2010–2019
Hinn mikli læknir
Október 2016


Hinn mikli læknir

Þið þurfið ekki að halda áfram að bera byrði sorgar sökum syndar, sársauka sökum ranglætisverka annarra eða að upplifa hinn sára raunveruleika jarðlífsins – einsamlar.

Eitt af því sem gefur mér mest er að ferðast – að læra af systrum mínum víða um heim. Það jafnast ekkert á við það að vera hönd við hönd, auga við auga og hjarta við hjarta, með ykkur.

Á einu slíku ferðalagi var ég spurð af leiðtoga Líknarfélagsins: „Er eitthvað eitt ákveðið sem konur ættu að beina sjónum sínum að?“

Ég svaraði: „Já!,“ um leið og ræða Russells M. Nelson „Ákall til systra minna,“ kom upp í hugann. Nelson forseti kenndi: „Við þörfnumst kvenna sem hafa vel grundvallaðan skilning á kenningu Krists.“1

Nefí útskýrði kenningu Krists svohljóðandi:

„Hliðið, sem yður er ætlað að fara inn um, er iðrun og skírn í vatni. Og þá kemur að fyrirgefningu synda yðar með eldi og heilögum anda.…

„Nú, … vil ég spyrja, hvort allt sé fengið? Sjá, þá svara ég neitandi. Því að svo langt hafið þér aðeins náð fyrir orð Krists og óbifanlega trú á hann og með því að treysta í einu og öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa.

„Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.

… Þetta er vegurinn, og enginn annar vegur er til og ekkert annað nafn gefið undir himninum, sem frelsað getur manninn í Guðs ríki. Og sjá nú, … þetta er kenning Krists.2

Hvers vegna þurfum við vel grundvallaðan skilning á þessum reglum?

Ég hitti oft Síðari daga heilagra konur sem sárlega þarfnast hjálpar, en þær snúa sér ekki til hins eina sem veitt getur varanlega hjálp. Of oft leita þeir skilnings með því að leita á náðir hinnar „[stóru og rúmmiklu byggingar].“3

Er við aukum skilning okkar á kenningu Krists, munum við brátt komast að því að við skiljum stöðugt betur „hina miklu sæluáætlun.“4 Við munum líka skilja að frelsari okkar, Jesús Kristur, er þungamiðja áætlunarinnar.

Þegar okkur lærist að tileinka okkur kenningu Krists í okkar eigin aðstæðum, þá mun elska okkar aukast til frelsarans. Við munum líka viðurkenna „að þrátt fyrir það hvað við erum [ólíkar], þá höfum við [allar] þörf fyrir hina sömu takmarkalausu friðþægingu.“5 Við munum vita að hann er undirstaða okkar – „[bjarg] lausnara okkar, … öruggur grundvöllur, og ef [við byggjum] á þeim grundvelli, [getum við] ekki fallið.“6

Hvernig getur þessi kenning blessað okkur, er við leitum friðar og skilnings og reynum að standast í gleði í okkar einstæðu jarðarferð?

Ég legg til að við byrjum líkt og Nefí sagði: „Fyrir … óbifanlega trú á [Krist] og með því að treysta í einu og öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa.“7 Trú okkar á Jesú Krist gerir okkur mögulegt að takast á við hverskyns áskoranir.

Í raun er það svo að oft styrkist trú okkar og samband okkar við himneskan föður og sons hans þegar við verðum fyrir mótlæti. Ég nefni þrjú dæmi.

Í fyrsta lagi þá hefur frelsarinn, hinn mikli læknir, mátt til að umbreyta hjörtum okkar og létta varanlega af okkur þeirri sorg sem eigin syndir valda. Þegar frelsarinn kenndi samversku konunni við brunninn, var honum kunnugt um hinar alvarlegu syndir hennar. Hins vegar, „Drottinn lítur á hjartað,“8 og hann vissi að hún var fús til að læra.

