Trúarskóli eldri deildar
3 Gulltöflurnar


„Gulltöflurnar,“ kafli 3 í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018)

Kafli 3: „Gulltöflurnar“

KAFLI 3

Gulltöflurnar

Ljósmynd
Steinkista

Þrjú ár liðu og þrjár uppskerur. Flestir dagar hjá Joseph fóru í að hreinsa land, stinga upp jarðveg og vinna sem daglaunamaður til þess að safna peningum fyrir hinni árlegu afborgun af eign fjölskyldunnar. Þessi vinna kom í veg fyrir að hann gæti stundað nám að einhverju marki og tíma hans var að mestu varið með fjölskyldu og öðrum daglaunamönnum.

Joseph og vinir hans voru ungir og léttlyndir. Stundum varð þeim á að gera heimskuleg glappaskot og Joseph komst að því að þó að honum væri fyrirgefið einu sinni, kom það ekki í veg yfir að hann þyrfti að iðrast aftur. Undraverð sýn hans svaraði heldur ekki öllum spurningum né kom í veg fyrir að hann væri ráðvilltur. 1 Hann reyndi því að halda sér nærri Guði. Hann las í Biblíunni, treysti á kraft Jesú Krists til að frelsa hann og hlýddi boðum Drottins um að ganga ekki í neina kirkju.

Joseph trúði, eins og margir aðrir á svæðinu, þar með talinn faðir hans, að Guð gæti opinberað þekkingu í gegnum hluti eins og stafi og steina, á sama hátt og hann hafði gert með Móse, Aron og aðra í Biblíunni.2 Dag einn, er Joseph var að aðstoða nágranna við að grafa brunn, fann hann lítinn stein sem var grafinn djúpt í jörðu. Meðvitaður um að fólk notaði stundum sérstaka steina til að leita að týndum hlutum eða földum fjársjóðum, þá velti Joseph því fyrir sér hvort hann hefði fundið slíkan stein. Er hann horfði í steininn sá hann hluti sem voru ósýnilegir hinu mannlega auga.3

Gjöf Josephs til að geta notað steininn vakti hrifningu hjá fjölskyldumeðlimum, sem sáu það sem merki um guðlega velvild.4 Samt, þó að hann hefði gjöf sjáandans, var Joseph óviss um það hvort Guð væri sáttur við hann. Hann skynjaði ekki lengur fyrirgefninguna og friðinn sem hann hafði upplifað eftir sýn föðurins og sonarins. Í stað þess fannst honum hann oft fordæmdur fyrir veikleika sína og ófullkomleika.5


Þann 21. september, 1823, lá hinn sautján ára gamli Joseph, vakandi uppi í efra herberginu, sem hann deildi með bræðrum sínum. Hann hafði vakað lengi þetta kvöld, hlustandi á fjölskyldu sína tala um hinar ólíku kirkjur og kenningarnar sem þær kenndu. Nú voru allir sofnaðir og húsið var hljótt.6

Í myrkvuðu herberginu hóf Joseph að biðja og bað Guð innilega um að fyrirgefa honum syndir hans. Hann þráði að eiga samskipti við himneskan sendiboða sem gæti fullvissað hann um stöðu hans frammi fyrir Drottni og veitt honum þekkingu á því fagnaðarerindi sem honum hafði verið lofað í lundinum. Joseph vissi að Guð hefði svarað bænum sínum áður og hann var fullkomlega sannfærður um að hann myndi svara aftur.

Er Joseph bað, birtist ljós við hlið rúmsins og jókst þar til það fyllti herbergið. Joseph leit upp og sá engil er stóð í loftinu. Engillinn klæddist saumlausum hvítum kirtli sem náði niður á úlnliði hans og ökkla. Ljósið lagði af honum og andlit hans ljómaði eins og elding.

