Trúarskóli eldri deildar
6 Gjöf og kraftur Guðs


„Gjöf og kraftur Guðs,“ kafli 6 í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018)

Kafli 6: „Gjöf og kraftur Guðs“

KAFLI 6

Gjöf og kraftur Guðs

Ljósmynd
Blekbytta

Þegar Joseph snéri aftur til Harmony, sumarið 1828, birtist Moróní honum aftur og tók plöturnar burtu. „Ef þú ert nægilega auðmjúkur og iðrandi,“ sagði engillinn, „þá færðu þær aftur þann tuttugasta og annan september.“1

Myrkur hjúpaði huga Josephs.2 Hann vissi að hann hafði haft rangt fyrir sér með að virða vilja Guðs að vettugi og treysta Martin fyrir handritinu. Nú var svo komið að Guð treysti honum ekki lengur fyrir plötunum né útleggjurunum. Honum fannst að hann ætti hverja þá refsingu skilið sem himnarnir myndu láta koma yfir hann.3

Niðurbrotinn af sektarkennd og eftirsjá, fór hann á hnén, játaði syndir sínar og baðst fyrirgefningar. Hann íhugaði hver mistök sín hefðu verið og hvað hann gæti gert betur ef Drottinn leyfði honum að þýða aftur.4

Dag einn í júlí, er Joseph var á gangi skammt frá heimili sínu, birtist Moróni honum. Engillinn afhenti honum útleggjarana og Joseph sá guðleg skilaboð í þeim: „Hvorki er unnt að ónýta verk Guðs, áætlanir hans eða tilgang, né gera þau að engu.“5

Þessi orð voru hughreystandi en þau snérust fljótlega upp í áminningu. „Hversu ströng voru ekki fyrirmælin til þín,“ sagði Drottinn. „þú áttir ekki að óttast manninn meira en Guð.“ Hann bauð Joseph að annast betur heilaga hluti. Heimildirnar á gullplötunum væru mikilvægari en mannorð Martins eða þrá Josephs til að þóknast fólki. Guð hafði undibúið þær til að endurnýja forna sáttmála sína og kenna öllum mönnum að treysta á Jesú Krist fyrir eigin sáluhjálp.

Drottinn hvatti Joseph til að minnast miskunnar sinnar. „Iðrast því þess sem þú hefur gjört,“ bauð hann „og enn ert þú útvalinn.“ Enn á ný kallaði hann Joseph sem spámann sinn og sjáanda. Hins vegar fékk hann aðvörun um að hlýða orðum hans.

„Ef þú gjörir þetta ei,“ sagði hann, „munt þú framseldur og verða sem aðrir menn og enga gjöf eiga lengur.“6


Sama haust ferðuðust foreldrar Josephs suður til Harmony. Það höfðu liðið nærri tveir mánuðir frá því að Joseph fór frá heimili þeirra í Manchester og þau höfðu ekkert heyrt af honum. Þau höfðu áhyggjur af því að hörmungar sumarsins hefðu bugað hann. Á nokkrum vikum hafði hann misst frumburð sinn, næstum því misst eiginkonu sína og tapað handritssíðunum. Þau vildu fullvissa sig um að allt væri í lagi hjá þeim Emmu.

Rúmlega kílómetra frá ákvörðunarstað þeirra glöddust Joseph eldri og Lucy yfir því að sjá Joseph rólegan og sáttan á veginum fram undan. Hann sagði þeim frá því hvernig hann hefði misst traust Guðs, iðrast synda sinna og meðtekið opinberunina. Honum hafði sviðið undan áminningu Drottins en eins og spámennirnir til forna, þá skráði hann opinberunina niður svo að aðrir gætu lesið hana. Það var í fyrsta sinn sem hann hafði skráð orð Drottins til sín.

