Kom, fylg mér
7.–13. apríl: „Hefjið upp raust yðar … til að boða fagnaðarerindi mitt“: Kenning og sáttmálar 30–36


„7.–13. apríl: ‚Hefjið upp raust yðar … til að boða fagnaðarerindi mitt‘: Kenning og sáttmálar 30–36,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)

„Kenning og sáttmálar 30–36,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025

trúboðar fyrri tíðar

7.–13. apríl: „Hefjið upp raust yðar … til að boða fagnaðarerindi mitt“

Kenning og sáttmálar 30–36

Parley P. Pratt hafði verið meðlimur kirkjunnar í um mánuð þegar hann var kallaður „út í óbyggðirnar“ til að kenna fagnaðarerindið (Kenning og sáttmálar 32:2). Thomas B. Marsh hafði verið meðlimur í enn styttri tíma þegar við hann var sagt: „Stund ætlunarverks þíns er upp runnin“ (Kenning og sáttmálar 31:3). Orson Pratt, Edward Partridge og margir aðrir voru líka nýskírðir þegar þeir fengu trúboðskallanir sínar. Það er ef til vill lexía í þessu mynstri fyrir okkur í dag: Ef þið vitið nægilega mikið til að taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi með skírn, þá vitið þið nægilega mikið til að miðla því öðrum. Að sjálfsögðu viljum við ávallt auka við þekkingu okkar á fagnaðarerindinu, en Guð hefur aldrei hikað við að kalla hina „ólærðu“ til að boða fagnaðarerindi sitt (Kenning og sáttmálar 35:13). Í raun býður hann okkur öllum: „[Ljúk] upp munni þínum og [boða] fagnaðarerindi mitt“ (Kenning og Sáttmálar 30:5). Það gerum við best með „krafti [anda hans]“ en ekki með okkar eigin visku og reynslu (Kenning og sáttmálar 35:13).

Sjá einnig „Faith and fall of Thomas Marsh,“ „Ezra Thayer: From Skeptic to Believer,“ „Orson Pratt‘s Call to Serve,“ Revelations in Context, 54–69.

námstákn

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Kenning og sáttmálar 30–36

trúarskólatákn
Ég er kallaður/kölluð til að vera vitni um Jesú Krist.

Hvort sem þið hafið formlega köllun sem trúboði eða ekki, þá getið þið verið vitni Jesú Krists „alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera“ (Mósía 18:9). Þegar þið lærið Kenningu og sáttmála 30–36, skráið þá það sem þið lærið um þau tækifæri sem ykkur gefast til að miðla fagnaðarerindinu. Þið gætuð búið til lista yfir það sem Drottinn biður ykkur að gera og annan lista yfir loforð sem Drottinn gefur ef þið miðlið fagnaðarerindinu (sjá t.d. Kenning og sáttmálar 30:8; 31:3–5; 32:1, 5; 35:13–1524). Þið gætuð líka gætt að reglum sem geta hjálpað ykkur að miðla fagnaðarerindinu. Hvað finnið þið sem getur innblásið ykkur til að „boða mikinn fögnuð“? (Kenning og sáttmálar 31:3).

Öldungur Gary E. Stevenson kenndi að boðun fagnaðarerindisins „er hægt að vinna … með einföldum, auðskiljanaegum reglum sem okkur er öllum kennt frá barnæsku: Elska, miðla og bjóða“ („Elska, miðla, bjóða,“ aðalráðstefna, apríl 2022). Íhugið að læra þennan boðskap samhliða því að hugsa um kunningja, vini og fjölskyldu. Hvaða hugmyndir berast ykkur varðandi það hvernig þið getið miðlað þeim „[því sem þið kunnið] að meta við fagnaðarerindi Jesú Krists? Á hvaða hátt getum við boðið þeim að „koma og sjá,“ „koma og þjóna“ og „koma og tilheyra“? Þegar þið syngið eða hlustið á „Ég fer hvert sem vilt að ég fari“ (Sálmar, nr. 104) eða álíka sálm, gætuð þið spurt ykkur sjálf: „Hvað vill Drottinn að ég segi eða verði til að miðla fagnaðarerindinu?“

Sjá einnig Marcos A. Aidukaitis, „Lyft upp hjarta þínu og fagna,“ aðalráðstefna, apríl 2022; Topics and Questions, „Inviting All to Receive the Gospel of Jesus Christ,“ „Ministering as the Savior Does,“ Gospel Library; „Inviting All to Come unto Christ: Sharing the Gospel“ (myndband), Gospel Library.

4:30

Inviting All to Come unto Christ: Sharing the Gospel

systurtrúboðar kenna hópi kvenna

Kenning og sáttmálar 31:1–2, 5–6, 9, 13

Drottinn getur hjálpað mér með fjölskyldusambönd mín.

Í kringum 1830 tókust fjölskyldur á við mörg þeirra sömu málefna sem fjölskyldur takast á við í dag. Hvað leiðsögn og loforð veitti Drottinn Thomas B. Marsh varðandi fjölskyldu hans í Kenningu og sáttmálum 31? (sjá einkum vers 1–2, 5–6, 9, 13). Hvernig geta orð hans hjálpað ykkur með fjölskyldusambönd ykkar?

Til frekari upplýsinga um Thomas B. Marsh, sjá þá Heilagir, 1:79–80, 119–20.

Kenning og sáttmálar 32–33; 35

Drottinn býr mig undir það verk sem hann ætlar mér.

Að læra um líf þess fólks sem fjallað er um í Kenningu og sáttmálum 32–33; 35 gæti hjálpað ykkur að skilja hvernig Drottinn er að búa ykkur undir verk sitt. Þið gætuð til að mynda lesið um samband Parleys P. Pratt og Sidneys Rigdon í „Raddir endurreisnarinnar: Fyrri trúskiptingar.“ Hvernig varð samband þeirra til að blessa börn Guðs? (sjá Kenning og sáttmálar 35).

