2010–2019
Að vera í Guði og græða sárin
Október 2017


Að vera í Guði og græða sárin

Kristur megnar að leiða okkur í kærleiksríkt samfélag við föðurinn og hvert annað.

Við þurfum stöðugt að keppa að því að þekkja betur himneskan föður og hlýða honum. Samband okkar við hann er eilíft. Við erum hans ástkæru börn og það mun ekki breytast. Hvernig getum við tekið heilshugar á móti því boði hans að komast nær honum, svo við getum notið þeirra blessana sem hann þráir að veita okkur í þessum og komandi heimi?

Drottinn sagði við hinn forna Ísrael og við okkur núna: „Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig.“1 Hann mælir eins og faðirinn mælir við okkur: „Þú munt vera í mér og ég í þér. Gakk þess vegna með mér?“2 Treystið þið honum nægilega til að vera í og ganga með honum?

Við erum hér á jörðu til að vaxa og læra og okkar mikilvægasti vöxtur og lærdómur mun hljótast af sáttmáls-sambandi okkar við himneskan föður og Jesú Krist. Af trúföstu sambandi okkar við þá munum við hljóta guðlega þekkingu, elsku, kraft og meiri hæfni til að þjóna.

„Okkur ber skylda til að læra allt það sem Guð hefur opinberað um sig sjálfan.“3 Okkur verður að skiljast að Guð faðirinn bauð syni sínum, Jesú Kristi, að skapa jörðina til þess að við gætum vaxið, að himneskur faðir gaf son sinn til að fullnægja kröfum réttvísinnar til þess að við gætum hlotið sáluhjálp og að prestdæmiskraftur föðurins og hin sanna kirkja sonarins, ásamt nauðsynlegum helgiathöfnum, voru endurreist til þess að við gætum hlotið blessanir. Fáið þið skynjað hina miklu elsku sem finna má í þessum undirbúningi þeirra okkur til gleði og vaxtar? Við þurfum að vita að sáluhjálparáætlun föðurins er að við hlýðum lögmálum og helgiathöfnum fagnaðarerindisins og hljótum eilíft líf og verðum því eins og Guð er.4 Þetta er hin sanna og varanlega hamingja sem himneskur faðir býður okkur. Engin önnur sönn og varanleg hamingja er til.

Áskoranir okkar geta dregið okkur frá þessari hamingjuleið. Við getum misst trúnaðarsamband okkar við Guð, ef erfiðleikarnir knýja okkur til hugarangistar, en ekki niður á hnén.

Þetta einfalda orðtak hvetur til skoðunar á forgangsröðun:

Sumt er mikilvægt; annað ekki.

Fátt er varanlegt, en flest ekki.5

Systur, hvað skiptir ykkur máli? Hvað finnst ykkur vera varanlegt. Það sem hefur varanlegt gildi í augum föðurins er að við lærum um hann, auðmýkjum okkur sjálf og vöxum í hlýðni við hann fyrir okkar jarðnesku reynslu. Hann vill að við breytum eigingirni yfir í þjónustu og ótta yfir í trú. Þessir varanlegu hlutir geta reynt á okkur til hins ítrasta.

Það er núna, í okkar jarðnesku takmörkun, sem faðirinn vill að við elskum þegar erfiðast er að elska, að þjóna þegar óþægilegast er að þjóna, að fyrirgefa þegar sálarraun er að fyrirgefa. Hvernig? Hvernig gerum við það? Við berum okkur einlæglega eftir hjálp himnesks föður, í nafni sonar hans, og breytum samkvæmt hans vilja í stað eigin vilja í drambsemi.

Ljósmynd
Vatnsker

Ég uppgötvaði eigið dramb þegar Ezra Taft Benson forseti ræddi um að hreinsa kerið okkar að innan.6 Ég ímyndaði mig sem ker. Hvernig gat ég náð dreggjum drambsins úr kerinu? Að þvinga sig sjálfa til auðmýktar og til að elska aðra, væri óeinlægt, innantómt og virkaði einfaldlega ekki. Syndir okkar og mistök valda sárindum – eða gjá – á milli okkar og uppsprettu allrar elsku, okkar himneska föður.

Aðeins friðþæging frelsarans megnar að hreinsa okkur af synd og brúa þá gjá.

Við viljum njóta handleiðslu og vera umfaðmaðar kærleiksríkum örmum himnesks föður og því höfum við vilja hans í fyrirrúmi og biðjum þess með sundurkrömdu hjarta að Kristur láti hreinsandi vatn streyma í kerið okkar. Í fyrstu kann það að renna dropa fyrir dropa, en er við leitum, spyrjum og hlýðum, þá mun það taka að streyma ríkulega. Þetta lifandi vatn mun taka að fylla okkur, og barmafull af elsku hans, getum við tekið úr keri sálar okkar og miðlað öðrum af vatni þess, sem þrá lækningu, von og samastað. Þegar kerið okkar verður hreint að innan, þá munu okkar jarðnesku sambönd byrja að gróa.

Þess er krafist að við fórnum okkar persónulegu hugðarefnum til að geta tileinkað okkur hina eilífu áætlun Guðs. Frelsarinn, sem talar fyrir munn föðurins, býður okkur: „Nálgist mig og ég mun nálgast yður.“7 Að nálgast föðurinn, getur falist í því að læra sannleika hans í ritningunum, fylgja spámannlegri leiðsögn og keppa að því að þekkja hann betur.

Skiljum við að Kristur megnar að leiða okkur í kærleiksríkt samfélag við föðurinn og hvert annað? Hann megnar, fyrir kraft heilags anda, að veita okkur nauðsynlega innsýn í sambönd okkar.