Joseph sagði foreldrum sínum einnig að Moróni hefði í framhaldi skilað honum plötunum og útleggjurunum. Joseph skýrði svo frá að engillinn hefði virst sáttur. „Hann sagði mér að Drottinn unni mér fyrir trúfestu mína og auðmýkt.“

Heimildunum var nú örugglega komið fyrir í húsinu, faldar í kofforti. „Emma er ritari minn núna,“ sagði Joseph þeim, „en engillinn sagði að Drottinn myndi senda einhvern til að skrifa fyrir mig og ég treysti því að það verði svo.“7


Næsta sumar ferðaðist Martin Harris til Harmony með slæmar fréttir. Eiginkona hans hefði farið með mál fyrir dómstóla þar sem hún ásakaði Joseph um að vera svikara, sem héldi því fram að hann þýddi gullplötur. Martin átti nú von á að fá kvaðningu til að bera vitni fyrir rétti. Hann yrði að lýsa því yfir að Joseph hefði blekkt hann eða að Lucy myndi kæra hann einnig fyrir blekkingar.8

Martin þrýsti á Joseph um að gefa honum fleiri sannanir fyrir því að plöturnar væru raunverulegar. Hann vildi segja dómstólunum frá þýðingunum en hann hafði áhyggjur af því að honum yrði ekki trúað. Lucy hefði í raun leitað á Smith heimilinu og aldrei fundið plöturnar. Þrátt fyrir að hann hefði þjónað sem ritari Josephs í tvo mánuði, þá hafði Martin aldrei séð plöturnar heldur og gat því ekki borið vitni um þær.9

Joseph lagði þessa spurningu fyrir Drottin og fékk svar fyrir vin sinn. Drottinn myndi ekki segja Martin hvað hann ætti að segja frammi fyrir réttinum, né myndi hann veita honum frekari sönnunargögn fyrr en að Martin veldi að vera auðmjúkur og sýna trú. „Sjá, vilji þeir ekki trúa orðum mínum, munu þeir ekki trúa þér, þjónn minn Joseph,“ sagði hann, „ jafnvel þótt mögulegt væri að þú sýndir þeim allt það, sem ég hef falið þér.“

Drottinn lofaði hins vegar að sýna Martin miskunn, ef hann gerði eins og Joseph hefði gert þá um sumarið, auðmýkti sig, sett traust sitt á Guð og lærði af mistökum sínum. Þrjú trúföst vitni myndu fá að sjá plöturnar í fyllingu tímans, sagði Drottinn og Martin gæti verið einn þeirra, ef hann léti af því að leita eftir samþykki annarra.10

Áður en að Drottinn lauk orðum sínum, lýsti hann eftirfarandi yfir. Hann sagði: „Ef þessi kynslóð herðir ekki hjörtu sín, þá mun ég stofna kirkju mína.“11

Joseph hugleiddi þessi orð á meðan Martin afritaði opinberunina. Þau Emma hlustuðu síðan á er Martin las hana upp til að staðfesta nákvæmni hennar. Er þau lásu saman, kom faðir Emmu inn í herbergið og hlustaði. Þegar þau luku við lesturinn spurði hann hvers orð þetta væru.

„Orð Jesú Krists,“ útskýrðu Joseph og Emma.

„Ég álít að þetta sé allt blekking,“ sagði Isaak. „Látið af þessu.“12

Martin tók afrit sitt af opinberuninni, hunsaði föður Emmu, fór um borð í póstvagninn og hélt heim á leið. Hann hafði komið til Harmony til að leita sér sönnunar um plöturnar og fór með opinberun sem vitnaði um raunveruleika þeirra. Hann gat ekki notað þetta í réttarsal en hann snéri til baka til Palmyra, vitandi að Drottinn væri meðvitaður um sig.

