2010–2019
Þakklæti á hvíldardegi
Október 2016


Þakklæti á hvíldardegi

Hvað hina Síðari daga heilögu varðar, þá er hvíldardagurinn dagur þakklætis og kærleika.

Kæru bræður og systur, í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hvarvetna um heim, ég er þakklátur fyrir að Thomas S. Monson forseti hefur beðið mig að tala til ykkar á ráðstefnunni á þessum hvíldardegi. Ég bið þess að heilagur andi megi staðfesta orð mín í hjörtum ykkar.

Í dag ætla ég að ræða um tilfinningar hjartans. Ég ætla að leggja áherslu á þakklæti – einkum á hvíldardegi.

Við erum þakklát fyrir heilmargt, t.d. góðvild ókunnugra, máltíð þegar við erum svöng, þak yfir höfuðið þegar rignir og vindar blása, beinbrot sem gróa og kröftugan grát nýfædds barns. Mörg okkar minnast slíkrar þakklætisstunda.

Hvað hina Síðari daga heilögu varðar, þá er hvíldardagurinn ein slík stund, dagur þakklætis og kærleika. Drottinn brýndi fyrir hinum heilögu í Jackson-sýslu, Missouri, árið 1831, að beina bænum sínum og þakkargjörð til himins. Hinum fyrri tíma heilögum var veitt opinberun um fyrirkomulag hvíldardagsins og föstu og bænar.1

Drottinn sagði bæði þeim og okkur hvernig haga skyldi tilbeiðslu og þakkargjörð á hvíldardegi. Það sem er mikilvægast, eins og þið getið sjálf sagt ykkur, er kærleikurinn sem við upplifum til gefenda allra gjafa. Hér eru orð Drottins um þakkargjörð og kærleika á hvíldardegi:

„Ég [gef] þeim boðorð, er hljóðar svo: Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, öllum mætti þínum, huga og styrk. Og í nafni Jesú Krists skalt þú þjóna honum. …

Þú skalt færa Drottni Guði þínum þakkir í öllu.

Þú skalt færa Drottni Guði þínum fórn í réttlæti, já, sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda.“2

Drottinn heldur síðan áfram og varar við því ef menn láta bregðast að þakka himneskum föður og Jesú Kristi sem gefendum allra gjafa: „Og í engu misbýður maðurinn Guði, eða gegn engum tendrast heilög reiði hans, nema þeim, sem ekki játa hönd hans í öllu og ekki hlýða boðorðum hans.“3

Mörg ykkar sem nú hlustið, finnið þegar gleði á hvíldardegi, minnist þess dags og færið Guði þakkir fyrir blessanir hans. Þið munið eftir hinum kunnuglega söng:

Er í stormum lífs þíns bárum æstum á,

einn þú hrekst og hvergi er björgun neina að sjá,

teldu þínar sælustundir, sem þú átt,

sjá þú munt hve Guði vorum þakka mátt.

Teldu þínar sælustundir,

sem þú átt.

Teldu þínar sælustundir,

sem Guð gaf. …

Sértu hlaðinn áhyggjum sem angra þig,

eða kross þann berðu er þér vinnur slig,

teldu þínar sælustundir, sorgin flýr,

söngur þinn mun alla daga hljóma nýr.4

Ég fæ bréf og heimsóknir frá trúföstum Síðari daga heilögum, sem finnst þeir hlaðnir áhyggjum. Sumum þeirra finnst næstum allt glatað, hið minnsta hvað þau varðar. Ég vona og bið þess að orð mín um þakklæti á hvíldardegi, megi feykja burtu efasemdum ykkar og vekja gleði í hjörtum ykkar.

Fyrsta blessunin, sem við getum verið þakklát fyrir, er sú að við erum hið minnsta stödd á sakramentissamkomu, með einum eða tveimur lærisveinum í hans nafni. Til eru þeir, sem ekki geta risið úr rekkju á heimili sínu. Til eru þeir, sem svo gjarnan vildu vera þar sem við erum, en eru þess í stað að þjóna á sjúkrahúsum, við öryggisþjónustu eða að hætta eigin lífi við að verja okkur, í einhverri eyðimörk eða frumskógi. Sú staðreynd að við getum komið saman, þótt væri ekki nema með einum Síðari daga heilögum, og meðtekið sakramentið, er allt sem þarf til að sýna þakklæti og elsku fyrir góðvild Guðs.

Önnur blessun sem við getum talið, sökum spámannsins Josephs Smith og hins endurreista fagnaðarerindis, er sú að við getum meðtekið sakramentið í hverri viku – undirbúið og blessað af þjónum Guðs, sem útdeila því til okkar. Við getum verið þakklát þegar heilagur andi staðfestir fyrir okkur að orð sakramentisbænanna, flutt af prestdæmishöfum hafandi valdsumboð, eru viðurkennd af himneskum föður okkar.