Þegar konan kom að brunninum, sagði Jesús – ímynd hins lifandi vatns – einfaldlega: „Gef mér að drekka.“ Frelsarinn mun á líkan hátt tala til okkar, með rödd sem við þekkjum, er við komum til hans – því hann þekkir okkur. Hann mætir okkur þar sem við erum. Hann skilur okkur, vegna þess hver hann er og hvað hann hefur gert fyrir okkur. Hann getur gefið okkur hið lifandi vatn, ef við leitum þess, vegna þess að hann hefur upplifað sársauka okkar. Það kenndi hann samversku konunni, með þessum orðum: „Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: Gef mér að drekka, þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn.“ Þegar konan skildi hann loks, þá spurði hún í trú: „Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki.“

Eftir að samverska konan hafði átt þess upplifun með frelsaranum, þá „skildi [hún] eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn:

‚Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?‘“

Hún hafði hlotið vitni – hún hafði tekið að teyga af hinu lifandi vatni – og hún þráði að vitna fyrir öðrum um guðleika hans.9

Þegar við komum til hans, auðmjúk og fús til að læra – jafnvel þótt við berum þunga byrði mistaka, synda og afbrota – þá getur hann umbreytt okkur, „því að hann hefur máttinn til að frelsa.“10Eftir umbreytingu, þá getum við, líkt og samverska konan, farið í borgirnar okkar – heimili okkar, skóla og á vinnustaði – til að vitna um hann.

Í öðru lagi þá getur hinn mikli læknir huggað og hughreyst okkur, þegar við upplifum sársauka sökum ranglátrar breytni annarra. Ég hef átt mörg viðtöl við konur sem eru sligaðar af þungum byrðum. Sáttmálsvegur þeirra frá musterinu hefur verið þeim erfitt lækningarferli. Þær hafa orðið fyrir sáttmálsbrotum, hjartasorg og sjálfstraustsmissi. Margar eru fórnarlömb hjúskaparbrota og munnlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis, oft vegna ánetjunar annarra.

Margar eru fullar af skömm og sektarkennd, þótt þær sjálfar eigi enga sök. Margar vita ekki hvernig best er að greiða úr slíkum sterkum tilfinningum og því reyna þær oft að halda þeim í skefjum, svo þær hverfa lengra inn í sig sjálfar.

Von og bati finnast ekki í hyldýpismyrkri leyndar og launungar, heldur í ljósi og kærleika frelsara okkar, Jesú Krists.11 Öldungur Richard G. Scott sagði: „Ekki þjást að óþörfu vegna afleiðinga synda annarra, ef þið eruð sjálf lausar við alvarlega synd. … Þið getið fundið til samúðar. … Samt ættuð þó ekki að taka á ykkur sjálf ábyrgð sökum slíkrar breytni. … Þegar þið hafið gert það sem skynsamlegt er að gera til að hjálpa þeim sem þið elskið, leggið þá frá ykkur byrðina við fætur frelsarans. … Ef þið gerið þetta, munið þið ekki aðeins finna frið, heldur líka sýna trú á mátt frelsarans til að létta oki syndar af ástvini, fyrir iðrun hans og hlýðni.“

Hann hélt áfram: „Fullnaðarlækning mun hljótast fyrir trú ykkar á Jesú Krist og mátt hans og getu, fyrir tilverknað friðþægingarinnar, til að lækna ósanngjörn og óverðskulduð sár.“12

Ef þið eruð í þessum aðstæðum, systur, þá getur ferli lækningar verið langt. Það krefst þess að þið leitið handleiðslu með bæn og viðeigandi hjálpar, þar með talið leiðsagnar réttilega vígðra prestdæmishafa. Þegar ykkur lærist að eiga hreinskilin samskipti, setjið þá viðeigandi mörk og hugsanlega leitið ykkur faglegrar ráðgjafar. Mikilvægt er að viðhalda andlegu heilbrigði allan lækningartímann! Munið eftir ykkar guðlega auðkenni: Þið eruð elskaðar dætur himneskra foreldra. Reiðið ykkur á eilífa áætlun himnesks föður fyrir ykkur. Aukið dag hvern við skilning ykkar á kenningu Jesú Krists. Iðkið trú dag hvern, til að teyga innilega af hinu lifandi vatni frelsarans. Reiðið ykkur á þann kraft sem okkur öllum veitist fyrir tilverknað helgiathafna og sáttmála. Leyfið hinum græðandi mætti frelsarans og friðþægingar hans að hafa áhrif á líf ykkar.

