2010–2019
Sá mesti meðal yðar
Apríl 2017


Sá mesti meðal yðar

Þeir sem þjóna án þess að vænta verðlauna, munu hljóta mestu laun Guðs.

Mínir kæru bræður og vinir, hversu þakklátur ég er að vera meðal ykkar á þessum innblásna alheims prestdæmisfundi. Monson forseti, þakka þér fyrir boðskap þinn og blessun. Við munum ávallt hlíta orðum þínum, leiðsögn og visku. Við elskum þig og styðjum og biðjum ávallt fyrir þér. Þú er vissulega spámaður Drottins. Þú ert forseti okkar. Við styðjum og elskum þig.

Fyrir næstum tveimur áratugum var musterið í Madrid á Spáni vígt og hóf starfsemi sem heilagt hús Drottins. Ég og Harriet munum vel eftir því, þar sem ég þjónaði á þeim tíma í svæðisforsætisráði Evrópu. Meðal margs annars, þá vörðum við miklum tíma í að áætla og skipuleggja aðdraganda vígslunnar.

Þegar leið að vígslunni, áttaði ég mig á að mér hafði enn ekki borist boðsbréf í vígsluna. Það var nokkuð óvænt. Ég hafði jú komið heilmikið að þessu musterisverkefni í ábyrgð minni sem svæðisforseti, og fannst ég eiga örlítinn hluta í því.

Ég spurði Harriet hvort hún hefði séð boðsbréf. Það hafði hún ekki gert.

Dagar liðu og áhyggjur mínar uxu. Ég velti fyrir mér hvort boðsbréfið hefði týnst – kannski var það falið undir sófasessunum. Kannski hafði því verið hent með ruslpósti. Nágrannarnir áttu hnýsinn kött og ég tók jafnvel að líta hann grunsemdaraugum.

Loks var ég tilneyddur að horfast í augu við raunveruleikann: Mér hafði ekki verið boðið.

Hvernig var það mögulegt? Hafði ég gert eitthvað sem misbauð? Ályktaði einhver að það væri of langt fyrir okkur að fara? Hafði ég gleymst?

Loks varð mér ljóst að slíkar hugsanir leiddu mig bara til staðar sem ég vildi ekki dvelja á.

Ég og Harriet áminntum okkur sjálf um að musterisvígsla snérist ekki um okkur. Hún snérist ekki um hvort einhver verðskuldaði að vera boðið eða ekki. Hún snérist ekki um tilfinningar okkar eða hvort okkur fannst við eiga tilkall til einhvers.

Hún snérist um að vígja helga byggingu, musteri Guðs, hins æðsta. Þetta var gleðidagur fyrir meðlimi kirkjunnar á Spáni.

Ég hefði glaður farið í vígsluathöfnina, ef mér hefði verið boðið. Gleði mín hefði engu að síður verið jafn mikil, þótt mér hefði ekki verið boðið. Ég og Harriet hefðum fagnað með vinum okkar, okkar ástkæru bræðrum og systrum, úr fjarlægð. Við hefðum engu að síður lofað Guð fyrir dásamlegar blessanir hans á heimili okkar í Frankfurt eins og í Madrid.

Þrumusynir

Meðal hinna Tólf sem Jesús kallaði og vígði voru tveir bræður, Jakob og Jóhannes. Munið þið eftir viðurnefninu sem hann gaf þeim?

Hann kallaði þá Þrumusyni (Boanerges).1

Menn fá ekki slíkt viðurnefni án þess að hafa áhugaverðan bakgrunn. Því miður þá er uppruni þessa viðurnefnis ekki mikið útskýrður í ritningunum. Við fáum þó nasajón af persónuleika Jakobs og Jóhannesar. Þetta voru þeir sömu tveir bræður er reyndu að kalla á eldtungur frá himni yfir þorp í Samaríu sem þeim var óvelkomið að koma í.2

Jakob og Jóhannes voru fiskimenn – líklega nokkuð óheflaðir – en sennilega hafa þeir verið kunnugir höfuðskepnum jarðar. Þeir létu vissulega verkin tala.

Eitt sinn, er frelsarinn bjó sig undir sína síðustu ferð til Jerúsalem, komu Jakob og Jóhannes til hans með ákveðna beiðni – sem kannski féll vel að viðurnefni þeirra.

„Okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig,“ sögðu þeir.

Ég sé Jesú fyrir mér brosa við þeim og spyrja: „Hvað viljið þið?“

„Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“

Frelsarinn hvatti þá nú til að íhuga beiðni sína aðeins betur og sagði síðan: „Mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið.“3

Með öðrum orðum, við getum ekki hlotið heiðursstöðu í ríki himins með atkvæðaleit. Við getum ekki „talað“ okkur inn í eilífa dýrð.