Stærsta blessunin af öllum, er tilfinning fyrirgefningar sem við hljótum þegar meðtökum sakramentið. Við skynjum aukna elsku og þakklæti fyrir frelsarann, sem gerði okkur möglegt að hreinsast af synd með sinni óendanlegu friðþægingu. Þegar við meðtökum af brauðinu og vatninu, þá minnumst við þess að hann þjáðist fyrir okkur. Þegar við finnum til þakklætis fyrir það sem hann gerði fyrir okkur, þá skynjum við að hann elskar okkur og við elskum hann.

Þessi blessun elsku, sem við skynjum, auðveldar okkur að halda boðorðið um að „hafa hann ávallt í huga.“5 Þið getið jafnvel fundið elsku og þakklæti, líkt og ég geri, fyrir heilagan anda, sem himneskur faðir hefur lofað að verði ætíð með okkur, ef við erum trúföst sáttmálunum sem við höfum gert. Við getum talið allar þessar blessanir, á hverjum hvíldardegi, og upplifað þakklæti.

Hvíldardagurinn er tilvalinn til þess að minnast sáttmálans sem þið gerðuð með skírninni, um að elska og þjóna börnum himnesks föður. Að uppfylla þann sáttmála á hvíldardegi, getur falist í því að taka þátt í námsbekk eða sveit af einlægum hjartans ásetningi, til að efla trú og kærleika meðal bræðra ykkar og systra sem þar eru. Þetta loforð felur í sér að uppfylla kallanir okkar af gleði.

Ég er þakklátur fyrir hina mörgu sunnudaga er ég kenndi djáknasveit í Bountiful, Utah, sem og sunnudagaskóla í Idaho. Ég man líka þann tíma er ég þjónaði sem aðstoðarmaður eiginkonu minnar í barnastofunni, þar sem megin hlutverk mitt var að úthluta leikföngum og taka þau til á eftir.

Þetta var mörgum árum áður en mér varð ljóst með andanum að mín einfalda þjónusta fyrir Drottinn skipti máli fyrir börn himnesks föður. Mér til furðu, þá hafa sum þeirra munað eftir og þakkað mér fyrir viðvaningslegar tilraunir mínar til að þjóna þeim fyrir meistarann á þessu hvíldardögum.

Á sama hátt og við fáum stundum ekki séð ávexti okkar eigin þjónustu á hvíldardegi, þá er ekki víst að við fáum séð alla ávexti annarra þjóna Drottins. Drottinn þokar þó ríki sínu hljóðlega áfram, með sínum trúföstu og auðmjúku hirðum, án fagnaðarláta, á móts við hina dýrðlegu framtíð þess í þúsund ára ríkinu. Það þarf heilagan anda til að greina þann vaxandi mikilfengleika.

Ég ólst upp í New Jersey og sótti sakramentissamkomur í lítilli grein þar, sem í voru einungis fáeinir meðlimir og ein fjölskylda, mín eigin. Ég skírðist fyrir sjötíu og fimm árum í Philadelphiu, einu kirkjubyggðri kapellunni í Pennsylvaníu og New Jersey sem við gátum farið í. Þar sem eitt sinn var ein lítil grein í Princeton, New Jersey, eru nú tvær stórar deildir. Fyrir aðeins nokkrum dögum, voru þar þúsundir æskufólks með hátíðarsýningu áður en Philadelphia-musterið í Pennsylvaníu var vígt.

Sem ungur maður var ég kallaður sem umdæmistrúboði þar sem við tilbáðum á sunnudögum, í einu kapellunni í Albuquerque, New Mexico. Nú eru þar musteri og fjórar stikur.

Ég fór frá Albuquerque til að fara í skóla í Cambridge, Massachusetts. Þar var ein kapella og eitt umdæmi sem náði yfir stóran hluta af Massachusetts og Rhode Island. Ég ók þar um hæðir þessa fallega landsvæðis, til að fara á sakramentissamkomur í afar fámennum greinum, sem flestar voru í litlu leigðu húsnæði eða breyttu íbúðarhúsi. Nú er heilagt musteri Guðs í Belmont, Massachusetts, og margar stikur sem ná yfir landsvæðið.

