2011
Hafa hann ávallt í huga
Apríl 2011


Hafa hann ávallt í huga

Úr ræðu sem flutt var í Brigham Young háskóla–Idaho, 27. janúar 2009. Til að hlusta á ræðuna á ensku, farið á web.byui.edu/devotionalsandspeeches/default.aspx.

Þegar við höfum frelsarann ávallt í huga, getum við „með glöðu geði [gjört] allt, sem í okkar valdi stendur,“ sannfærð um að við munum komast í gegnum allt fyrir mátt hans og elsku.

Ljósmynd
Elder D. Todd Christofferson

Í sakramentisbænunum er staðfest að einn megintilgangur sakramentisins, eins og Drottinn Jesús Kristur innleiddi það, sé að minna okkur á að „hafa hann ávallt í huga“ (K&S 20:77, 79). Að minnast frelsarans felur auðvitað líka í sér að minnast friðþægingar hans, en brauðið og vatnið eru táknræn fyrir þjáningar hans og dauða. Við megum aldrei gleyma því sem hann gerði fyrir okkur, því lífið hefði engan tilgang án friðþægingar hans og upprisu. En lífið hefur eilífa, guðlega möguleika vegna friðþægingar hans og upprisu.

Ég ætla að skýra nánar þríþætta merkingu þess að „hafa hann ávallt í huga“: Í fyrsta lagi að þekkja hann og fylgja honum; í öðru lagi að viðurkenna þá ábyrgð okkar að gera Kristi skil á öllum hugsunum okkar, orðum og gjörðum; og í þriðja lagi að lifa óttalaus í trú á að við getum alltaf leitað til frelsarans eftir nauðsynlegri hjálp.

1. Leitast við að þekkja vilja Krists og fylgja honum, líkt og hann leitaði vilja föðurins.

Sakramentisblessun brauðsins felur í sér skuldbindingu okkar um að taka á okkur nafn sonarins „og hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið [okkur]“ (K&S 20:77). Þennan sáttmála mætti einnig orða þannig: „Hafa hann ávallt í huga til að halda boðorð hans.“ Á þann hátt hafði hann föður sinn ávallt í huga. Líkt og hann sagði: „Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig“ (Jóh 5:30).

Jesús sýndi fullkomna einingu við föðurinn með því að lúta vilja föðurins, bæði í líkama og anda. Jesús vísaði til föður síns og sagði: „Ég gjöri ætíð það sem honum þóknast“ (Jóh 8:29). Jesús laut dauðanum, því það var vilji föðurins, og „vilji sonarins innbyrðist í vilja föðurins“ (Mósía 15:7). Áhersla Jesú á föðurinn er ein meginástæða þess að þjónusta hans var svo öflug og afdráttarlaus.

Á sama hátt getum við, ég og þið, haft Krist að þungamiðju í lífi okkar og orðið eitt í honum, líkt og hann er eitt í föðurnum (sjá Jóh 17:20–23). Við getum byrjað á því að taka allt út úr lífi okkar og setja það síðan aftur á þann stað sem það ætti að vera með frelsarann að þungamiðju. Við ættum að forgangsraða því sem gerir okkur kleift að hafa hann ávallt í huga—að hafa tíðar bænargjörðir og læra ritningarnar, ígrunda vandlega postullegar kenningar, búa sig vikulega undir að meðtaka sakramentið verðug, tilbiðja á sunnudögum og skrá það og minnast þess sem andinn og reynsla lífsins kennir okkur um lærisveinshlutverk okkar.

Annað kann að koma upp í huga ykkar, einkum það sem á við um líðandi stund. Þegar við svo loks höfum helgað nægan tíma og krafta því, sem hefur Krist að þungamiðju í lífi okkar, getum við bætt við öðrum ábyrgðarverkum og þýðingarmiklum viðfangsefnum, til að mynda menntun og fjölskylduábyrgð. Á þennan hátt mun það sem hefur minna gildi ekki ná að festa sig í sessi á kostnað þess sem er mikilvægara, heldur koma á eftir í forgangsröðuninni eða falla alveg út.

