Ritningar
Eter 14


14. Kapítuli

Misgjörðir fólksins leiða bölvun yfir landið — Kóríantumr á í stríði við Gíleað, síðan Líb og þar næst Sís — Blóðbað og mannfall um allt land.

1 En nú lagðist þung abölvun yfir allt landið vegna misgjörða þjóðarinnar, svo að legði einhver maður verkfæri sitt eða sverð upp á hillu sína eða á einhvern þann stað, sem hann geymdi það á, sjá, að morgni gat hann hvergi fundið það, svo mikil var bölvunin yfir landinu.

2 Þess vegna hélt hver maður fast í það, sem hans var, og vildi hvorki fá lánað né lána. Og sérhver maður hélt með hægri hendi fast um sverð sitt til verndar eigum sínum, lífi sínu og lífi eiginkvenna sinna og barna.

3 Og að tveimur árum liðnum og eftir dauða Sareds, sjá, þá reis bróðir Sareds gegn Kóríantumr og barðist við hann, en Kóríantumr hafði betur og hrakti hann út í óbyggðir Akisar.

4 Og svo bar við, að bróðir Sareds háði orrustu við hann í óbyggðum Akisar, og varð orrustan mjög hörð, og mörg þúsund féllu fyrir sverði.

5 Og svo bar við, að Kóríantumr gjörði umsátur um óbyggðirnar, en bróðir Sareds hélt út úr óbyggðunum að nóttu til og drap hluta af hermönnum Kóríantumrs, þar sem þeir voru drukknir.

6 Og hann kom til Morónslands og settist í hásæti Kóríantumrs.

7 Og svo bar við, að Kóríantumr dvaldi með her sinn í óbyggðunum í tvö ár, og á þeim tíma styrkti hann her sinn mikið.

8 En bróðir Sareds, sem nefndist Gíleað, styrkti einnig her sinn fyrir atbeina leynisamtaka.

9 Og svo bar við, æðsti prestur hans myrti hann, er hann sat í hásæti sínu.

10 En svo bar við, að einn úr leynisamtökunum myrti hann í leynigöngum og náði sjálfur völdum, og var nafn hans Líb. Og Líb var maður mikill vexti, meiri að vexti en nokkur annar maður meðal þjóðarinnar.

11 Og svo bar við, að á fyrsta ríkisári Líbs kom Kóríantumr til Morónslands og háði orrustu við Líb.

12 Og svo bar við, að hann barðist við Líb, og í þeirri orrustu hjó Líb til hans og særði hann á handlegg. Engu að síður braust her Kóríantumrs fram á móti Líb, svo að hann flúði til strandar.

13 Og svo bar við, að Kóríantumr veitti honum eftirför, og Líb barðist við hann á sjávarströndinni.

14 Og svo bar við, að Líb sigraði her Kóríantumrs, svo að þeir flúðu aftur út í óbyggðir Akisar.

15 Og svo bar við, að Líb fylgdi á eftir honum, þar til hann kom að Agosarsléttunum. Og á flótta sínum undan Líb tók Kóríantumr alla þá með sér, sem bjuggu í þeim landshlutum, er hann fór um.

16 Og þegar hann kom að Agosarsléttunum, háði hann orrustu við Líb og lét höggin dynja á honum, þar til hann lét lífið. En bróðir Líbs réðst samt gegn Kóríantumr í hans stað, og orrustan varð ákaflega hörð, og enn flúði Kóríantumr undan her bróður Líbs.

17 Nafn þessa bróður Líbs var Sís. Og svo bar við, að Sís veitti Kóríantumr eftirför, og hann vann margar borgir, drap bæði konur og börn, en brenndi borgirnar.

18 Og ótti við Sís greip um sig um allt landið. Já, hróp heyrðist um allt landið — Hver fær staðist her Sís? Sjá. Hann sópar jörðina á undan sér —

19 Og svo bar við, að um allt landið safnaði fólkið liði og stofnaði heri.

20 Og fólkið var tvískipt. Hluti þess flúði til hers Sís, en hluti til hers Kóríantumrs.

21 Og svo mikið og langvarandi hafði stríðið verið og svo lengi höfðu blóðsúthellingarnar og drápin varað, að allt landið var þakið alíkum hinna látnu.

22 Og svo ákafur og hraður var bardaginn, að enginn var eftir til að greftra hina dauðu, heldur héldu þeir frá einni blóðsúthellingunni til annarrar, og lík karla, kvenna og barna voru skilin eftir á víð og dreif um landið og urðu amöðkum holdsins að bráð.

23 Og nályktina lagði um landið, já, um gjörvallt landið og nótt sem dag var fólkið hrjáð af nályktinni.

24 Þrátt fyrir það hætti Sís ekki að elta Kóríantumr, því að hann hafði unnið þess eið að hefna sín á Kóríantumr vegna blóðs bróður síns, sem drepinn hafði verið, og vegna orðs Drottins, sem barst Eter, að Kóríantumr skyldi ekki falla fyrir sverði.

25 Og þannig sjáum við, að Drottinn vitjaði þeirra í fyllingu heilagrar reiði sinnar, en ranglæti þeirra og viðurstyggð hafði rutt þeim veginn til ævarandi tortímingar.

26 Og svo bar við, að Sís veitti Kóríantumr eftirför í austurátt, já, niður til strandar, og þar barðist hann við Sís í þrjá daga.

27 Og svo hræðileg var tortímingin meðal herja Sís, að fólk tók að skelfast og flúði undan herjum Kóríantumrs. Og það flúði til lands Kóríhors og sópaði burtu íbúunum á undan sér, öllum þeim, sem ekki vildu ganga í lið með því.

28 Og það reisti tjöld sín í Kóríhordalnum, en Kóríantumr reisti tjöld sín í Súrrdalnum, en Súrrdalurinn var nálægt Kómnorhæðinni. Þess vegna safnaði Kóríantumr herjum sínum saman á Kómnorhæð, og með lúðrablæstri bauð hann herjum Sís til bardaga.

29 Og svo bar við, að þeir komu, en voru hraktir til baka. Og þeir komu í annað sinn, og enn voru þeir hraktir til baka. Og svo bar við, að þeir komu enn í þriðja sinn, og orrustan varð feiknahörð.

30 Og svo bar við, að Sís hjó til Kóríantumrs og særði hann mörgum djúpum sárum, og Kóríantumr féll í yfirlið af blóðmissi, og var hann borinn burtu, líkt og hann væri dauður.

31 Fall karla, kvenna og barna í liði beggja var slíkt, að Sís skipaði mönnum sínum að fylgja ekki herjum Kóríantumrs eftir, og sneru þeir þess vegna til búða sinna.