synir hans, hinn átján ára gamli Alvin og hinn sextán ára gamli Hyrum, gætu hjálpað honum að ryðja landið, byggja hús og planta og uppskera. Hin þrettán ára gamla dóttir hans, Sophronia, var nógu gömul til að hjálpa Lucy við húsverkin og bústörfin. Yngstu synir hans, hinn átta ára gamli Samuel og hinn fimm ára gamli William, voru orðnir liðtækari og hin þriggja ára gamla Katharine og hvítvoðungurinn Don Carlos yrðu einn daginn nægilega gömul til að leggja þeim lið.

Annað var uppi með miðsoninn, hinn tíu ára gamla Joseph yngri. Fjórum árum áður hafði Joseph yngri farið í aðgerð til að fjarlæga ígerð í fæti hans. Upp frá því gekk hann með hækju. Þótt fótur Josephs yngri væri allur að styrkjast aftur, þá var sárt fyrir hann að stíga í fótinn og Joseph eldri vissi ekki hvort hann yxi upp og yrði jafn sterkur og Alvin og Hyrum.7

Fullviss um að þau gætu reitt sig á hvert annað ákvað Smith-fjölskyldan að hverfa frá heimili sínu í Vermont til að nema betra land.8 Joseph eldri ákvað að fara til New York fylkis, eins og flestir nábúar hans, þar sem hann vonaðist eftir að kaupa gott býli með láni. Hann hugðist síðan senda eftir Lucy og börnunum og byrja að nýju með fjölskyldunni.

Þegar Joseph eldri hélt af stað til New York, urðu Alvin og Hyrum honum samferða niður veginn áður en þeir kvöddust. Joseph eldri elskaði eiginkonu sína og börn afar heitt, en hafði ekki getað séð þeim fyrir stöðugleika í lífinu. Óheppni og árangurslausar fjárfestingar höfðu viðhaldið fátækt og rótleysi fjölskyldunnar. Kannski yrði það öðruvísi í New York.9


Veturinn eftir haltraði Joseph yngri í gegnum snjóinn með móður sinni, bræðrum og systrum. Þau voru á leið vestur til þorps í New York að nafni Palmyra, sem var skammt frá þeim stað þar sem Joseph eldri hafði fundið gott land og beið komu þeirra.

Þar sem eiginmaður Lucy gat ekki hjálpað við flutningana, þá hafði hún ráðið mann að nafni Howard til að aka vagninum þeirra. Howard þessi hirti illa um eigur þeirra á leiðinni og sóaði upphæðinni sem þau höfðu greitt honum í áfengi og fjárhættuspil. Þegar þau slógust í hóp með annarri fjölskyldu á leið sinni vestur, þá sparkaði Howard Joseph út af vagninum, svo dóttir hjónanna í þeirri fjölskyldu gæti setið við hlið hans í ökumannssætinu.

Alvin og Hyrum reyndu nokkrum sinnum að bjóða Howard byrginn, því þeim var ljóst hve Joseph átti erfitt með gang. Í hvert sinn sem þeir gerðu það, sló hann þá niður með svipuskeftinu.10

Ef Joseph hefði verið eldri, hefði hann líklega sjálfur boðið Howard birginn. Sár fóturinn hafði haldið honum frá leik og starfi, en viljastyrkur hans vó upp veikburða líkama hans. Áður en læknarnir gerðu aðgerðina á fæti hans og skáru burtu hluta hins sýkta beins, þá vildu þeir reyra hann niður eða gefa honum koníak til að deyfa sársaukann. Joseph hafði hins vegar aðeins beðið þess að faðir hans héldi honum föstum.

Hann var vakandi og hélt meðvitund allan tímann meðan svitinn draup af fölu andliti hans. Móðir hans, sem alltaf var svo sterk, brotnaði næstum niður við að hlusta á ópin í honum. Að þessu loknu, var ekki ólíklegt að henni fyndist sem hún fengi afborið allt annað.11

Þegar Joseph haltraði áfram við hlið vagnsins, fékk hann séð að Howard reyndi vissulega á þolinmæði hennar. Þau höfðu þegar ferðast 320 kílómetra og fram að því hafði hún sýnt framkomu ekilsins mikla þolinmæði.


Um 160 kílómetrum frá Palmyra, er Lucy var að undirbúa göngu dagsins, sá hún Alvin koma hlaupandi í átt að sér. Howard hafði þá fleygt eigum þeirra og farangri á götuna og var í þann mund að halda af stað með hestana og vagninn þeirra.