Mér er ljóst að ekki er auðvelt að lúta vilja Jesú Krists á sama hátt og hann laut vilja föðurins. Brigham Young forseti (1801–77) ræddi af skilningi um þá áskorun okkar og sagði:

„Að öllu sögðu og gerðu, eftir að hann hefur leitt fólk sitt svo lengi, sjáið þið þá ekki að okkur skortir fullt traust til Guðs okkar? Áttið þið ykkur á því hvað ykkur sjálf varðar? Þið gætuð spurt: ‚[Bróðir] Brigham, áttar þú þig á því hvað þig varðar?‘ Já, ég get séð að mig skortir enn traust, að nokkru leyti, á hann sem ég set traust mitt á.—Af hverju? Af því að mig skortir kraft, sökum áhrifa fallsins á mig. …

… Hið innra er eitthvað sem rís upp í mér, endrum og eins[,] sem tilfinnanlega skilur á milli hagsmuna minna og hagsmuna föðurins á himnum; eitthvað sem veldur því að mínir hagsmunir og hagsmunir föðurins á himnum fara ekki algjörlega saman.

Mér er ljóst að okkur ber að skynja og skilja, eins vel og mögulegt er, eins vel og fallið ástand okkar leyfir, eins vel og trú okkar og þekking megna að gera okkur skiljanlegt, að hagsmunir þess Guðs sem við þjónum, séu hagsmunir okkar, og aðra ættum við ekki að hafa, hvorki um tíma, né eilífð.“1

Við getum sótt stöðugt áfram í trú, þótt það kunni ekki að vera auðvelt. Ég get vottað að með tímanum mun sú þrá okkar og hæfni vaxa, að hafa frelsarann ávallt í huga og fylgja honum. Við ættum að vinna þolinmóð að því marki og biðja ætíð um visku og þá guðlegu hjálp sem við þörfnumst. Nefí sagði: „En sjá. Ég segi yður, að þér verðið að biðja án afláts og megið aldrei láta hugfallast, og þér megið ekkert gjöra fyrir Drottin án þess fyrst að biðja föðurinn í nafni Krists um að helga verk yðar, svo að þau verði sálu yðar til velferðar“ (2 Ne 32:9).

Ég varð vitni að einföldu dæmi um slíka bæn þegar öldungi Dallin H. Oaks, í Tólfpostulasveitinni, og mér var falið að hafa yfirumsjón með myndviðtali sem tengdist hjónum í öðru landi. Nokkru áður en í myndverið var komið, fór ég aftur yfir gögnin sem við höfðum aflað okkur um hjónin og taldi mig reiðubúinn fyrir viðtalið. Nokkrum mínútum fyrir tilsettan tíma sá ég öldung Oaks sitja einan og lúta höfði. Eftir smástund leit hann upp og sagði: „Ég var að biðja bæn til að búa mig undir viðtalið. Við þurfum gjöf dómgreindar.“ Hann hafði ekki vanrækt það mikilvægasta, að flytja bæn til að helga verk okkar, okkur til góðs og Drottni til dýrðar.

2. Vera þess albúin að gera Kristi skil á öllum hugsunum okkar, orðum og gjörðum.

Í ritningunum kemur skilmerkilega fram að mikill dómsdagur verður þegar Drottinn stendur og dæmir þjóðirnar (sjá 3 Ne 27:16) og allir munu beygja kné sín og sérhver tunga játa að hann er Kristur (sjá Róm 14:11; Mósía 27:31; K&S 76:110). Í Alma í Mormónsbók er greint frá eðli og víðfeðmi þess dóms:

„Því að orð vor munu dæma oss, já, öll verk vor munu dæma oss. Vér munum ekki flekklaus fundin. Og hugsanir vorar munu einnig dæma oss, og í þessu skelfilega ástandi munum vér ekki dirfast að líta upp til Guðs vors og yrðum því fegnust, ef vér gætum skipað hömrum og fjöllum að falla yfir oss og hylja oss fyrir návist hans.

En þetta getur ekki orðið. Vér verðum að ganga fram og standa frammi fyrir honum í dýrð hans, veldi, mætti, tign og yfirráðum og viðurkenna, oss til ævarandi hneisu, að allir dómar hans eru réttvísir, að hann er réttvís í öllum verkum sínum og að hann er miskunnsamur mannanna börnum, að hann hefur allt vald til að frelsa sérhvern mann, sem trúir á nafn hans og ber ávöxt samboðinn iðruninni“ (Alma 12:14–15).

Þegar frelsarinn útskýrði fagnaðarerindi sitt lagði hann áherslu á dóm þennan. Hann sagði:

„Sjá, ég hef gefið yður fagnaðarerindi mitt, og þetta er fagnaðarerindið, sem ég hef gefið yður—að ég kom í heiminn til að gjöra vilja föður míns, vegna þess að faðir minn sendi mig.

