2010–2019
Fegurð heilagleika
Apríl 2017


Fegurð heilagleika

Himneskur faðir hefur séð okkur fyrir öllu nauðsynlegu til að við getum orðið heilög eins og hann er heilagur.

Við undirbúning þessa fundar, hefur mér verið hugsað til hinna mörgu trúföstu systra sem ég hef hitt, nær og fjær. Mér finnst þeim best lýst með orðum þakkargjörðarsálms Davíðs konungs: „Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið fram fyrir hann. Fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.“1

Ég sé fegurð heilagleika í systrum sem hafa helgað sig öllu því sem gott er, sem vilja líkjast betur frelsaranum. Þær þjóna Drottni af allri sálu, hjarta, huga, mætti og styrk, með sínum daglega lífshætti.2 Heilagleiki er að keppa að því að halda boðorðin og heiðra sáttmálana sem við höfum gert við Guð. Heilagleiki er að velja að lifa þannig að heilagur andi verði okkur stöðugur förunautur.3 Heilagleiki er að afneita hinum náttúrlega manni og verða heilagur fyrir friðþægingu Krists Drottins.4 „Sérhvert andartak [lífs okkar] verður að vera fyllt heilagleika til Drottins.“5

Guð himins bauð Ísraelsmönnum: „Því að ég er Drottinn, Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður.“6

Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Faðir okkar á himnum er Guð mikilla væntinga. … Hann hyggst gera okkur heilög, svo við fáum ‚staðist himneska dýrð‘ (K&S 88:22) og ‚dvalið í návist hans‘ (HDP Móse 6:57).“7 Í Lectures on Faith er útskýrt: „Engin getur notið dýrðar án þess að búa yfir fullkomleika og heilagleika.“8 Faðir okkar á himnum þekkir okkur. Hann elskar okkur og hefur séð okkur fyrir öllu nauðsynlegu til að við getum orðið heilög eins og hann er heilagur.

Við erum dætur himnesks föður og allar búum við að guðlegri arfleifð heilagleika. Himneskur faðir hefur sagt: „Sjá, ég er Guð. Maður heilagleika er nafn mitt.“9 Í fortilverunni elskuðum við föður okkar og tilbáðum hann. Við þráum að verða eins og hann. Af fullkominni föðurást, gaf hann sinn ástkæra son, Jesú Krist, til að vera frelsari og lausnari okkar. Hann er sonur manns heilagleika.10 „Nafn hans er heilagleiki,“11 „hinn heilagi Ísraels.“12

Von okkar um heilagleika er bundin Kristi, miskunn hans og náð. Fyrir trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, getum við orðið hrein og flekklaus, ef við afneitum öllum óguðleika13 og iðrumst af einlægni. Við erum skírð með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda. Sálir okkar eru helgaðar þegar við meðtökum heilagan anda af fúsu hjarta. Við meðtökum vikulega af helgiathöfn sakramentis. Í anda iðrunar með einlægri þrá eftir réttlæti, gerum við sáttmála um að vera fús til að taka á okkur nafn Krists, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, svo við megum ætíð hafa anda hans með okkur. Í tímans rás, eftir því sem við reynum að verða eitt með föðurnum, syninum og heilögum anda, tileinkum við okkur þeirra guðlega eðli.14

Heilagleiki er að halda sáttmála okkar

Við erum meðvituð um hinar ótal prófraunir, freistingar og þrengingar sem gætu fjarlægt okkur því sem er dyggðugt og lofsvert frammi fyrir Guði. Okkar jarðneska reynsla býr þó að tækifæri til að velja heilagleika. Oftast eru það fórnirnar sem við færum til að halda sáttmála okkar, sem helga okkur til heilagleika.

Ljósmynd
Evangeline, stúlka frá Ghana

Ég sá heilagleika á ásjónu í 13 ára gamallar stúlku í Ghana, að nafni Evangeline. Eitt af því sem hún gerði til að halda sáttmála sína var að efla köllun sína sem bekkjarforseti Býflugna. Hún útskýrði auðmjúk að hún færi heim til vinkvenna sinna, líttvirkra stúlkna í Stúlknafélaginu, til að biðja foreldra þeirra um að leyfa þeim að koma í kirkju. Foreldrar þeirra segja það erfitt, því börnin þurfi að gera húsverkin á sunnudögum. Evangeline fer því og hjálpar til við húsverkin og fyrir vikið fá vinkonur hennar oft að fara með henni í kirkju.