Það sem ég sá ekki skýrt fyrir mér á þessum tíma, var að Drottinn var að úthella anda sínum yfir fólkið á þessum sakramentissamkomum. Ég skynjaði það, en fékk hvorki greint umfang, né tímamörk Drottins í þeim ásetningi hans að byggja upp og upphefja ríki sitt. Spámaður einn sá með opinberun og skráði það sem við nú sjálf getum séð. Nefí sagði að heildarfjöldi okkar yrði aldrei mikill, en hið smávaxandi ljós yrði dýrðleg sjón:

„Og svo bar við, að ég sá kirkju Guðslambsins, og meðlimir hennar voru fáir. …

Og svo bar við, að ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“6

Á þessari ráðstöfun er álíka spádómur settur fram í Kenningu og sáttmálum, sem er lýsandi fyrir aðstæður okkar og komandi tækifæri:

„Þér hafið enn ekki skilið hversu miklar þær blessanir eru, sem faðirinn heldur í höndum sér og hefur fyrirbúið yður.

Og þér fáið ei borið alla hluti nú, en verið samt vonglaðir, því að ég mun leiða yður. Ríkið er yðar og blessanir þess eru yðar og auðæfi eilífðarinnar eru yðar.

„Og sá, sem veitir öllu viðtöku með þakklæti, mun dýrðlegur gjörður, og það sem jarðarinnar er mun bætast honum, jafnvel hundraðfalt, já, meira.“7

Ég hef skynjað þessa umbreytingu vaxandi þakklætis fyrir blessanir og elsku Guðs hvarvetna í kirkjunni. Hún virðist fara vaxandi meðal meðlima kirkjunnar á stundum og stöðum trúarrauna, er þeir þurfa að ákalla Guð um hjálp til að halda áfram.

Þeir tímar sem við tökumst á við, geyma margar erfiðar raunir, eins og raunir fólks Alma, undir harðri stjórn Amúlons, sem lagði of þungar byrðar á bak þeirra:

„Og svo bar við, að rödd Drottins barst til þeirra í þrengingum þeirra og sagði: Lyftið höfðum yðar og látið huggast, því að mér er kunnugt um sáttmálann, sem þér hafið gjört við mig. Og ég mun gjöra sáttmála við fólk mitt og leysa það úr ánauð.

„Og ég mun einnig létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar, jafnvel á meðan þér eruð ánauðug. Og þetta gjöri ég, til að þér verðið vitni mín héðan í frá og megið vita með vissu, að ég, Drottinn Guð, vitja fólks míns í þrengingum þess.

Og nú bar svo við, að byrðarnar, sem lagðar höfðu verið á Alma og bræður hans, urðu þeim léttari. Já, Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði.“8

Við höfum orðið vitni að því, að Drottinn hefur heyrt þakkarbænir okkar, fyrir það sem hann hefur þegar gert fyrir okkur, og bænheyrt okkur fyrir að sýna styrk og þrautseigju, ætíð þegar við höfum haldið sáttmála okkar við Guð, einkum ef það hefur reynst erfitt. Oftar en einu sinni hefur hann létt okkur lund og styrkt okkur.

Þið gætu velt fyrir ykkur hvað þið getið gert til að lifa og lofsyngja einmitt á þessum hvíldardegi, til að sýna þakklæti og styrkja ykkur sjálf og aðra fyrir komandi þrengingar.

Þið gætuð byrjað á því að færa Guði þakkir í einkabæn og fjölskyldubæn fyrir allt sem hann hefur gert fyrir ykkur. Þið gætuð beðið til að fá vitneskju um hvað Drottinn vill að þið gerið til að þjóna honum og öðrum. Þið gætuð þó einkum beðið þess að heilagur andi upplýsi ykkur um einhvern sem er einmana eða nauðstaddur og Drottinn vill að þið vitjið.

Ég get lofað ykkur því að þið munuð hljóta bænsvar, og ef þið fylgið því eftir, þá munuð þið finna gleði á hvíldardegi og hjarta ykkur mun fyllast þakklæti.

Ég ber vitni um að Guð faðirinn elskar ykkur og þekkir. Frelsarinn, Drottinn Jesús Kristur, friðþægði fyrir syndir ykkar vegna þess að hann elskar ykkur. Þeir, faðirinn og sonurinn, þekkja ykkur með nafni, á sama hátt og þeir þekktu spámanninn Joseph með nafni, er þeir birtust honum. Ég ber vitni um að þetta er kirkja Jesú Krists og að hann mun heiðra sáttmálana sem þið gerið og endurnýjið við Guð. Eðli ykkar mun breytast, svo þið líkist meira frelsaranum. Þið munuð vernduð gegn freistingum og efasemdum um sannleikann. Þið munuð finna gleði á hvíldardegi. Ég lofa ykkur þessu í nafni Drottins Jesú Krists, amen.