Og faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum, og á sama hátt og mennirnir hefðu lyft mér mundi faðirinn lyfta mönnunum upp til að standa frammi fyrir mér og verða dæmdir af verkum sínum, hvort heldur þau eru góð eða ill—

Og vegna þessa hefur mér verið lyft upp. Þess vegna mun ég draga alla menn til mín samkvæmt krafti föðurins, til að þeir verði dæmdir af verkum sínum“ (3 Ne 27:13–15).

Að verða „lyft upp á krossinum“ er auðvitað á táknrænan hátt verið að vísa til friðþægingar Jesú Krists, sem varð til að hann uppfyllti þær kröfur sem réttvísin gerði til sérhvers okkar. Með öðrum orðum, þá uppfyllti hann með þjáningum sínum og dauða í Getsemane og á Golgata allar þær kröfur sem réttvísin gerði til okkar vegna synda okkar. Hann kemur því í stað réttvísinnar og er persónugervingur réttvísinnar. Á sama hátt og Guð er kærleikur, þá er hann líka réttvísi. Við þurfum nú að gera Jesú Kristi skil á skuldum okkar og skyldum. Rétturinn til að dæma okkur er því hans.

Sá dómur, að hans sögn, byggist á verkum okkar. Hin einkar „góðu tíðindi“ fagnaðarerindis hans eru að hann býður gjöf fyrirgefningar, sem skilyrt er iðrun okkar. Ef við því tileinkum okkur verk iðrunar, mun hann fyrirgefa okkur syndir og misgjörðir. Ef við höfnum þeirri náðargjöf og neitum að iðrast, mun refsing réttvísinnar, sem hann stendur fyrir, yfir okkur koma. Hann sagði: „Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast—En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég“ (K&S 19:16–17).

Að hafa hann ávallt í huga felur því í sér að við minnumst þess ætíð að ekkert er honum hulið í lífi okkar. Engan hluta lífs okkar, hvort heldur verk, orð eða jafnvel hugsanir, er hægt að halda frá vitneskju föðurins og sonarins. Ekki er litið framhjá neinu prófsvindli, búðarhnupli, lostafengnum draumum eða gælum og ósannsögli eða það falið eða gleymt. Allt í lífinu sem við „komumst upp með“ eða okkur tekst að fela fyrir öðrum, verðum við samt að horfast í augu við á þeim óumflýjanlega degi, er við þurfum að standa frammi fyrir Jesú Kristi, Guði sannrar og fullkominnar réttvísi.

Sá raunveruleiki hefur á ýmsum stundum knúið mig til að iðrast eða forðast synd algjörlega. Í eitt skipti, í tengslum við húsasölu, var villa í skjalaskráningu, og ég var í þeirri stöðu að geta löglega fengið hærri upphæð frá kaupandanum. Fasteignasalinn spurði hvort ég vildi ekki halda peningunum úr því ég hefði rétt til þess. Í huganum sá ég sjálfan mig frammi fyrir Drottni, persónugervingi réttvísinnar, og reyna að útskýra, að það væri minn löglegi réttur að nýta mér mistök kaupandans. Ég sá ekki fyrir mér að ég gæti verið sérstaklega sannfærandi, einkum þar sem ég yrði að öllum líkindum á sama tíma að biðja mér vægðar. Mér varð ljóst að ég gæti ekki lifað með sjálfum mér, ef ég yrði svo óheiðarlegur að halda eftir peningunum. Ég svaraði fasteignasalanum því til, að við ættum að halda okkur við kaupsamninginn eins og við hefðum í upphafi skilið hann. Það varð mér meira virði en nokkur peningaupphæð að vita að ég hef einskis að iðrast eftir viðskiptin.

Á æskuárum mínum var ég eitt sinn svo hirðulaus að það olli einum bræðra minna minniháttar áverka. Ég játaði ekki heimskupör mín þegar þetta gerðist og enginn komst nokkurn tíma að sök minni í málinu. Mörgum árum síðar bað ég þess að Guð sýndi mér allt það í lífi mínu sem þyrfti að leiðrétta, svo ég yrði honum þóknanlegri, og þá kom þetta atvik upp í hugann. Ég hafði gleymt því, en andinn hvíslaði að mér að það væri óuppgert brot sem ég þyrfti að játa. Ég hringdi í bróður minn, afsakaði mig og bað hann fyrirgefningar, sem hann og gerði skjótt og einlæglega. Ef ég hefði beðist afsökunar þegar atvikið gerðist, hefðu vandræði mín og eftirsjá ekki orðið eins mikil.

