2010–2019
Hin dýrðlega áætlun föður okkar
Apríl 2017


Hin dýrðlega áætlun föður okkar

Við vitum, vegna hinnar helgu áætlunar Guðs, að fæðing og dauði eru aðeins þáttaskil á leið okkar til eilífs lífs með okkar himneska föður.

Snemma í þjálfun minni sem læknir, naut ég þeirra forréttinda að hjálpa ungri móður við að fæða sitt fyrsta barn. Hún var friðsæl, einbeitt og glöð. Þegar barnið var fætt, lagði ég hinn dýrmæta hvítvoðung í fang hennar. Hún tók hið nýfædda barn og skoðaði það frá hvirfli til ilja með gleðitár streymandi niður vangana. Hún hélt honum þétt að sér og sýndi honum sanna móðurást. Það voru mér forréttindi að vera með henni í herberginu.

Þannig hefst líf okkar allra hér. Var fæðing okkar hér þá upphaf okkar? Heimurinn sér fæðingu og dauða sem upphaf og endi. Við vitum, vegna hinnar helgu áætlunar Guðs, að fæðing og dauði eru aðeins þáttaskil á leið okkar til eilífs lífs með okkar himneska föður.1 Þetta er nauðsynlegur hluti áætlunar föður okkar – helg tímamót jarðlífs og himins. Ég ætla að bera vitni um hina dýrðlegu áætlun föður okkar í dag og ígrunda það sem ég hef lært um fæðingu og dauða í áranna rás í læknis- og kirkjuþjónustu.

„Áður en við fæddumst, þá lifðum við hjá Guði, föður anda okkar. Allir menn á jörðu eru í raun bræður og systur“ í fjölskyldu hans2 og sérhvert okkar er honum dýrmætt. Við lifðum hjá honum um ómunatíð áður en við fæddumst á jörðu – við lærdóm, val og undirbúning.

Himneskur faðir elskar okkur og þráir því að við hljótum æðstu gjöf sína, gjöf eilífs lífs.3 Hann gat einfaldlega ekki rétt okkur þá gjöf; við urðum sjálf að taka á móti henni með því að velja hann og hans hátt. Þetta krafðist þess að við færum úr návist hans og hæfum dásamlega og krefjandi ferð trúar, vaxtar og framþróunar. Ferðin sem faðirinn fyrirbjó okkur er kölluð sáluhjálparáætlunin eða sæluáætlunin.4

Faðir okkar sagði okkur frá áætlun sinni á stórþingi í fortilverunni.5 Þegar við skildum hana, hrópuðum við af gleði og „morgunstjörnur sungu saman.“6

Áætlun þessi er grundvölluð á þremur megin stólpum, sem eru stólpar eilífðar.7

Fyrsti stólpinn er sköpunin, umgjörð okkar jarðnesku ferðar.8

Annar stólpinn er fall okkar fyrstu jarðnesku foreldra, Adams og Evu. Við öðluðumst marga dásamlega hluti, vegna fallsins. Við gátum fæðst og hlotið efnislíkama.9 Ég verð ævinlega þakklátur móður minni, fyrir að fæða mig og bræður mína í heiminn og fræða okkur um Guð.

Guð gaf okkur líka siðferðislegt sjálfræði – sem eru forréttindi þess að velja og breyta að eigin vilja.10 Himneskur faðir gaf okkur boðorð, til að hjálpa okkur að velja rétt. Dag hvern, er við höldum boðorð hans, sýnum við Guði að við elskum hann og hann blessar okkur.11

Faðirinn vissi að við myndum ekki alltaf velja rétt – eða, með öðrum orðum, við myndum syndga – og því gaf hann okkur þriðja stólpann: Frelsarann Jesú Krist og friðþægingu hans. Fyrir tilstilli þjáninga sinna, þá reiddi Kristur fram gjald bæði líkamlegs dauða og syndar.12 Hann sagði: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“13

Jesús Kristur lifði fullkomnu lífi og hélt ævinlega öll boðorð föður síns. „Hann fór um vegu Palestínu,“ kenndi sannleika eilífðar, læknaði sjúka, „veitti blindum sýn og reisti látna upp frá dauðum.“14 Hann „gekk um [og] gjörði gott“15 og „hvatti alla til að fylgja fordæmi sínu.“16

Þegar dró að ævilokum hans, þá kraup hann og baðst fyrir og sagði:

„Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji. …

Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“17

Kristur hjálpar okkur að skilja betur umfang þjáninga sinna, er hann sagði við spámanninn Joseph Smith:

„Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast‒

En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég–

Þjáningu, sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda.“18

Í Getsemanegarðinum hóf hann að greiða gjaldið fyrir syndir okkar og sjúkdóma, sársauka okkar og breyskleika.19 Vegna þess að hann gerði það, þá munum við aldrei verða ein í breyskleika okkar, ef við veljum að gangast honum á hönd. Hann var tekinn höndum og borinn fölskum sökum, sakfelldur til að fullnægja lýðnum og dæmdur til að deyja á krossi á Golgata. Á krossinum gaf hann upp anda sinn, til að friðþægja fyrir syndir alls mannkyns, sem var undursamleg staðgengilsgjöf fyrir alla sem á jörðu myndu lifa.20

Hann lýsti yfir:

„Sjá, ég er Jesús Kristur, sem spámennirnir vitnuðu um, að koma mundi í heiminn.