Til að byrja með var Joseph óttasleginn, en fylltist fljótt friði. Engilinn nefndi hann með nafni og kynnti sig sem Moróni. Hann sagði að Guð hefði fyrirgefið Joseph syndir hans og að hann hefði nú verk fyrir hann að vinna. Hann lýsti því yfir að nafn Josephs myndi verða tákn góðs og ills með öllum þjóðum.7

Hann talaði um gulltöflur sem væru grafnar í nálægri hæð. Á töflurnar væri grafin saga fornrar þjóðar sem bjó eitt sinn í Ameríku. Þar væri sagt frá uppruna þeirra og þar væri einnig að finna frásögn af því er Jesús Kristur heimsótti þau og kenndi um fyllingu fagnaðarerindis síns.8 Moróni sagði að með plötunum væru grafnir tveir steinar sem Joseph kallaði seinna Úrím og Túmmím eða þýðendur og gerðu menn að sjáendum. Drottinn hafði undirbúið þessa steina til að aðstoða Joseph við að þýða heimildirnar. Hinir glæru steinar væru festir saman og tengdir við brjóstplötu.9

Það sem eftir varði af heimsókn hans, vitnaði Moróni í spádóma úr bókum Biblíunnar, Jóel, Malakí og Postulasögunni. Hann útskýrði að Drottinn kæmi brátt og að hin jarðneska fjölskylda myndi ekki uppfylla tilgang sköpunar sinnar fyrr en forn sáttmáli Guðs yrði endurnýjaður fyrst. 10 Moróni sagði að Guð hefði valið Joseph til að endurnýja sáttmálann og að ef hann veldi að vera trúr boðorðum Guðs, þá myndi hann vera sá sem opinberaði heimildirnar á plötunum.11

Áður en að hann fór, bauð engillinn Joseph að taka plöturnar og sýna þær engum, nema að honum yrði boðið það. Ljósið safnaðist því næst saman í kringum Moróní og hann steig upp til himins.12

Er Jospeh lá og hugsaði um sýnina, fylltist herbergið aftur af ljósi og Moróni birtist í annað sinn og flutti sömu skilaboðin enn á ný. Hann hvarf því næst aftur á braut, einungis til að birtast enn einu sinni og flytja skilaboðin í þriðja sinn.

„Gættu þín, Joseph,“ sagði hann „Þegar þú ferð til að ná í plöturnar, fyllist hugur þinn myrkri og allskyns illska mun flæða inn í huga þinn til að koma í veg fyrir að þú haldir boðorð Guðs.“ Moróni hvatti hann til að segja föður sínum frá sýnunum og beindi honum þannig til einhvers sem gæti veitt honum stuðning.

„Hann mun trúa hverju orði sem þú segir honum,“ lofaði engillinn.13


Næsta morgunn sagði Joseph ekkert frá Moróni, jafnvel þó að hann vissi að faðir hans tryði á sýnir og engla. Í stað þess unnu þeir við uppskeru á nálægum akri, með Alvin.

Þetta var erfiðisvinna. Joseph reyndi að halda í við bróður sinn, er þeir sveifluðu orfinu fram og tilbaka í gegnum hátt kornið. Heimsóknir Morónís höfðu samt haldið honum vakandi alla nóttina og hugsanir hans reikuðu sífellt til hinna fornu heimilda og hæðarinnar sem þær voru grafnar í.

Fljótlega hætti hann að vinna og Alvin tók eftir því. „Við verðum að halda áfram að vinna,“ kallaði hann til Josephs „eða við náum ekki að ljúka verki okkar.“14

Joseph reyndi að vinna harðar og hraðar en það var sama hvað hann gerði, hann gat ekki haldið í við Alvin. Eftir smá stund tók Joseph eldri eftir því að Joseph virtist fölur og var hættur að vinna. „Farðu heim,“ sagði hann, í þeirri trú að sonur hans væri veikur.

Joseph hlýddi föður sínum og staulaðist heim á leið. Þegar hann reyndi hins vegar að fara yfir grindverk, þá féll hann, uppgefinn, niður á jörðina.

Á meðan að hann lá og safnaði kröftum, sá hann Moróni þar sem hann stóð yfir honum, enn á ný, umlukinn ljósi. „Hvers vegna sagðir þú föður þínum ekki það sem ég sagði þér?“ spurði hann.

Joseph sagði að hann hefði verið hræddur um að faðir hans myndi ekki trúa honum.

