2010–2019
Hans daglega handleiðsla
Apríl 2017


Hans daglega handleiðsla

Himneskur faðir veit betur en við sjálf hvers við þörfnumst.

Eitt af þeim úrræðum sem himneskum föður er hjartfólgnast í því að leiða börn sín, eru réttlátir afar og ömmur. Föðuramma mín var ein slík kona. Eitt sinn, er ég var svo ungur að mig rekur ekki minni til, var faðir minn að aga mig til og veita mér ráðningu. Amma sá hvernig hann bar sig að við verkið og sagði: „Monte, mér finnst þú fara of harkalega að drengnum.“

Faðir minn svaraði: „Mamma, ég aga mín eigin börn eins og mér finnst sjálfum best.“

Mín vitra amma sagði þá ljúflega: „Og það geri ég líka.“

Ég er nokkuð viss um að faðir minn hafi skilið hina vitru handleiðslu móður sinnar þann daginn.

Þegar við hugsum um handleiðslu, þá gæti hinn kunni sálmur komið upp í huga okkar – „Guðs barnið eitt ég er.“ Í viðlaginu segir: „Leið mig, viltu vísa mér á veg sem treysta má.“1

Þar til nýlega þá skildi ég viðlagið sem guðlega leiðsögn til foreldra. Þegar ég ígrundaði textann varð mér ljóst að auk þeirrar leiðsagnar, þá var þar önnur og mun dýpri merking. Við biðjum þess daglega í einrúmi að himneskur faðir leiði okkur og vísi okkur á veg sem treysta má.

Dieter F. Uchtdorf sagði: „Himneskur faðir þekkir þarfir barna sinna betur en nokkur annar. Það er hans verk og dýrð að liðsinna okkur í hverju skrefi, sjá okkur fyrir dásamlegum stundlegum og andlegum úrræðum, til að hjálpa okkur á veginum til hans.“2

Hlustið á þessi orð: Himneskur faðir veit betur en við sjálf hvers við þörfnumst. Hann hefur því fyrirbúið okkur persónulegan kærleikspakka, klæðskerasniðinn að hverju okkar. Í honum er margt að finna. Má þar nefna son hans og friðþæginguna, heilagan anda, boðorðin, ritningarnar, bænina, spámenn og postula, forelda, afa og ömmur, staðarleiðtoga kirkjunnar og ótal margt fleira – allt til að gera okkur kleift að dvelja aftur í návist hans.

Ég ætla einungis að miðla ykkur fáeinu sem finna má í kærleikspakkanum, sem hefur veit mér skilning á því að ástkær faðir er með mér og fjölskyldu minni og leiðir okkur. Ég bið þess að þið öll munið skilja af eigin reynslu að himneskur faðir er með ykkur og leiðir ykkur, og að vegna þeirrar vitnesku, munið þið sækja fram í fullvissu um að þið eruð í raun aldrei einsömul.

Boðorð himnesks föður eru lykilatriði kærleikspakkans. Alma sagði: „Aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti.“3 Að umbera óviðeigandi hegðun, án þess að leiðrétta, er fölsk meðaumkun og vekur þá almennu hugsun að hamingjan gæti í raun falist í ranglæti. Lamanítinn Samúel talaði greinilega gegn slíkri hugsun: „Þér hafið leitað hamingjunnar í misgjörðum, sem andstæðar eru eðli þess réttlætis, sem felst í vorum mikla og eilífa leiðtoga.“4

Himneskur faðir minnir okkur stöðugt á, með spámönnum sínum, að réttlæti leiði til hamingju. Benjamín konungur, til að mynda, kenndi að himneskur faðir „[krefjist] þess, að þér gjörið eins og hann hefur boðið yður, og fyrir að gjöra svo blessar hann yður samstundis.“5 Í öðrum sálmi má finna álíka áminningu:

Boðorðin haldið, boðorðin haldið,

því það veitir öryggi, það veitir frið.

Blessun hann veitir.6

Öðru hvoru megin við 14 ára afmælisdaginn minn, þá lærði ég um eitthvað af þessum blessunum. Ég tók eftir óvenjulegri hegðun foreldra minna. Ég íhugaði það sem ég sá og spurði: „Erum við að fara í trúboð?“ Undrunarsvipur móður minnar staðfesti grunsemdir mínar. Síðar, á fjölskyldufundi, komumst við systkinin að því að foreldrar okkar hefðu verið kölluð til að vera í forsæti trúboðs.

