Ritningar
1 Nefí 13


13. Kapítuli

Nefí sér í sýn kirkju djöfulsins rísa meðal Þjóðanna, fund og landnám Ameríku, missi margra skýrra og dýrmætra hluta úr Biblíunni, þar af leiðandi fráhvarf Þjóðanna, endurreisn fagnaðarerindisins, komu síðari daga helgirits og uppbyggingu Síonar. Um 600–592 f.Kr.

1 Og svo bar við, að engillinn talaði til mín og mælti: Sjá! Og ég leit og sá margar þjóðir og mörg ríki.

2 Og engillinn spurði mig: Hvað sér þú? Og ég svaraði: Ég sé margar þjóðir og mörg ríki.

3 Og hann sagði við mig: Þetta eru þjóðir og ríki Þjóðanna.

4 Og svo bar við, að ég sá myndun mikillar kirkju meðal þjóða Þjóðanna.

5 Og engillinn sagði við mig: Líttu á myndun þeirrar kirkju, sem er öllum öðrum kirkjum viðurstyggilegri og ræður hina Guðs heilögu af dögum, já, pyntar þá, fjötrar þá, okar þá með járnoki og hneppir þá í ánauð.

6 Og svo bar við, að ég sá þessa voldugu og viðurstyggilegu kirkju. Og ég sá, að djöfullinn lagði grundvöll hennar.

7 Og ég sá auk þess gull og silfur, silki og skarlat, fínlega ofið lín og alls konar dýrmæt klæði. Og ég sá margar vændiskonur.

8 Og engillinn talaði til mín og mælti: Sjá, það er gull og silfur, silki og skarlat, fínt lín, dýrmæt klæði og vændiskonur, sem þessi mikla og viðurstyggilega kirkja sækist eftir.

9 Og til að verða sér úti um veraldlegt hrós tortíma þeir einnig hinum Guðs heilögu og hneppa þá í ánauð.

10 Og svo bar við, að ég leit og sá mörg vötn, og þau aðskildu Þjóðirnar frá niðjum bræðra minna.

11 Og svo bar við, að engillinn sagði við mig: Sjá, heilög reiði Guðs er yfir niðjum bræðra þinna.

12 Og ég leit og sá mann meðal Þjóðanna, sem hin mörgu vötn aðskildu frá niðjum bræðra minna. Og ég sá anda Guðs stíga niður og hafa áhrif á manninn. Og hann hélt yfir vötnin mörgu, já, til niðja bræðra minna, sem voru í fyrirheitna landinu.

13 Og svo bar við, að ég sá anda Guðs hafa þau áhrif á aðra meðal Þjóðanna, að þeir brutust úr ánauð og héldu yfir vötnin mörgu.

14 Og svo bar við, að ég sá aragrúa af fólki Þjóðanna í fyrirheitna landinu. Og ég sá, að heilög reiði Guðs var yfir niðjum bræðra minna. Og Þjóðirnar tvístruðu þeim og lustu þá.

15 Og ég sá, að andi Guðs var með Þjóðunum. Þeim vegnaði vel og þær eignuðust landið að erfðum. Og ég sá, að þær voru hvítar, ákaflega ljósar yfirlitum og fagrar, eins og fólk mitt var, áður en það var ráðið af dögum.

16 Og svo bar við, að ég, Nefí, sá þá af Þjóðunum, sem sloppið höfðu úr ánauð, auðmýkja sig fyrir Drottni, og kraftur Drottins var með þeim.

17 Og ég sá móðurþjóðir þeirra safnast saman, bæði á vatni og á landi, til að heyja orrustu við þá.

18 Og ég sá, að kraftur Guðs var með þeim og einnig, að heilög reiði Guðs var yfir öllum, sem saman voru komnir til að berjast gegn þeim.

19 Og ég, Nefí, sá, að þeir af Þjóðunum, sem sloppið höfðu úr ánauð, björguðust fyrir kraft Guðs úr höndum allra annarra þjóða.