„Hann mun gera það.“ fullvissaði Moróni hann um og endurtók síðan skilaboð sín frá nóttunni áður.15


Joseph eldri grét þegar sonur hans sagði honum frá englinum og skilaboðum hans. „Það var sýn frá Guði,“ sagði hann. „Sinntu þessu.“16

Joseph lagði þegar af stað í áttina að hæðinni. Um nóttina hafði Moróni sýnt honum hvar plöturnar væru faldar, svo hann vissi hvert halda skyldi. Hæðin var ein sú hæsta á svæðinu og var tæpa 5 km frá heimili hans. Plöturnar voru grafnar undir stórum, kúptum stein vestanmegin í hlíðinni, ekki langt frá toppnum.

Joseph hugsaði um plöturnar er hann gekk. Jafnvel þó að hann vissi að þær væru heilagar þá var erfitt fyrir hann að standast þá freistingu að hugsa hversu mikils virði þær væru. Hann hafði heyrt talað um falda fjársjóði sem væri gætt af verndaröndum, en Moróni og plöturnar voru öðruvísi en þessar sögur. Moróni var himneskur sendiboði, sendur frá Guði til að afhenda útvöldum sjáanda hans þessar heimildir, heilu og höldnu. Einnig voru þessar plötur dýrmætar af því að þær báru vitni um Jesú Krist, ekki vegna þess að þær væru úr gulli.

Samt sem áður gat Joseph ekki staðist þá freistingu að hugsa að hann vissi nákvæmlega hvar hann gæti fundið nægan fjársjóð til að bjarga fjölskyldu sinni frá fátækt.17

Þegar hann kom að hæðinni, fann Joseph staðinn sem hann hafði séð í sýninni og hóf að grafa við lægsta hluta steinsins, þar til brúnirnar voru lausar. Hann fann því næst stóra trjágrein og notaði hana sem vogarstöng til að lyfta steininum og færa hann til hliðar.18

Undir steininum var kista, veggir hennar og botn voru gerð úr steini. Er hann leit ofan í kistuna sá Joseph gullplöturnar, sjáendasteinana og brjóstplötuna.19 Plöturnar voru þaktar fornu letri og festar saman á hliðinni með þremur hringjum. Hver plata var um 15 cm breið, 20 cm löng og þunn. Hluti platnanna virtist vera innsiglaður svo að enginn gæti lesið hann.20

Furðu lostinn velti Joseph því enn og aftur fyrir sér hvers virði þær væru. Hann teygði sig eftir þeim - og fann straum fara í gegnum sig. Hann kippti hönd sinni tilbaka en teygði sig eftir töflunum í tvígang í viðbót en fékk þennan straum í hvert skipti.

„Hvers vegna get ég ekki tekið bókina?“ hrópaði hann

„Vegna þess að þú hefur ekki haldið boðorð Drottins,“ sagði nálæg rödd.21

Joseph snéri sér við og sá Moróní. Enn á ný flæddi boðskapur kvöldsins áður, inn í huga hans og hann skildi að hann hafði gleymt sönnum tilgangi platnanna. Hann hóf að biðja og hugur hans og sál vöknuðu til meðvitundar um heilagan anda.

„Sjáðu,“skipaði Moróní. Önnur sýn opnaðist Joseph og hann sá Satan umkringdan óteljandi herskörum sínum. Engillinn sagði: „Allt þetta er sýnt, hið góða og illa, heilaga og óhreina, dýrð Guðs og kraftur myrkursins, til að þú getir hér eftir, þekkt hina tvo krafta og aldrei leyft hinum illu öflum að hafa áhrif á þig eða sigra þig.“

Hann sagði Joseph að hreinsa hjarta sitt og styrkja hugann til þess að geta tekið á móti heimildunum. „Ef það verður einhverntíma hægt að ná í þessa heilögu hluti þá verður það að vera með bæn og trúfestu í hlýðni við Drottin,“ útskýrði Moróní. „Þeir voru ekki settir hér til að safna ríkidæmi og velsæld fyrir dýrð heimsins. Þeir voru innsiglaðir með trúarbæn.“22

Joseph spurði hvenær hann gæti fengið plöturnar.

„Tuttugasta og annan dag september á næsta ári, ef þú kemur með rétta manneskju með þér.“ Sagði Moróni.