Í þriðja lagi, þá getur hinn mikli læknir huggað okkur og hughreyst er við upplifum hinn sársaukafulla „veruleika jarðlífsins,“13 svo sem hamfarir, geðsjúkdóma, sjúkdóma, langvinnan sársauka og dauða. Nýlega kynntist ég undraverðri ungri konu, að nafni Josie, sem þjáist af geðhvarfasýki. Hér segir stuttlega frá leið hennar til lækningar, eins og hún lýsti fyrir mér:

Ég og fjölskylda mín köllum það „botndaga“ þegar mesta myrkrið skellur á. Hann byrjar á ofskynjun og áköfu óþoli gegn allskyns hljóði, snertingu og ljósi. Það er hámark hugarkvalar. Einum slíkum degi mun ég aldrei gleyma.

Það var snemma í ferlinu, sem gerði upplifun mín einkar hræðilega. Ég man eftir að gráta og tárin runnu niður andlit mitt er ég tók andköf. Þessar miklu þjáningar féllu þó í skuggann af þeim sársauka að sjá móður mína fyllast skelfingu og örvæntingu yfir að geta ekki hjálpað mér.

Hugur minn bugaðist og hjarta hennar brast. Okkur grunaði hins vegar ekki að þrátt fyrir hyldýpismyrkrið, þá vorum við aðeins nokkrum augnablikum frá því að upplifa máttugt kraftaverk.

Tíminn sligaðist áfram og móðir mín sagði stöðugt lágri röddu: ‚Ég myndi gera hvaðeina til að létta þessu af þér.‘

Á meðan varð myrkrið meira og þegar mér fannst ég vera að brotna, þá gerðist nokkuð undursamlegt.

Ég fylltist skyndilega dásamlegum og óviðjafnanlegum krafti. Ég sagði síðan við móður mína, ‚af meiri styrk en mínum eigin‘14 og mikilli sannfæringu, sjö lífgefandi orð, sem andsvar við djúpri þrá hennar til að taka á sig þjáningar mínar. Ég sagði: ‚Þess þarf ekki; annar hefur gert það.‘“

Í hyldýpismyrkri lamandi geðsjúkdóms, þá sótti Josie styrk til að vitna um Jesú Krist og friðþægingu hans.

Hún læknaðist ekki algjörlega þennan dag, en hlaut vonarljós á tíma mikils myrkurs. Josie heldur nú áfram ferð sinni til lækningar, studd af bjargföstum skilningi á kenningunni um Krist og endurnærð daglega af lifandi vatni frelsarans, og iðkar óhagganlega trú á hinn mikla lækni. Á leið sinni liðsinnir hún öðrum. Hún sagði: „Þegar myrkrið virðist algjört, þá reiði ég mig á minninguna um hans ljúfu miskunn. Hún verður mitt leiðarljós á erfiðum tímum.“15

Systur, ég ber vitni um að:

Þið þurfið ekki að halda áfram að bera byrði sorgar sökum syndar – einsamlar.

Þið þurfið ekki að takast á við sársauka sökum ranglætisverka annarra – einsamlar.

Þið þurfið ekki að upplifa hinn sára raunveruleika jarðlífsins – einsamlar.

Frelsarinn biður einlæglega:

„Viljið þér nú ekki snúa til mín og iðrast synda yðar og snúast til trúar, svo að ég megi gjöra yður heila?

… Ef þér viljið koma til mín, skuluð þér öðlast eilíft líf. Sjá! Armur miskunnar minnar er útréttur til yðar, og ég mun taka á móti hverjum þeim, sem koma vill.“16

„[Hann] myndi gera hvaðeina til að létta þessu af þér.“ Staðfeyndin er sú að „[hann] hefur gert það.“ Í nafni Jesú Krists, hins mikla læknis, amen.