2010–2019
„Útvalinn sjáanda mun ég vekja upp“
Október 2016


„Útvalinn sjáanda mun ég vekja upp“

Sökum þess að Joseph var spámaður, þá er ekki aðeins gluggi himins opinn fyrir okkur – heldur aðaldyrnar inn í eilífðirnar.

Þegar Moróní vitjaði Josephs Smith fyrst, þá sagði hann að „nafn [Josephs] yrði talið tákn góðs og ills með öllum þjóðum.“1Við höfum séð þann spádóm uppfyllast. Í stríðinu á milli góðs og ills, þá hefur endurreisn fagnaðarerindisins, fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith, bæði innblásið hina trúuðu, sem hafa fylgt honum og líka vakið upp fjandmenn, sem berjast af ofsa gegn málstað Síonar og Joseph sjálfum. Þessi barátta er ekki ný af nálinni. Hann hófst nokkru eftir að Joseph fór í Lundin helga og heldur áfram í dag af auknum þunga á Alnetinu.

Drottinn sagði sjálfur við Joseph Smith:

„Endimörk jarðar munu spyrjast fyrir um nafn þitt, heimskingjar munu hæða þig og hel fara hamförum gegn þér–

„En hinir hjartahreinu og hyggnu, göfugu og dyggðugu munu stöðugt leita ráða, valds og blessana af hendi þér.“2

Í dag gef ég öllum þeim vitnisburð minn sem sækjast eftir því að skilja betur hið helga hlutverk Josephs Smith yngri, spámanns endurreisnarinnar.

Við þurfum ekki að vera feimin við að vitna um hlutverk Josephs sem spámanns, sjáanda og opinberara, því Drottinn hefur ætíð unnið í gegnum spámenn.3 Við vitum mun meira um himneskan föður og frelsarann, Jesú Krist, vegna hins endurreista sannleika fyrir tilverknað Josephs Smith. Við þekkjum guðlega eiginleika þeirra, hvernig þeir tengjast hvor öðrum og við þeim og sáluhjálparáætlunina, sem gerir okkur kleift að komast aftur í návist þeirra.

Brigham Young forseti sagði um Joseph: „Það var ákvarðað á ráðstefnu eilífðarinnar, löngu áður en grundvöllur jarðar var lagður, að hann yrði sá maður í síðustu ráðstöfun þessa heims, sem færa ætti fram orð Guðs til fólksins, og meðtaka fyllingu lykla og kraft prestdæmis sonar Guðs. Drottinn hafði augastað á honum … [því hann] var forvígður í eilífðinni til að vera í forsæti þessarar síðustu ráðstöfnunar.“4

Joseph Smith fæddist ástúðlegri fjölskyldu, til að búa hann undir hið mikla verk, sem upplifði hverskyns þrautir og þrengingar hins daglega lífs. Eftir því sem Joseph óx upp, urðu tilfinningar hans til Guðs „djúpar og oft sárar,“5 en þó varð hann ráðvilltur vegna hinna mörgu andstæðu trúarkenninga sem kenndar voru á hans tíma. Sem betur fer, þá lét hinn ungi Joseph efasemdir sínar ekki draga úr trú sinni. Hann leitaði svara í Biblíunni og fann þessa leiðsögn: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefið.“6

Joseph sagði: Engin ritningargrein hefur nokkru sinni knúið á hjarta nokkurs manns af meiri krafti en þessi knúði á mitt í þetta sinn. Hún virtist þrengja sér inn í hjarta mitt og tilfinningar af miklu afli. Ég hugleiddi hana aftur og aftur.“7

Af einfaldri trú, þá lét Joseph reyna á þessar andlegu tilfinningar. Hann fann afvikinn stað, kraup niður og „tók að skýra Guði frá óskum hjarta míns.“8 Frásögn Josephs um það sem gerðist er afar áhrifamikil:

„[Ég sá] ljósstólpa beint yfir höfði mér, skærari en sólin, og hann lækkaði hægt, uns hann féll á mig.

