Námshjálp
Nefí, sonur Nefís, sonar Helamans


Nefí, sonur Nefís, sonar Helamans

Í Mormónsbók, einn tólf Nefítalærisveina sem Kristur upprisinn valdi (3 Ne 1:2–3; 19:4). Þessi spámaður bað máttugra bæna til Drottins vegna þjóðar sinnar. Nefí heyrði rödd Drottins (3 Ne 1:11–14). Nefí fékk einnig heimsókn engla, stökkti út djöflum, reisti bróður sinn upp frá dauðum og bar vitnisburð sem eigi varð véfengdur (3 Ne 7:15–19; 19:4). Nefí skráði trúarlegar heimildir (3 Ne 1:2–3).

Þriðji Nefí — Bók Nefís

Bók rituð af Nefí, syni Nefís, í Mormónsbók. Kapítular 1–10 sýna uppfyllingu spádómanna um komu Krists. Táknið um komu Krists var gefið; fólk iðraðist; en síðar sneri það aftur til ranglætis. Að lokum boðuðu fellibyljir, jarðskjálftar, stríðir stormar og mikil eyðilegging dauða Krists. Kapítular 11–28 greina frá komu Krists til Ameríku. Þetta er kjarninn í Þriðju bók Nefís. Margt af orðum Krists er samsvarandi ræðum hans sem skráðar eru í Biblíunni (til dæmis Matt 5–7 og 3 Ne 12–14). Kapítular 29–30 eru orð Mormóns til síðari tíma þjóða.

Fjórði Nefí — Bók Nefís

Í bókinni eru einungis fjörutíu og níu vers, öll í einum kapítula, en samt fjallar hún um nærri þrjú hundruð ár af sögu Nefíta (34–321 e.Kr.). Nokkrar kynslóðir ritara, þar með talinn Nefí, lögðu til efni í bókina. Vers 1–19 segja frá því að eftir heimsókn Krists snerust allir Nefítar og Lamanítar til trúar á fagnaðarerindið. Friður, kærleikur og eining ríkti. Nefítalærisveinarnir þrír, sem Kristur hafði leyft að dvelja á jörðu fram að síðari komu hans (3 Ne 28:4–9), veittu þjóðinni andlega þjónustu. Nefí afhenti Amosi syni sínum heimildirnar. Vers 19–47 eru frásögn af þjónustu Amosar (84 ár) og sonar hans Amosar (112 ár). Um 201 e.Kr. tók hroki að valda vandamálum meðal þjóðarinnar, sem skiptist í stéttir og upp komu falskar kirkjur, reknar í ábataskyni (4 Ne 1:24–34).

Lokavers 4 Nefí sýna að þjóðin hafði snúið aftur til ranglætis (4 Ne 1:35–49). Árið 305 e.Kr. dó Amos sonur Amosar og bróðir hans Ammaron faldi allar heimildaskrárnar til öryggis. Síðar fól Ammaron heimildirnar Mormón í hendur, sem skráði marga atburði frá sínu eigin æviskeiði og stytti þær síðan (Morm 1:2–4).