2011
Páskavikan
Apríl 2011


Páskavikan

Þið getið búið ykkur undir páskana með því að læra um atburðina sem gerðust í vikunni fyrir krossfestingu og upprisu Krists. Byrjið átta dögum fyrir páskadag og lesið um atburði og ritningargreinar sem skráðar eru fyrir hvern dag.

Laugardagur

Mikilvægur helgidagur, sem nefnist páskadagur, var eftir aðeins sex daga. Margt fólk streymdi til Jerúsalem til að færa fórnir í musterinu á þeim degi. Jesús gekk til Betaníu, þorps nærri Jerúsalem. Hann hugðist dvelja þar í fimm nætur með vinum sínum, Lasarusi, Maríu og Mörtu. María smurði fætur hans með olíu.

Sjá Jóh 12:1–3.

Sunnudagur

Jesús gekk frá Betaníu til Jerúsalem. Hann reið inn í borgina á ösnufola, líkt og greint er frá í Gamla testamentinu að hann mundi gera. Fólkið tók á móti honum sem konungi sínum, hrópaði „hósíanna“ og lagði pálmagreinar fyrir fætur folans, til að koma í veg fyrir að ryk bærist á frelsarann. Jesús fór í musterið og hélt síðan aftur til Betaníu.

Sjá Sak 9:9; Matt 21:1–11; Mark 11:1–11.

Mánudagur

Jesús sá fólk vera að kaupa og selja í musterinu. Hann vildi að musterið væri „hús bænar,“ svo hann vísaði fólkinu burt. Hann læknaði síðan þá sem voru lamaðir og blindir. Hinir afbrýðissömu prestar voru honum reiðir.

Sjá Matt 21:12–17; Mark 11:15–19.

Þriðjudagur

Jesús kenndi fólki í musterinu og á nálægðri hæð sem nefndist Olíufjallið.

Prestarnir lögðu á ráðin um að drepa Jesú. Einn lærisveina hans, Júdas Ískaríot, gekkst inn á að selja prestunum Jesú í hendur gegn 30 silfurpeningum.

Sjá Matt 25:31–46; 26:14–16.

Miðvikudagur

Ritningarnar greina ekki frá því hvað Jesús gerði þennan dag. Hann kann að hafa verið með lærisveinum sínum. Þið getið lesið dæmisöguna um meyjarnar tíu, sem Jesús kenndi lærisveinum sínum til að búa þá undir síðari komu sína.

Sjá Matt 25:1–13.

Fimmtudagur

Lærisveinar Jesú gerðu allt til reiðu fyrir páskamáltíðina. Meðan á máltíðinni stóð sagði Jesús lærisveinum sínum að einn þeirra myndi svíkja hann. Hann veitti þeim síðan sakramentið í fyrsta sinn, til að minna þá á að hafa hann ávallt í huga. Jesús fór í Getsemanegarðinn til að þjást fyrir syndir okkar og biðja til Guðs. Menn komu með sverð til að taka hann höndum. Lærisveinarnir urðu óttaslegnir og flýðu.

Sjá Matt 26:17–29, 36–56.

Föstudagur

Jesús var færður til æðsta prestsins, Kaífasar. Pétur, sem var lærisveinn Jesú, sagðist ekki þekkja hann. Jesús var yfirheyrður af ríkisstjóranum, Pílatusi, og af Heródesi. Hann var dæmdur til að deyja á krossi. Jesús var krossfestur. Ríkur maður að nafni Jósef lagði Jesú í gröf sína. María, móðir Jesú, og María Magdalena vitjuðu grafarinnar.

Sjá Matt 26:57–72; 27:1–2, 27–37; Lúk 23:44–46, 50–56.

Laugardagur

Líkami Jesú lá í gröfinni. Stórum steini var velt fyrir grafarmunnann. Ranglátu prestarnir báðu Pílatus að setja varðmenn við gröfina til að tryggja að enginn færi þar inn.

Sjá Matt 27:57–66.

Páskasunnudagur

Jesús reis upp frá dauðum! Hann hafði risið úr gröfinni. Engill kom frá himni og velti burtu steininum.

Jesús bauð lærisveinum sínum að kenna og skíra aðra og lofaði að vera alltaf með þeim.

Sjá Matt 28.

Ljósmynd: Matthew Reier; efst, frá vinsri: Jesús fer til Betaníu að kvöldi, eftir James Tissot; Sigurinnreið Krists í Jerúsalem, eftir Harry Anderson © IRI; Blindur fær lækningu, eftir Harry Anderson, birt með leyfi Pacific Press Publishing, Inc., óheimilt að afrita; Rödd af himni, eftir James Tissot; hluti af Fimm þeirra voru vitrar, eftir Walter Rane, birt með leyfi Church History Museum; Kristur í Getsemane, eftir Harry Anderson © IRI; hluti af Krossfestingin, eftir Harry Anderson © IRI; Greftrun Krists, eftir Carl Heinrich Bloch, birt með leyfi Þjóðminjasafnsins í Friðriksborg, Hillerød, Danmörku, óheimilt að afrita; neðst: Hann er upp risinn, eftir Del Parson