2010–2019
Jesús horfði á hann með ástúð
Apríl 2017


Jesús horfði á hann með ástúð

Hvenær sem ykkur finnst þið vera beðin um að gera eitthvað sem er erfitt, hugsið þá til Drottins að horfa á ykkur, ástúðlega og að bjóða ykkur að fylgja honum.

Fyrir nokkrum árum síðan vorum við hjónin, Jacqui og ég, kölluð til að vera í forsæti fyrir trúboðið í Spokane, Washington. Við komum á trúboðsakurinn með blendnar tilfinningar ótta og eftirvæntingar yfir ábyrgðinni að vinna með svo mörgum stórkostlegum ungum trúboðum. Þeir komu frá ólíkum bakgrunni og fljótlega urðu þeir eins og synir okkar og dætur.

Þó að langflestir stæðu sig dásamlega vel þá voru nokkrir sem áttu erfitt með þær háu væntingar sem köllun þeirra krafðist. Ég man eftir einum trúboða sem sagði mér: „ Forseti, ég kann bara ekki vel við fólk.“ Nokkrir sögðu mér að þá skorti viljann til að fylgja hinum frekar ströngu trúboðsreglum. Ég hafði áhyggjur og velti fyrir mér hvað við gætum gert til að breyta hjörtum þessara örfáu trúboða sem höfðu ekki enn lært gleðina af því að vera hlýðinn.

Dag einn, er ég keyrði í gegnum hina fallegu hveitiakra á ríkjamærum Washington og Idaho, var ég að hlusta á hljóðupptöku af Nýja testamentinu. Er ég hlustaði á kunnuglega frásögnina af unga, ríka manninum sem kom til frelsarans til að spyrja hann hvað hann þyrfti að gera til að öðlast eilíft líf, þá fékk ég óvænta en djúpstæða persónulega opinberun sem er nú helg minning.

Eftir að heyra um Jesú þylja boðorðin yfir og heyra svar unga mannsins um að hann hafi hlýtt þeim öllum frá æsku, þá hlustaði ég á mjúklega leiðréttingu frelsarans. „Eins er þér vant: …. sel allt, sem þú átt, og … kom síðan,… fylg mér.”1 Mér til undrunar heyrði ég sex orð á undan þessum versum sem ég virtist aldrei hafa heyrt né lesið áður. Það var eins og þeim hefði verið bætt við ritningarnar. Ég undraðist þennan innblásna skilning sem opnaðist mér.

Hver voru þessi sex orð sem höfðu svona djúp áhrif? Hlustaðu og sjáðu hvort þú getir borið kennsl á þessi, að því er virðist, hversdagslegu orð, sem finnast ekki í hinum guðspjöllunum, einungis í Markúsarguðspjalli:

„Kom maður hlaupandi, … spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“

Jesús sagði við hann: …

Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.

Hinn svaraði … : Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.

Jesús horfði á hann með ástúð, og sagði við hann: Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér.“2

„Jesús horfði á hann með ástúð.

Er ég heyrði þessi orð, þá fyllti huga minn ímynd af Drottni, gefa sér tíma og virða þennan unga mann fyrir sér. Virða hann fyrir sér – eins og að horfa djúpt og í gegnum sál hans, meðvitaður um góðmennsku hans og möguleika, ásamt því að greina mestu þörf hans.

Þá voru það einföldu orðin – Jesús horfði með ástúð. Hann fann til yfirgnæfandi kærleika og samhygðar gagnvart þessum góða, unga manni og vegna þessarar elsku og með þessari elsku þá ætlaðist Jesús til meira af honum. Ég ímynda mér hvernig þessum unga manni hefur liðið að vera umvafinn slíkum kærleik, jafnvel þegar hann var beðinn um að gera eitthvað sem var eins ótrúlega erfitt eins og að selja allt sem hann átti og gefa það fátækum.

Á þeirri stundu vissi ég að það voru ekki bara hjörtu einhverra trúboða okkar sem þurfti að breyta. Það var einnig mínu hjarta. Spurningin var ekki lengur: „Hvernig tekst áhyggjufullum trúboðsforseta að fá trúboða í erfiðleikum til að haga sér betur?“ Í stað þess þá var spurningin: „Hvernig get ég verið uppfullur á kristilegum kærleika þannig að trúboði geti skynjað elsku Guðs í gegnum mig og þráð að breytast?“ Hvernig get ég séð hann eða hana á sama hátt og Drottinn sá ríka unga manninn, sjá þau fyrir það hver þau raunverulega eru og hver þau geta orðið, frekar en bara fyrir það hvað þau eru að gera eða ekki gera? Hvernig get ég verið líkari frelsaranum?

