2010–2019
Aðvörunarrödd
Apríl 2017


Aðvörunarrödd

Þótt aðvörunarskyldan hvíli einkum á herðum spámanna, þá eru líka aðrir sem framfylgja henni.

Spámaðurinn Esekíel fæddist um tveimur áratugum áður en Lehí og fjölskylda hans yfirgáfu Jerúsalem. Árið 597 fyrir Krist var Esekíel 25 ára gamall og meðal hinna mörgu sem færðir voru í ánauð til Babýlon af Nebúkadnesar konungi og, að því að best við vitum, varði hann allri sinni ævi þar.1 Hann var af ættkvísl Aronspresta og varð spámaður um þrítugt.2

Jehóva líkti hlutverki Esekíels við varðmann:

„Og [ef varðmaðurinn] sér sverðið koma yfir landið og blæs í lúðurinn og gjörir fólkið vart við,

ef þá sá, er heyrir lúðurþytinn, vill ekki vara sig, og sverðið kemur og sviptir honum í burt, þá mun blóð hans vera á höfði honum sjálfum.“3

En sjái hins vegar „varðmaðurinn sverðið koma, og blæs þó ekki í lúðurinn, svo að fólki er ekki gjört vart við, og sverðið kemur og sviptir einhverjum af þeim burt, … þá verður … blóðs hans…[krafist] af hendi varðmannsins.“4

Jehóva sagði síðan og talaði beint til Esekíels: „Þig, mannsson, hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum.“5 Aðvörunin var að láta af synd.

„Þegar ég segi við hinn óguðlega: Þú hinn óguðlegi skalt deyja! og þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans vil ég krefja af þinni hendi.

En hafir þú varað hinn óguðlega við breytni hans, að hann skuli láta af henni, en hann lætur samt ekki af breytni sinni, þá skal hann deyja fyrir misgjörð sína, en þú hefir frelsað líf þitt. …

Og þegar ég segi við hinn óguðlega: Þú skalt vissulega deyja! og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti, …

Allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, skulu honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda!“6

Athyglisvert er að aðvörun þessi á líka við um hina réttlátu. „Þegar ég segi við hinn ráðvanda: Þú skalt vissulega lífi halda! og hann reiðir sig á ráðvendni sína og fremur glæp, þá skulu ráðvendniverk hans eigi til álita koma, heldur skal hann deyja fyrir glæpinn, sem hann hefir drýgt.“7

Guð talaði til Esekíels og sárbændi börn sín: „Seg við þá: Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?“8

Himneskur faðir og frelsari okkar hafa alls enga löngun til að fordæma okkur, heldur stuðla þeir að hamingju okkur og sárbiðja okkur um að iðrast, því þeim er fyllilega ljóst að „hamingjan [hefur aldrei og mun aldrei felast] í ranglæti.“9 Esekíel, og allir spámenn fyrr og síðar, hafa af fullri einurð talað orð Guðs, hvatt alla til að hverfa frá Satan, óvini sálar þeirra, og „velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna.“10

Þótt aðvörunarskyldan hvíli einkum á herðum spámanna, þá eru líka aðrir sem framfylgja henni. Í raun er það svo að „hverjum manni sem fengið hefur viðvörun ber að aðvara náunga sinn.“11 Við, sem höfum öðlast þekkingu á hinni miklu sæluáætlun – og boðorðunum sem henni fylgja – ættum að þrá að miðla þeirri þekkingu, úr því að hún skiptir sköpum, bæði hér og í eilífðinni. Ef við spyrðum: „Hver er þá náungi minn, sem mér ber að aðvara?“ yrði svarið vissulega að finna í dæmisögu sem hefst svona: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum,“12 o.s.frv.

Íhugið að dæmisagan um miskunnsama Samverjann í þessu samhengi minnir okkur á að spurningin „hver er þá náungi minn?“ tengist æðstu boðorðunum tveimur: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“13 Ástæða þess að við hefjum upp aðvörunarraust er elska – elska til Guðs og náunga okkar. Að aðvara, er að láta sér annt um. Drottinn býður að þetta skuli gert „af mildi og hógværð“14 og „með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi … og með fölskvalausri ást.“15 Það getur verið álíka brýnt og að vara barn við því að setja hönd yfir eld. Það verður að vera skýrt og stundum ákveðið. Stundum, „þegar heilagur andi hvetur til þess,“16 getur aðvörun verið í formi umvöndunar, og þá ætíð með kærleika að leiðarljósi. Sjáið til að mynda kærleikann sem drífur áfram þjónustu og fórnir trúboðanna okkar.

