Kom, fylg mér
14.–20. apríl: „Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var“: Páskar


„14.–20. apríl: ‚Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var‘: Páskar,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)

„Páskar,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025

Stytta af Kristi

14.–20. apríl: „Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var“

Páskar

3. apríl 1836 var páskadagur. Eftir að hafa þjónustað sakramentið í hinu nývígða Kirtland–musteri, fundu Joseph Smith og Oliver Cowdery sér afvikin stað að baki fortjalds í musterinu og lutu þar í hljóðri bæn. Þá, á þessum degi er kristnir menn hvaðanæva minntust upprisu Jesú Krists, birtist frelsarinn sjálfur upprisinn í musteri sínu og sagði: „Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var“ (Kenning og sáttmálar 110:4).

Hvað felst í því að segja að Jesús Kristur sé „sá, sem lifir“? Það merkir ekki einungis að hann reis úr gröfinni og birtist lærisveinum sínum í Galíleu. Það táknar að hann lifir á okkar tíma. Hann talar með spámönnum sínum á okkar tíma. Hann leiðir kirkju sína á okkar tíma. Hann læknar særðar sálir og brostin hjörtu á okkar tíma. Við getum því tekið undir máttugan vitnisburð Josephs Smith: „Eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn … sem við gefum um hann: Að hann lifir! (Kenning og sáttmálar 76:22). Við getum heyrt rödd hans í þessum opinberunum, séð hönd hans í lífi okkar og skynjað: „Ég veit minn lifir lausnarinn.‘“ (Sálmar, nr. 36).

námstákn

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

trúarskólatákn
Jesús Kristur lifir.

Flest okkar höfum ekki séð Jesú Krist eins og spámaðurinn Joseph Smith gerði. Við getum þó vitað, eins og hann gerði, að frelsarinn lifir, að hann er vel kunnugur velgengni okkar og baráttu og að hann mun hjálpa okkur á tímum neyðar. Íhugið eigin vitnisburð ykkar um lifandi Krist þegar þið veltið fyrir ykkur spurningunum hér á eftir og lærið meðfylgjandi efni.

Máttur hlýst af því að leggja á minnið. Öldungur Richard G. Scott útskýrði: „Mikill máttur getur hlotist af því að leggja ritningarvers á minnið. Að leggja ritningarvers á minnið, er líkt og að stofna til nýrrar vináttu. Það er líkt og að uppgötva nýjan einstakling, sem getur hjálpað á neyðarstundu, veitt innblástur og huggun og verið hvatning til nauðsynlegra breytinga“ („Máttur ritninganna,“ aðalráðstefna, október 2011). Ef þið finnið ritningarvers um frelsarann sem ykkur er einkar þýðingarmikið – ef til vill eitt sem gæti veitt ykkur huggun á tímum neyðar – íhugið þá að leggja það á minnið.

Í myndbandinu „My Spiritual Goal,“ ákveður ung kona að læra utanbókar „Hinn lifandi Kristur“ (Gospel Library). Hvað vekur áhuga ykkar varðandi upplifun hennar? Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að meðtaka sannleikann í „Hinn lifandi Kristur“ í hjarta og huga?

2:5

Let Your Goals Be Guided by the Spirit

Til að læra meira um það hvernig frelsarinn blessar okkur í dag, gætuð þið lært, hlustað á eða sungið „Ég veit minn lifir lausnarinn“ (Sálmar, nr. 36). Það gæti verið hvetjandi að gæta að sannleika í þessum sálmi sem líka er kenndur í Kenningu og sáttmálum 6:34; 84:77; 98:18; 138:23.

Sjá einnig Topics and Questions, „Jesus Christ,“ Gospel Library.

Ég mun rísa upp vegna Jesú Krists.

Joseph Smith vissi hvernig það er að syrgja látinn ástvin, þar með talið föður sinn og tvo bræður sína. Joseph og Emma jarðsettu sex börn sín, hvert þeirra yngra en tveggja ára. Joseph og Emma hlutu eilífa yfirsýn frá opinberununum sem Guð veitti.

Gætið að sannleika um dauða og eilífa áætlun Guðs í Kenningu og sáttmálum 29:26–27; 42:45–46; 63:49; 88:14–17, 27–31; 93:33–34. Hvernig hefur þessi sannleikur áhrif á viðhorf ykkar til dauðans? Hvernig hefur hann áhrif á það hvernig þið hagið lífi ykkar?

Sjá einnig 1. Korintubréf 15; Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 174–76; Easter.ChurchofJesusChrist.org.

Jesús Kristur framkvæmdi „algjöra friðþægingu“ fyrir mig.