„Hver er hin rétta manneskja?“ spurði Joseph.

„Elsti bróðir þinn.“23

Joseph hafði vitað það frá æsku að hann gæti ávallt treyst á elsta bróður sinn. Alvin var tuttugu og fimm ára nú og gæti keypt sér sína eigin jörð ef hann svo óskaði. Hann hafði hins vegar valið að dvelja áfram á bæ fjölskyldunnar til að aðstoða foreldra sína við að koma sér fyrir svo þau væru örugg á eigin landi er þau yrðu eldri. Hann var alvörugefinn og vinnusamur og Joseph unni honum heitt og leit upp til hans.24

Kannski skynjaði Moróni að Joseph þyrfti visku og styrk bróður síns til að verða slík persóna sem Drottinn gæti treyst fyrir plötunum.


Er hann kom heim þetta kvöld var Joseph þreyttur. Fjölskyldan hópaðist samt kringum hann um leið og hann gekk inn um dyrnar, spennt að fá að vita hvað hann hefði fundið í hæðinni. Joseph byrjaði að segja þeim frá plötunum en Alvin steig inn þegar hann sá hve örmagna Joseph var.

„Förum að sofa og við förum snemma á fætur á morgun og förum til vinnu,“ sagði hann. Þau myndu hafa nægan tíma næsta dag til að heyra restina af sögu Josephs. „Ef móðir okkar undirbýr kvöldmatinn snemma,“ sagði hann „þá munum við hafa góða og langa kvöldstund til að setjast öll niður og heyra sögu þína.“25

Næsta kvöld deildi Joseph sögu sinni af atburðunum við hæðina, með fjölskyldu sinni og Alvin lagði trúnað á orð hans. Þar sem hann var elsti sonurinn í fjölskyldunni, fannst Alvin hann ávallt bera ábyrgð á líkamlegri velferð foreldra sinna, sem voru að eldast. Hann og bræður hans höfðu jafnvel hafið byggingu á stærra húsi fyrir fjölskylduna svo að þau gætu lifað við meiri þægindi.

Nú virtist það þannig að Joseph liti eftir andlegri velferð þeirra. Kvöld eftir kvöld heillaði hann fjölskylduna með tali um gullplöturnar og fólkið sem þær fjölluðu um. Fjölskyldan varð samheldnari og heimili þeirra var friðsælt og hamingjusamt. Öllum fannst sem að eitthvað dásamlegt væri í uppsiglingu.26

Svo var það haustmorgun einn, minna en tveimur mánuðum eftir heimsókn Móróní að Alvin kom heim með slæman kviðverk. Álútur af sársauka grátbað hann föður sinn að kalla eftir hjálp. Þegar læknirinn kom loksins, gaf hann Alvin stóran skammt af krítarkenndu lyfi en það gerði bara illt verra.

Alvin lá í rúminu í marga daga og engdist af sársauka. Vitandi að hann myndi líklega deyja, kallaði hann eftir Joseph. „Gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að fá heimildirnar,“ sagði Alvin. „Vertu trúr í að meðtaka leiðsögn og að halda boðorðin sem eru gefin þér.“ 27

Hann lést stuttu seinna og sorg lagðist yfir húsið. Við jarðaförina lá við að presturinn segði að Alvin hefði farið til vítis, til þess að nota dauða hans til að vara fólk við því sem gæti gerst ef Guð stigi ekki inn til að bjarga þeim. Joseph eldri var ofsareiður. Sonur hans hafði verið góður ungur maður og hann gat ekki trúað því að Guð myndi fordæma hann.28

Þegar Alvin var farinn, hættu umræðurnar um plöturnar. Hann hafði verið svo sterkur stuðningsmaður guðlegrar köllunar Josephs að öll umræða um þær rifjaði upp dauða hans. Fjölskyldan þoldi það ekki.

