Trúarskóli eldri deildar
5 Allt er glatað


„Allt er glatað,“ kafli 5 í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815-1846 (2018)

Kafli 5: „Allt er glatað“

KAFLI 5

Allt er glatað

Ljósmynd
Þýddar blaðsíður

Fjársjóðsleitarmenn reyndu að stela plötunum í margar vikur eftir að Joseph kom með þær heim. Til þess að vernda heimildirnar, varð hann að færa þær frá einum stað á þann næsta, fela þær undir eldstæðinu, undir verkstæðisgólfi föður hans og í kornhrúgum. Hann gat aldrei leyft sér að slaka á.

Forvitnir nágrannar komu í heimsókn og suðuðu í honum að sýna þeim heimildirnar. Joseph neitaði þeim alltaf um það, jafnvel þegar einhver bauðst til að greiða fyrir það. Hann var ákveðinn í því að annast plöturnar og treysti á loforð Drottins um að ef hann gerði allt sem í hans valdi stæði þá myndu þær verða varðveittar.1

Þessar truflanir héldu honum oft frá því að kanna plöturnar og læra meira um Úrim og Túmmím. Hann vissi að þýðendurnir ættu að hjálpa honum að þýða plöturnar, en hann hafði aldrei notað sjáendasteina til að lesa fornt tungumál. Hann vildi ákafur hefja starfið, en honum var ekki ljóst hvernig hann ætti að fara að því.2

Á sama tíma og Joseph kannaði plöturnar þá hafði velmegandi landeigandi að nafni Martin Harris orðið áhugasamur um verk hans. Martin var nógu gamall til að geta verið faðir Josephs og hafði nokkrum sinnum ráðið Joseph til vinnu á landi sínu. Martin hafði heyrt um gullplöturnar en hafði lítið hugsað um þær þar til að móðir Josephs bauð honum að heimsækja son sinn.3

Joseph var úti að vinna þegar Martin kom þar að, svo hann talaði við Emmu og aðra fjölskyldumeðlimi um plöturnar. Þegar Joseph kom heim, greip Martin um handlegg hans og bað hann um frekari upplýsingar. Joseph sagði honum frá gullplötunum og leiðbeiningum Morónís um að þýða og gefa út það sem ritað var á þær.

„Ef þetta er verk djöfulsins,“ sagði Martin, „þá vil ég ekki hafa neitt með þetta að gera.“ Ef hins vegar um verk Drottins væri að ræða, þá vildi hann aðstoða Joseph við að boða það heiminum.

Joseph leyfði Martin að lyfta plötunum í öryggiskassanum. Martin fann að það var eitthvað þungt í kassanum, en hann var ekki sannfærður um að það væru gullplötur. „Þú mátt ekki áfellast mig fyrir að trúa þér ekki fyllilega,“ sagði hann við Joseph.

Þegar Martin kom heim eftir miðnætti, læddist hann inn í herbergið sitt, baðst fyrir og lofaði Guði að hann myndi gefa allt sem hann ætti ef hann gæti fengið vitneskju um að Joseph væri að vinna guðlegt verk.

Er hann baðst fyrir, fann Martin hljóða, kyrrláta rödd, tala til sálar hans. Hann viss að plöturnar væru frá Guði - og hann vissi að hann varð að aðstoða Joseph við að deila boðskap þeirra.4


Seint árið 1827 komst Emma að því að hún var barnshafandi og skrifaði foreldrum sínum. Það hafði liðið nærri því ár síðan hún og Joseph höfðu gifst og faðir hennar og móðir voru enn ósátt. Hales hjónin samþykktu samt að leyfa ungu hjónunum að koma aftur til Harmony svo að Emma gæti fætt barnið nærri fjölskyldu sinni.