Við áttum heima á fallegu sveitabýli í Wyoming. Að því að mér fannst, þá var lífið fullkomið. Ég gat komið heim úr skólanum, unnið heimanámið og farið síðan að veiða eða að kanna svæðið með hundinum mínum.

Stuttu eftir að okkur var sagt frá kölluninni, varð mér ljóst að ég yrði að láta hundinn minn, Blue, frá mér. Ég fór til föður míns og spurði hvað ég ætti að gera við Blue. Með þessu reyndi ég að leggja áherslu á ósanngjarna kröfu Guðs. Ég gleymi aldrei svari hans. Hann sagði: „Ég er ekki viss. Hann getur líklega ekki farið með okkur, svo þú þarft að spyrja himneskan föður.“ Þetta var ekki svarið sem ég hafði vænst.

Ég byrjaði að lesa Mormónsbók. Ég bað þess af einlægni að fá að vita hvort ég yrði að láta hundinn frá mér. Svarið kom ekki þegar í stað, heldur var það fremur stöðug hugsun sem áreitti mig. „Vertu ekki foreldrum þínum til ama. Vertu þeim ekki byrði. Ég er sá sem kallaði foreldra þína.“

Ég vissi hvers himneskur faðir krafðist. Sú vitneskja dró ekki úr sársauka þess að láta frá mér hundinn. Þessi litla fórn mildaði þó hjarta mitt og ég fann frið í því að fara að vilja himnesks föður.

Ég þakkaði himneskum föður fyrir blessanirnar og gleðina sem ég naut af ritningunum, bæninni, heilögum anda og verðugum jarðneskum föður, sem framfylgdi því hlutverki að vera helsti trúarkennari barna sinna. Allt þetta veitti mér handleiðslu og vísaði mér á veg sem treysta má – einkum þegar ég þurfti að gera eitthvað erfitt.

Auk þess að hafa hinn áður nefnda kærleikspakka, þá er sérhvert okkar blessað með prestdæmisleiðtogum, sem leiða og vísa okkur veg.

Boyd K. Packer forseti sagði: „Biskupar eru innblásnir! Sérhvert okkar hefur sjálfræði til að meðtaka eða hafna leiðsögn frá leiðtogum, en leiðið aldrei hjá ykkur leiðsögn biskups ykkar, hvort sem hún er veitt í ræðustól eða undir fjögur augu.“7

Þessir menn gera hvað þeir geta til að vera fulltrúar Drottins. Þegar Satan telur okkur trú um að allt sé glatað, þá geta biskupar veitt ykkur, ungum sem öldnum, handleiðslu. Þegar ég hef rætt við aðra biskupa, þá hef ég uppgötvað nokkuð sameiginlegt við viðbrögð þeirra þegar óhlýðni er játuð eða saklausir hafa þjáðst vegna hræðilegra misgjörða. Biskupar vilja þegar í stað tjá viðkomandi elsku himnesks föður og þrá hans til að vera með þeim sem reynir að finna leiðina heim.

Kannski eru þessi orð lýsandi fyrir það sem mikilvægast er í Kærleikspakka himnesks föður: „Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“8

Jesús Kristur sýndi veg, til að kenna okkur allt sem við þurfum að gera, með því að gefa fullkomið fordæmi sem við þurfum að tileinka okkur. Hann býður okkur með útrétta arma að fylgja sér.9 Þegar okkur svo verður á, sem við gerum öll, þá áminnir hann okkur: „Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast.“10

Hve dásamleg gjöf! Iðrun er ekki refsing, heldur forréttindi. Hún er forréttindi sem verndar okkur. Engin furða að ritningarnar staðhæfi að ekkert beri að kenna nema iðrun.11

Himneskur faðir hefur ótal úrræði, en notar þó oft einstaklinga sér til aðstoðar. Á degi hverjum sér hann okkur fyrir tækifærum til að leiða og liðsinna nauðstöddum. Við verðum að fylgja fordæmi frelsarans. Við þurfum líka að vinna verk himnesks föður.