Eitt sem við getum gert til að einblína á frelsarann á páskum, er að læra opinberanirnar í Kenningu og sáttmálum sem kenna um friðþægingarfórn hans. Nokkrar slíkar má finna í Kenningu og sáttmálum 18:10–13; 19:16–19; 45:3–5; 76:69–70. Íhugið að skrá sannleika sem þið finnið í þessum versum. Til að kafa dýpra í námi ykkar, gætuð þið skráð fleira með því kanna Lúkas 22:39–44; 1. Jóhannesarbréf 1:7; 2. Nefí 2:6–9; Mósía 3:5–13, 17–18; Moróní 10:32–33.

Hér eru nokkrar spurningar sem geta hjálpað við námið:

  • Hvað er friðþæging Jesú Krists?

  • Af hverju kaus Jesús Kristur að þjást og deyja fyrir okkur?

  • Hvað get ég gert til að hljóta blessanir af fórn hans?

  • Hvað finnst ykkur um Jesú Krist eftir að hafa lesið þessi vers?

Sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Friðþæging,“ Gospel Library; „The Savior Suffers in Gethsemane“ (myndband), Gospel Library.

8:48

The Savior Suffers in Gethsemane

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

barnahluti tákn 01

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Ég mun rísa upp vegna Jesú Krists.

  • Til að kenna börnum ykkar um upprisu, gætuð þið byrjað á því að sýna þeim myndir af dauða og upprisu frelsarans. Látið börn ykkar miðla því sem þau vita um þessa atburði. Þið gætuð líka sungið söng eins og „Reis Jesús upp?“ (Barnasöngbókin, 45).

  • Íhugið sýnikennslu sem gæti hjálpað börnum ykkar að skilja hvað gerist þegar við deyjum (andi okkar og líkami aðskiljast) og þegar við erum reist upp (andi okkar og líkami sameinast aftur og líkami okkar er fullkominn og ódauðlegur). Hvað gerist til að mynda þegar við fjarlægjum rafhlöðu úr vasaljósi eða blekhylki úr penna? Hvað gerist þegar þetta er aftur sameinað? (Sjá Alma 11:44–45.)

  • Þekkja börn ykkar einhvern sem hefur dáið? Látið þau miðla einhverju um þá einstaklinga og lesið síðan saman Kenningu og sáttmála 138:17. Ræðið hvert við annað um hvernig það er að vita að upprisa bíði ástvina okkar og að þeir muni aftur fá líkama.

  • Ef þið eigið eldri börn, gætuð þið boðið þeim að leita að orðtökum sem fjalla um boðskap páskanna í eftirtöldum ritningarhlutum: Kenning og sáttmálar 63:49; 88:14–17, 27; 138:11, 14–17. Þau gætu gert það sama með myndbandinu „Because He Lives“ (Gospel Library). Hvernig getum við miðlað öðrum þessum boðskap?

greftrun og upprisa Krists

Spámaðurinn Joseph Smith sá Jesú Krist.

  • Það gæti verið áhugavert fyrir ykkur og börn ykkar að lesa um hin þrjú mismunandi tilvik er Jesús Kristur birtist Joseph Smith og öðrum, eins og skráð er í Joseph Smith –Sögu 1:14–17; Kenningu og sáttmálum 76:11–24; 110:1–10. Börn ykkar gætu líka skoðað myndir af þessum atburðum á verkefnasíðu þessarar viku. Hvað lærum við um Jesú Krist af þessum upplifunum? Af hverju er það blessun að vita að Joseph Smith og aðrir sáu frelsarann upprisinn?

Ég get hlotið fyrirgefningu synda minna vegna Jesú Krists.

  • Sannleikurinn sem Joseph Smith lærði um fyrirgefningu fyrir milligöngu Krists, getur vakið börnum ykkar von um að þeim geti verið fyrirgefið mistök sín og syndir. Íhugið að bjóða börnum ykkar að búa til töflu með fyrirsögnum sem þessum: Það sem frelsarinn gerði fyrir mig og Það sem ég verð að gera til að hljóta fyrirgefningu hans. Hjálpið börnum ykkar að leita í eftirfarandi ritningarhlutum til að finna það sem heyrir til þessara fyrirsagna: Kenning og sáttmálar 18:10–13; 19:16–19; 45:3–5; 58:42–43. Miðlið hvert öðru gleði ykkar og þakklæti fyrir það sem frelsarinn gerði fyrir okkur.

  • Þið gætuð líka horft á myndbandið „The Shiny Bicycle“ með börnum ykkar (Gospel Library) og miðlað upplifun þegar ykkur fannst frelsarinn fyrirgefa ykkur þegar þið iðruðust.

3:4

The Shiny Bicycle

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Kristur birtist Maríu upprisinn

Kristur og María við gröfina, eftir Joseph Brickey

verkefnasíða fyrir börn