Joseph saknaði Alvins óumræðanlega mikið og tók dauða hans sérstaklega nærri sér. Hann hafði vonast til að geta treyst á elsta bróður sinn við að ná í heimildirnar. Nú fannst honum hann vera yfirgefinn.29


Þegar sá dagur kom að hann færi aftur til hæðarinnar, þá fór Joseph einsamall. Án Alvin var hann óviss um það hvort Drottinn myndi treysta honum fyrir töflunum. Hann taldi samt að hann gæti haldið öll boðorðin sem Drottinn hefði gefið honum, eins og bróðir hans hafði ráðlagt honum. Leiðbeiningar Morónís fyrir því að taka töflurnar voru skírar. „Þú verður að taka þær í hendur þínar og fara beint heim, án þess að tefja neitt,“ hafði engillinn sagt, „og læsa þær inni.“30

Við hæðina losaði Joseph steininn upp, teygði sig ofan í steinkistuna og lyfti plötunum upp. Sú hugsun kom í huga hans, að hinir hlutirnir í kistunni væru verðmætir og það yrði að fela þá áður en hann færi heim. Hann setti plöturnar niður og snéri sér til að hylja kistuna. Þegar hann snéri sér aftur að plötunum, voru þær horfnar. Skelfingu lostinn féll hann á kné og bað heitt um að vita hvar þær væru.

Moróni birtist og sagði Joseph að hann hefði ekki farið eftir leiðbeiningunum aftur. Ekki einungis hafði hann sett plöturnar niður áður en hann hafði gætt að öryggi þeirra heldur hefði hann einnig misst sjónar á þeim. Eins fús og hinn ungi sjáandi var til að gera verk Drottins þá var hann ekki enn fær um að vernda hinar fornu heimildir.

Joseph var vonsvikinn með sjálfan sig en Moróni sagði honum að snúa aftur að ári til að ná í plöturnar. Hann kenndi honum einnig meira um áætlun Drottins varðandi ríki Guðs og hið mikla verk sem var við það að hefjast.

Samt laumaðist Joseph niður hæðina, eftir að engillinn var farinn, áhyggjufullur yfir því hvað fjölskyldu hans myndi finnast um að hann kæmi tómhentur heim.31 Þegar hann steig inn í húsið, biðu þau eftir honum. Faðir hans spurði hann samstundis hvort að hann hefði plöturnar.

„Nei,“ sagði hann. „Ég gat ekki fengið þær.“

„Sástu þær?“

„Ég sá þær en gat ekki tekið þær.“

„Ég hefði tekið þær ef ég hefði verið í þínum sporum“ sagði Joseph eldri.

„Þú veist ekki hvað þú ert að segja,“ sagði Joseph. „Ég gat ekki tekið þær því að engill Drottins leyfði mér það ekki.“ 32

Heimildir

  1. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 4–5, í JSP, H1:220 (uppkast 2); Joseph Smith History, u.þ,b sumarið 1832, 1, í JSP, H1:11.

  2. “Joseph Smith as Revelator and Translator,” í JSP, MRB:xxi; Turley, Jensen, and Ashurst-McGee, “Joseph the Seer,” 49–50; sjá einnig Mósía 8:17; Alma 37:6–7, 41; and Kenning og sáttmálar 10:1, 4 (Revelation, vorið 1829, á josephsmithpapers.org).

  3. Bushman, Rough Stone Rolling, 48–49; Bushman, “Joseph Smith as Translator,” 242. Efni: Seer Stones

  4. Lucy Mack Smith, History, 1845, 95; sjá einnig Alma 37:23.

  5. Joseph Smith History, u.þ.b. sumarið 1832, 4, í JSP, H1:13–14; Joseph Smith—Saga 1:28–29; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 5, í JSP, H1:218–20 (uppkast 2).

  6. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [10].

  7. Joseph Smith History, u.þ.b. sumarið 1832, 4, í JSP, H1:13–14; Joseph Smith—Saga 1:29–33; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 5, í JSP, H1:218–22 (uppkast 2); Pratt, Interesting Account, 6, í JSP, H1:524; Hyde, Ein Ruf aus der Wüste, 17–20. Efni: Angel Moroni

  8. Joseph Smith, Journal, 9.–11. nóv. 1835, í JSP, J1:88.

  9. Joseph Smith—Saga 1:35; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 5, í JSP, H1:222 (uppkast 2); Joseph Smith History, u.þ.b. sumarið 1832, 4, í JSP, H1:14; Oliver Cowdery, “Letter IV,” LDS Messenger and Advocate, feb. 1835, 1:65–67; Turley, Jensen, and Ashurst-McGee, “Joseph the Seer,” 49–54; “Mormonism—No. II,” Tiffany’s Monthly, júlí 1859, 164. Efni: Seer Stones

  10. Joseph Smith—Saga 1:36–41; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 5–6, í JSP, H1:222–26 (uppkast 2); Joseph Smith, Journal, Nov. 9–11, 1835, í JSP, J1:88–89.