Joseph var fús til að fara þó að það myndi taka hann í burtu frá hans eigin foreldrum og systkinum. Fólk í New York var enn að reyna að stela plötunum og það gæti veitt honum þann frið og næði sem hann þyrfti til að vinna verk Drottins, ef hann flytti á nýjan stað. Því miður var hann í skuld og átti engan pening til að flytja.5

Joseph fór í bæinn í von um að geta greitt eitthvað af skuldum sínum og komið fjármálunum í lag. Á meðan hann var í búð einni að leggja inn greiðslu, skálmaði Martin Harris að honum. „Hér eru fimmtíu dollarar, Hr. Smith,“ sagði hann. „Ég gef þér þá til að vinna verk Drottins.“

Joseph var óöruggur með að þiggja peningana og lofaði að endurgreiða þá, en Martin sagði honum að hafa ekki áhyggjur af því. Peningurinn var gjöf og hann kallaði á alla í herberginu til vitnis um að hann hefði fúslega gefið peninginn.6

Fljótlega eftir þetta, greiddi Joseph skuldir sínar og hlóð vagninn. Hann og Emma fóru til Harmony með gullplöturnar faldar í tunnu af baunum.7


Um viku seinna kom parið að hinu rúmgóða húsi Hales fjölskyldunnar.8 Áður en langt var liðið, heimtaði faðir Emmu að fá að sjá gullplöturnar, en Joseph sagði að hann gæti einungis sýnt honum kassann sem geymdi töflurnar. Isaac var ósáttur, lyfti öryggiskassanum og fann þyngd hans, en samt var hann vantrúaður. Hann sagði að Joseph gæti ekki geymt hann í húsinu nema að hann myndi sýna honum hvað væri í kassanum.9

Það yrði ekki auðvelt að þýða með föður Emmu á svæðinu, en Joseph reyndi sitt besta. Með aðstoð Emmu afritaði hann mörg af hinum einkennilegu táknum af plötunum yfir á blað.10 Í fjölmargar vikur reyndi hann svo að þýða þau með Úrím og Túmmím. Þetta ferli krafðist þess að hann gerði meira en bara að rýna í þýðendurna. Hann varð að vera auðmjúkur og sýna trú er hann rannsakaði táknin.11

Nokkrum mánuðum seinna kom Martin til Harmony. Hann sagði að honum fyndist hann vera kallaður af Drottni til að ferðast til New York borgar til að ráðfæra sig við sérfræðinga í fornum tungumálum. Hann vonaðist til þess að þeir gætu þýtt táknin12

Joseph afritaði nokkur tákn í viðbót af plötunum, skrifaði þýðingarnar niður og rétti Martin blaðið. Hann og Emma horfðu síðan á eftir vini sínum er hann hélt austur til að ráðfæra sig við virta fræðimenn.13


Þegar Martin kom til New York borgar, fór hann á fund við Charles Anthon, prófessor í latínu og grísku við Columbia háskólann. Prófessor Anthon var ungur maður - um fimmtán árum yngri en Martin - og var best þekktur fyrir að hafa gefið út vinsæla alfræðiorðabók um gríska og rómverska menningu. Hann var einnig farinn að safna sögum um amerísku indíánana.14

Anton var stífur fræðimaður sem kunni ekki að meta truflun, en hann bauð Martin velkominn og skoðaði táknin og þýðinguna sem Joseph hafði lagt fram.15 Jafnvel þó að prófessorinn kynni ekki egypsku þá hafði hann lesið nokkrar rannsóknir um tungumálið og vissi hvernig það leit út. Er hann leit á táknin sá hann margt skylt með egypsku og sagði Martin að þýðingin væri rétt.

Martin sýndi honum fleiri tákn og Anthon skoðaði þau. Hann sagði ritmálið innihalda tákn frá mörgum fornum tungumálum og gaf Martin bréf sem vottaði áreiðanleika þeirra. Hann ráðlagði honum einnig að sýna öðrum fræðimanni, að nafni Samuel Mitchill táknin, en hann hafði áður kennt við Columbia háskólann.16

„Hann er mjög lærður í þessum fornu tungumálum,“ sagði Anthon, „og ég efast ekkert um að þú yrðir sáttur við það sem hann segði.17

Martin setti vottorðið í vasann, en um leið og hann var á leiðinni út, kallaði Anthon hann tilbaka. Hann vildi fá að vita hvernig Joseph hefði fundið gullplöturnar.

„Engill Guðs opinberaði honum þær,“ svaraði Martin. Hann bar vitni um að þýðing platnanna myndi breyta heiminum og bjarga honum frá eyðingu. Nú þegar hann hefði sönnun á uppruna þeirra, þá ætlaði hann að selja bæ sinn og leggja af mörkum pening til að fá þýðinguna útgefna.