… Þegar ljósið hvíldi á mér, sá ég tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina – Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!9

Joseph Smith sá Guð, hinn eilífa föður og Jesú Krist, frelsara og lausnara heimsins. Þetta var Fyrsta sýn Josephs Smith. Á árunum sem á eftir komu, þýddi hann Mormónsbók fyrir gjöf og kraft Guðs. Fjöldi annarra himneskra vera vitjuðu hans og endurreistu sannleika og valdsumboð, sem glatast höfðu um aldir. Þessi guðlegu samskipti við Joseph Smith luku upp fyrir okkur gáttum himins og dýrðum eilífðar. Líf Josephs er vitnisburður um að við getum öll spurt Guð í trú og hlotið svör, ef okkur skortir visku – stundum með himneskum verum, en oftar en ekki með krafti heilaga anda, sem mælir til okkar með því að innblása hugsanir okkar og tilfinningar.10 Það er fyrir kraft heilags anda sem við getum „fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“11

Hvað mörg okkar varðar, þá vaknar vitnisburður um spámanninn Joseph Smith við lestur Mormónsbókar. Sjálfur las ég fyrst Mormónsbók spjaldanna á milli þegar ég var ungur og sótti trúarskólann snemma morguns. Með hið frjóa ímyndunarafl drengsins, þá einsetti ég mér að lesa líkt og ég væri sjáflur Joseph Smith og væri að uppgötva sannleika Mormónsbókar í fyrsta sinn. Mormónsbók hafði slík áhrif á líf mitt að ég les hana enn á þennan hátt. Oft finnst mér það auka þakklæti mitt fyrir spámanninn Joseph og hinn endurreista sannleika í þessari dýrmætu bók.

Hugsið ykkur til að mynda hvernig Joseph hefur liðið er hann var að þýða ritningarversin um skírn til fyrirgefningar syndanna. Joseph, sem hafði verið boðið að ganga ekki í neina kirkju síns tíma, hafði auðvitað spurningar um þessa endurleysandi helgiathöfn. Spurningar hans knúðu hann aftur til að biðjast fyrir og sú bæn leiddi til þess að Jóhannes skírari vitjaði hans, til að endurreisa Aronsprestdæmið og valdið til að skíra.12

Hugsið ykkur líka hvernig Joesph hefur liðið er hann fyrst komst að því að Jesús Kristur hefði vitjað íbúa Vesturheims – að hann hefði kennt þeim, beðist fyrir með þeim, læknað sjúka meðal þeirra, blessað börnin þeirra, veitt þeim prestdæmisvaldið og sakramentið.13 Joseph hefur kannski ekki verið ljós á þeim tíma að það sem hann lærði um helgiathafnirnar og stofnun kirkju Krists til forna, bjó hann undir að aðstoða Drottin við að endurreisa þessa sömu kirkju á jörðu.

Á meðan þýðingu Mormónsbókar stóð, þá syrgðu Joseph og eiginkona hans, Emma, dauða hins nýlega fædda sonar síns. Á þeim tíma var algengt að prédikarar kenndu að þau börn sem létust án skírnar væru að eilífu fordæmd. Með það í huga, hugsið ykkur þá hvernig Joseph hefur liðið er hann þýddi þessi orð frá spámanninum Mormón: „Og lítil börn þeirra þarfnast hvorki iðrunar né skírnar. … [Því] lítil börn eru lifandi í Kristi, allt frá grundvöllun veraldar.“14

Kannski var áhrifamesti kapítuli Mormónsbókar, hvað hinn unga Joseph varðaði, þriðji kapítuli í 2. Nefí. Sá kapítuli geymir fornan spádóm um „útvalinn sjáanda,“ sem Drottinn hugðist vekja upp á Síðari dögum – sjáanda að nafni Joseph, nefndan eftir föður sínum. Sá spámaður framtíðar yrði „mikils metinn“ og vinna verk sem yrði „mikils virði“ fyrir fólk hans. Hann yrði „mikill eins og Móse“ og yrði gefinn máttur til að leiða fram orð Guðs.15 Hugsið ykkur hvernig Joseph Smith hlýtur að hafa liðið er honum varð ljóst að þessi spádómur ætti við um hann sjálfan! Hann var ekki aðeins að þýða söguna; hann var að þýða sýn efstu daga, hina undursamlegu endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists – og Joseph sjálfur átti að aðstoða við að uppfylla það!

