Til styrktar ungmennum
Finnið styrk ykkar í Jesú Kristi
Mars 2024


„Finnið styrk ykkar í Jesú Kristi,“ Til styrktar ungmennum, mar. 2024.

Finnið styrk hans

Finnið styrk ykkar í Jesú Kristi

Jesús Kristur er styrkur ungmenna – hvers ungmennis á jörðu – og þið eruð tvímælalaust þar á meðal!

Ljósmynd
Jesús Kristur

Hlýðið á hann, eftir Haley Miller

Það gleður mig að kynna þessa sérstöku útgáfu af tímaritinu Til styrktar ungmennum. Greinarnar, verkefnin og sögurnar frá ungmennum víða um veröld, munu efla vitnisburð ykkar um djúpstæðan og eilífan sannleika frá Æðsta forsætisráðinu. Þeir lýsa þessu eindregið yfir: „Hann er ‚styrkur ungmenna.‘“1 Þetta þýðir að Jesús Kristur er ykkar styrkur. Ég bið þess að þið munið taka gleðilega á móti þessum sannleika, á þessum örlagatíma í lífi ykkar, nú og að eilífu.

Allir þurfa styrk í Kristi

Þið eruð ekki hér af einskærri tilviljun eða fyrir mistök. Þið ákváðuð að koma til jarðar til að læra, vaxa úr grasi, gera einstaka hluti og verða líkari himneskum föður ykkar. Þið munið á þessu ferðalagi lenda í mótlæti, persónulegum raunum, kjarkleysi og vonbrigðum sem virðast yfirþyrmandi. Kannski finnst ykkur þið föst í slíku tímabili einmitt núna.

Á tímum sem þessum, hafið það vinsamlega í huga að himneskur faðir elskar ykkur. Það hefur hann alltaf gert og það mun hann alltaf gera. Sökum óendanlegrar og fullkominnar elsku sinnar, sendi hann son sinn Jesú Krist til að styrkja ykkur og hjálpa ykkur að yfirstíga hindranir. Og Jesús kom einnig vegna djúprar elsku sinnar á ykkur.

Því miður ber sumt fólk ekki kennsl á þörfina fyrir frelsara. Það skilur ekki að eins og allt fólk, gerir það mistök sem það getur ekki lagað, upplifir missi sem það getur ekki náð sér eftir og stendur frammi fyrir vandræðum og harmleik sem það getur ekki þraukað upp á sitt einsdæmi. Ekki heldur getur það sigrast á synd og dauða á eigin spýtur. Þetta þýðir að það – og allt fólk – hefur þörf fyrir friðþægingu Jesú Krists, ásamt þeim styrk sem hún ber með sér.

„Það er frábært, öldungur Holland,“ gætuð þið hugsað með ykkur, „en hvernig get ég gert Jesú Krist að mínum styrk?“ Lof mér að miðla aðeins nokkrum af þeim fjölmörgu leiðum sem Jesús Kristur styrkir ykkur á hverjum degi, til að svara þessari spurningu.

Ljósmynd
Jesús Kristur

Frelsunin er nærri, eftir David McClellan

Hann hefur mátt til að styrkja ykkur

Á síðasta kvöldi jarðlífs síns fór Jesús Kristur inn í Getsemanegarðinn. Þar kraup hann innan um ólífutrén og byrjaði að taka á sig syndir heimsins. Þessi mikla og eilífa þjáning „varð þess valdandi, að [hann],… æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu“ (Kenning og sáttmálar 19:18).

Jesús var svo færður til Golgata og krossfestur. Þar fullkomnaði hann friðþægingarfórn sína. Hann gaf viljugur líf sitt og reis sigrihrósandi upp frá dauðum. Þessa páska fagna ég og lýsi yfir að Jesús Kristur lifir! Ég lýsi því líka yfir að hann lyftir ekki einungis byrði syndarinnar, heldur „[þolir einnig] alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar“ er hann gerir það (Alma 7:11; leturbreyting hér).

Frelsarinn fann fyrir hverju hjartasári og öllum sorgum og upplifði á persónulegan hátt allar kvalir og þjáningar sem þið, ég og hver sál sem lifað hefur eða mun lifa hefur fundið fyrir. Vegna þess sem hann gekk í gegnum líkamlega, sálarlega og andlega ykkar vegna, veit hann hvernig hægt er að styrkja ykkur.

Kannski þykir ykkur erfitt að trúa því að Jesús hefði áhuga á að hjálpa ykkur, innan um milljónir jafnaldra ykkar. Ef þið haldið nokkurn tímann að hann hafi eitthvað betra að gera en að styrkja ykkur þegar þið þurfið á því að halda, hugsið þá um hann í garðinum, hugsið um hann á krossinum. „[Hann þjáðist, honum blæddi og hann dó]“ 2 fyrir ykkur, því hann vissi að þið væruð þess virði. Hann veit það enn. Hann er gífurlega áhugasamur, viljugur og fær um að hjálpa ykkur – einmitt núna og að eilífu. Hann gaf líf sitt svo hann gæti styrkt ykkur er þið takið móti lífsumbreytandi boði hans: „Komið til mín“ (Matteus 11:28).

Veljið að ganga með honum

Það er ykkar val að fylgja Jesú Kristi og gera hann að styrk ykkar. Hann „sýndi veg og veitti leið“3 aftur til himnesks föður. Í raun, er hann „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6).

Þið finnið veginn með því að taka fagnaðarerindi Jesú Krists opnum örmum, er þið iðkið trú á hann og iðrist synda ykkar. Samband ykkar við hann verður innilegra þegar þið veljið að skírast í hans nafni og meðtaka gjöf heilags anda. Þið dveljið svo á vegi fagnaðarerindis hans með því að halda boðorðin, meðtaka helgiathafnir, virða sáttmála og lifa sem lærisveinar hans.

Þessi atriði mynda öflug tengsl – sáttmálstengsl – sem binda ykkur tryggilega við Krist – og hann við ykkur. Þegar þið gangið með honum, verða hann og faðirinn grundvallaruppspretta ykkar fyrir andlega leiðsögn og styrk. Þið getið síðan sótt fram af öryggi og gleði á hverjum degi, orðið líkari þeim og snúið einn daginn aftur til búsetu með þeim og átt þess háttar líf sem þeir lifa.

Ljósmynd
kona horfir upp til Jesú Krists

Horfið til mín, eftir Eva Koleva Timothy

Sækið fram í styrk hans

Ég vitna af öllu hjarta að Jesús er Kristur. Þegar þið stígið skref til hans, seilist til hans og bjóðið honum að vera styrkur ykkar, mun hann koma til ykkar og þið munið finna hann.4 Engin ákvörðun sem þið takið getur á nokkurn hátt valdið því að þið séuð utan seilingar hans. Ég trúi því af öllu hjarta sem ég hef sagt áður: „Þið [eða nokkur] getið ekki sokkið svo djúpt að geislar hins óendanlega ljóss friðþægingar Krists nái ekki til ykkar.“5

Ef þið viljið koma til Krists, haldið boðorðin í upphafi og alltaf „í einlægum ásetningi“ (3. Nefí 18:32), mun hann ganga lífsveginn með ykkur. Hann mun halda í hönd ykkar og vera von ykkar. Hann verður styrkur ykkar. Og hann mun færa ykkur ævarandi gleði, sannan frið og mikla hamingju.

Sem eitt af hans sérstöku vitnum, ber ég vitni og set fram loforð um að þetta er satt.