Þegar Martin stóð frammi fyrir dómaranum, lagði hann fram einfaldan og máttugan vitnisburð. Með höndina upprétta til himins, bar hann vitni um sannleiksgildi gullplatnanna og lýsti því yfir að hann hefði af eigin hvötum, gefið Joseph fimmtíu dollara til að vinna verk Drottins. Dómstólar vísuðu málinu frá vegna skorts á sönnunum, sem gætu staðfest mál Lucyar.13

Á sama tíma hélt Joseph áfram með þýðingarnar og bað þess að Drottinn myndi senda honum annan ritara fljótlega.14


Í Manchester dvaldi ungur maður að nafni Oliver Cowdery hjá foreldrum Josephs. Oliver var árinu yngri en Joseph og haustið 1828 hafði hann hafið starf sem kennari við skóla sem var um einum og hálfum kílómetra suður af bæ Smith-fjölskyldunnar.

Kennarar dvöldu oft hjá fjölskyldum nemenda sinna og þegar Oliver heyrði sögusagnir um Joseph og gullplöturnar spurði hann hvort hann mætti dvelja hjá Smith-fjölskyldunni. Til að byrja með fékk hann ekki miklar upplýsingar hjá fjölskyldunni. Hið stolna handrit, ásamt sögusögnum svæðisins, hafði gert þau það tortryggin að þau sögðu nær ekkert.15

Hinsvegar vann hann sér inn traust þeirra er hann kenndi Smith-börnunum veturinn 1829. Á sama tíma hafði Joseph eldri, komið tilbaka frá ferð til Harmony, með opinberun sem lýsti því yfir að Drottinn væri við það að hefja undursamlegt verk.16 Þegar hér var komið hafði Oliver sannað fyrir þeim að hann væri einlægur leitandi sannleikans, svo að foreldrar Josephs sögðu honum frá guðlegri köllun sonar þeirra.17

Það sem þau sögðu honum vakti athygli Olivers og hann þráði að hjálpa til við þýðinguna. Eins og Joseph, þá var Oliver ósáttur við kirkjur síns tíma og trúði á Guð kraftaverka sem opinberaði fólkinu enn vilja sinn.18 Hins vegar var Joseph og gullplöturnar langt í burtu og Oliver vissi ekki hvernig hann gæti aðstoðað við verkið ef hann dveldi áfram í Manchester.

Það var vormorgun einn, er regnið buldi á húsþaki Smith-fjölskyldunnar, að Oliver sagði þeim að hann vildi fara til Harmony til að aðstoða Joseph þegar námsönnin væri búin. Lucy og Joseph eldri, hvöttu hann til að spyrja Drottin hvort að þrá hans væri rétt.19

Þegar Oliver gekk til náða, bað hann í einrúmi um að fá vitneskju um sannleiksgildi þess sem hann hafði heyrt um gullplöturnar. Drottinn sýndi honum gullplöturnar í sýn ásamt vinnu Josephs við að þýða þær. Friðsæl tilfinning kom yfir hann og hann vissi að hann ætti að bjóða sig fram til að verða ritari Josephs.20

Oliver sagði engum frá bæn sinni. Fljótlega eftir að námsönninni lauk, þá lögðu hann og Samuel, bróðir Josephs, af stað gangandi til Harmony, sem var í tæplega 250 km fjarlægð. Vegurinn var kaldur og forugur eftir vorrigningarnar og Oliver var kominn með kal í tærnar þegar þeir Samuel komu heim til Josephs og Emmu. Samt var hann áfjáður að hitta hjónin og sjá af eigin raun hvort að Drottinn ynni í gegnum hinn unga spámann.21


Þegar Oliver var kominn til Harmony, var eins og hann hefði alltaf verið þar. Joseph talaði við hann langt fram á nótt, hlustaði á sögu hans og svaraði spurningum hans. Það var greinilegt að Oliver var vel menntaður og Joseph tók fúslega boði hans um að verða ritari.

Eftir komu Olivers þá var fyrsta verk Josephs að tryggja þeim vinnustað. Hann bað Oliver um að setja saman samningsdrög þar sem Joseph lofaði að borga tengdaföður sínum fyrir litla bjálkahúsið sem hann og Emma bjuggu í, hlöðuna, landspildu og nálægan læk.22 Með velferð dóttur sinnar í huga, samþykktu foreldrar Emmu skilmálana og lofuðu að aðstoða við að róa ótta nágrannana varðandi Joseph.23

Á sama tíma hófu Joseph og Oliver þýðingarstarfið. Samstarf þeirra gekk vel, þeir unnu vikum saman, oft á sama tíma og Emma sinnti sínum verkum í sama herbergi.24 Stundum þýddi Joseph með því að horfa í útleggjarana og lesa táknin á plötunum upp á ensku.

