Trúarskóli eldri deildar
2 Hlýð á hann


„Hlýð á hann,“ kapítuli 2 í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018)

2. Kapítuli: „Hlýð á hann“

2. Kapítuli

Hlýð á hann

Ljósmynd
Lundurinn helgi

Joseph vaknaði árla morguns á vordegi árið 1820 og stefndi í átt til skógar skammt frá heimili sínu. Dagurinn var bjartur og fagur og sólarljósið skein í gegnum greinarnar yfir höfði hans. Joseph vildi vera einn í bæn sinni og vissi af kyrrlátum stað þar sem hann hafði nýlega unnið við skógarhögg. Hann hafði skilið öxina sína þar eftir fasta í trjádrumbi.1

Joseph leit í kringum sig þegar hann fann staðinn, til að gæta þess að hann væri einn. Hann var uggandi yfir því að biðja upphátt og vildi ekki verða fyrir truflun.

Þegar Joseph hafði gengið úr skugga um að hann væri einn, kraup hann og tók að segja Guði frá hjartans þrá sinni. Hann bað sér miskunnar og fyrirgefningar og visku til að fá svör við því sem honum lá á hjarta. „Ó Drottinn,“ byrjaði hann, „í hvaða kirkju á ég að ganga?“2

Þegar hann baðst fyrir var eins og tunga hans þrútnaði, þar til hann fékk ekki mælt. Hann heyrði fótatak fyrir aftan sig en sá engan er hann snéri sér við. Hann reyndi að biðja að nýju, en fótatakið varð háværara, eins og einhver væri að sækja að honum. Hann spratt á fætur og snéri sér í hring en sá enn ekki neinn.3

Skyndilega náði ósýnilegur kraftur tökum á honum. Hann reyndi aftur að mæla, en tunga hans var enn bundin. Niðamyrkur féll yfir og umlukti hann, þar til hann fékk ekki séð sólarljósið. Efi og ömurlegar myndir flugu um huga hans, svo hann varð ráðvilltur og ringlaður. Honum fannst sem einhver hræðileg vera, voldug og raunveruleg, vildi hann feigan.4

Joseph beitti öllu afli sínu til að ákalla Guð enn einu sinni. Tunga hans losnaði og hann sárbað um björgun. Honum fannst þó sem hann félli í mikla örvæntingu, væri ofurliði borinn af hinu óbærilega myrkri og reiðubúinn til að gefa sig tortímingunni á vald.5

Á þeirri stundu birtist ljósstólpi yfir höfði hans. Hann seig hægt niður og virtist setja eld að skóginum umhverfis. Þegar ljósið hvíldi á Joseph, fann hann hinn ósýnilega kraft sleppa af sér tökum. Andi Guðs kom í hans stað og fyllti hann friði og ólýsanlegri gleði.

Joseph rýndi í ljósið og sá Guð föðurinn standa ofan við sig í loftinu. Ásjóna hans var bjartari og dýrðlegri en nokkuð sem Joseph hafði áður séð. Guð ávarpaði hann með nafni og benti á aðra veru við hlið sér. „Þetta er minn elskaði sonur,“ sagði hann. „Hlýð þú á hann!“6

Joseph leit ásjónu Jesú Krists. Hún var jafn björt og dýrðleg og föðurins.

„Joseph,“ sagði frelsarinn, „syndir þínar eru fyrirgefnar.“7

Byrði hans var af honum létt og Joseph endurtók spurningu sína: „Hvaða kirkju ber mér að ganga í?“8

Frelsarinn sagði að „ég mætti ekki í [neina] þeirra ganga.“ „[Þær] kenna boðorð manna, sem eru guðleg að formi til, en [þær] afneita krafti þeirra.“

Drottinn sagði Joseph að veröldin væri gegnsýrð synd. „Þeim skjátlaðist öllum,“ sagði hann. „Þær hafa snúið frá fagnaðarerindinu og halda ekki boðorð mín.“ Hann sagði helgan sannleika hafa glatast eða spillst, en hét því að opinbera Joseph fyllingu fagnaðarerindis síns á tilsettum tíma.9

Er frelsarinn mælti sá Joseph herskara engla og ljósið umhverfis þá vera bjartara en um hábjartan dag. “Sjá og tak eftir, ég kem skjótt,“ sagði Drottinn, „íklæddur dýrð föður míns.“10

Joseph átti von á því að skógurinn skaðaðist af ljómanum, en trén loguðu líkt og runni Móse og trén sköðuðust ekki.11


Þegar ljósið dvínaði, lá Joseph á bakinu og horfði upp til himins. Ljósstólpinn var horfinn og hann fann ekki lengur fyrir sekt né var hann í uppnámi. Hjarta hans fylltist guðlegum kærleika.12 Guð faðirinn og Jesús Kristur höfðu talað til hans og hann hafði sjálfur komist að því hvernig finna má sannleika og fyrirgefningu.

