Til styrktar ungmennum
Það er sérgrein frelsarans að vinna með veikleika
Mars 2024


„Það er sérgrein frelsarans að vinna með veikleika,“ Til styrktar ungmennum, mars 2024.

Styrkur í veikleika

Það er sérgrein frelsarans að vinna með veikleika

Jesús Kristur getur hjálpað okkur að vaxa í erfiðleikum, ekki bara að ganga í gegnum þá.

Ljósmynd
veiklulegur piltur

Myndskreyting: Uran Duo

Mason finnur ekki fyrir elsku Guðs eins og áður fyrr. Hann hefur tekist á við alvarlegt þunglyndi í nokkur ár með litlum árangri og hefur áhyggjur af því að draumar hans verði aldrei að veruleika.

Anna heyrir önnur ungmenni tala um upplifun opinberunar og kraftaverka. Henni finnst eins og hún hljóti ekki svör eða eigi andlega upplifun eins og allir aðrir, þótt hún reyni.

Ethan veltir fyrir sér hvort hann muni nokkurn tímann finna til hreinleika eða verðugleika á ný. Hann hefur látið undan ákveðnum freistingum svo oft að hann finnur fyrir stjórnleysi og veltir fyrir sér hvort hann hafi glatað fyrirheitnum blessunum sínum varanlega. Hann veltir fyrir sér hvort honum geti nokkurn tímann verið fyrirgefið og finnur sífellt meiri sektarkennd í kirkju.

Madison glímir við átröskun. Olivia er með námsörðugleika. Conner á í erfiðleikum með samvisku sína (þráhyggja yfir siðferðislegri sektarkennd). Abigail hefur verið beitt ofbeldi og finnst eins og hún sé einskis virði. Foreldrar Jakes hafa gengið í gegnum skilnað og hann er sár og ráðvilltur. Jayden var svikinn og finnst ekki eins og hann geti fyrirgefið.

Fólk glímir við svo fjölbreyttan vanda, en það er aðeins ein lausn. Sú lausn á sér nafn – Jesús Kristur. Allt þetta fólk vill finna styrk, hreinleika, gleði og finnast það vera heilt aftur, þó getur það ekki greitt úr vanda sínum af sjálfsdáðum. En Jesús Kristur býður fram aðstoð sína. Raunar er það að vinna með veikleika sérgrein hans. Hjálp hans berst yfirleitt ekki nákvæmlega hvernig og þegar við viljum, en hún berst samt.

Hér eru nokkrar reglur til að hjálpa okkur að taka við boði frelsarans um að ganga með sér (HDP Móse 6:34), sérstaklega þegar við glímum við veikleika.

Lífið á að vera prófraun

Guð elskar ykkur meira en hann elskar löngun ykkar í þægindi eða vellíðan. Hversu margar af hetjum ykkar upplifa einungis þægindi og vellíðan? Líklegt er að þær standi endurtekið frammi fyrir gífurlegum mótbyr og þrengingum. Sem hluta af prófraun okkar í lífinu, „þóknaðist Drottni að aga fólk sitt og reyna þolgæði þess og trú“ (Mósía 23:21). Okkur líkar það ef til vill ekki, en oftast bjóða erfiðustu raunir okkar upp á ótrúleg vaxtartækifæri.

Veikleiki er ekki ummerki um vanþóknun Guðs

Margir til forna trúðu að líkamlegir eða sálrænir kvillar væru til tákns um refsingu Guðs (sjá Jóhannes 9:2). En veikleiki er hluti af lífinu, sem afleiðing af fallinu. Þótt það sé eðlilegur og nauðsynlegur hluti í áætlun Guðs að glíma við erfiðleika, þá er ekki eðlilegt eða nauðsynlegt að gera það ein. Jesús Kristur var ekki sendur til að dæma okkur; hann var sendur til að elska og endurheimta þá sem eru týndir, veikburða eða einmana – sem erum við öll (sjá Jóhannes 3:16–17; Lúkas 15).

Hið veika er gert sterkt með Kristi.

Það er mikilvægt að við skilgreinum okkur sjálf eftir sáttmálstengingunni við Krist og traust okkar á fullkomnun hans frekar en að láta ófullkomleika skilgreina okkur. Jesús Kristur vísaði aldrei neinum á brott sem sóttist af kostgæfni eftir honum í trú. Guð veitir öllum „veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir. Og náð [hans] nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir [honum] … og eiga trú á [hann],“ og ef þeir gera það, „þá mun [hann] láta hið veika verða styrk þeirra“ (Eter 12:27). Þegar við berum erfiðleika okkar fram fyrir Drottin með sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda (sjá 3. Nefí 9:20), fjarlægir hann þá eflaust ekki samstundis, heldur hjálpar hann okkur og styrkir okkur.

Verið þolinmóð við ykkur sjálf

Sáttmálsvegurinn er mjög löng ferð, ekki spretthlaup. Að fylgja þeim vegi, hjálpar okkur í gegnum hinar mörgu bugður og beygjur, brekkur, skin og skúrir, spennu og hættu, sólskin og storma lífsins. Margar lexíur er hægt að læra við hvert fótspor á leiðinni. Náð Jesú Krists opinberast oft með tímanum, ekki aðeins á einangruðum augnablikum eða með undursamlegum athöfnum.

Ljósmynd
orkumikill piltur

Tengja við Krist

Ef ykkur finnst eins og þið séuð veik eða eigið í erfiðleikum, takið þá við boði frelsarans: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“ (Matteus 11:28). Finnið leiðir sem hjálpa ykkur að tengjast við hann. Þegar þið seilist til hans, munið þið finna fyrir því að hann hefur verið að seilast til ykkar og mun hann aldrei gefast upp á ykkur! Lífið verður ekki fullkomið, né heldur mun það vera laust við veikleika, sársauka og erfiðleika. Það verður betra með meistaragræðarann ykkur við hlið til að lyfta ykkur upp þegar þið hafið fallið, binda sár ykkar og leiða ykkur á vegum sem liggja í átt að varanlegri hamingju.

Það er sérgrein Jesú Krists að vinna með veikleika. Sérgrein hans er að vinna með ykkur!