„Leyf mér að sjá vottorðið,“ sagði Anthon.

Martin náði í það í vasa sinn og rétti honum það. Anthon reif það í smátt og sagði að það væri ekkert til lengur sem héti þjónusta engla. Ef Joseph vildi láta þýða plöturnar þá ætti hann að koma með þær til Columbia háskóla og fá fræðimenn til að þýða þær.

Martin útskýrði að hluti platnanna væri innsiglaður og að Joseph hefði ekki heimild til að sýna nokkrum þær.

„Ég get ekki lesið innsiglaða bók,“ sagði Anthon. Hann varaði Martin við því að Joseph væri líklega að blekkja hann. „Varastu svikahrappa,“ sagði hann. 18

Martin yfirgaf prófessor Anthon og heimsótti Samuel Mitchill. Hann tók kurteisislega á móti Martin, hlustaði á frásögn hans og leit á táknin og þýðinguna. Hann gat ekki skilið þau en hann sagði að þau minntu á egypskt myndletur og að þau væru ritmál útdauðrar þjóðar.19

Martin yfirgaf borgina skömmu síðar og snéri til Harmony, sannfærðari en nokkru sinni áður um að Joseph hefði fornar gullplötur undir höndum og kraftinn til að þýða þær. Hann sagði Joseph frá viðtölum sínum við prófessorana og fullyrti að ef að einhverjir hámenntuðustu menn Bandaríkjanna gætu ekki þýtt þessa bók, þá yrði Joseph að gera það sjálfur.

„Ég get það ekki,“ sagði Joseph, sem fannst verkið óyfirstíganlegt, „því að ég er ekki lærður.“ Hann vissi samt að Drottinn hafði undirbúið þýðendurna svo að hann gæti þýtt plöturnar.20

Martinn samþykkti þetta. Hann ákvað að fara til baka til Palmyra, ganga frá sínum málum og snúa svo aftur, eins fljótt og hann gat, til að þjóna Joseph sem ritari hans.21


Í apríl 1828 bjuggu Emma og Joseph í húsi við Susquehanna ánna, ekki fjarri heimili foreldra hennar.22 Emma, sem var komin langt á leið í meðgöngu sinni, aðstoðaði Joseph oft sem ritari eftir að hann hóf að þýða heimildirnar. Dag einn, er hann sat við þýðingarnar, varð Joseph skyndilega mjög fölur. „Emma, voru múrar í kringum Jerúsalem?“ spurði hann.

„Já“ sagði hún er hún rifjaði upp lýsingar af því úr Biblíunni.

„Ó,“ sagði Joseph feginn, „Ég var hræddur um að ég hefði verið blekktur.“23

Emma furðaði sig á því hvernig þekkingarskortur eiginmanns hennar á sögu og ritningunum, kom ekki í veg fyrir þýðinguna. Joseph átti erfitt með að skrifa sendibréf í samhengi. Samt sat hún við hlið hans klukkutímunum saman á meðan hann las yfir heimildirnar án aðstoðar nokkurrar bókar eða handrits. Hún vissi að einungis Guð gæti innblásið hann til að þýða eins og hann gerði.24

Sá tími kom að Martin snéri aftur frá Palmyra og tók við sem ritari og til að gefa Emmu tíma til að hvílast áður en að barnið kæmi í heiminn.25 Hins vegar þá var ekki auðvelt að fá hvíld. Lucy, eiginkona Martins, hafði krafist þess að koma með honum til Harmony og bæði hjónin voru mjög sterkir persónuleikar.26 Lucy var full tortryggni gagnvart löngun Martins til að styrkja Joseph fjárhagslega og var honum reið fyrir að hafa farið til New York borgar án hennar. Þegar hann sagði henni að hann hyggðist fara til Harmony til að aðstoða við þýðinguna, hafði hún boðið sjálfri sér með í ferðina, staðráðin í því sjá plöturnar.