Vissulega ættu foreldrar að sýna kærleka við að aðvara sína nánustu „náunga“ – sín eigin börn. Í því felst að kenna og vitna um sannleika fagnaðarerindisins. Í því felst að kenna börnum kenningu Krists: Trú, iðrun, skírn og gjöf heilags anda.17 Drottinn áminnir foreldra: „Ég hef boðið yður að ala börn yðar upp í ljósi og sannleika.“18

Mikilvægur þáttur í aðvörunarskyldu foreldra er ekki aðeins að draga upp mynd af hinum siðspilltu afleiðingum syndar, heldur líka af gleði þess að hlýða og halda boðorðin. Minnist orða Enoks um ástæðu þess að hann leitaði Guðs, hlaut fyrirgefningu og snérist til trúar:

„Sjá. Ég hélt til skógar á dýraveiðar. Og orð föður míns um eilíft líf og gleði heilagra, sem ég hafði oft heyrt, smugu djúpt inn í hjarta mér.

Sál mína hungraði, og ég kraup niður frammi fyrir skapara mínum og ákallaði hann í máttugri og auðmjúkri bæn.“19

Jesús hikaði ekki við veita aðvaranir, sökum sinnar óviðjafnanlegu elsku og umhyggju fyrir hamingju annarra. Í upphafi þjónustu sinnar „[tók] Jesús að prédika og segja: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“20 Hann vissi að allir vegir lægju ekki til himins og því bauð hann:

„Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn.

En þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og þeir fáir, sem finna hann.“21

Hann helgaði tíma sinn syndugum og sagði: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar.“22

Jesús átaldi fræðimennina og faríseana harðlega fyrir hræsni þeirra. Aðvaranir hans og tilmæli eru skýr: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.“23 Vissulega getur enginn sakað frelsarann um að hafa ekki elskað þessa fræðimenn og farísea – hann þjáðist jú líka og dó til að frelsa þá. Hann elskaði þá og gat því ekki látið þá halda áfram í synd án þess að leiðrétta þá afdráttarlaust. Einn álitsgjafi sagði: „Jesús kenndi fylgjendum sínum að gera eins og hann gerði: Að bjóða alla velkomna, en fræða um synd, því kærleikurinn gerir kröfu um að aðvara fólk um það sem getur skaðað það.“24

Stundum eru þeir sem hefja upp aðvörunarrödd álitnir dómharðir. Þótt undarlegt megi virðast, þá er það oft svo að þeir sem staðhæfa að sannleikurinn sé afstæður og að siðferðisreglur séu persónubundinn valkostur, eru einmitt þeir sömu og ganga hvað harðast fram við að gagnrýna fólk sem ekki meðtekur núgildandi norm „réttrar hugsunar.“ Einn höfundur kallaði þetta „smánarmenningu“:

„Í sektarmenningu er það samviskan sem segir okkur hvort við séum góð eða slæm. Í smánarmenningu er það umsögn samfélagsins um okkur sjálf sem ákvarðar hvort við séum góð eða slæm eða hvort samfélagið meðtekur eða útilokar okkur. … [Í smánarmenningu,] byggist siðferði ekki á reglum rétts eða rangs, heldur á skoðunum um hvað teljast skuli ásættanlegt og hvað óásættanlegt. …

… Allir eru stöðugt óöruggir í siðferðisumhverfi sem grundvallast á slíkum ásættanleika eða óásættanleika. Þar er ekki byggt á varanlegum reglum, heldur er síbreytileg dómgreind fjöldans allsráðandi. Slík menning er ofurviðkvæm, ýkjukennd og fyllt siðferðisfáti og allir eru knúnir til meðvirkni. … 

Sektarmenning getur verið óvægin, en þar er þó mögulegt að hata syndina, en elska samt syndarann. Smánarmenning nútímans hælir sér af ásættanleika og umburðarlyndi, en getur engu að síður, hversu furðulegt sem það nú er, verið miskunnarlaus gagnvart þeim sem eru á öndverðum meiði og falla ekki í kramið.“25

Andstætt þessu er að byggja á „bjargi lausnara okkar,“26 sem er örugg og varanleg undirstaða réttlætis og dyggðar. Hve miklu betra er að hafa hið óumbreytanlega lögmál Guðs sem viðmið til að velja og ákvarða okkar eigin örlög, en að vera gísl hinna óútreiknanlegu reglna og heiftar samfélagsmiðlalýðsins. Hve miklu betra er að þekkja sannleikann, en að láta „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi.“27 Hve miklu betra er að iðrast og tileinka sér reglur fagnaðarerindisins, en að telja sér trú um að ekkert rétt og rangt sé til og verslast upp í synd og eftirsjá.

