Til styrktar ungmennum
Getum við þjónað ef við erum ekki úthverf?
Mars 2024


„Getum við þjónað ef við erum ekki úthverf?,“ Til styrktar ungmennum, mars 2024.

Styrkur til að þjóna

Getum við þjónað ef við erum ekki úthverf?

Frelsarinn getur veitt okkur styrk, þótt við höfum átt erfitt með að eiga samskipti við fólk.

Ljósmynd
stúlka gengur meðfram vegi

Þegar ég var í gagnfræðaskóla hélt ég að ég væri ekki jafn verðmætur lærisveinn Jesú Krists þar sem ég átti erfitt með að tala við fólk. Ég var ekki bara innhverf – ég var verulega feimin! Ég var svo feimin að ég átti erfitt með að eignast vini og vera ég sjálf í kringum bekkjarfélaga í skóla og kirkju.

Ég forðaðist þess vegna kallanir í Stúlknafélaginu og fannst eins og ég gæti ekki verið eins andleg og jafnaldrar mínir, sem voru mikið málglaðari og félagslyndari en ég.

Þegar ég því útskrifaðist úr gagnfræðaskólanum og ákvað að fara í trúboð, varð ég skelfingu lostin!

Mér fannst eins og Guð vildi að ég þjónaði, en mín fyrsta hugsun var: „Af hverju vill Guð að einhver eins og ég þjóni? Ég get ekki talað við fólk!“

En ég ákvað að treysta Guði og þjóna í trúboði þrátt fyrir óttann.

Reiða sig á styrk Krists

Í upphafi þjónustunnar voru hlutirnir erfiðir, en þegar ég hélt áfram að reyna (og leyfa mér að mistakast), komst ég að því að Drottinn veitti mér styrk til að sinna þeirri vinnu sem hann bað mig að inna af hendi.

Drottinn segir í Mormónsbók: „Komi menn til mín, mun ég sýna þeim veikleika sinn. Og náð mín nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir mér. Því að ef þeir auðmýkja sig fyrir mér og eiga trú á mig, þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra“ (Eter 12:27).

Í trúboði mínu komst ég að því að Jesús Kristur gat framkvæmt dásamlega hluti í gegnum mig, ekki vegna styrkleika míns heldur hans. Ég komst líka að því að styrkur hans barst mér ekki bara vegna þess að ég væri trúboði, heldur hefði ég einnig getað reitt mig á hann í gagnfræðiskólanum.

Það dásamlega við Jesú Krist er að við þurfum hvorki menntagráður né yfirgripsmikla ferilskrá til að þjóna í ríki hans og vera sterkir lærisveinar! Ef við erum auðmjúk og einlæg í þrá okkar til að þjóna, mun Jesús Kristur taka á móti okkur nákvæmlega eins og við erum, hvar sem við erum og veita okkur nauðsynlega hjálp og styrk til að þjóna honum.