Oft fannst honum að einn sjáendasteinn væri hentugri. Stundum setti hann sjáendasteinana í hattinn sinn og setti síðan andlitið í hattinn til að loka ljósið úti og horfði í steinana. Ljósið frá steinunum lýsti upp myrkrið og sýndi orðin sem Joseph las svo upp um leið og Oliver skráði þau niður.25

Samkvæmt leiðsögn Drottins, þá reyndi Joseph ekki að endurþýða það sem hafði glatast. Í staðinn héldu þeir Oliver áfram með heimildirnar. Drottinn opinberaði að Satan hefði tælt rangláta menn til að taka blaðsíðurnar, breyta orðum á þeim og nota þær til að vekja efasemdir um þýðinguna. Drottinn fullvissaði Joseph hinsvegar um að hann hefði innblásið hinum fornu spámönnum, sem undirbjuggu plöturnar, til að skrá aðra, nákvæmari frásögn af hinu týnda efni.26

„Þannig mun ég smána þá, sem breytt hafa orðum mínum.“ sagði Drottinn við Joseph. „Já, ég mun sýna þeim að viska mín er meiri en slægð djöfulsins.“27

Það heillaði Oliver að vinna sem ritari Josephs. Dag eftir dag hlustaði hann á er vinur hans las fyrir hina flóknu sögu tveggja menningarheima, Nefítanna og Lamanítanna. Hann lærði um réttláta og rangláta konunga, um fólk sem féll í ánauð og var bjargað þaðan, um fornan spámann sem notaði sjáendasteina til að þýða heimildir sem fundust á völlum sem fylltir voru beinum. Á sama hátt og Joseph, þá var þessi spámaður opinberari og sjáandi, blessaður með gjöf og krafti Guðs.28

Þessi heimild vitnaði ítrekað um Jesú Krist og Oliver sá hvernig spámennirnir leiddu hina fornu kirkju og hvernig venjulegir karlar og konur unnu verk Guðs.

Samt hafði Oliver margar spurningar um verk Drottins og hann hungraði í svör. Joseph leitaði opinberunar fyrir hann í gegnum Úrím og Túmmím og Drottinn svaraði. „Ef þér þess vegna biðjið, mun yður gefast,“ sagði hann „Leitir þú svara, skalt þú kynnast miklum og undursamlegum leyndardómum.“

Drottinn hvatti Oliver einnig til að minnast þess vitnis sem hann hefði fengið áður en hann kom til Harmony, sem Oliver hafði geymt með sér. „Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“ „Hafi ég sagt þér það sem enginn maður veit, hefur þú þá ekki fengið vitnisburð?“29

Oliver var forviða. Hann sagði Joseph samstundis frá hinni leyndu bæn sinni og því guðlega vitni sem hann hafði fengið. Enginn hefði getað vitað um það nema Guð, sagði hann og nú var hann sannfærður um sannleiksgildi verksins.

Þeir snéru aftur til vinnu og Oliver fór að velta því fyrir sér hvort að hann gæti einnig þýtt.30 Hann trúði að Guð gæti unnið í gegnum verkfæri eins og sjáendasteina og hann hafði stundum notað spákvist til að finna vatn og málma. Samt var hann óviss um hvort að kvisturinn hans starfaði með krafti Guðs. Ferli opinberana var honum enn ráðgáta.31

Joseph lagði fyrirspurn Olivers aftur undir Drottin og Drottinn sagði Oliver að hann hefði kraftinn til að öðlast þekkingu ef hann spyrði í trú. Drottinn staðfesti að kvisturinn starfaði með krafti Guðs, eins og kvistur Arons í Gamla testamentinu. Hann kenndi Oliver því næst meira um opinberun. „Ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda“ sagði hann. „Sjá, þetta er andi opinberunar.“

Hann sagði Oliver einnig að hann gæti þýtt heimildirnar eins og Joseph svo lengi sem hann reiddi sig á trúna. „Haf hugfast,“ sagði Drottinn, „að án trúar getur þú ekkert gjört.“32

Eftir opinberunina var Oliver ákafur í að þýða. Hann fylgdi fordæmi Josephs en þegar orðin komu ekki auðveldlega varð hann vonsvikinn og ráðvilltur.