20 Og svo bar við, að ég, Nefí, sá þeim vegna vel í landinu. Og ég sá bók, sem barst út á meðal þeirra.

21 Og engillinn spurði mig: Veist þú, hvað þessi bók merkir?

22 Og ég svaraði honum: Nei, ég veit það ekki.

23 Og hann sagði: Sjá, hún er runnin af vörum Gyðings. Og ég, Nefí, sá hana, og hann sagði við mig: Bókin, sem þú sérð, er heimildaskrá Gyðinga og hefur að geyma sáttmála Drottins, sem hann gjörði við Ísraelsætt. Og hún hefur einnig að geyma marga af spádómum hinna heilögu spámanna. Þessi heimildaskrá er af sömu gerð og áletranir þær, sem letraðar eru á látúnstöflurnar að því undanskildu, að þær eru ekki eins margar. Eigi að síður geyma þær sáttmála Drottins, sem hann gjörði við Ísraelsætt, og þess vegna eru þær Þjóðunum mikils virði.

24 Og engill Drottins sagði við mig: Þú hefur séð, að bókin er runnin af vörum Gyðings. Og þegar hún rann fram af vörum Gyðings, hafði hún að geyma fyllingu fagnaðarboðskapar Drottins, sem postularnir tólf bera vitni um, en vitnisburður þeirra er í samræmi við sannleikann, sem býr í Guðslambinu.

25 Þess vegna berast þessir hlutir óspilltir frá Gyðingum til Þjóðanna í samræmi við sannleikann, sem býr í Guði.

26 Og er þetta hefur borist um hendur hinna tólf postula lambsins frá Gyðingum til Þjóðanna, sérð þú myndun þeirrar voldugu og viðurstyggilegu kirkju, sem er öllum öðrum kirkjum viðurstyggilegri. Því að sjá. Mörg auðskiljanleg og mjög dýrmæt atriði hafa þeir fellt úr fagnaðarboðskap lambsins. Og margir af sáttmálum Guðs hafa einnig verið felldir brott.

27 Og allt þetta hafa þeir gjört til þess að rangsnúa réttum vegum Drottins og blinda augu mannanna barna og herða hjörtu þeirra.

28 Þú sérð þess vegna, að eftir að bókin hefur farið um hendur hinnar voldugu og viðurstyggilegu kirkju, hafa mörg skýr og afar dýrmæt atriði verið felld úr bókinni, sem er bók Guðslambsins.

29 Og þegar þessi skýru og dýrmætu atriði höfðu verið felld brott, barst hún áfram til allra þjóða Þjóðanna. Og þegar hún hafði borist til þeirra allra, já, jafnvel borist yfir hin mörgu vötn, sem þú hefur séð, með þeim af Þjóðunum, sem úr ánauð sluppu, þá sérð þú, að mjög margir hrasa, vegna þess að mörg skýr og dýrmæt atriði eru felld brott úr bókinni — atriði, sem mannanna börn áttu létt með að skilja og eru í samræmi við þann skýra einfaldleika, sem býr í Guðslambinu. Já, mjög margir hrasa einmitt vegna þess, sem fellt hefur verið úr fagnaðarboðskap lambsins, og það svo freklega, að Satan hefur mikið vald yfir þeim.

30 Engu að síður sérð þú, að Þjóðirnar, sem úr ánauð hafa sloppið, og kraftur Guðs hefur lyft upp yfir allar aðrar þjóðir, á því landi, sem er öllum löndum fremra, landi, sem Drottinn Guð samdi við föður þinn um að yrði erfðaland niðja hans; því sérð þú, að Drottinn Guð mun ekki leyfa, að Þjóðirnar gjöreyði þeirri blöndu af niðjum þínum, sem fyrirfinnst meðal bræðra þinna.

31 Hann mun heldur ekki leyfa, að Þjóðirnar tortími niðjum bræðra þinna.

32 Drottinn Guð mun heldur ekki leyfa, að Þjóðirnar verði að eilífu haldnar þessari hræðilegu blindu, sem þú sérð þær í, vegna hinna skýru og dýrmætu atriða fagnaðarboðskapar lambsins, sem kirkjan viðurstyggilega hefur haldið leyndum, en myndun hennar hefur þú séð.