Drottinn hefur sagt: „Aðvörunarraust mun berast öllum lýðum af munni lærisveina minna, sem ég hef útvalið á þessum síðustu dögum.“28 Við, sem varðmenn og lærisveinar, getum ekki verið hlutlaus varðandi þessa „miklu ágætari leið.“29 Við getum ekki fremur en Esekíel, horft á sverðið koma yfir landið án þess að „[blása] í lúðurinn.“30 Þetta felur ekki í sér að við berjum á hurð náungans eða hrópum hátt á strætum: „Iðrist!“ Ef þið hugleiðið það, þá höfum við hið endurreista fagnaðarerindi sem fólk þráir í raun innst inni. Aðvörunarröddin er yfirleitt ekki aðeins háttvís, heldur er hún líka, eins og Sálmahöfundurinn orðar það, „gleðióp.“31

Álitsgjafinn Hal Boyd í Deseret News benti á dæmi um þann skaða sem hlýst af því að vera þögull. Hann benti á að þótt enn stæðu yfir „kappræður“ meðal yfirstéttar í Bandaríkjunum um merkingu hjónabandsins, þá sé reyndin sú að hjónaband sé í raun ekki deiluefni á meðal þeirra sjálfra. ‚Þeir sem tilheyra kjörhópum giftast, viðhalda hjónabandi sínu og gæta þess að börn þeirra njóti farsældar trausts hjónabands.‘ … Vandinn felst hinsvegar í því að tilhneiging [þeirra] er að miðla ekki eigin lífsmáta.“ Þeir vilja ekki „þröngva“ honum upp á þá sem gætu haft mest gagn af siðgæðiskennslu og lífsgildum þeirra, og „því er … ekki seinna vænna að þeir sem hafa menntun til þess og eiga sterkar fjölskyldur láti af slíku hlutleysi og miðli lífsmáta hjónabands og uppeldis … [og] hjálpi amerískum samborgurum sínum að veita þessu viðtöku.32

Við reiðum okkur einkum á að hin upprennandi kynslóð, æskufólk og ungir einhleypir, sem Drottinn verður að setja traust sitt á, til að verk hans nái fram að ganga á komandi árum, muni styðja kenningar fagnaðarerindisins og staðla kirkjunnar, bæði opinberlega og persónulega. Látið þá sem tækju á móti sannleikanum ekki afskiptalausa, svo fáfræði verði þeim ekki að falli. Gefið ykkur ekki að fölskum hugmyndum eða ótta – ótta við óþægindi, höfnun og jafnvel þjáningar. Íhugið loforð frelsarans:

„Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.

Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“33

Við erum öll endanlega ábyrg frammi fyrir Guði fyrir val okkar og lífsmáta. „Faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum, og á sama hátt og mennirnir hefðu lyft mér mundi faðirinn lyfta mönnunum upp til að standa frammi fyrir mér og verða dæmdir af verkum sínum, hvort heldur þau eru góð eða ill.“34

Ég staðfesti þessa yfirburði Drottins og sárbið með orðum Alma:

„Og nú óska ég þess, bræður mínir [og systur], af innstu hjartans rótum, já, af svo heitri þrá, að það veldur mér sársauka, að þér … varpið syndum yðar frá yður og sláið ekki iðrun yðar á frest–

Heldur að þér auðmýkið yður fyrir Drottni og ákallið hans heilaga nafn, vakið og biðjið án afláts, svo að þér freistist ekki um megn fram, heldur látið þannig leiðast af hinum heilaga anda …

Að þér hafið trú á Drottin og von um að hljóta eilíft líf, með elsku Guðs stöðugt í hjörtum yðar, svo að yður verði lyft upp á efsta degi og þér gangið inn til hvíldar hans.“35

Megi sérhvert okkar segja við Drottin með Davíð: „Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði. Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn.“36 Í nafni Jesú Krists, amen.