Joseph lá innan um trén, því hann var of veikburða eftir sýnina til að standa upp, þar til hann öðlaðist að nokkru fyrri styrk. Hann fór heim með erfiðismunum og hallaði sér að eldstæðinu sér til stuðnings. Móðir hans veitti honum athygli og spurði hvað amaði að honum.

„Það amar ekkert að mér,“ fullvissaði hann hana. „Mér líður vel.“13

Nokkrum dögum síðar, er Joseph átti viðræður við prédikara nokkurn, sagði hann frá sýn sinni í skóginum. Prédikarinn hafði tekið virkan þátt í trúarvakningunni og Joseph vænti þess að hann tæki sýn hans alvarlega.

Prédikarinn tók frásögn hans ekki alvarlega til að byrja með. Fólk á ýmsum tímum hafði staðhæft að það hefði séð himneskar sýnir.14 Hann varð síðan reiður og fór í varnarstöðu og sagði Joseph að frásögn hans væri frá djöflinum. Sýnir og opinberanir væru löngu liðnar undir lok, fullyrti hann, og kæmu aldrei aftur.15

Joseph varð undrandi og komst brátt að því að engin hafði trú á sýn hans.16 Af hverju hefði fólkið átt að gera það? Hann var aðeins fjórtán ára piltur, með nánast enga menntun. Hann kom frá fátækri fjölskyldu og vænti þess að verja því sem eftir væri ævi sinnarí íhlaupavinnu og við að yrkja landið til að afla sér lágra launa.

Vitnisburður hans náði þó að trufla suma svo að þeir tóku að hæðast að honum. Hve einkennilegt, hugsaði hann með sér, að einfaldur og áhrifalaus drengur geti valdið slíkri óvild og biturð. „Af hverju að ofsækja mig fyrir að segja sannleikann?“ langaði hann að spyrja. „Af hverju vill heimurinn að ég afneiti því sem ég sá í raun?“

Joseph velti þessum spurningum fyrir sér alla sína ævi. „Ég hafði raunverulega séð ljós og í ljósinu miðju hafði ég séð tvær verur, og þær höfðu raunverulega ávarpað mig,“ sagði hann síðar, „og þótt ég væri hataður og ofsóttur fyrir að segja, að ég hefði séð sýn, þá var það samt satt.“

„Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það,“ vitnaði hann, „og ég hvorki gat neitað því né þorði að gera það.“17


Þegar Joseph uppgötvaði að nágrannar hans snérust einungis gegn honum, ef hann sagði þeim frá sýn sinni, þá hélt hann henni fyrir sig sjálfan, sáttur með þá þekkingu sem Guð hafði gefið honum.18 Síðar, eftir að hann fluttist frá New York, reyndi hann að skrá hina helgu upplifun sína í skóginum. Hann sagði frá þrá sinni eftir fyrirgefningu og aðvörun frelsarans til heims sem hafði þörf fyrir iðrun. Hann ritaði það sjálfur á ófullkomnu máli í einlægri tilraun til að segja frá mikilfengleika atburðarins.

Á þeim árum sem á eftir fylgdu, sagði hann oftar opinberlega frá sýninni og leitaði til rithöfunda sem gátu hjálpað honum að lýsa betur hinu ólýsanlega. Hann sagði frá löngun sinni til að finna hina sönnu kirkju og lýsti því hvernig Guð faðirinn birtist fyrst til að kynna soninn. Hann ritaði minna um eigin leit að fyrirgefningu og meira um hinn algilda sannleiksboðskap frelsarans og þörfina á endurreisn fagnaðarerindisins.19

Ætíð þegar Joseph reyndi að skrá upplifun sína, þá bar hann vitni um að Drottinn hefði heyrt og svarað bæn sinni. Honum lærðist sem ungum manni að kirkja frelsarans væri ekki lengur á jörðunni. Drottinn hafði þó heitið því að veita fleiri opinberanir varðandi fagnaðarerindi sitt á tilsettum tíma. Joseph einsetti sér því að treysta Guði, halda boðorð hans af kostgæfni, sem hann hlaut í skóginum og bíða þolinmóður eftir frekari leiðsögn.20

Heimildir

  1. Joseph Smith—Saga 1:14; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 3, í JSP, H1:212 (drög 2); viðtal Davids Nye White við Joseph Smith, 21. ágúst 1843, í [David Nye White], “The Prairies, Nauvoo, Joe Smith, the Temple, the Mormons, &c.,” Pittsburgh Weekly Gazette, 15. sept. 1843, [3], fáanlegt á josephsmithpapers.org.