Ef við höldum sáttmála helgiathafnanna, munu þær helgiathafnir prestdæmisins breyta okkur, helga okkur og búa okkur undir að dvelja í návist Drottins.15 Við berum hver annars byrðar; við styrkjum hver annan. Við hljótum fyrirgefningu synda þegar við líknum fátækum, hungruðum, nöktum og sjúkum andlega og stundlega.16 Við höldum okkur óflekkuðum frá heiminum þegar við höldum hvíldardaginn heilagan og meðtökum sakramentið á helgum degi Drottins.17

Við blessum fjölskyldur okkar og gerum heimili okkar að helgum stöðum. Við höfum taumhald á ástríðum okkar, svo við getum fyllst hreinni og varanlegri elsku.18 Við liðsinnum öðrum með góðvild, samúð og stöndum sem vitni Guðs. Við verðum Síonarfólk, eitt í huga og hjarta, hreint fólk sem dvelur saman í einingu og réttlæti.19 „Því að fegurð Síonar og helgi verður að aukast.“20

Systur, komið til musterisins. Ef við hyggjumst verða heilagt fólk, reiðubúið að taka á móti frelsaranum við komu hans, verðum við að rísa og íklæðast skrautklæðum okkar.21 Af styrk og sæmd afneitum við háttum heimsins og höldum sáttmála okkar, til að „[íklæðast] hreinleika, já, jafnvel möttli réttlætisins.“22

Heilagleiki er að hafa heilagan anda sem leiðarvísi

Heilagleiki er gjöf andans. Við meðtökum þá gjöf þegar við veljum að gera það sem eykur helgunarkraft heilags anda í lífi okkar.

Ljósmynd
María heyrði orð frelsarans

Þegar Marta bauð Jesú inn á heimili sitt fann hún sterka þrá til að þjóna Drottni eins vel og hún gat. Systir hennar, María, kaus að sitja „við fætur Drottins“ og hlýða á orð hans. Þegar Mörtu fannst þjónustan íþyngjandi og þarfnaðist aðstoðar, kvartaði hún: „Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna?“

Ég ann áminningarorðum hans, en þau gerast vart ljúfari. Af fullkominni elsku og óendanlegri samúð, ávítaði frelsarinn:

„Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu,

en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“23

Systur, ef við viljum verða heilagar, verðum við að læra að sitja við fætur hins heilaga Ísraels og verja tíma til heilagleika. Leggjum við frá okkur símann, hinn endalausa verkefnalista og veraldaráhyggjur? Bæn, nám og hlýðni við orð Guðs, vekja hans hreinsandi og græðandi elsku í sál okkar. Gefið ykkur tíma til að vera heilagar, svo þið fyllist hans helga, hreinsandi anda. Við verðum undir það búnar að taka á móti frelsaranum í fegurð heilagleika, ef við höfum heilagan anda sem leiðarvísi okkar.24

Heilagleiki er að verða heilagur fyrir friðþægingu Jesú Krists

Samkvæmt hinum innblásnu orðum Benjamíns konungs, eru það þeir sem eru undirgefnir, bljúgir, auðmjúkir, þolgóðir og fullir elsku, eins og frelsarinn er, sem verða heilagir fyrir friðþægingu Jesú Krists.25 Hann spáði að Jesús Kristur „Drottinn alvaldur, sem ríkjum ræður, sem var og er frá allri eilífð til allrar eilífðar, [myndi] í veldi stíga niður af himni, dveljast í musteri úr leir meðal mannanna barna.“ Hann kom til að blessa hina sjúku, lömuðu, daufdumbu, blindu og reisa dána til lífs. Hann þjáðist „meir en maðurinn fær þolað, nema fjörtjón hljótist af.“26 Þótt hann sé sá eini sem sáluhjálp hlýst fyrir, var hann hæddur, hýddur og krossfestur. Sonur Guðs reis hins vegar úr gröfinni, svo við öll fengjum sigrað dauðann. Hann er sá eini sem mun standa til að dæma heiminn í réttlæti. Hann er sá sem mun frelsa okkur öll. Hann er hinn heilagi Ísraels. Jesús Kristur er fegurð heilagleika.

Þegar fólk Benjamíns konungs hlustaði á orð hans, féll það til jarðar, svo mikil var auðmýkt þess og lotning fyrir náð og dýrð Guðs. Það uppgötvaði sitt holdlega ástand. Sjáum við hvað við erum algjörlega háð náð og miskunn Krists, Drottins okkar? Sjáum við að allar góðar gjafir, stundlegar og andlegar, veitast okkur fyrir Krist? Minnumst við þess að samkvæmt hinni eilífu áætlun föðurins, öðlumst við aðeins frið í þessu lífi og dýrðir eilífðar fyrir tilstilli hans heilaga sonar?

Megum við taka undir orð fólks Benjamíns konungs, er það hrópaði hátt einum rómi: „Ó, miskunna oss og beit þannig friðþægingarblóði Krists, að vér megum hljóta fyrirgefningu synda vorra og hjörtu vor megi hreinsast. Því að vér trúum á Jesú Krist, son Guðs, skapara himins og jarðar og allra hluta.“27

Ég ber vitni um, að ef við komum til hins heilaga Ísraels, mun andi hans koma yfir okkur og við munum fyllast gleði, hljóta fyrirgefningu synda okkar og samviskufrið.

Himneskur faðir hefur gert okkur öllum kleift að vera heilög. Megum við gera okkar besta til að halda sáttmála okkar og hafa heilagan anda sem okkar leiðarvísi. Í trú á Jesú Krist verðum við heilög fyrir friðþægingu hans, svo við megum hljóta ódauðleika og eilíft líf og veita Guði föður okkar dýrðina, sökum nafns hans. Megi líf okkar vera helg fórn, svo við fáum staðið í fegurð heilagleika frammi fyrir Drottni. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.