Lucy fann manninn á krá. „Jafn víst og það er Guð á himnum,“ sagði hún, „þá eru vagninn og hestarnir, sem og farangurinn þar á, mín eign.“

Hún horfði yfir kránna. Hún var full af körlum og konum, sem flest voru ferðalangar eins og hún sjálf. „Þessi maður,“ sagði hún með augu allra á sér, „hefur einsett sér að taka frá mér alla möguleika mína á því að halda áfram ferð minni og skilja mig eina eftir algjörlega eignalausa með átta lítil börn.“

Howard sagðist þegar hafa sóað fénu sem hún hafði greitt honum fyrir að aka vagninum og gæti því ekki farið lengra.

„Ég hef enga þörf fyrir þig,“ sagði Lucy. „Ég mun sjálf taka við stjórnartaumum vagnsins.“

Hún skildi við Howard á kránni og hét því að koma börnunum til föður þeirra hvað sem á gengi.12


Vegurinn framundan var forugur og kaldur, en Lucy Smith leiddi fjölskyldu sína heilu á höldnu til Palmyra. Þegar hún horfði á börnin sín halda fast um föður sinn og kyssa hann á vangann, fannst henni allt erfiðið þess virði að komast til hans.

Brátt leið að því að fjölskyldan tók lítið hús á leigu í bænum og ræddi saman um hvernig þau gætu orðið sér úti um eigið býli.13 Besta leiðin sem þau komu upp með var að vinna þar til þau höfðu nægt fé handa á milli til útborgunar í landkaupum í nærliggjandi skógi. Joseph eldri og eldri synir hans unnu sér inn peninga með því að grafa brunna, kljúfa girðingarstaura og hirða hey af túnum, meðan Lucy og dæturnar bökuðu og seldu bökur og bjuggu til rótarbjór og skrautdúka til að sjá fjölskyldunni farborða.14

Þegar Joseph yngri varð eldri varð fóturinn öflugri og hann gat auðveldlega gengið um Palmyra. Í bænum komst hann í samband við fólk víða að á svæðinu og margt af því snéri sér að trúarbrögðum til að fullnægja sínum andlegu þrám og fá útskýringar á erfiðleikum lífsins. Joseph og fjölskylda hans tilheyrði engri kirkju, en margir nágrannar þeirra fóru til lofgjörðar í hinar háu kapellur öldungakirkjunnar, í samkomuhús baptistakirkjunnar, kvekarahúsið eða á tjaldsvæðið þar sem farandprédikarar meþódista héldu trúarsamkomur öðru hverju.15

Þegar Joseph var tólf ára voru trúardeildur í algleymingi í Palmyra. Þótt hann læsi sér að einhverju leyti til, þá naut hann þess að ígrunda hugmyndir vandlega. Hann hlustaði á prédikara í þeirri von að læra meira um sína ódauðlegu sál, en oft átti hann í hugarstíði með prédikanir þeirra. Þeir sögðu hann vera syndara í syndugum heimi, hjálparvana og án endurleysandi náðar Jesú Krists. Þótt Joseph legði trúnað á boðskap þeirra og liði illa yfir eigin syndum, þá var hann óviss um hvernig finna mætti fyrirgefningu.16

Hann taldi það sér gagnlegt að fara í kirkju, en átti erfitt með að velja sér tilbeiðslustað. Hinar ólíku kirkjur áttu í innbyrðis deildum um hvernig menn gætu hlotið frelsun frá synd. Eftir að hafa hlustað á rök þeirra um tíma, olli það Joseph hugarangri að sjá fólk lesa hina sömu Biblíu og komast síðan að ólíkum niðurstöðum um innihald hennar. Hann trúði að sannleika Guðs væri einhversstaðar að finna – en hann vissi ekki hvernig ætti að finna hann.17

Foreldrar hans voru heldur ekki vissir um það. Lucy og Joseph eldri voru frá kristilegum fjölskyldum og trúðu bæði á Biblíuna og Jesú Krist. Lucy fór í kirkju og tók oft börn sín með sér á samkomur. Hún hafði leitað hinnar sönnu kirkju Jesú Krists allt frá dauða systur hennar fyrir mörgum árum.

Eitt sinn, eftir að hafa orðið alvarlega veik áður en Joseph fæddist, óttaðist hún að deyja áður en hún fyndi sannleikann. Hún skynjaði djúpa og dimma gjá á milli sín og frelsarans og henni var ljóst að hún var ekki undir næsta líf búin.