33 Og Guðslambið segir: Ég mun þess vegna vera Þjóðunum miskunnsamur og vitja eftirlifenda Ísraelsættar með þungum dómi.

34 Og svo bar við, að engill Drottins talaði til mín og mælti: Sjá — segir Guðslambið — þegar ég hef vitjað leifanna af Ísraelsætt, en þær leifar, sem ég tala um, eru niðjar föður þíns — eftir að ég hef því vitjað þeirra með dómi og lostið þá með hendi Þjóðanna og eftir að Þjóðirnar hafa hrasað illilega — vegna þeirra mjög skýru og dýrmætu atriða fagnaðarboðskapar lambsins, sem hin viðurstyggilega kirkja og móðir vændiskvennanna hefur haldið til baka — þá mun ég, segir Drottinn, þann dag sýna Þjóðunum þá miskunn að færa þeim með eigin krafti mikið af fagnaðarerindi mínu, sem verða mun auðskiljanlegt og dýrmætt, segir lambið.

35 Því að sjá, segir lambið: Ég mun opinbera mig niðjum þínum, svo að þeir færi margt í letur, sem ég mun kenna þeim, bæði auðskiljanlegt og dýrmætt. Og þegar niðjum þínum hefur verið tortímt og þeim hnignað í vantrú og niðjum bræðra þinna einnig, þá mun þessu fundinn felustaður, til að birtast Þjóðunum, fyrir gjöf og kraft lambsins.

36 Og í þeim ritum mun fagnaðarboðskapur minn færður í letur, segir lambið, bjarg mitt og sáluhjálp.

37 Og blessaðir eru þeir, sem á þeim degi reyna að leiða fram mína Síon, því að gjöf og kraftur heilags anda verður með þeim. Og standi þeir stöðugir allt til enda, mun þeim lyft upp á efsta degi og þeir frelsast í ævarandi ríki lambsins. Og hve mikil mun ekki fegurð þeirra á fjöllunum, þeirra sem friðinn boða og mikil gleðitíðindi.

38 Og svo bar við, að ég sá leifarnar af niðjum bræðra minna og einnig bók Guðslambsins, sem komin var af vörum Gyðings, og sá hana berast frá Þjóðunum til leifanna af niðjum bræðra minna.

39 Og þegar hún hafði borist þeim, sá ég aðrar bækur, sem fram komu fyrir kraft lambsins og bárust til þeirra frá Þjóðunum til að sannfæra jafnt Þjóðirnar sem leifarnar af niðjum bræðra minna sem og Gyðingana, sem dreifðir voru á öllu yfirborði jarðar, um það, að heimildir spámannanna og hinna tólf postula lambsins eru sannar.

40 Og engillinn talaði til mín og mælti: Þessar síðustu heimildir, sem þú hefur séð meðal Þjóðanna, munu staðfesta sannleiksgildi hinna fyrri, sem eru frá hinum tólf postulum lambsins, og þær munu leiða í ljós þau skýru og dýrmætu atriði, sem felld hafa verið úr þeim. Og þær munu gjöra öllum kynkvíslum, tungum og lýðum kunnugt, að Guðslambið er sonur hins eilífa föður og frelsari heimsins og allir menn verði að koma til hans, að öðrum kosti geti þeir ekki frelsast.

41 Og þeir verða að koma til hans samkvæmt þeim orðum, sem staðfest hafa verið af vörum lambsins. Og orð lambsins munu kunngjörð í heimildum niðja þinna, sem og í heimildum hinna tólf postula lambsins. Báðar munu þær þess vegna verða sem ein heild, því að einn Guð og einn hirðir er yfir allri jörðunni.

42 Og sá tími mun koma, að hann opinberar sig öllum þjóðum, bæði Gyðingum og Þjóðunum. Og þegar hann hefur opinberað sig Gyðingum og einnig Þjóðunum, þá mun hann opinbera sig Þjóðunum og einnig Gyðingum, og hinir síðustu verða fyrstir og hinir fyrstu síðastir.