2010–2019
Rísa hið innra og vera heilskipt
Apríl 2017


Rísa hið innra og vera heilskipt

Megum við gera allar nauðsynlegar stefnubreytingar og líta fram í bjartri von og sterkri trú. Megum við „rísa hið innra“ með því að vera hugrökk og heilskipt.

Fyrir nokkrum árum kom lítil afastelpa hlaupandi til mín og tilkynnti mér eftirvæntingafull: „Afi, afi, ég skoraði öll þrjú mörkin í fótboltaleiknum í dag!“

Ég svaraði af áhuga: „Það er frábært, Sarah!“

Móðir hennar horfði á mig með glampa í augum og sagði: „Lokastaðan var tvö mörk gegn einu.“

Ég sleppti því alveg að spyrja hvort liðið hafði unnið!

Ráðstefnutími helgast af ígrundun, opinberun og stundum stefnubreytingu.

Til er bílaleiga nokkur sem býður GPS tæki sem heita Aldrei týndur. Ef þið takið ranga beygju, eftir að hafa skráð ákvörðunarstað ykkar, þá segir leiðsagnarröddin ekki: „Bjáninn þinn!“ Það er öllu heldur sagt mjög vinsamlegri röddu: „Endurstilling ferðar – taktu löglega U-beygju, þegar mögulegt er.“

Í Esekíel lesum við þetta dásamlega loforð:

„Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann vissulega lífi halda og ekki deyja.

Öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, skulu honum þá eigi tilreiknuð verða.“1

Loforðið er dásamlegt, en þó bundið tveimur skilyrðum, til þess að það geti uppfyllst. Hverfa frá öllu; halda allt; þá mun allt fyrirgefið. Þetta krefst þess að við séum algjörlega heilskipt!

Við ættum ekki að vera eins og maðurinn sem Wall Street Journal sagði að hafði sent umslag fullt af peningum, ásamt nafnlausu bréfi, til skattstofunnar, þar sem sagði: „Kæra skattstofa, meðfylgjandi er peningaupphæð sem ég skulda í skatt liðinna ára. E.S. Ef samviskan tekur að naga mig eftir þetta, þá sendi ég það sem uppá vantar.“2

Svona á ekki að gera það! Við höldum ekki aftur af okkur til að komast að því hvert lágmarks framlagið er til að skrimta. Drottinn krefst hjartans og viljugs huga.3 Heilskipts hjarta! Vatnið hylur okkur algjörlega þegar við erum skírð, til tákns um að við lofum að fylgja frelsaranum algjörlega, ekki að hálfu leyti. Þegar við erum fyllilega skuldbundin og heilskipt, þá skekur himininn okkur til góðs.4 Þegar við erum hálfvolg eða ekki nægilega skuldbundin, þá missum við af sumum dásamlegum blessunum himins.5

Fyrir mörgum árum fór ég með skáta í óbyggðarútilegu. Drengirnir sváfu við mikinn eld sem þeir höfðu komið upp og ég svaf í pallbílnum mínum, eins og sannur skátaleiðtogi gerir. Um morguninn, er ég settist upp og leit yfir svæðið, sá ég einn skáta, sem ég kalla Pál, er var afar brúnaþungur. Ég spurði hvernig hann hefði sofið og hann svaraði: „Ekki mjög vel.“

Þegar ég spurði af hverju, sagði hann: „Mér var kalt, eldurinn brann út.“

Ég svaraði: „Já, eldur brennur út. Er svefnpokinn þinn ekki nógu hlýr?“

Ekkert svar barst.

Þá svaraði annar skáti hátt: „Hann svaf ekki í svefnpokanum.“

Ég spurði vantrúaður: „Af hverju ekki, Páll?“

Þögn – og síðan svaraði hann vandræðalega: „Ég vildi ekki rúlla út svefnpokanum mínum, til að þurfa ekki að rúlla honum upp aftur.“

Sönn saga! Hann kaus að krókna úr kulda í margar klukkustundir til að spara sér fimm mínútna verk.“ Við gætum hugsað: „Hve heimskulegt! Hver myndi gera svona! Við erum þó alltaf að gera þetta og á mun hættulegri hátt. Við neitum í raun að rúlla út okkar andlega svefnpoka þegar við gefum okkur ekki tíma fyrir einlæga bæn og að læra fagnaðarerindið og lifa eftir því. Eldurinn mun ekki aðeins brenna út, heldur verðum við berskjölduð og smám saman andlega köld.

Þegar við erum værukær varðandi sáttmála okkar, þá köllum við yfir okkur afleiðingar. Drottinn hefur brýnt fyrir okkur að „gæta [okkar] og af kostgæfni gefa gaum að orðum eilífs lífs.“6 Hann sagði líka: „Blóð mitt mun ekki hreinsa þá, ef þeir hlusta eigi á mig.“7

Í raun þá er mun auðveldara að vera heilskiptur, en hálfvolgur. Þegar menn eru hálfvolgir eða algjörlega kaldir, þá er það kallað í sérmáliStjörnustríðsmyndanna: „Ókyrrð í kraftinum.“ Við verðum ósamhljóma vilja Guðs og því ósamhljóma eðli hamingjunnar.8 Jesaja sagði:

„En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju.

„Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.“9

Til allrar hamingju þá erum við ekki utan seilingar frelsarans, hvar sem við erum eða höfum verið, sem sagði: „Þess vegna mun ég taka við hverjum þeim, sem iðrast og kemur til mín sem lítið barn, því að slíkra er Guðs ríki. Sjá, fyrir slíka hef ég fórnað lífi mínu og tekið það aftur.“10

Þegar við iðrumst stöðugt og setjum traust okkar á Drottin, þá öðlumst við styrk þegar við keppum að því að tileinka okkur auðmýkt og trú lítils barns,11 auðguð af þeirri visku sem hlýst af lífsins reynslu. Job sagð: „Hinn réttláti heldur fast við sína leið, og sá sem hefir hreinar hendur, verður enn styrkari.“12 Það var Tennyson sem ritaði: „Styrkur minn er á við tíu, því hjarta mitt er hreint.“13 Drottinn hefur sagt: „Standið á heilögum stöðum og haggist ekki.“14

Sonur okkar, Justin, lést þegar hann var 19 ára, eftir baráttu við ævilangan sjúkdóm. Í ræðu á sakramentissamkomu, sem hann flutti nokkru áður en hann lést, sagði hann sögu sem hlýtur að hafa höfðað til hans sjálfs, um föður og ungan son, sem fóru í leikfangabúð, þar sem var uppblásanlegur kýlingakarl. Drengurinn kýldi uppblásna karlinn, sem sveiflaðist aftur á bak og skall á honum aftur eftir hvert högg. Faðirinn spurði sinn unga son af hverju karlinn kýldi stöðugt til baka. Drengurinn hugsaði sig aðeins um og sagði síðan: „Ég veit það ekki. Kannski af því að hann rís upp hið innra.“ Til þess að við séum heilskipt, þá þurfum við að „rísa upp hið innra“ og taka því sem að höndum ber.15

Við rísum upp hið innra þegar við erum þolgóð og treystum Drottni til að fjarlægja þyrna í holdinu eða veita okkur styrk til að bera þá.16 Slíkir þyrnar geta verið sjúkdómar, fötlun, hugsýki, dauði ástvinar og svo ótal margt annað.

Við rísum upp hið innra þegar við lyftum veikburða höndum. Við rísum upp hið innra þegar við komum sannleikanum til varnar í ranglátum og veraldlegum heimi, sem finnst ljósið stöðugt óþægilegra og segir illt gott og gott illt17 og „[dæmir] hina réttlátu fyrir réttlæti þeirra.“18

Mögulegt er að rísa upp hið innra, þrátt fyrir erfiðleika, vegna eflingar, huggunar og fullvissu heilags anda og hinnar eilífu yfirsýnar sem er ofar öllum jarðneskum skilningi.19 Í fortilverunni hrópuðum við af gleði yfir því tækifæri að fá að upplifa jarðlífið.20 Við vorum heilskipt og einsettum okkur af eftirvæntingu að vera hugdjörf og verja áætlun okkar himneska föður. Nú væri ráð að rísa upp og koma áætlun hans til varnar!

Hinn 97 ári gamli faðir minn lést nýlega. Alltaf þegar einhver spurði hann hvernig hann hefði það, svaraði hann ætíð: „Á skalanum 1 til 10, þá er ég 25!“ Þegar þessi kæri maður gat vart staðið eða setið lengur og átti erfitt um mál, þá var svarið hans alltaf hið sama. Hann var ætíð rísandi upp hið innra.

Þegar faðir minn var 90 ára og við vorum á flugvelli, spurði ég hvort ég ætti að nái í hjólastól fyrir hann. Hann svaraði: „Nei, Gary – kannski þegar ég verð gamall.“ Hann bætti síðan við: „Ef ég verð þreyttur á að ganga, þá get ég alltaf hlaupið:“ Ef við getum ekki verið heilskipt á gönguhraða okkar, þá þurfum við kannski að hlaupa; ef til vill þurfum við að endurstilla leiðina okkar. Við gætum þurft að taka U-beygju. Við gætum þurft að læra af aukinni kostgæfni, biðja einlægar eða hverfa frá einhverju, svo við fáum haldið í það sem í raun skiptir máli. Við gætum þurft að hverfa frá heiminum, svo við fáum haldið í eilífðinna. Faðir minn skildi þetta.