Mér þótti athyglisvert og mikilvægt að Drottinn hafði ekki gleymt atviki sem gerðist fyrir langa löngu, jafnvel þótt ég hefði sjálfur gleymt því. Syndir leysast ekki af sjálfu sér eða hverfa einfaldlega. Það er ekki hægt að „sópa syndum undir teppið“ í eilífu samhengi. Úr þeim þarf að greiða, og hið dásamlega er, að sökum hinnar náðarsamlegu friðþægingar frelsarans er hægt að greiða úr þeim á gleðilegri og sársaukaminni hátt, en að þurfa sjálf að fullnægja kröfum réttvísinnar.

Það ætti að verða okkur til hvatningar að vita, að í dómnum verður ekki litið framhjá neinu, því það þýðir einnig, að engin breytni sem felur í sér hlýðni, góðvild og góð verk, hversu smávægileg sem þau eru, mun nokkru sinni falla í gleymsku og ekki er heldur haldið aftur af neinni samsvarandi blessun.

3. Óttast ekki og vænta hjálpar frelsarans.

Á upphafstíma endurreisnarinnar veitti Jesús Joseph Smith og Oliver Cowdery leiðsögn og hughreystingu, er þeir unnu að þýðingu Mormónsbókar og áttu brátt að vígjast prestdæminu. Joseph var 23ja ára á þessum tíma og Oliver 22ja ára. Ofsóknir og aðrar raunir voru tíðar, ef ekki stöðugar. Við þessar aðstæður, í apríl 1829, talaði Drottinn þessi orð til þeirra:

„Óttast þess vegna ekki, litla hjörð. Gjörið gott, leyfið jörð og helju að sameinast gegn yður, því að ef þér byggið á bjargi mínu, fá þær eigi á yður sigrast.

Sjá, ég dæmi yður ekki. Farið leiðar yðar og syndgið ei framar. Vinnið af árvekni þau verk, sem ég hef boðið yður.

Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.

Sjáið sárin er nístu síðu mína og einnig naglaförin á höndum mér og fótum. Verið trúir, haldið boðorð mín og þér skuluð erfa himnaríki. Amen“ (K&S 6:34–37).

Að beina öllum hugsunum sínum til frelsarans er auðvitað annars konar orðalag yfir að „hafa hann ávallt í huga.“ Við þurfum ekki að óttast eða efast þegar við gerum það. Frelsarinn benti Joseph og Oliver á, líkt og hann bendir okkur á, að fyrir tilstilli friðþægingarinnar hafi honum verið gefið allt vald á himni og jörðu (sjá Matt 28:18) og að hann hafi bæði getu og vilja til að vernda okkur og liðsinna. Við þurfum aðeins að vera trúföst og við getum skilyrðislaust reitt okkur á hann.

Áður en Joseph og Oliver hlutu þessa hughreystandi opinberun, varð spámaðurinn fyrir sárri og biturri reynslu, sem kenndi honum að líta til frelsarans og óttast ekki skoðanir, þrýsting og ógnanir manna.

Hinn 28. júní 1828 heimilaði Joseph Martin Harris að fara með fyrstu 116 síður Mormónsbókar frá Harmony, Pennsylvaníu, til að sýna þær nokkrum í fjölskyldu sinni í Palmyra, New York. Þegar Martin lét hjá líða að koma aftur, líkt og hann lofaði, fór Joseph með póstvagni til heimilis foreldra sinna í Manchester Township í New York Spámaðurinn sendi þegar í stað eftir Martin. Þegar Martin kom til hans, sagðist hann ekki hafa handritið meðferðis og ekki vita hvar það væri.