Hér er annað dæmi: Ezra Thayer ritaði að hann hefði upplifað vitrun nokkru áður en hann skírðist: „Maður kom til mín og færði mér bókrollu og sýndi mér hana og líka lúður og bauð mér að [blása] í hann. Ég sagðist aldrei á ævinni hafa [blásið]. Þú getur [blásið], reyndu það. … Hann framkallaði eitt fegursta hljóð sem ég hafði heyrt“ („Revelation, October 1830–B, Revelation Book 1,“ söguleg kynning, josephsmithpapers.org). Þegar Joseph Smith hlaut síðar opinberun fyrir Ezra Thayer og Northrop Sweet, sem nú er skráð sem Kenning og sáttmálar 33, túlkaði Ezra opinberunina sem pappírsrúlluna í vitrun sinni. Hvernig var Drottinn að búa Ezra undir það verk sem hann ætlaði honum í Kenningu og sáttmálum 33:1–13?

Hvaða sannindamerki sjáið þið um að hönd Drottins hafi verið í lífi þessarra fyrri tíðar kirkjumeðlima? Hvern hefur Drottinn sett í líf ykkar til að hjálpa ykkur að koma til Krists? Hvernig er hann að búa ykkur undir að blessa aðra gegnum trúfesti ykkar, elsku eða boð?

Sjá einnig „A Mission to the Lamanites,“ í Revelations in Context, 45–49.

Kenning og sáttmálar 33:12–18

Ef ég byggi líf mitt á fagnaðarerindi frelsarans, mun ég ekki falla.

Kenning og sáttmálar 33 var beint til Northrops Sweet og Ezra Thayer, tveggja nýlegra meðlima kirkjunnar. Northrop yfirgaf kirkjuna fljótlega eftir að þessi opinberun var gefin. Ezra þjónaði trúfastlega í einhvern tíma, en yfirgaf líka kirkjuna fljótlega. Að lesa um þá í þessum kafla gæti fengið ykkur til að hugleiða hve staðfastlega þið byggið „á [þessu] bjargi“ (vers 13) fagnaðarerindisins. Hvaða sannleikur í þessum versum getur hjálpað ykkur að vera trúföst frelsaranum?

Sjá einnig Helaman 5:12.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

námstákn

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Kenning og sáttmálar 30:1–2

Ég ætti að huga meira að því sem Guðs er, en því sem jarðneskt er.

  • Það gæti verið gaman fyrir börn ykkar að reyna að gera eitthvað tvennt samtímis, svo sem að þylja upp texta eftirlætis söngs meðan þau skrifa nöfn allra í fjölskyldunni. Af hverju er erfitt að gera eitthvað tvennt í einu? Þið gætuð síðan lesið saman Kenningu og sáttmála 30:1–2. Hvað „jarðneskt“ getur truflað okkur frá því að hafa Jesú Krist og fagnaðarerindi hans í huga? Hvernig getum við haft hann stöðugt í huga?

Kenning og sáttmálar 33:2–3, 6–10

Ég get miðlað fagnaðarerindi Jesú Krists.

  • Til að hjálpa börnum ykkar að skilja Kenningu og sáttmála 33:8–10, gætuð þið boðið þeim að reyna að segja orðtak með lokaðan munn og þið og hin börn ykkar reynið að giska á hvað þau reyna að segja. Lesið vers 8–10 og biðjið þau að opna munninn í hvert sinn sem orðtakið „ljúka upp munni yðar“ er endurtekið í einhverri mynd. Af hverju vill himneskur faðir að við ljúkum upp munni okkar og miðlum öðrum fagnaðarerindinu? Hvað getum við sagt fjölskyldu okkar og vinum um frelsarann og fagnaðarerindi hans? Þið gætuð líka sungið söng um að miðla fagnaðarerindinu, svo sem „Við boðum heiminum sannleikann,“ (Barnasöngbókin, 92).

  • Íhugið að miðla eigin upplifunum sem tengjast reglunum eða loforðunum í Kenningu og sáttmálum 30–34. Hvað lærðuð þið eða skynjuðu um frelsarann og verk hans þegar þið voruð að þjóna honum?

hópur barna skoðar tímarit

Miðla má fagnaðarerindinu á marga vegu.

Berið vitni um fyrirheitnar blessanir. Þegar þið bjóðið börnum að lifa eftir reglu fagnaðarerindisins, getið þið miðlað loforðunum sem Guð hefur gefið fólki sem lifir eftir þeirri reglu. Þið getið til að mynda borið vitni um þær blessanir sem hann veitir okkur þegar við ljúkum upp munni okkar og miðlum fagnaðarerindinu.

Kenning og sáttmálar 33:12–13

Ég get byggt líf mitt á fagnaðarerindi Jesú Krists.

  • Þið gætuð farið með börn ykkar út til að skoða undirstöðu hússins þeirra eða kirkjubyggingar og beðið þau að lýsa henni. Af hverju þarf bygging sterka og trausta undirstöðu? Lesið með þeim Kenningu og sáttmála 33:12–13 og miðlið hvert öðru tilfinningu ykkar um ástæðu þess að Drottinn vill að við byggjum líf okkar á fagnaðarerindi hans. Af hverju er „bjarg“ gott orð til að lýsa fagnaðarerindinu? Hvernig getum við byggt líf okkar á bjargi fagnaðarerindisins? (sjá einnig Matteus 7:24–29).

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

fyrri tíðar trúboðar ferðast í snjó

Far út í óbyggðirnar, eftir Robert T. Barrett

verkefnasíða fyrir börn