Joseph sá að vinur hans átti í baráttu og var samúðarfullur. Það hafði tekið hann tíma að stilla hjarta sitt og huga að þýðingarverkinu, en Oliver virtist halda að hann gæti náð valdi á þessu á skömmum tíma. Það var ekki nægilegt að hafa andlega gjöf. Hann varð að rækta hana og þróa með sér yfir tíma, til að geta notað hana í verki Guðs.

Oliver gafst fljótt upp á því að þýða og spurði Joseph hvers vegna hann hefði ekki náð árangri.

Joseph spurði Drottin. „Þú hefur talið að ég gæfi þér það, og ekki þyrfti að hugsa um annað en að spyrja mig,“ svaraði Drottinn. „Þú verður að kanna það vel í huga þínum, síðan að spyrja mig hvort það sé rétt.“

Drottinn gaf Oliver fyrirmæli um að vera þolimóður. „Eigi að síður er ekki æskilegt að þú þýðir nú,“ sagði hann. „Það verk, sem þú ert kallaður til að vinna, er að skrifa fyrir þjón minn Joseph.“ Hann lofaði Oliver öðrum tækifærum til að þýða seinna, en að nú væri hann ritarinn og Joseph sjáandinn.33

Heimildir

  1. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [9].

  2. Sjá Kenning og sáttmálar 10:2 (Revelation, Spring 1829, á josephsmithpapers.org).

  3. Sjá Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [5]–[7].

  4. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [8]–[9].

  5. Kenning og sáttmálar 3:1 (Opinberun, júlí 1828, á josephsmithpapers.org); Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [8]–[9]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 10, í JSP, H1:246 (drög 2).

  6. Kenning og sáttmálar 3 (Opinberun, júlí 1828, á josephsmithpapers.org); Joseph Smith History, sirka sumar 1832, [6], í JSP, H1:16; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [8]–[9].

  7. Lucy Mack Smith, History, 1845, 138; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [8]–[11].

  8. Inngangur að Mormónsbók, sirka ág. 1829, í JSP, D1:92–94; “Testamoney of Martin Harris,” 4. sept. 1870, [4], Edward Stevenson Collection, Church History Library; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 8, [5]; Historical Introduction to Revelation, mar. 1829 [DC 5], í JSP, D1:14–16.

  9. “Testamoney of Martin Harris,” 4. sept. 1870, [4], Edward Stevenson Collection, Church History Library; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [9]; bók 8, [5].

  10. Kenning og sáttmálar 5 (Opinberun, mar. 1829, á josephsmithpapers.org).

  11. Opinberun, mar. 1829 [DC 5], í JSP, D1:17.

  12. Isaac Hale, Eiðsvarin yfirlýsing, 20. mars, 1834, í “Mormonism,” Susquehanna Register, and Northern Pennsylvanian, 1. maí, 1834, [1]; “considered” in original changed to “consider.”

  13. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 8, [6]–[7].

  14. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [11].

  15. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [12]; “Mormonism,” Kansas City Daily Journal, 5. júní, 1881, 1; Morris, “Conversion of Oliver Cowdery,” 5–8.

  16. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [12]; Knight, Reminiscences, 5; Kenning og sáttmálar 4 (Opinberun, feb. 1829, á josephsmithpapers.org); sjá einnig Darowski, “Joseph Smith’s Support at Home,” 10–14.

  17. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [12].