Ljósmynd
Faðir öldungs Sabins í sjóhernum

Þegar hann var í sjóhernum í Síðari heimsstyrjöldinni, voru nokkrir í hinni rúmmiklu byggingu21sem hæddust að reglum hans; tveir skipsverjar hans, Dale Maddox og Don Davidson, tóku eftir þessu og létu hann óáreittan. Þeir spurðu: „Sabin, afhverju ertu svona öðruvísi en allir aðrir? Þú hefur háa siðferðisstaðla, hvorki drekkur, reykir né blótar, en virðist þó friðsæll og hamingjusamur.“

Hin jákvæðu áhrif sem faðir minn hafði á þá voru ekki í samhljóm við það sem þeim hafði verið sagt um mormóna, og föður mínum tókst að kenna og skíra báða þessa skipverja. Foreldrar Dales voru afar ósátt og sögðu að hann myndi glata elskunni sinni, Mary Olive, ef hann gengi í kirkjuna, en hún hitti trúboðana að beiðni hans og lét líka skírast.

Þegar dró að lokum stríðsins, þá kallaði Heber J. Grant eftir trúboðum, og líka einhverjum giftum mönnum. Árið 1946 ákváðu Dale og eiginkona hans, Mary Olive, að Dale skildi þjóna, jafnvel þótt þau ættu von á sínu fyrsta barni. Þau eignuðust alls níu börn – þrjá drengi og sex stúlkur. Öll níu þjónuðu í trúboði og þar á eftir Dale og Mary Olive, sem sjálf þjónuðu þrívegis í trúboði. Fjöldi barnabarna hefur líka þjónað þannig. Tveir synir þeirra, John og Matthew Maddox, eru nú meðlimir Laufskálakórsins, sem og Ryan, tengdasonur Matthews. Maddox fjölskyldan er nú 144 manns og er dásamlegt fyrirmynd um að vera heilskiptur.

Ljósmynd
Meðlimir Maddox-fjölskyldunnar í Laufskálakórnum

Þegar ég fór í gegnum pappíra föður míns, sá ég bréf frá Jennifer Richards, einni af fimm dætrum Dons Davidson, annars skipverjans. Hún skrifaði: „Réttlæti þitt breytti lífi okkar. Það er erfitt að átta sig á hvernig lífi okkar væri háttað án kirkjunnar. Þegar faðir minn lést var fagnaðarerindið honum kært og hann reyndi að lifa eftir því fram að dauðastundu.“22

Það er erfitt að mæla þau góðu áhrif sem menn geta haft er þeir rísa upp hið innra. Faðir minn og skipsverjar hans tveir höfnuðu því að hlusta á þá sem voru í hinni rúmmiklu byggingu og bentu hæðnislega á þá.23 Þeir vissu að betra væri að fylgja skararanum en mannfjöldanum.

Orð Páls postula til Tímóteusar um að „sumir [væru] viknir frá … og [hefðu] snúið sér til hégómamáls,“24 gætu vel átt við um okkar tíma. „Hégómamál“ er afar algengt í heimi nútímans. Það er viðræðuháttur þeirra sem fylla hina rúmmiklu byggingu.25 Oft birtist það í formi rökfærslu til að réttlæta ranglæti eða þegar fólk missir áttir og æðir áfram. Stundum má greina það hjá þeim sem ekki hafa greitt gjald þess að vera heilskiptur og sem elta ólar við hinn náttúrlega mann, andstætt leiðsögn spámannsins.

Til allrar hamingju, þá vitum við hvernig þetta endar fyrir hina trúföstu. Þegar við erum heilskipt, þá höfum við algjöra fullvissu um að „þeim, sem Guð elskar, samverkar allt til góðs.“26 Öldungur Neal A. Maxwell sagði: „Óttist ekki, lifið aðeins rétt.“27

Tengdafaðir minn kenndi við BYU háskóla og elskaði BYU fótbolta, en fékk ekki af sér að horfa á leiki þeirra, því hann varð svo taugaspenntur yfir framvindunni. Þá gerðist nokkuð dásamlegt – myndbandsspólan var fundin upp, sem gerði honum kleift að taka leikina upp. Ef BYU liðið sigraði, þá horfði hann á upptökuna af fyllstu ró, algjörlega viss um úrslitin! Ef leikmenn fengu ósanngjarna dóma, meiddust eða voru undir í fjórða hluta, þá var hann ekkert stressaður, því hann vissi að liðið myndi ná yfirhöndinni! Þið gætuð sagt að hann liti fram „í fullkomnu vonarljósi“!28

Það sama gildir um okkur. Ef við erum trúföst, þá getum við verið jafn viss um að allt muni að lokum samverka okkur til góðs. Loforð Drottins eru örugg. Það merkir ekki að þetta verði auðvelt eða táralaust, heldur líkt og Páll sagði: „Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“29

Bræður og systur, engin hefur syndgað á morgun. Megum við gera allar nauðsynlegar stefnubreytingar og líta fram í bjartri von og sterkri trú. Megum við „rísa upp hið innra“ með því að vera hugdjörf og heilskipt. Megum við vera hrein og hugrökk við að verja áætlun himnesks föður og hlutverk sonar hans, frelsara okkar. Ég ber vitni um að faðir okkar lifir, að Jesús er Kristur og um raunveruleika hinnar miklu sæluáætlunar. Ég bið þess að bestu blessanir Drottins verði ykkar og það geri ég í nafni Jesú Krists, amen.