  2. Viðtal Davids Nye White við Joseph Smith, 21. ágúst 1843, í [David Nye White], „The Prairies, Nauvoo, Joe Smith, the Temple, the Mormons, &c.,“ Pittsburgh Weekly Gazette, 15. sept. 1843, [3], fáanlegt á josephsmithpapers.org; Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 3, í JSP, H1:12.

  3. Joseph Smith, Journal, 9.–11. nóv. 1835, í JSP, J1:88.

  4. Joseph Smith—Saga 1:15; Hyde, Ein Ruf aus der Wüste, 15–16; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 3, í JSP, H1:212 (drög 2).

  5. Joseph Smith—Saga 1:16; Joseph Smith, Journal, 9.–11. nóv. 1835, í JSP, J1:88; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 3, í JSP, H1:212 (drög 2).

  6. Joseph Smith—Saga 1:16–17; Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 3, í JSP, H1:12–13; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 3, í JSP, H1:214 (drög 2); Joseph Smith, Journal, 9.–11. nóv. 1835, í JSP, J1:88.

  7. Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 3, í JSP, H1:13.

  8. Viðtal Davids Nye White við Joseph Smith, 21. ágúst 1843, í [David Nye White], „The Prairies, Nauvoo, Joe Smith, the Temple, the Mormons, &c.,“ Pittsburgh Weekly Gazette, 15. sept. 1843, [3], fáanlegt á josephsmithpapers.org.

  9. Joseph Smith—Saga 1:5–26; Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 3, í JSP, H1:13; Levi Richards, Journal, 11. júní 1843; Joseph Smith, “Church History,” Times and Seasons, 1. mars 1842, 3:706, í JSP, H1:494.

  10. Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 3, í JSP, H1:13.

  11. Pratt, Interesting Account, 5, í JSP, H1:523.

  12. Joseph Smith—Saga 1:20; viðtal Davids Nye White við Joseph Smith, 21. ágúst 1843, í [David Nye White], “The Prairies, Nauvoo, Joe Smith, the Temple, the Mormons, &c.,” Pittsburgh Weekly Gazette, 15. sept 1843, [3], fáanlegt á josephsmithpapers.org; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 3, í JSP, H1:214 (drög 2); Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 3, í JSP, H1:13.

  13. Joseph Smith—Saga 1:20; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 3, í JSP, H1:214 (drög 2).

  14. Sjá Bushman, „Visionary World of Joseph Smith,“ 183–204.

  15. Joseph Smith—Saga 1:21; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 3, í JSP, H1:216 (drög 2); Neibaur, Journal, 24. maí 1844, fáanlegt á josephsmithpapers.org. Efni: Christian Churches in Joseph Smith’s Day

  16. Joseph Smith—Saga 1:22, 27; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 4, í JSP, H1:216–18 (drög 2); viðtal Davids Nye White við Joseph Smith, 21. ágúst 1843, í [David Nye White], “The Prairies, Nauvoo, Joe Smith, the Temple, the Mormons, &c.,” Pittsburgh Weekly Gazette, 15. sept. 1843, [3], fáanlegt á josephsmithpapers.org.

  17. Joseph Smith—Saga 1:21–25; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 4, í JSP, H1:216–18 (drög 2).

  18. Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 3, í JSP, H1:13; sjá einnig Historical Introduction to Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, í JSP, H1:6.

  19. Á ævi sinni skráði Joseph sjálfur eða hafði umsjón með skráningu fjögurra frásagna um upplifanir sínar og hin fyrsta hefst í Joseph Smith History, sirka sumarið 1832, 1–3, í JSP, H1:11–13. Fimm aðrir sem hlustuðu á hann segja frá reynslu sinni, skráðu eigin frásagnir. Frásagnirnar níu má finna í „Primary Accounts of Joseph Smith’s First Vision of Deity,“ á vefsíðunni josephsmithpapers.org. með ritgerðum Josephs Smith. Skoða má það sem er líkt og ólíkt með frásögnunum með því að fara í „First Vision Accounts,“ á vefsíðunni topics.lds.org með trúarlegu efni. Efni: Joseph Smith’s First Vision Accounts

  20. Joseph Smith—Saga 1:26; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 4, í JSP, H1:218 (drög 2).