  18. Oliver Cowdery to William W. Phelps, sept. 7, 1834, LDS Messenger and Advocate, okt. 1834, 1:15.

  19. Kenning og sáttmálar 6 (Opinberun, apr. 1829–A, at josephsmithpapers.org); Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [12]; bók 8, [1].

  20. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 15, í JSP, H1:284 (drög 2); Joseph Smith History, sirka sumar 1832, [6], í JSP, H1:16; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 8, [1]; sjá einnig Kenning og sáttmálar 6:22–23 (Opinberun, apr. 1829–A, á josephsmithpapers.org).

  21. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 8, [3]–[4]; Joseph Smith History, sirka sumar 1832, [6], í JSP, H1:16.

  22. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 8, [4]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 13, í JSP, H1:276 (drög 2); Agreement with Isaac Hale, 6. apr. 1829, í JSP, D1:28–34; Oliver Cowdery to William W. Phelps, 7. sept. 1834, LDS Messenger and Advocate, okt. 1834, 1:14.

  23. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 18, í JSP, H1:296 (drög 2).

  24. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 15, í JSP, H1:284 (drög 2); Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 8, [4]; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, 1. okt. 1879, 290. Efni: Daily Life of First-Generation Latter-day Saints

  25. “Book of Mormon Translation,” Gospel Topics, topics.lds.org; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 15, í JSP, H1:284 (drög 2); Oliver Cowdery to William W. Phelps, 7. sept. 1834, LDS Messenger and Advocate, okt. 1834, 1:14; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, 1. okt. 1879, 290; “Golden Bible,” Palmyra Freeman, 11. ágúst, 1829, [2]. Efni: Book of Mormon Translation

  26. Kenning og sáttmálar 10:45 (Opinberun, vorið 1829, á josephsmithpapers.org); 1 Nefí 9:5; Orð Mormóns 1; Kenning og sáttmálar 3 (Opinberun, júlí 1828, á josephsmithpapers.org).

  27. Kenning og sáttmálar 10:42–43 (Opinberun, vorið 1829, á josephsmithpapers.org). Efni: Lost Manuscript of the Book of Mormon

  28. Oliver Cowdery to William W. Phelps, 7. sept. 1834, LDS Messenger and Advocate, okt. 1834, 1:14; Mósía 8:16–18; sjá einnig Omni 1:20; Mósía 8:8–13; 28:11–15, 20; Alma 37:21, 23; og Eter 3:24–28.

  29. Kenning og sáttmálar 6:5, 11, 22–24 (Opinberun, apr. 1829–A, á josephsmithpapers.org).

  30. Kenning og sáttmálar 6:10–13 (Opinberun, apríl. 1829–A, á josephsmithpapers.org); Kenning og sáttmálar 8:4–8 (Opinberun, apr. 1829–B, á josephsmithpapers.org); Historical Introduction to Revelation, apr. 1829–B [DC 8], í JSP, D1:44–45; Opinberun Bók 1, 13, í JSP, MRB:15.

  31. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 8, [1]; Paul and Parks, History of Wells, Vermont, 81; Historical Introduction to Revelation, 1829–B [DC 8], í JSP, D1:44–45; sjá einnig Baugh, Days Never to Be Forgotten; Bushman, Rough Stone Rolling, 73; og Morris, “Oliver Cowdery’s Vermont Years and the Origins of Mormonism,” 106–29. Efni: Divining Rods

  32. Kenning og sáttmálar 6 (Opinberun, apr. 1829–A, á josephsmithpapers.org); Kenning og sáttmálar 8 (Opinberun, apr. 1829–B, á josephsmithpapers.org); Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 13–14, í JSP, H1:276–78 (drög 2); sjá einnig Book of Commandments 7:3; og Kenning og sáttmálar 8:6–7.

  33. Kenning og sáttmálar 9 (Opinberun, apr. 1829–D, á josephsmithpapers.org); Oliver Cowdery to William W. Phelps, 7. sept. 1834, LDS Messenger and Advocate, okt. 1834, 1:14.