2023
Safna saman – ekki tvístra
Júlí 2023


„Safna saman – ekki tvístra,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2023.

Kom, fylg mér

Postulasagan 10

Safna saman – ekki tvístra

Guð hyglir ekki einum fram yfir annan og það ættum við ekki heldur að gera.

Ljósmynd
fólk og fjölbreytileiki

Myndskreyting: Travis Constantine

Nokkrum vikum eftir að ég kom til Þýskalands sem trúboði, knúðum ég og félagi minn dyra hjá eldri konu sem samþykkti að leyfa okkur að kenna sér.

Í fyrstu kennslustundinni buðum við henni að lesa ritningarhluta upphátt. Í gegnum þykk gleraugun las hún með miklum erfiðleikum og hikstaði á orðunum. Svör hennar við spurningum okkar voru stutt. Við vorum ekki viss um hversu mikið hún skildi.

Við báðum hana að lesa ákveðna kapítula í Mormónsbók fyrir næstu heimsókn okkar. Þegar við komum aftur, hafði hún lesið þá en virtist ekki skilja efnið. Við veltum fyrir okkur hvort hún gæti átt í erfiðleikum með að læra. Við veltum fyrir okkur hvort við ættum að halda áfram að kenna henni. Við héldum þó áfram.

Í næstu heimsókn okkar urðum við hissa þegar hún sagðist vilja láta skírast. Síðan, þegar við héldum áfram að kenna henni, tókum við eftir að lestur hennar varð í raun betri. Svör hennar við spurningum okkar voru enn stutt, en virtust betri og öruggari.

Ég var fljótlega fluttur til annarrar borgar, en þjálfarinn minn skrifaði mér síðar til að segja að þessi kona hefði verið skírð og studd af deildarmeðlimum. Ef þið hefðuð spurt okkur einhverjum vikum áður hver af öllum trúarnemum okkar væri líklegastur til að láta skírast og finna sér stað í kirkjunni, þá hefði hún ekki verið efst á listanum okkar.

Þannig lærðum við gamla lexíu – sömu lexíu og Pétur postuli lærði fyrir löngu og sem hvert og eitt okkar þarf að halda áfram að læra: „Guð fer ekki í manngreinarálit“ (Postulasagan 10:34).

Mikil breyting

Pétur var í forsæti kirkjunnar á erfiðum tíma. Frelsarinn hafði sagt við postula sína: „Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni“ (Markús 16:15). Fram að þessu höfðu þeir aðeins prédikað og skírt meðal Gyðinga.

Þá gerðist ýmislegt merkilegt. Rómverskur hundraðshöfðingi að nafni Kornelíus – heiðingi, ekki gyðingur, hermaður sem klæddist sama einkennisbúningi og þeir sem höfðu krossfest Jesú Krist – sá engil í sýn. Engillinn sagði Kornelíusi að senda eftir manni að nafni Pétur til að kenna honum. Ekki löngu eftir það fékk Pétur sýn þar sem hann sá mat sem var bannaður samkvæmt lögmáli Gyðinga, en samt var honum sagt að borða matinn, vegna þess að Guð hafði lýst hann hreinan. Rétt eftir að Pétur hafði fengið þessa sýn, komu þjónar Kornelíusar að og báðu hann að koma með sér. Andinn sagði Pétri að fara.

Eftir að hafa hitt Kornelíus og séð hversu góður og sannur hann var, skildi Pétur merkingu sýnar sinnar. Fagnaðarerindið þurfti líka að fara til Þjóðanna, sem og Kornelíusar. Það var þá sem Pétur sagði: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er“ (Postulasagan 10:34–35). Pétur kenndi Kornelíusi um Jesú Krist og bauð honum og heimilisfólki hans að láta skírast. (Sjá Postulasagan 10.)

Að færa Þjóðunum fagnaðarerindið, markaði mikla breytingu hjá frumkirkjunni. Sumir áttu erfitt með að sætta sig við þessa breytingu. En hún var rétt og hún kenndi grundvallarsannleika um Guð og samferðafólk okkar.

Ekkert manngreinarálit

Þegar Guð blessar börn sín, hyglir hann ekki einum fram yfir annan út frá þjóðerni, kynþætti, kyni, auðæfum, menntun, getu, útliti eða öðrum ólíkum eiginleikum sem aðskilja fólk.1 Hann „metur allt hold á einn og sama veg. Hinn réttláti nýtur náðar Guðs“ (1. Nefí 17:35). Allir geta komið til hans, því „allir eru jafnir fyrir Guði“ (2. Nefí 26:33). Hann „lítur á hjartað“ (1. Samúelsbók 16:7). Hann meðtekur þá sem „gera rétt … ástunda kærleika og … hógværð“ (Míka 6:8).

Hver sem er getur valið að koma til Jesú Krists, gera sáttmála við himneskan föður og fylgja háttum þeirra. Þessi sannleikur ætti að vera okkur leiðandi í því hvernig við miðlum fagnaðarerindi Drottins og kærleika hans.

Við getum ekki bara horft á ytri einkenni einhvers og talið að viðkomandi sé ekki „rétta tegundin“ fyrir fagnaðarerindið. Við getum ekki bara sett veraldlega merkimiða á fólk og talið að þeir merkimiðar geri það vanhæft til að vera meðtekið í kirkjunni. Við getum ekki bara ákveðið að þjóna ekki einhverjum einfaldlega vegna þess að viðkomandi hefur aðrar stjórnmálaskoðanir, áhugamál eða smekk en við höfum.

Guð lítur ekki á einstakling sem safn merkimiða sem tákna ýmsa hópa eða eiginleika. Hann sér einstakling – barnið sitt. Þannig ættum við líka að sjá hverja manneskju – sem einstakan einstakling með jöfn tækifæri og getu til að koma til Guðs.

Verið samansafnarar

Russell M. Nelson forseti hefur hvatt okkur til að taka þátt í samansöfnun Ísraels.2 En ef við, ólíkt Guði, veljum að „fara í manngreinarálit“ hvað varðar að miðla fagnaðarerindinu og meðtaka fólk í kirkjunni, gætum við verið að tvístra eða sundra meira en við erum að safna saman og sameina.

Við skulum hvert og eitt skuldbinda okkur: Ekki tvístra lengur. Verið samansafnarar. Elskið, miðlið og bjóðið

Ég og félagi minn vorum ekki vissir um hvort konan sem við vorum að kenna í Þýskalandi væri líkleg til að láta skírast. Við þekktum ekki hjarta hennar, en Guð gerði það. Ég er glaður yfir því að við vorum hvattir til að halda áfram að kenna henni.

Þegar þið reynið að fylgja andanum og reynið að fara ekki í manngreinarálit, munið þið hljóta leiðsögn til að hjálpa þeim sem umhverfis eru að koma til Krists, óháð því sem aðgreinir ykkur.

Heimildir

  1. Sjá Dieter F. Uchtdorf, aðalráðstefna, apríl 2020.

  2. Sjá t.d. Russell M. Nelson „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma ungmenna, 3. júní, 2018), HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.