2011
Ábendingin í blessun minni
Apríl 2011


Af trúboðsakrinum

Ábendingin í blessun minni

Ég þjónaði í Suður Houston trúboðinu í Texas, sem spænskumælandi trúboði. Dag einn vorum ég og félagi minn að banka á dyr í þeirri von að finna einhvern til að kenna. Við komum að húsi með stóru gati á gamalli viðarverönd.

Eldri kona kom til dyra og bauð okkur inn. Mér var ekki ljóst hvort hún vissi hverjir við værum og hvað við gerðum, en hún var afar alúðleg. Við tókum að kenna henni fyrstu lexíuna og allt virtist ganga vel. Brátt var komið að mér að kenna um Joseph Smith og Fyrstu sýnina. Ég horfði á svipbrigði konunnar sem virtust sýna að hún væri ekki alveg með á nótunum. Greinilegt var að hún skildi í raun ekki hvað ég var að reyna að segja henni.

Eftir að hafa spurt hana fáeinna spurninga um efnið og hve mikið hún skildi af því, varð ég svekktur yfir að hún skildi ekki hvað fólst í Fyrstu sýninni. Dagurinn hafði verið langur og trúboðar vilja síst af öllu að einhver skilji ekki þann sannleika sem þeir þrá svo innilega að deila með öðrum.

Á því andartaki sem ég fann tilfinningar mínar taka að breytast í reiði, kom upp í huga minn stutt málsgrein úr patríarkablessun minni. Hún greindi frá fjölskyldunni sem ég mundi eignast í framtíðinni og hvernig mér bæri að kenna börnum mínum fagnaðarerindið. Þegar orðin fóru í gegnum huga minn, varð mér ljóst að andinn væri að áminna mig um að kenna þessari auðmjúku konu á sama hátt og ég myndi kenna barni.

Ég tók að kenna henni á einfaldari og ástúðlegri hátt. Ég ímyndaði mér að börnin mín sætu umhverfis mig í stofunni og horfðu á mig, föður sinn, er ég fræddi þau um spámanninn Joseph Smith. Ég undraðist breytinguna á andliti hennar. Augnabrúnirnar tóku að lyftast og skilningur skein úr augunum. Hún var ekki lengur ráðvillt, heldur full áhuga og undrunar. Þegar ég sagði frá því er himneskur faðir og Jesús Kristur vitjuðu Josephs Smith, fyllust augu hennar tárum, sem runnu niður vanga hennar. Andinn fyllti herbergið og gremjan breyttist í djúpa gleði.

Þessari reynslu gleymi ég aldrei. Nú hlakka ég til að fá að kenna börnum mínum þessar sömu reglur einn daginn og upplifa að nýju slíka gleði.

Teikning eftir Brian Call