Sunnudagsskólakennari nokkur sagði mér frá áhrifamikilli reynslu sem hann upplifði í námsbekk 11 ára drengja. Einn þeirra, sem ég kalla Jimmy, var ósamvinnuþýður einfari í námsbekknum. Sunnudag einn fékk kennarinn innblástur um að bíða með lexíuna og segja Jimmy af hverju honum þætti vænt um hann. Hann ræddi um hve þakklátur hann væri fyrir drenginn og hve mikla trú hann hefði á honum. Kennarinn bauð síðan hinum nemendunum að segja Jimmy frá einhverju sem þeim mátu í fari hans. Þegar nemendurnir, hver fyrir sig, sögðu Jimmy ástæðu þess að hann var þeim sérstakur, þá hneigði drengurinn höfuðið og tár tóku að streyma niður vanga hans. Þessi kennari, ásamt nemendunum, byggði brú að einmana hjarta Jimmys. Einföld og einlæg elska vekur öðrum von og virði. Ég kalla það „að græða sárin eða brúa gjána.“

Lífsmáti okkar í kærleiksríkri fortilveru hefur hugsanlega innrætt okkur þrá eftir sannri og varanlegri elsku á jörðunni. Við erum guðlega mótuð til að sýna elsku og vera elskuð og innilegasta elskan hýst af því að vera eitt með Guði. Mormónsbók býður okkur að „[leita] sátta [Guðs] fyrir friðþægingu Krists.“8

Jesaja ræddi um þá sem trúfastlega lifðu eftir föstulögmálinu og urðu þannig eigin niðjum græðendur sára. Það eru þeir sem Jesaja lofaði að myndu „byggja upp hinar fornu borgarrústir.“9 Á líkan hátt græddi frelsarinn sárin – eða brúaði gjánna – á milli okkar og himnesks föður. Hann greiddi okkur leið, með sinni miklu friðþægingarfórn, til að vera hluttakendur í hinum dásamlega kærleika Guðs og byggja upp „hinar fornar rústir“ í okkar eigin lífi. Að græða tilfinningafjarlægðir manna á milli krefst þess að við tökum á móti elsku föðurins og látum af okkar náttúrlegu eigingirni og óttatilhneigingu.

Eitt minnistætt kvöld þá vorum ég og eitt skyldmenni ósammála um stjórnmál. Beinskeytt og óvægið færði hún sönnur á að ég færi með rangt mál mitt í áheyrn fleiri skyldmenna. Mér fannst ég heimskuleg og illa upplýst – sem ég hef hugsanlega verið. Þetta kvöld, er ég kraup í bæn, útskýrði ég í flýti fyrir himneskum föður hve erfitt þetta skyldmenni væri! Ég talaði látlaust. Ég hef sennilega gert hlé á kvörtunum mínum svo heilagur andi komst loks að til að ná athygli minni, því mér til furðu þá heyrði ég sjálfa mig segja: „Þú vilt líklega að ég elski hana.“ Elski hana? Ég bað áfram og sagði eitthvað þessu líkt: „Hvernig get ég elskað hana? Ég held mér líki ekki einu sinni við hana. Ég er aum og særð í hjarta. Ég get það ekki!“

Þá, vissulega með hjálp andans, barst mér ný hugsun og ég sagði: „En himneskur faðir, þú elskar hana. Viltu gefa mér hluta af elsku þinni til hennar – svo ég geti líka elskað hana?“ Biturð mín hvarf, ég tók að umbreytast í hjarta og sjá þessa manneskju öðruvísi. Ég tók að skynja raunverulegt gildi hennar, sem himneskur faðir sá. Jesaja ritaði: „Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.“10

Í tímans rás hvarf bilið ljúflega á milli okkar. En jafnvel þótt hún hefði ekki viðurkennt mína hjartans umbreytingu, þá lærðist mér að himneskur faðir gerir okkur kleift að elska, jafnvel þá sem við teljum ómögulegt að elska, ef við biðjum um hjálp hans. Friðþæging frelsarans er tengingin fyrir stöðugt flæði kærleika frá himneskum föður. Við verðum að velja að gangast við og hlíta elsku hans til að hafa kærleika til allra.

Þegar við gefum himneskum föður og syni hans hjarta okkar, þá breytum við heimi okkar – jafnvel þótt aðstæður umhverfis breytist ekki. Við komumst nær himneskum föður og skynjum ljúfa viðurkenningu hans á viðleitni okkar til að vera sannir lærisveinar Krists. Dómgreind okkar, fullvissa og trú munu aukast.

Mormón býður okkur að biðja af öllum hjartans mætti um þessa elsku og þá muni hún veitast okkur frá uppsprettunni – himneskum föður.11 Aðeins þá munum við geta grætt sár hinna jarðnesku sambanda.

Hin óendanlega elska föðurins umfaðmar okkur, til að leiða okkur aftur til baka til dýrðar hans og gleði. Hann gaf sinn eingetna son, Jesú Krist, til að græða sárin og brúa bilið á milli okkar og hans. Endurfundur við föðurinn á himnum er kjarni varanlegrar elsku og eilífs tilgangs. Við verðum að tengjast honum núna, til að skilja hvað raunverulega skiptir máli, til að elska eins og hann elskar og þróast til að verða eins og hann. Ég ber vitni um að trúfast samband við okkar himneska föður og frelsarann hefur eilíft gildi fyrir þá og okkur. Í nafni Jesú Krists, amen.