Það gladdi ekki hina postulana að frétta af þessari beiðni Þrumusonanna. Jesús vissi að hann átti ekki langan tíma eftir og það hlýtur að hafa valdið honum áhyggjum að horfa upp á þá deila sem ætlað var að framfylgja verki hans.

Hann ræddi við hina Tólf um eðli valds og áhrif þess á þá sem sækjast eftir því og hafa það. „Þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum,“ sagði hann, „drottna yfir þeim, og … láta menn kenna á valdi sínu.“

Ég fæ næstum séð frelsarann horfa á ásjónu þessara staðföstu og trúuðu lærisveina af óendanlegri elsku. Ég fæ næstum heyrt hans biðjandi röddu: „ Eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.“4

Í ríki Guðs felst stórfengleiki og leiðtogahæfni í því að sjá aðra eins og þeir í raun eru – eins og Guð sér þá – og síðan að liðsinna og þjóna þeim. Það felst í því að samgleðjast öðrum, syrgja með syrgjendum, hugga hrjáða og elska náunga okkar, líkt og Kristur elskar okkur. Frelsarinn elskar öll börn Guðs, burt séð frá félagslegum aðstæðum, kynþáttum, trúarbrögðum, tungumálum, stjórnmálaafstöðu, þjóðerni eða nokkru öðru aðgreinandi. Það ættum við líka að gera!

Þeir sem þjóna án þess að vænta verðlauna, munu hljóta mestu laun Guðs. Þau hljóta þeir sem þjóna án lúðraþyts; þeir sem sækjast eftir því að þjóna öðrum af hógværð; þeir sem þjóna öðrum einfaldlega af því að þeir elska Guð og börn hans.5

Láttu það ekki stíga þér til höfuðs

Stuttu eftir að ég var kallaður sem aðalvaldhafi, naut ég þeirrar ánægju að vera í samfélagi James E. Faust forseta við endurskipulagningu stiku. Meðan ég ók bílnum þangað sem för okkar var heitið um fallegt landslag Suður-Utah, gaf Faust forseti sér tíma til að fræða mig. Ég gleymi ekki einni lexíu hans. Hann sagði: „Meðlimir kirkjunnar eru höfðinglegir við aðalvaldhafana. Þeir munu sýna þér vinsemd og segja ýmislegt fallegt við þig.“ Hann staldraði andartak við og sagði síðan: „Dieter, vertu ávallt þakklátur fyrir það, en láttu það ekki stíga þér til höfuðs.“

Þessi mikilvæga lexía um kirkjulega þjónustu, á við um alla prestdæmishafa í öllum sveitum kirkjunnar. Hún á við um alla þá sem eru í kirkjunni.

Þegar J. Reuben Clark forseti veitti þeim leiðsögn voru kallaðir í valdastöður í kirkjunni, var hann vanur að biðja þá um að gleyma ekki reglu númer sex.

Óhjákvæmilega spurði viðkomandi: „Hver er regla númer sex?“

„Taktu sjálfan þig ekki svona ári alvarlega,“ sagði hann þá.

Auðvitað leiddi þetta til annarrar spurningar: „Hverjar eru hinar fimm reglurnar?“

Með blik í augum, sagði Clark forseti þá: „Þær eru ekki til.“6

Við þurfum að læra þessa mikilvægu lexíu, til að verða góðir leiðtogar: Að vera leiðtogi í kirkjunni, felst ekki svo mikið í því að stjórna öðrum, heldur hversu fús við erum að láta stjórnast af Guði.

Kallanir veita tækifæri til þjónustu

Sem heilagir hins æðsta Guðs, þá ber okkur að „[minnast] í öllu hinna fátæku og þurfandi, sjúku og aðþrengdu, því að sá, sem slíkt gjörir ei, er ekki lærisveinn minn.“7 Tækifærin til að gera gott og þjóna öðrum eru ótakmörkuð. Við finnum þau í samfélögum okkar, deildum og greinum og sannarlega á heimilum okkar.

Auk þess er sérhverjum meðlimi kirkjunnar veitt sérstök formleg tækifæri til að þjóna. Þau tækifæri nefnum við „kallanir“ – hugtak sem ætti að minna okkur á hver það er sem kallar okkur til þjónustu. Ef við tökumst á við kallanir okkar sem tækifæri til að þjóna Guði og öðrum, af trú og auðmýkt, þá mun sérhvert þjónustuverk vera skref áfram á vegi lærisveinsins. Guð byggir ekki aðeins upp kirkju sína á þennan hátt, heldur líka þjóna sína. Kirkjan er skipulögð til að hjálpa okkur að verða sannir og trúfastir lærisveinar Krists, góðir og göfugir synir og dætur Guðs. Það gerist ekki bara með því að fara á samkomur og hlusta á ræður, heldur með því að gleyma okkur sjálfum og þjóna öðrum. Á þann hátt vöxum við og verðum „mikilhæf“ í ríki Guðs.