Hún lá andvaka heila nótt og bað til Guðs og lofaði honum að ef hann leyfði henni að lifa, þá myndi hún leita uppi kirkju Jesú Krists. Þegar hún baðst fyrir, þá talaði rödd Drottins til hennar og fullvissaði hana um að ef hún leitaði myndi hún finna. Hún hafði farið í fleiri kirkjur frá þessum tíma, en ekki fundið þá réttu. Þótt henni hefði fundist að kirkja frelsarans væri ekki lengur á jörðu, þá hélt hún áfram að leita, í þeirri vissu að betra væri að fara í kirkju en ekki.18

Líkt og eiginkonu hans, þá hungraði Joseph eldri eftir sannleikanum. Honum fannst þó ákjósanlegra að fara í enga kirkju, frekar en þá röngu. Joseph eldri fór að ráðum föður síns, rannsakaði ritningarnar, baðst fyrir af einlægni og trúði að Jesús Kristur hefði komið til að frelsa heiminn.19 Honum tókst þó ekki að finna eitthvað sem honum fannst vera rétt í allri þeirri ringulreið og ósætti sem hann varð vitni að í söfnuðunum umhverfis. Nótt eina dreymdi honum að þrætugjarnir prédikarar væru eins og naut í flagi að róta upp ryki jarðar með hornum sínum, sem jók á þær áhyggjur hans að þeir þekktu lítið til ríkis Guðs.20

Að sjá foreldra sína óánægða með söfnuði staðarins, varð aðeins til að gera Joseph yngri enn ráðviltari.21 Sál hans var í húfi, en enginn gat veitt honum fullnægjandi svör.


Eftir að hafa lagt fyrir í rúmt ár, hafði Smith-fjölskyldan nægilega mikið fé til útborgunar á fjörutíu hekturum skóglendis í Manchester, rétt sunnan við Palmyra. Þar, á milli íhlaupaverka og kaupavinnu, unnu þau síróp af hlyntrjám, bjuggu til aldingarð og ruddu svæði til að planta og uppskera.22

Joseph hélt áfram að hafa áhyggjur af eigin syndum og velferð sálar sinnar meðan hann starfaði við landið. Trúardeilurnar í Palmyra höfðu þagnað, en prédikarar héldu áfram að keppa um trúskiptinga á staðnum og í héraðinu öllu.23 Dag og nótt horfði hann á sólina, tunglið og stjörnurnar færast til á himinhvolfinu með reglu og mikilfengleika og hann dáðist að fegurð og lífauðgi jarðar. Hann virti líka fólkið umhverfis fyrir sér og hreifst af styrk þess og vitsmunum. Allt virtist bera vitni um tilurð Guðs og að hann hefði skapað mennina í sinni mynd. Hvernig átti Joseph þá að ná til hans?24

Sumarið 1819, þegar Joseph var þrettán ára, komu prédikarar meþódista saman á ráðstefnu nokkra kílómetra frá býli Smith-fjölskyldunnar og dreifðu sér um sveitina til að sannfæra fjölskyldur, eins og Smith fjölskylduna, um að snúast til trúar. Góður árangur þessara prédikara voru þyrnir í augum prédikara frá öðrum söfnuðum, sem leiddi til harðrar samkeppni um trúskiptinga.

Joseph sótti samkomur, hlustaði á hrífandi prédikanir og sá trúskiptinga hrópa af gleði. Hann vildi hrópa með þeim, en fannst hann oft vera mitt í stríði orða og hugmynda. „Hver af öllum þessum flokkum hefur rétt fyrir sér, eða skjátlast þeim öllum?“ velti hann fyrir sér. „Hafi einhver þeirra rétt fyrir sér, hver er það þá og hvernig get ég vitað það?“ Honum varð ljóst að hann þyrfti náð og miskunn Krist, en þar sem svo margir menn og söfnuðir áttu í trúarlegum átökum, þá vissi hann ekki hvar þetta var að finna.25

Vonin um að finna svör – og sálarfrið – virtist fjara frá honum. Hann velti fyrir sér hvernig mögulegt væri að finna sannleikann mitt í öllum þessum skarkala.26


Þegar Joseph hlustaði eitt sinn á prédikun, þá heyrði hann prédikarann vitna í þessi orð í fyrsta kapítula Jakobsbókar í Nýja testamentinu: „Ef einhvern yðar brestur visku,“ sagði þar, „þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“27

Joseph fór heim og las versið í Biblíunni. „Engin ritningargrein hefur nokkru sinni knúið á hjarta nokkurs manns af meiri krafti en þessi knúði á mitt í þetta sinn,“ sagði hann síðar. „Hún virtist þrengja sér inn í hjarta mitt og tilfinningar af miklu afli. Ég hugleiddi þetta aftur og aftur, vitandi að ef einhver þyrfti á visku að halda frá Guði, þá gerði ég það.“ Hann hafði áður hugleitt Biblíuna, líkt og þar mætti öll svör finna. Biblían sagði honum nú að hann gæti leitað beint til Guðs, til að fá svör við þessum spurningum sínum.

