Til styrktar ungmennum
Kraftaverkið sem við þörfnumst á hverjum degi
Mars 2024


„Kraftaverkið sem við þörfnumst á hverjum degi,“ Til styrktar ungmennum, mar. 2024.

Styrkur til að sigrast á synd

Kraftaverkið sem við þörfnumst á hverjum degi

Ef Guð elskar okkur, af hverju biður hann okkur þá um að breytast og iðrast? Hér eru nokkrar staðreyndir um synd og friðþægingu Jesú Krists.

Ljósmynd
gluggaþvottur

Myndskreyting: Adam Howling

Hvað ef þið gætuð orðið vitni að kraftaverkunum sem Jesús Kristur framkvæmdi í lífi sínu á jörðinni? Fylgst með honum lækna hina sjúku og reisa upp frá dauðum? Jafnvel þótt við getum ekki farið aftur í tímann til að sjá þessi kraftaverk, þá getum við dagsdaglega séð eitt af kraftaverkum Jesú Krists. Og það er eitt það allra mikilvægasta: Hann sigraðist á synd.

Sannleikurinn um syndina

Sumir gætu velt fyrir sér hvers vegna það er merkilegt. Þrátt fyrir allt, þá elskar Guð okkur enn þá ef við gerum mistök hér og þar, ekki satt? Jú, vissulega elska bæði himneskur faðir og Jesús Kristur okkur innilega. En vegna þess að þeir elska okkur svo mikið, þá er meira til í sögunni.

Þegar frelsarinn vitjaði Nefítanna, kenndi hann okkur af hverju það er svo mikilvægt að sigrast á synd: „Ekkert óhreint fær komist inn í ríki [Guðs]“ (3. Nefí 27:19).

Hann sagði ekki „ekkert óhreint, fyrir utan nokkur smá mistök“. Hann kenndi að hvers konar synd (að óhlýðnast viljandi boðorðum Guðs) kemur í veg fyrir að við fáum dvalið aftur með honum.

Það er vandinn. Við getum enn ekki fullkomlega fylgt boðorðum Guðs. Þetta á við um allt fólk – hinn réttlátasta spámann, spilltan syndara og alla þar á milli. Fyrst við getum ekki þurrkað út mistök okkar sjálf, þá myndi synd koma í veg fyrir að við gengjum inn í ríki Guðs.

Kraftaverk friðþægingar Krists

Sem betur fer vissu himneskur faðir og Jesús Kristur að við þyrftum hjálp. Jesús Kristur tók í Getsemanegarðinum og á krossinum á sig allan sársauka okkar, sjúkdóma, þrengingar, vanmátt og syndir (sjá Alma 7:11–13). Vegna þess að hann var í senn fullkominn sonur Guðs og jarðneskur sonur Maríu, gat hann greitt gjald syndarinnar sem enginn annar gat greitt.

Þess vegna gat hann sagt við Nefítana: „Og ekkert óhreint fær komist inn í ríki hans. Þess vegna gengur enginn inn til hvíldar hans, nema þeir, sem laugað hafa klæði sín í blóði mínu vegna trúar sinnar og iðrunar á öllum syndum sínum og vegna staðfestu sinnar allt til enda“ (3. Nefí 27:19).

Hvílíkt kraftaverk að við getum, vegna Jesú Krists, verið hreinsuð af syndum okkar! Þegar við höfum viðurkennt að friðþægingarfórn frelsarans er nauðsynleg fyrir okkur, getum við reitt okkur á styrk hans í trú á hann, iðrast synda okkar og haldið áfram að fylgja honum trúfastlega allt til enda. Þetta er kraftaverk sem getur gerst á hverjum degi þegar þið treystið á kraft hans og iðkið trú.