Við tökum á móti köllunum af sæmd, auðmýkt og þakklæti. Þegar við erum leyst frá þessum köllunum, þá sættum við okkur við breytinguna af sömu sæmd, auðmýkt og þakklæti.

Í augum Guðs er engin köllun í ríki hans mikilvægari en önnur. Þjónusta okkar – hvort heldur stór eða smá – fágar anda okkar, lýkur upp gáttum himins og veitir blessanir Guðs, ekki aðeins fyrir okkur sjálf, heldur líka fyrir þá sem við þjónum. Þegar við hjálpum öðrum, getum við vitað af auðmýkt og fullvissu að Guð hefur velþóknun á þjónustu okkar og tekur henni fagnandi. Hann brosir yfir okkur þegar við gerum samúðar- og kærleiksverk, einkum þau sem eru óséð augum annarra.8

 Í hvert sinn sem við gefum af okkur sjálfum í þágu annarra, þá tökum við skref í þá átt að verða góðir og sannir lærisveinar þess sem gaf allt fyrir okkur.

Frá stjórnun til skrúðgöngu

Á 150 ára afmælishátið komu landnemanna til Saltvatnsdalsins, þá þjónaði bróðir Myron Richins sem stikuforseti í Henefer, Utah. Í hátíðarhöldunum átti landnemaganga að fara í gegnum bæinn hans.

Richins forseti var önnum kafinn við áætlanagerð hátíðarhaldanna og sótti marga fundi með aðalvaldhöfum og öðrum, til að ræða atburðarásina. Hann starfaði af kappi.

Rétt áður en hátíðarhöldin hófust var stika Richins endurskipulögð og hann var leystur af sem stikuforseti. Sunnudaginn þar á eftir var hann á prestdæmisfundi deildar sinnar, þegar leiðtogar báðu um sjálfboðaliða til að aðstoða við hátíðarhöldin. Richins forseti rétti upp hönd, ásamt fleirum, og fékk tilmæli um að koma í vinnufötum og koma með pallbílinn sinn og skóflu.

Loks rann upp dagur hátíðarhaldanna og Richins forseti tilkynnti komu sína.

Aðeins fáeinum vikum áður hafði hann haft umsjón með skipulagi þessa merkilega atburðar. Á þessum degi var honum þó falið að fylgja eftir hestum í göngunni og hreinsa upp eftir þá.

Það gerði Richins fúslega og af ánægju.

Hann skildi að eitt þjónustusvið er ekki æðra öðru.

Hann var kunnugur þessum orðum frelsarans og lifði eftir þeim: „Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.“9

Rétt aðferð lærisveinsins

Stundum þráum við heiðursstöður, líkt og Þrumusynirnir. Við keppum að upphefð. Við sækjumst eftir forystu og eftirminnilegu framlagi.

Það er ekkert að því að vilja þjóna Drottni, en þegar við sækjumst eftir því að öðlast áhrifastöður í kirkjunni, fyrir eigin sakir – til þess að njóta lofs og aðdáunar manna – þá verða það verðlaunin. Þegar við látum skjall manna stíga okkur til höfuðs, þá verður skjallið okkar laun.

Hver er mikilvægasta köllunin í kirkjunni? Það er sú sem þú hefur nú þegar. Engu skiptir hversu ómerkileg eða merkileg köllun þín virðist vera, því hún er einmitt sú sem mun ekki aðeins gera þér kleift að lyfta öðrum, heldur líka að verða sá maður sem Guð skapaði þig til að verða.

Kæru vinir og bræður í prestdæminu, rísið í stöðu ykkar!

Páll kenndi Filippíbúum: „Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.“10

Þjóna með heiðri

Að sækjast eftir frægð og frama í kirkjunni, á kostnað þess að þjóna öðrum af einlægni og auðmýkt, eru skipti Esaú.12 Við getum öðlast jarðnesk laun, en þau eru afar dýrkeypt – við verðum af himneskri sæmd.

Við skulum fylgja fordæmi frelsarans, sem var auðmjúkur og af hjarta lítillátur og sóttist ekki eftir lofi manna, heldur að gera vilja föður síns.12

Við skulum þjóna öðrum af auðmýkt – og áhuga, þakklæti og sæmd. Þótt þjónustuverk okkar kunni að sýnast lítil, hógvær eða ómerkileg, þá mun að því koma að þeir sem liðsinna öðrum af góðvild og samúð munu átta sig á gildi þjónustu sinnar, fyrir eilífa og blessaða náð almáttugs Guðs.13

Kæru bræður mínir, kæru vinir, megum við ígrunda, skilja og lifa eftir þessari mikilvægu lexíu um stjórnskipulag prestdæmisins: „Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.“ Það er bæn mín og blessun, í hinu helga nafni meistara okkar, lausnara okkar, í nafni Jesú Krists, amen.