Sem aðalforsætisráð Piltafélagsins, þá er okkur ljóst að æskufólkið nýtur blessunar af því að eiga foreldra og leiðtoga sem starfa fyrir himneskan föður við að leiða piltana og vísa þeim veg sem treysta má. Þrjár reglur12 sem gera okkur kleift að vera hluti af kærleikspakka himnesks föður fyrir aðra, eru:

Í fyrsta lagi, verið með æskufólkinu. Henry B. Eyring lagði áherslu á þetta: „Það er sumt sem við getum gert sem gæti skipt mestu. Það fordæmi sem við sýnum með því að lifa eftir kenningunni, er jafnvel enn áhrifaríkara orðinu sem við mælum.“13 Við þurfum að vera með æskufólkinu til þess að geta leitt það. Sá tími sem við helgum því er kærleikstjáning og gerir okkur kleift að kenna í orði og verki.

Í öðru lagi, til þess að hjálpa æskufólkinu sannarlega, þá verðum við að tengja þau himnum. Það kemur alltaf að því að við þurfum að vera ein. Himneskur faðir getur þá allsstaðar og öllum stundum verið með okkur. Æskufólkið okkar verður að vita hvernig leita skal leiðsagnar himnesks föður.

Í þriðja lagi, verðum við að láta æskufólkið leiða. Líkt og ástúðlegir foreldrar halda í hönd barnsins sem lærir að ganga, þá verðum við að sleppa hendinni til að æskufólkið þroskist. Það krefst þolinmæði og kærleika að láta æskufólkið leiða. Það er erfiðara og tímafrekara, en ef við gerðum það sjálf. Þeim kann að verða á í messunni, en við styðjum samt við þau.

Bræður og systur, blessanir handleiðslu geta stundum virst fjarlægar eða ábótavant. Á slíkum erfiðleikatímum þá hefur öldungur D. Todd Christofferson lofað: „Ef þið látið sáttmála ykkar vera í fyrirrúmi og sýnið fyllstu hlýðni, getið þið beðið í trú, án þess að efast, allt eftir þörfum ykkar, og Guð mun bænheyra ykkur. Hann mun styðja ykkur, er þið vaktið og vinnið. Hann mun, á eigin tíma, rétta fram hönd og segja: ‚Hér er ég.‘“14

Á einni slíkri stundu leitaði ég leiðsagnar himnesks föður með stöðugri og innilegri bæn í rúmt ár, til að finna lausn við erfiðum aðstæðum. Ég vissi rökrétt að himneskur faðir svarar öllum einlægum bænum. Ég varð samt dag einn svo örvæntingafullur að ég fór í musterið aðeins með þessa spurningu: „Himneskur faðir, skipti ég þig máli?

Ég sat aftarlega í biðstofunni í Logan musterinu í Utah þennan daginn þegar, mér til furðu, að musterisforsetinn, Vaughn  J. Featherstone, kom inn í herbergið en hann var náinn fjölskylduvinur. Hann stóð frammi fyrir söfnuðinum og bauð alla velkomna. Þegar hann tók eftir því að ég var meðal musterisgestanna, gerði hann hlé á máli sínu, horfði á mig og sagði: „Bróðir, Brough, það er gott að sjá þig í musterinu í dag.“

Ég gleymi aldrei tilfinningu þeirrar einföldu stundar. Með þessu ávarpi var eins og himneskur faðir hefði rétt fram hönd sína og sagt: „Hér er ég.“

Við skiptum Guð máli og hann hlustar á og svarar öllum bænum barna sinna.15 Sem eitt barna hans, þá veit ég að ég var bænheyrður að tíma Drottins. Þessi upplifun veitti mér meiri skilning en áður, á því að við erum börn Guðs og að hann hefur sent okkur hingað, svo við fáum fundið nálægð hans og getum dag einn snúið að nýju til dvalar hjá honum.

Ég ber vitni um að himneskur faðir leiðir okkur og vísar okkur á veg sem treysta má. Þegar við fylgjum syni hans og hlýðum á þjóna hans, spámenn hans og postula, þá munum við finna veg eilífs lífs. Í nafni Jesú Krists, amen