„Jesús horfði á hann með ástúð.“

Frá og með þeirri stundu, er ég sat andspænis ungum trúboða sem átti í vanda með hlýðni á einhvern hátt, þá sá ég trúfastan ungan mann eða konu sem fylgdi þeirri þrá að koma í trúboð. Þá gat ég sagt, einlæglega eins og umhyggjusamt foreldri:3 „Öldungur eða systir, ef ég ynni þér ekki, þá væri mér alveg sama hvað myndi gerast fyrir þig í trúboði þínu. Hins vegar þá ann ég þér og vegna þess þá skiptir það máli hvað verður úr þér. Þar af leiðandi býð ég þér að breyta þeim þáttum sem þú átt erfitt með og verða sá einstaklingur sem Drottinn vill að þú verðir.

Í hvert skipti sem ég átti viðtal við trúboða, þá baðst ég fyrst fyrir að hafa gjöf kærleikans með mér og að ég gæti séð hvern öldung eða systur eins og Drottinn sæi þau.

Fyrir svæðisráðstefnur, á meðan við systir Palmer heilsuðum trúboðunum, einum í einu, stoppaði ég og horfði djúpt í augu þeirra, virti þau fyrir mér – viðtal án orða – og þá brást það ekki að ég fylltist miklum kærleika gagnvart þessum dýrmætu sonum og dætrum Guðs.

Á margan hátt kem ég sem breyttur maður frá þessari persónulegu reynslu minni af 10. kapítula í Markúsarguðpjalli. Hér má sjá fjórar þessara lexía sem ég tel að muni geta hjálpað hverju og einu okkar.

  1. Á sama tíma og við lærum að sjá aðra eins og Drottinn sér þá, í stað þess að sjá þá með okkar eigin augum, þá mun elska okkar gagnvart þeim vaxa og einnig þrá okkar að aðstoða þau. Við sjáum möguleika hjá öðrum sem þeir sjá líklega ekki sjálfir. Með kristilegum kærleika, þá verðum við ekki hrædd við að tala með dirfsku því að „fullkomin elska rekur út óttann“4 Við munum aldrei gefast upp, heldur hafa það í huga að þau sem erfiðast er að elska, eru mest í þörf fyrir það.

  2. Engin kennsla, né lærdómur mun nokkru sinni fara fram ef það er gert í óþolinmæði eða reiði og hjörtu munu ekki breytast þar sem kærleikur er ekki við hönd. Hvort sem við gegnum hlutverki okkar sem foreldrar, kennarar eða leiðtogar, þá mun sönn kennsla einungis fara fram í andrúmslofti trausts, frekar en fordæmingar. Heimili okkar ættu ætíð að vera griðastaður fyrir börn okkar - ekki fjandsamlegt umhverfi.

  3. Aldrei ætti að draga kærleika til baka þegar barn, vinur eða fjölskyldumeðlimur nær ekki að uppfylla væntingar okkar. Við vitum ekki hvað gerðist með unga ríka manninn eftir að hann fór burtu í sorg, en ég er þess fullviss að Jesús elskaði hann samt fullkomlega, jafnvel þó að hann hafi valið auðveldu leiðina. Kannski mundi hann eftir þessu seinna í lífi sínu, þegar þessar miklu eignir voru honum merkingalausar og framkvæmdi samkvæmt þessari upplifun, að Drottinn hans horfði á hann, elskaði og bauð honum að fylgja sér.

  4. Vegna þess að hann ann okkur þá ætlast Drottinn til mikils af okkur. Ef við erum auðmjúk, munum við bjóða velkomin þau boð Drottins að iðrast, fórna og þjóna, sem sönnun fyrir fullkominni ást hans til okkar. Þar að auki þá er boð um að iðrast einnig boð um að meðtaka hina dásamlegu gjöf fyrirgefningar og friðar. Þar af leiðandi „lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar.“5

Bræður mínir og systur, hvenær sem þið verðið nú beðin um að gera eitthvað erfitt – hætta einhverjum vana eða fíkn, leggja veraldlega ástundun til hliðar, fórna einhverri uppáhalds tómstund, vegna þess að það er hvíldardagurinn, fyrirgefa einhverjum sem hefur brotið á ykkur, hugsið þá til Drottins horfa á ykkur, elska ykkur, að bjóða ykkur að láta af þessu og fylgja honum. Þakkið honum þá fyrir að elska ykkur nægilega mikið til að bjóða ykkur að gera meira.

Ég ber vitni um frelsara okkar, Jesú Krist, og hlakka til þess dags þegar hann mun taka okkur, hvert og eitt, í faðm sér, horfa á okkur og umvefja okkur með sinni fullkomnu ást. Í nafni Jesú Krists, amen