„Raddir endurreisnarinnar: Fyrri trúskiptingar,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Fyrri trúskiptingar,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
Raddir endurreisnarinnar
Fyrri trúskiptingar
Jafnvel áður en kirkjan var skipulögð í apríl 1830, lýsti Drottinn þessu yfir: „Akurinn er þegar hvítur til uppskeru“ (Kenning og sáttmálar 4:4). Þessi yfirlýsing uppfylltist næstu mánuði á eftir, er margir sem leituðu sannleikans voru leiddir af anda Guðs til að finna hina endurreistu kirkju Jesú Krists.
Margir þessara fyrri trúskiptinga áttu mikinn þátt í að leggja grunn að endurreisninni og trúarsögur þeirra eru okkur dýrmætar í dag. Sú trú sem þeir sýndu er sú sama og við þörfnumst til að snúast til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists.
Abigail Calkins Leonard
Þegar Abigail Calkins Leonard var á miðjum fertugsaldri þráði hún að hljóta fyrirgefningu synda sinna. Hún las Biblíuna öðru hverju og fulltrúar kristinna kirkna heimsóttu hana, en hún var ráðvillt yfir því sem aðgreindi kirkjurnar. „Dag einn,“ sagði hún, „tók ég Biblíuna mína og fór út í skóg og féll á hnén.“ Hún bað heitt til Drottins. „Samstundis birtist mér sýn,“ sagði hún, „og hin ólíku trúfélög runnu framhjá mér, eitt af öðru, og rödd kallaði til mín og sagði: ‚Þessar eru byggðar fyrir ágóða.‘ Aðeins lengra gat ég séð mikið ljós og rödd að ofan kallaði: ‚Ég mun reisa upp eignalýð, sem ég mun elska og blessa.‘“ Skömmu síðar heyrði Abigail um Mormónsbók. Jafnvel þó að hún ætti ekki eintak, leitaðist hún við að „þekkja sannleika þessarar bókar, með gjöf og krafti heilags anda,“ og hún „skynjaði strax nærveru hans.“ Þegar hún svo náði loks að lesa Mormónsbók, var hún „tilbúin til að meðtaka hana.“ Hún og eiginmaður hennar, Lyman, voru skírð árið 1831.
Thomas B. Marsh
Þegar Thomas B. Marsh var ungur maður lærði hann Biblíuna og gekk í kristna kirkju. Hann var þó ósáttur og sagði loks skilið við allar kirkjur. „Ég hafði með mér anda spádóms upp að vissu marki,“ sagði hann, „og sagði [trúarleiðtoga] að ég ætti von á að ný kirkja myndi rísa, sem fæli í sér sannleikann í öllum sínum hreinleika.“ Ekki löngu eftir það, fann Thomas sig andlega knúinn til að yfirgefa heimili sitt í Boston, Massachusetts, og ferðast vestur. Eftir að hafa eytt þremur mánuðum í vesturhluta New York, án þess að finna það sem hann leitaði að, hélt hann heim á leið. Á leiðinni spurði kona nokkur Thomas hvort hann hefði heyrt um „gullnu bókina sem ungmennið Joseph Smith hefði fundið.“ Heillaður af þessari hugmynd, ferðaðist Thomas samstundis til Palmyra og hitti Martin Harris í prentsmiðjunni, í þann mund sem fyrstu 16 blaðsíður Mormónsbókar komu úr prentun. Thomas fékk að taka eintak af þessum 16 blaðsíðum og fór með þær heim til Elizabeth, eiginkonu sinnar. „Hún var mjög ánægð“ með bókina, sagði hann, „og trúði að hún væri verk Guðs.“ Thomas og Elizabeth fluttu seinna til New York með börn sín og voru skírð. (Ef þið viljið vita meira um Thomas B. Marsh, sjá þá Kenning og sáttmálar 31.)
Parley og Thankful Pratt
Svipað og var með Thomas Marsh, þá brugðust Parley og Thankful Pratt við andlegri hvatningu um að yfirgefa blómstrandi bæ sinn í Ohio í þeim tilgangi að boða fagnaðarerindið, eins og þau skildu það úr Biblíunni. Samkvæmt því sem Parley sagði við bróður sinn: „Andi þessara hluta hafði hamrað svo kröftuglega á huga minn undanfarið að ég fékk ekki frið.“ Þegar þau komu til austurhluta New York, fannst Parley hann vera hvattur til að dvelja um stund á svæðinu. Þau ákváðu að Thankful myndi halda áfram án hans. „Ég hef verk að vinna á þessu landsvæði,“ sagði Parley við hana, „og ég veit ekki hvað það er eða hve langan tíma það mun taka, en ég kem þegar því er lokið.“ Það var þarna sem Parley heyrði fyrst minnst á Mormónsbók. „Ég skynjaði óvenjulegan áhuga á bókinni,“ sagði hann. Hann bað um eintak og las hana í gegnum nóttina. Er dagur reis vissi hann að bókin var sönn og mat hana „meira en alla fjársjóði heimsins.“ Nokkrum dögum seinna skírðist Parley. Hann snéri svo til baka til Thankful, sem skírðist einnig. (Ef þið viljið vita meira um Parley P. Pratt, sjá þá Kenning og sáttmálar 32.)
Parley P. Pratt les Mormónsbók, eftir Jeffrey Hein
Sidney og Phebe Rigdon
Á leið sinni frá New York til trúboðs í Missouri, áðu Parley og samverkamenn hans í Mentor, Ohio, á heimili Sidney og Phebe Rigdon – gömlum vinum Parley frá dögum hans í Ohio. Sidney var kristinn prestur og Parley hafði eitt sinn verið meðlimur í söfnuði hans og leit á hann sem andlegan ráðgjafa sinn. Ákafur sagði Parley vinum sínum frá Mormónsbók og endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists. Sidney hafði sjálfur verið að leita að endurreisn hinnar sönnu kirkju sem hann hafði fundið lýsingu á í Nýja testamentinu, þó hann væri í fyrstu vantrúaður á Mormónsbók. „Ég mun samt lesa bók þína,“ sagði hann vini sínum Parley, „og reyna að komast að því hvort hún sé opinberun frá Guði eða ekki.“ Eftir lestur og bænir í tvær vikur, voru bæði hann og Phebe sannfærð um að bókin væri sönn. Sidney vissi hins vegar einnig að það myndi vera mikil fórn fyrir fjölskyldu hans ef hann gengi í kirkjuna. Hann myndi að sjálfsögðu missa starf sitt sem prestur, ásamt félagslegri stöðu sinni í samfélaginu. Phebe lýsti því yfir, er þau ræddu þennan möguleika: „Ég hef metið fórnarkostnaðinn … og það er þrá mín að gera vilja Guðs, komi það sem koma má.“