  11. Oliver Cowdery, “Letter IV,” LDS Messenger and Advocate, feb. 1835, 1:78–79; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [11].

  12. Joseph Smith—Saga 1:42–43; Joseph Smith History, 1838–56, volume A-1, 6, in JSP, H1:226 (draft 2).

  13. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [10]–[11]; Oliver Cowdery, “Letter IV,” LDS Messenger and Advocate, feb. 1835, 1:79–80; Oliver Cowdery, “Letter VII,” LDS Messenger and Advocate, júlí 1835, 1:156–57; Joseph Smith—Saga 1:44–46; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 6–7, í JSP, H1:230–32 (uppkast 2); Joseph Smith, Journal, nóv. 9–11, 1835, í JSP, J1:88–89.

  14. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [11]; sjá einnig Smith, William Smith on Mormonism, 9.

  15. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [11]; Smith, Biographical Sketches, 82; Joseph Smith—Saga 1:48–49; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 7, í JSP, H1:230–32 (draft 2); Joseph Smith, Journal, nóv. 9–11, 1835, í JSP, J1:89.

  16. Joseph Smith, Journal, nóv. 9.–11. nóv. 1835, í JSP, J1:89.

  17. Oliver Cowdery, “Letter VIII,” LDS Messenger and Advocate, okt. 1835, 2:195–97. Efni: Treasure Seeking

  18. Oliver Cowdery, “Letter VIII,” LDS Messenger and Advocate, okt. 1835, 2:195–97; Joseph Smith—Saga 1:51–52; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 6–7, í JSP, H1:230–32 (uppkast 2); sjá einnig Packer, “A Study of the Hill Cumorah,” 7–10.

  19. Joseph Smith—Saga 1:52; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 7, í JSP, H1:232 (uppkast 2). Efni: Gold Plates

  20. Joseph Smith, “Church History,” Times and Seasons, mar. 1, 1842, 3:707, í JSP, H1:495.

  21. Oliver Cowdery, “Letter VIII,” LDS Messenger and Advocate, okt. 1835, 2:197–98; sjá einnig Pratt, Interesting Account, 10, í JSP, H1:527–29.

  22. Oliver Cowdery, “Letter VIII,” LDS Messenger and Advocate, okt. 1835, 2:198–99.

  23. Knight, Reminiscences, 1; Joseph Smith, Journal, nóv. 9–11, 1835, í JSP, J1:89; Joseph Smith—Saga 1:53–54; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 7, í JSP, H1:232–34 (uppkast 2); sjá einnig Jessee, “Joseph Knight’s Recollection of Early Mormon History,” 31.

  24. Joseph Smith, Journal, ág. 23, 1842, í JSP, J1:116–17.

  25. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 3, [12]; book 4, [3]; Smith, Biographical Sketches, 83.

  26. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 4, [1]–[3]; Smith, Biographical Sketches, 86–87; sjá einnig Lucy Mack Smith, History, 1845, 89; og Bushman, Refinement of America, 425–27. Efni: Joseph Sr. and Lucy Mack Smith Family

  27. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 4, [3]–[5].

  28. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 4, [6]–[8]; “Wm. B. Smith’s Last Statement,” Zion’s Ensign, jan. 13, 1894, 6.

  29. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 4, [7]; Joseph Smith, Journal, ág. 23, 1842, í JSP, J2:116–17.

  30. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 4, [2]–[3].

  31. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 4, [2]–[3]; Smith, Biographical Sketches, 85–86; Knight, Reminiscences, 1; Joseph Smith—Saga 1:54; Lucy Mack Smith, History, 1845, 88; sjá einnig Jessee, “Joseph Knight’s Recollection of Early Mormon History,” 31.

  32. Smith, Biographical Sketches, 86.