2011
„Allt er þetta mér til blessunar‘
Apríl 2011


Þjóna í kirkjunni

„Allt er þetta mér til blessunar“

Á laugardögum finnið þið Elviru Guagliarello önnum kafna í eldhúsinu heima hjá sér í Puerto Madryn, á strönd Argentínu við Nuevo-flóann, í suðurhéraði Chubut.

Þar vigtar hún hveiti, mælir vatn og nær sér svo í önnur hráefni. Hún er fámál við iðju sína og verk hennar segja meira en orðin. Hún er í erindagjörðum Drottins.

„Mér líður vel, því ég veit að ég læt gott af mér leiða,“ segir systir Guagliarello, um leið og hún hrærir saman hráefnin. Hún hugsar um frelsarann við iðju sína og gleðst yfir hugsuninni um að ávöxtur þjónustu hennar muni hjálpa öðrum meðlimum kirkjunnar að minnast hans.

Systir Guagliarello, 82ja ára, nýtur þjónustu sinnar sem heimsóknarkennari. Hún er söngstjórnandi í deild sinni og bakar brauð sem nota á við helgiathöfn sakramentisins—köllun sem hún hefur haft í næstum 10 ár. Hún bakar brauð fyrir sjálfa sig fyrrihluta vikunnar, en á laugardögum helgar hún tíma sinn brauðbakstri og þá „einkum fyrir kirkjuna,“ segir hún. „Ég segi við sjálfa mig: ‚Ég verð að baka brauð og ég verð að fara í kirkju.‘ Ég vil ekki láta það bregðast.“

Hún fer einnig í musterið, eins og heilsa leyfir—og fer þá árlega í 20 tíma rútuferð til Buenos Aires musterisins í norðurhluta Argentínu.

„Systir Guagliarello er alltaf glöð og fús til þjónustu, geti hún komið því við,“ segir Jesús Santos Gumiel, biskupinn hennar. „Meðlimir deildarinnar vita að þeir geta reitt sig á hana. Þrátt fyrir háan aldur, bakar hún staðföst brauðið á laugardögum og fer til kirkju alla sunnudaga. Hún er gott fordæmi.“

Systir Guagliarello kynntist trúboðunum árið 1962 í Mar del Plata, suður af Buenos Aires, þegar hún starfaði í matsölu þar sem þeir bjuggu. Þegar hún 15 árum síðar bar á þá kennsl er þeir knúðu dyra hjá henni, eftir að hún hafði flutt frá Puerto Madryn, tók hún á móti trúboðslexíunum, skírðist og hóf þjónustu sína í kirkjunni.

Nú býr hún einsömul, en henni finnst hún ekki einmana. Hún hefur ritningarnar sínar og deildarfjölskylduna og á tíð samskipti við himneskan föður í bæn. Auk þess nýtur hún samfélags andans, sem Drottinn hefur heitið þeim sem þjóna honum með því að þjóna öðrum.1

„Allt er þetta mér til blessunar,“ segir systir Guagliarello brosandi. „Kirkjan færir okkur verkefni og veitir mér ánægju. Ég hef alltaf fundið gleði í þjónustu við föður okkar á himnum.“

Elvira Guagliarello

Efst: Ljósmynd: Michael R. Morris