Lucy var að missa heyrn og þegar hún skildi ekki það sem fólk sagði við hana tók hún því stundum þannig að þau væru að gagnrýna hana. Hún hafði einnig takmarkaða tilfinningu fyrir einkalífi fólks. Eftir að Joseph neitaði að sýna henni plöturnar fór hún að leita í húsinu, tætti upp úr kistum fjölskyldunnar, úr skápum og koffortum. Joseph hafði um lítið annað að velja en að fela plöturnar í skóginum.27

Lucy fór fljótlega úr húsinu og gisti hjá nágranna. Emma fékk aftur kistur sínar og skápa en nú var Lucy farin að segja nágrönnunum að Joseph hyggðist ræna peningum Martins. Eftir að hafa valdið vandræðum í nokkrar vikur, fór Lucy aftur heim til Palmyra.

Þegar friður komst aftur á náðu Joseph og Martin að þýða hraðar. Joseph óx í guðlegu hlutverki sínu sem sjáandi og opinberari. Horfandi í þýðendurna eða annan sjáendastein, gat hann þýtt hvort sem plöturnar voru fyrir framan hann eða samanvafðar í einum af dúkum Emmu á borðinu.28

Út apríl, maí og snemma í júní, hlustaði Emma á takfast hljóðið af því þegar Joseph las fyrir heimildirnar.29 Hann talaði hægt en skýrt, stoppaði öðru hverju til að bíða eftir að Martin segði „skrifað“ eftir að hann hafði unnið upp það sem Joseph hafði sagt.30 Emma skiptist stundum á við hann við ritunina og var undrandi yfir því hvernig Joseph náði alltaf að halda áfram þar sem frá var horfið án neinnar upprifjunar, þrátt fyrir truflanir og hlé.31

Fljótlega kom að því að Emma yrði léttari. Bunkinn af handritsblaðsíðunum var orðinn þykkur og Martin var sannfærður um, að ef hann gæti leyft konu sinni að lesa þýðinguna, þá myndi hún sjá gildi hennar og hætta að skipta sér af verki þeirra.32 Hann vonaði einnig að Lucy yrði ánægð með það hvernig hann hefði nýtt tíma sinn og peninga til að koma verki Guðs á framfæri.

Dag einn bað Martin Joseph um leyfi til að fara með handritið til Palmyra í nokkrar vikur.33 Joseph var ekki sáttur við hugmyndina, því hann minntist þess hvernig Lucy hafði hagað sér þegar hún heimsótti þau. Samt vildi hann þóknast Martin, sem hafði trúað honum þegar svo margir aðrir höfðu efast um orð hans.34

Óviss um það hvað væri best að gera, bað Joseph um leiðsögn og Drottinn sagði honum að leyfa Martin ekki að taka síðurnar.35 Martin var samt viss um að það myndi breyta stöðunni, ef að hann gæti sýnt konu sinni þær og sárbændi Joseph um að biðja aftur. Joseph gerð það en svarið var það sama. Martin þrýsti hins vegar á hann að biðja í þriðja sinn og í þetta sinn leyfði Guð þeim að gera eins og þeim lysti.

Joseph sagði Martin að hann gæti farið með síðurnar í tvær vikur, ef hann lofaði að halda þeim læstum niðri og sýna þær einungis vissum fjölskyldumeðlimum. Martin lofaði því og snéri tilbaka til Palmyra með handritið með sér.36

Eftir að Martin fór, kom Moróni og tók þýðendurna frá Joseph.38


Daginn eftir að Martin fór, upplifði Emma sársaukafullar fæðingahríðir og fæddi dreng. Barnið var veikburða og lifði ekki lengi. Þessi eldraun gerði Emmu líkamlega og andlega niðurbrotna og á tímabili virtist sem hún myndi einnig deyja. Joseph annaðist hana látlaust og yfirgaf hana aldrei lengi í einu.38

Eftir tvær vikur fór heilsa Emmu að batna og hugur hennar snéri til Martins og handritsins. „Ég er ekki róleg,“ sagði hún við Joseph, „og ég næ ekki að hvílast og verð ekki í rónni fyrr en ég veit eitthvað um það hvað herra Harris er að gera með það.“

Hún hvatti Joseph til að finna Martin en Joseph vildi ekki yfirgefa hana. „Sendu eftir móður minni, „ sagði hún „og hún verður hjá mér á meðan þú ert í burtu.“39

Joseph tók póstvagninn norður. Hann borðaði og svaf lítið á leiðinni, hræddur um að hann hefði misboðið Drottni með því að hlusta ekki þegar honum var sagt að leyfa Martin ekki að fara með handritið.40

Sólin var að rísa þegar hann kom heim til foreldra sinna í Manchester. Smith fjölskyldan var að undirbúa morgunmatinn og sendi Martin boð um að borða morgunmat með þeim. Um klukkan átta var máltíðin tilbúin á borðinu en Martin var enn ekki kominn. Joseph og fjölskylda hans voru ekki róleg er þau biðu hans.