Í dag, næstum 200 árum síðar, er auðvelt að sjá hvernig þessi spádómur hefur uppfyllst. Við þekkjum hina dásamlegu hluti sem Joseph fékk áorkað sem spámaður Drottins. Hafið þó í huga að Joseph hafði aðeins áorkað fáeinu af þeim hlutum sem spámennirnir sögðu fyrir um, þegar hann þýddi þennan spádóm. Hann var enn ungur maður, rétt skriðinn yfir tvítugt. Kirkjan hafði ekki enn verið stofnuð. Það voru engar deildar og greinar, engir trúboðar og engin musteri. Nánast enginn þekkti Joseph Smith og suma þeirra sem höfðu með virkum hætti farið gegn honum. Lítið nú á hið mikla verk sem Drottinn hefur komið til leiðar fyrir tilverknað þjóns síns, Josephs, þrátt fyrir alla andspyrnuna gegn honum. Er ekki uppfylling þessa spádóms óyggjandi sönnun um spámannlega köllun Josephs Smith?

Ég hvet alla þá sem efast um vitnisburð sinn um Joseph Smith, eða eiga í erfiðleikum með ósannar, misvísandi eða yfirborðskenndar upplýsingar um líf hans og þjónustu, til að ígrunda ávextina – hinar mörgu blessanir sem við höfum hlotið fyrir hið undursamlega hlutverk Josephs Smith, spámanns endurreisnarinnar.

Sökum þess að Joseph var spámaður, þá heyra opinberanir og spámenn ekki lengur fortíðinni til. „Degi kraftaverkanna“ – sýna, lækninga og þjónustu engla – er ekki liðinn.16

Sökum þess að Joseph var spámaður, þá hefur hvert okkar aðgang að krafti og blessunum prestdæmisins, þar með talið skírn, gjöf heilags anda og sakramentinu.

Sökum þess að Joseph var spámaður, þá höfum við blessanir og helgiathafnir musterisins, sem binda okkur Guði, gera okkur að fólki hans og staðfesta fyrir okkur „[hinn guðlega kraft],“ sem gerir okkur einhvern daginn mögulegt að „[sjá] ásjónu Guðs, já, föðurins, og [halda] lífi.17

Sökum spámannsins Joseph, þá vitum við að hjónabandið og fjölskyldan eru nauðsynlegur hluti í hamingjuáætlun Guðs. Við vitum að fyrir helgiathafnir og sáttmála musterisins geta okkar dýrmætu fjölskyldusambönd varað að eilífu.

Sökum þess að Joseph var spámaður, þá er ekki aðeins gluggi himins opinn fyrir okkur – heldur aðaldyrnar inn í eilífðirnar. Við getum þekkt „hinn eina sanna Guð, og þann sem [hann sendi], Jesú Krist.“18 Við getum hlotið eilíft líf.

Mikilvægast er þó, að sökum þess að Joseph var spámaður, þá höfum við fjölda vitna og vitnisburða um að Jesús Kristur er sonur Guðs og frelsari heimsins. Við höfum óbrotna keðju sérstakra vitna um Jesú Krist, þar með talið spámann okkar tíma, Thomas S. Monson forseta, ráðgjafana í Æðsta forsætisráðinu og meðlimi Tólfpostulasveitarinnar. Ég bæti mínum auðmjúka og örugga vitnisburði við þeirra. Jesús Kristur lifir og leiðir kirkju sína. Joseph Smith var og er spámaður endurreisnarinnar. Prestdæmið og vald Guðs er enn á ný á jörðu. Megum við óttalaust lýsa yfir vitni okkar og þakklæti fyrir þennan dásamlega spámann, sjáanda og opinberara Drottins. Það er bæn mín í hinu helga nafni, Jesú Krists, amen.