„Og sjá! Ég er ljós og líf heimsins, og ég hef bergt af þeim beiska bikar, sem faðirinn gaf mér, og ég hef gjört föðurinn dýrðlegan með því að taka á mig syndir heimsins.“21

Síðan, á fyrsta degi vikunnar,22 þá reis hann úr gröfinni með fullkominn upprisinn líkama, sem aldrei skildi deyja aftur. Hann gerði það og því munum við líka gera það.

Ég ber vitni um að Kristur reis vissulega úr gröfinni. Hann varð þó fyrst að deyja til að geta risið úr gröfinni. Það verðum við líka að gera.

Önnur blessun sem ég hef notið er að finna nálægð himins þegar ég hef setið við hlið þeirra sem gefa upp andann. Snemma morguns fyrir nokkrum árum, fór ég í sjúkrastofu trúfastrar Síðari daga heilagrar ekkju, sem var með krabbamein. Tvær dætra hennar sátu við hlið hennar. Þegar ég kom að rúmstokki hennar uppgötvaði ég fljótt að hún þjáðist ekki lengur, því hún hafði látist rétt áður.

Á þessari dauðastundu fylltist herbergið friði. Dætur hennar upplifðu ljúfa sorg, en hjörtu þeirra voru fyllt trú. Þær vissu að móðir þeirra væri ekki horfin, heldur væri hún farin heim.23 Jafnvel á okkar sorgmæddustu stundum, þegar tíminn virðist standa í stað og lífið sýnist ósanngjarnt, getum við fundið huggun í frelsaranum, því hann þjáðist líka.24 Það voru mér forréttindi að vera þarna í sjúkrastofunni.

Þegar við deyjum, þá yfirgefur andinn líkama okkar og við förum á næsta stig ferðar okkar, í andaheiminn. Það er staður lærdóms, iðrunar, fyrirgefningar og framþróunar,25 þar sem við bíðum upprisunnar.26

Á einhverjum dásamlegum ókomnum degi, mun sérhver sem fæðst hefur rísa upp úr gröfinni. Andi okkar og líkami munu sameinast í sinni fullkomnu umgjörð. Allir verða reistir upp, bæði ungir og aldnir, konur og karlar, réttlátir og ranglátir; og „sérhver hlutur endurreistur til sinnar fullkomnu umgjarðar.“27

Eftir upprisuna munum við njóta þeirrar guðlegu blessunar að vera dæmd af frelsara okkar, sem sagði:

„Ég [mun] draga alla menn til mín samkvæmt krafti föðurins, til að þeir verði dæmdir af verkum sínum.

Og svo mun við bera, að hver sá, sem iðrast og skírður er í mínu nafni, mun mettur verða. Og ef hann stendur stöðugur allt til enda, sjá, þá mun ég sýkna hann fyrir föður mínum á þeim degi, er ég stend og dæmi heiminn.“28

Síðan, fyrir tilverknað friðþæginar Krists, munu allir sem völdu að fylgja honum með því að trúa, iðrast, skírast, meðtaka heilagan anda og standast allt til enda,29 uppgötva við ferðarlok, að þeir munu hljóta sín „guðlegu örlög að erfa eilíft líf.“30 Þeir munu snúa í návist föðurins til að lifa eilíflega með honum. Megi val okkar verða gott.

Tilvera okkar er mun meira en aðeins það sem gerist á milli fæðingar og dauða. Ég býð ykkur að koma til Krists og fylgja honum.31

Ég býð öllum meðlimum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu: „Komið [dag hvern] til Krists, fullkomnist í honum og hafnið öllu óguðlegu … [svo að þér verðið heilög og flekklaus] með úthellingu blóðs Krists.“32

Ég býð þeim sem enn eru ekki meðlimir kirkjunnar að koma og lesa Mormónsbók og hlýða á trúboða okkar. Komið, sýnið trú og iðrist synda ykkar. Komið, látið skírast og takið á móti heilögum anda. Komið, lifið gleðiríku kristilegu lífi. Ef þið komið til hans og haldið boðorð hans, lofa ég ykkur að þið getið fundið frið og tilgang í þessari oft svo róstusömu veröld og eilíft lífi í komandi heimi.33

Ég býð þeim sem á einhvern hátt hafa upplifað þennan sannleika og af einhverri ástæðu villst frá, að koma aftur. Komið aftur í dag. Himneskur faðir og frelsarinn elska ykkur. Ég ber vitni um að Kristur getur svarað spurningum ykkar, linað sársauka ykkar og sorgir og fyrirgefið syndir ykkar. Ég veit að svo er. Ég veit að þetta allt er sannleikur. Kristur lifir! Þetta er hans kirkja. Í nafni Jesú Krists, amen