Joseph ákvað að biðjast fyrir. Hann hafði aldrei áður beðist fyrir upphátt, en reiddi sig á loforðið í Biblíunni. Það kenndi: „[Biðjið] í trú, án þess að efast.“28 Guð myndi heyra spurningar hans – jafnvel þótt þær hljómuðu einkennilega.

Heimildir

  1. Raffles, „Narrative of the Effects of the Eruption,“ 4–5, 19, 23–24.

  2. Raffles, „Narrative of the Effects of the Eruption,“ 5, 7–8, 11.

  3. Wood, Tambora, 97.

  4. Wood, Tambora, 78–120; Statham, Indian Recollections, 214; Klingaman og Klingaman, Year without Summer, 116–18.

  5. Wood, Tambora, 81–109; Klingaman og Klingaman, Year without Summer, 76–86, 115–20.

  6. Klingaman og Klingaman, Year without Summer, 48–50, 194–203.

  7. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 131; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 2, [11]–bók 3, [2]. Efni: Joseph Smith’s Leg Surgery

  8. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [3]; Stilwell, Migration from Vermont, 124–50.

  9. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [4]; Bushman, Rough Stone Rolling, 18–19, 25–28. Efni: Joseph Sr. and Lucy Mack Smith Family

  10. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [5]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 131–32.

  11. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [2]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 131.

  12. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [5]–[6]; Lucy Mack Smith, History, 1845, 67; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 132. Efni: Lucy Mack Smith

  13. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [6]–[7].

  14. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [7]; Tucker, Origin, Rise, and Progress of Mormonism, 12. Efni: Joseph Sr. and Lucy Mack Smith Family

  15. Cook, Palmyra and Vicinity, 247–61. Efni: Palmyra and Manchester; Christian Churches in Joseph Smith’s Day

  16. Joseph Smith History, circa Summer 1832, 1–2, í JSP, H1:11–12.

  17. Joseph Smith—Saga 1:5–6; Joseph Smith History, 1838–56, volume A-1, [1]–2, í JSP, H1:208–10 (drög 2). Efni: Religious Beliefs in Joseph Smith’s Day

  18. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, book 2, [1]–[6]; “Records of the Session of the Presbyterian Church in Palmyra,” 10. mars 1830.

  19. Asael Smith til “My Dear Selfs,” 10 apríl 1799, Asael Smith, bréf og ættfræðiskýrsla, 1799, um 1817–46, Church History Library.

  20. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, safnrit, [5]; Anderson, Joseph Smith’s New England Heritage, 161–62.

  21. Joseph Smith—Saga 1:8–10; Joseph Smith History, 1838–56, volume A-1, 2, í JSP, H1:208–10 (drög 2). Efni: Religious Beliefs in Joseph Smith’s Day

  22. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [8]–[10]; Joseph Smith History, circa Summer 1832, 1, í JSP, H1:11. Efni: Sacred Grove and Smith Family Farm

  23. Efni: Awakenings and Revivals

  24. Post 10:34–35; Joseph Smith History, circa Summer 1832, 2, í JSP, H1:12.

  25. Neibaur, Journal, May 24, 1844, fáanlegt á josephsmithpapers.org; Joseph Smith—Saga 1:10; Joseph Smith, “Church History,” Times and Seasons, 1. mars 1842, 3:706, í JSP, H1:494.

  26. Joseph Smith, Journal, nóv. 9–11, 1835, in JSP, J1:87; Joseph Smith—Saga 1:8–9; Joseph Smith History, 1838–56, volume A-1, 2, in JSP, H1:210 (draft 2).

  27. „Wm. B. Smith’s Last Statement,“ Zion’s Ensign, 13. jan. 1894, 6; Jakbr 1:5.

  28. Joseph Smith—Saga 1:11–14; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 2–3, í JSP, H1:210–12 (drög 2); Jakbr 1:6.