Loksins, eftir rúmlega fjögurra klukkustunda bið, sáu þau Martin í fjarska, er hann gekk hægt í áttina að húsinu og horfði beint á jörðina. 41 Hann hikaði við hliðið, settist á grindverkið og dró hatt sinn niður fyrir augun. Því næst kom hann inn og settist niður til að borða í þögn.

Fjölskyldan horfði á það þegar Martin tók um hnífapörin, eins og til að borða, en sleppti þeim síðan aftur. „Ég hef tapað sál minni!“ grét hann og þrýsti höndum sínum að enni sín. „Ég hef tapað sál minni.“

Joseph stökk upp. „Martin, hefurðu tapað handritinu?“

„Já,“ sagði Martin. „Það er horfið og ég veit ekki hvar það er.“

„Ó Guð minn góður, Guð minn góður,“ stundi Joseph og kreppti hnefana. „Allt er glatað!“

Hann byrjaði að ganga um gólf. Hann vissi ekki hvað hann ætti að gera. „Farðu aftur,“ skipaði hann Martin. „Leitaðu aftur.“

„Það þýðir ekkert,“ grét Martin. „Ég hef leitað allstaðar í húsinu. Ég hef meira að segja rifið upp dýnur og kodda og ég veit að það er ekki þar.“

„Verð ég að snúa aftur til eiginkonu minnar með slíkar fréttir?“ Joseph óttaðist að það yrði henni að aldurtila. „Hvernig get ég staðið frammi fyrir Drottni?“

Móðir hans reyndi að hugga hann. Hún sagði að kannski myndi Drottinn fyrirgefa honum ef hann iðraðist einlæglega. Á þessum tímapunkti var Joseph farinn að gráta, reiður sjálfum sér fyrir að hlýða Drottni ekki í fyrsta skiptið. Hann gat varla borðað það sem eftir lifði dagsins. Hann dvaldi þarna yfir nótt og fór af stað til Harmony næsta morgun.42

Lucy var þungt fyrir hjarta er hún horfði á hann fara. Svo virtist sem allt sem þau höfðu vonast eftir sem fjölskylda - allt sem hafði fært þeim gleði undanfarin ár - væri horfið á augabragði.43

Heimildir

  1. Joseph Smith—Saga 1:59; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 8, í JSP, H1:236–38 (drög 2); Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [1]–[2]; Knight, Reminiscences, 3.

  2. Knight, Reminiscences, 3–4; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [1]–[3]; Joseph Smith History, í kringum sumarið 1832, 1, í JSP, H1:11.

  3. “Mormonism—Nr. II,” Tiffany’s Monthly, ág. 1859, 167–68; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [3]–[4]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 8, í JSP, H1:238 (drög 2). Efni: Witnesses of the Book of Mormon

  4. “Mormonism—Nr. II,” Tiffany’s Monthly, ág. 1859, 168–70.

  5. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 8–9, í JSP, H1:238 (drög 2); Knight, Reminiscences, 3; “Mormonism—Nr. II,” Tiffany’s Monthly, ág. 1859, 170.

  6. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [6]; Lucy Mack Smith, History, 1845, 121.

  7. “Mormonism—Nr. II,” Tiffany’s Monthly, ág. 1859, 170.

  8. “Mormonism—Nr. II,” Tiffany’s Monthly, ág. 1859, 170; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:240 (drög 2).

  9. Isaac Hale, Affidavit, mar. 20, 1834, í “Mormonism,” Susquehanna Register, and Northern Pennsylvanian, maí 1, 1834, [1].

  10. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:240 (drög 2); Knight, Reminiscences, 3.