Joseph hrópaði: „Ó, Guð minn góður! Guð minn góður. … Allt er glatað, allt er glatað. Hvað get ég gert? Ég hef syndgað. Það er ég sem ögrað hef Guði og vakið reiði hans, er ég bað hann um það sem ég hafði engan rétt á að biðja um. … Hvaða ávítur á ég ekki skilið að fá frá engli hins æðsta?“

Daginn eftir hélt spámaðurinn af stað til Harmony að nýju. Þegar þangað var komið, sagði hann: „Ég tók að auðmýkja mig frammi fyrir Drottni í máttugri bæn … um mögulega miskunn hans og fyrirgefningu fyrir allt það sem ég hafði gert og andstætt var vilja hans.“2

Eftir að Drottinn hafði ávítað Joseph fyrir að óttast manninn meira en Guð, sagði hann:

„Þú ert Joseph, og þú varst valinn til að vinna verk Drottins, en vegna lögmálsbrots munt þú falla, sért þú eigi var um þig.

En haf hugfast, að Guð er miskunnsamur. Iðrast því þess sem þú hefur gjört og er andstætt fyrirmælum þeim sem ég gaf þér, og enn ert þú útvalinn og kallaður til verksins á ný“ (K&S 3:9–10).

„Drottinn tók Úrím og Túmmím og töflurnar um tíma frá Joseph. En brátt kom að því að hann fékk það aftur í hendur. ‚Engillinn fagnaði þegar hann fékk mér aftur Úrím og Túmmím,‘ minntist spámaðurinn, ‚og hann sagði Guð vera ánægðan með trúfesti mína og auðmýkt og elska mig fyrir þolinmæði mína og kostgæfni í bænargjörð og að ég hefði sinnt skyldum mínum af slíkri natni að … ég gæti hafið þýðingarstarfið að nýju.‘ Þegar Joseph hélt áfram að starfa að þessu mikilvæga verki sem fyrir honum lá, tvíefldist hann allur yfir hinni ljúfu tilfinningu sem fylgdi fyrirgefningu Drottins og einsetti sér enn frekar að gera vilja hans.“3

Eftir þessa reynslu einsetti spámaðurinn sér að reiða sig á Guð og óttast ekki gjörðir manna. Eftir þetta var líf hans dásamlegt fordæmi um hvað í því felst að hafa Krist ávallt í huga og reiða sig á mátt hans og miskunn. Joseph miðlaði þeirri visku sinni í hinni mjög svo erfiðu vist sinni í Liberty-fangelsinu í Missouri, er hann sagði:

„Þér vitið bræður, að í stormi hefur mjög stórt skip mjög mikið gagn af mjög litlu stýri, sem beitir því upp í vind og sjóa.

Þess vegna skulum vér, ástkæru bræður, með glöðu geði gjöra allt, sem í okkar valdi stendur, og síðan getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs, og arm hans opinberast“ (K&S 123:16–17).

Í stuttu máli er merking þess að „hafa hann ávallt í huga,“ að lifa ekki í ótta. Við vitum að öll munum við á einhvern hátt þurfa að takast á við áskoranir, vonbrigði og sorgir, en við vitum líka, að sökum hins guðlega málsvara okkar, mun allt samverka okkur til góðs (sjá K&S 90:24; 98:3). Það er sú trú sem Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) lýsti með þessum einföldu orðum: „Allt mun fara vel.“4 Þegar við höfum frelsarann ávallt í huga, getum við „með glöðu geði [gjört] allt sem í okkar valdi stendur,“ sannfærð um að við munum komast í gegnum allt fyrir mátt hans og elsku.

Megum við ávallt hafa hann í huga—„svo að andi hans sé ætíð með [okkur]“ (K&S 20:77). Ég ber vitni um mátt friðþægingar Jesú Krists. Ég ber vitni um raunveruleika hins lifandi upprisna Drottins. Ég ber vitni um óendanlega og persónulega elsku föðurins og sonarins til sérhvers okkar og ég bið þess að við megum alltaf minnast þeirrar elsku í allri sinni mynd.

Heimildir

  1. Brigham Young, „Discourse,“ Deseret News, 10. sept. 1856, 212.

  2. Sjá Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 69, 71.

  3. Kenningar: Joseph Smith, 71.

  4. Jeffrey R. Holland, „President Gordon B. Hinckley: Stalwart and Brave He Stands,“ Líhóna, júní 1995, sérstök útgáfa, 6.

Frið gef ég yður, eftir Walter Rane, birt með leyfi Church History Museum; Brauð brotið, eftir Walter Rane

KRISTUR Í GETSEMANE, eftir Heinrich Hofmann, BIRT MEÐ LEYFI c. Harrison Conroy Co.

Síðari koman, eftir Harry Anderson © IRI

Hann smurði augu blinda mannsins, eftir Walter Rane, birt með leyfi Church History Museum