  11. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [3]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:240 (drög 2); “Letter from Elder W. H. Kelley,” Saints’ Herald, mar. 1, 1882, 68; see sjá einnig Kenning og sáttmálar 9:7–8 (Opinberun, apr. 1829–D, á josephsmithpapers.org).

  12. Joseph Smith History, kringum sumarið 1832, 5, í JSP, H1:15; Knight, Reminiscences, 3. Efni: Book of Mormon Translation

  13. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:238–40 (drög 2); Joseph Smith History, kringum sumarið 1832, 5, í JSP, H1:15.

  14. MacKay, “Git Them Translated,” 98–100.

  15. Bennett, “Read This I Pray Thee,” 192.

  16. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:240 (drög 2); Bennett, Journal, ág. 8, 1831, in Arrington, “James Gordon Bennett’s 1831 Report on ‘The Mormonites,’” 355.

  17. [James Gordon Bennett], “Mormon Religion—Clerical Ambition—Western New York—the Mormonites Gone to Ohio,” Morning Courier and New-York Enquirer, sept. 1, 1831, [2].

  18. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:240–42 (drög 2); Jennings, “Charles Anthon,” 171–87; Bennett, “Read This I Pray Thee,” 178–216.

  19. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:244 (drög 2); Bennett, Journal, ág. 8, 1831, í Arrington, “James Gordon Bennett’s 1831 Report on ‘The Mormonites,’” 355; Knight, Reminiscences, 4. Efni: Martin Harris’s Consultations with Scholars

  20. Joseph Smith History, kringum sumarið 1832, 5, í JSP, H1:15; Jesaja 29:11–12; 2 Nefí 27:15–19.

  21. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [8]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:244; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 289–90.

  22. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:244 (drög 2); Isaac Hale, Affidavit, mar. 20, 1834, í “Mormonism,” Susquehanna Register, and Northern Pennsylvanian, maí 1, 1834, [1]; Agreement with Isaac Hale, apr. 6, 1829, í JSP, D1:28–34.

  23. Briggs, “A Visit to Nauvoo in 1856,” 454; sjá einnig Edmund C. Briggs to Joseph Smith, júní 4, 1884, Saints’ Herald, júní 21, 1884, 396.

  24. Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 289–90; Briggs, “A Visit to Nauvoo in 1856,” 454.

  25. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:244 (drög 2); Isaac Hale, Affidavit, mar. 20, 1834, í “Mormonism,” Susquehanna Register, and Northern Pennsylvanian, maí 1, 1834, [1].

  26. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [8].

  27. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [3]–[5], [8]–[9].

  28. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [9]–[10]; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 289–90.

  29. Í endurminningum sínum sagði Emma Smith að hún hefði unnið í sama herbergi og Joseph og Oliver Cowdery á meðan þeir luku þýðingunum árið 1829 og hún var einnig viðstödd þegar Joseph og Martin þýddu árið 1828. (Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 290.)

  30. William Pilkington, Affidavit, Cache County, UT, apr. 3, 1934, í William Pilkington, Autobiography and Statements, Church History Library; “One of the Three Witnesses,” Deseret News, des. 28, 1881, 10.

  31. Briggs, “A Visit to Nauvoo in 1856,” 454; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 289–90.

  32. Sjá Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [10]; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:244; Joseph Smith History, kringum sumarið 1832, 5, í JSP, H1:15; Knight, Reminiscences, 5; og Historical Introduction to Preface to the Book of Mormon, í kringum ág. 1829, í JSP, D1:92–93.

  33. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9, í JSP, H1:244 (drög 2); Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [10].

  34. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [10]–[11]; bók 7, [1].

  35. Joseph Smith History, kringum sumarið 1832, 5, í JSP, H1:15.

  36. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9–10, in JSP, H1:244–46 (drög 2); Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [1]; Knight, Reminiscences, 5.

  37. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 9–10, í JSP, H1:244–46 (drög 2).

  38. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [1]–[2]. Efni: Joseph and Emma Hale Smith Family

  39. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [1]–[2].

  40. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [2]–[4].

  41. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [5].

  42. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [5]–[7]. Efni: Lost Manuscript of the Book of Mormon

  43. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 7, [7]. Efni: Lucy Mack Smith