2010–2019
Blessanir tilbeiðslu
Október 2016


Blessanir tilbeiðslu

Tilbeiðsla er ómissandi og miðlægur þáttur í andlegu lífi okkar. Það er nokkuð sem við ættum að þrá, leita að og stefna að því að upplifa.

Heimsókn hans

Ein af markverðustu og ljúfustu reynslunum sem skráð er í heilögum ritningum er sagan af heimsókn frelsarans til fólksins í Ameríku, eftir dauða hans og upprisu. Fólkið hafði þolað mikla eyðileggingu sem „[ummyndaði] allt yfirborð jarðar.“1 Heimildirnar frá þessum atburðum segja að eftir þessar hamfarir hafi fólkið grátið stöðugt,2 og í allri þessari djúpu sorg hungraði það eftir lækningu, friði og frelsun.

Þegar frelsarinn steig niður frá himni þá féll fólkið tvisvar að fótum hans. Í fyrra skiptið var það eftir að hann tilkynnti með guðdómlegu valdi:

„Sjá, ég er Jesús Kristur, sem spámennirnir vitnuðu um, að koma mundi í heiminn.

Og sjá! Ég er ljós og líf heimsins.“”3

Hann bauð viðstöddum: „Rísið á fætur og komið til mín, svo að þér getið þrýst höndum yðar á síðu mína og einnig fundið naglaförin á höndum mínum og fótum, svo að þér megið vita, að ég er Guð Ísraels og Guð allrar jarðarinnar og hef verið deyddur fyrir syndir heimsins. …

Og þegar allir höfðu gengið fram og sannfærst, var hrópað einum rómi og sagt:

Hósanna! Blessað sé nafn Guðs hins æðsta!“4

Þá í annað sinn: „féll [fólkið] að fótum Jesú.“ Í þetta sinn var það með tilgangi, því að við lesum að það „tilbað hann.“5

Nútíminn

Fyrr á þessu ári var ég að sinna því verkefni að heimsækja stiku í vesturhluta Bandaríkjanna. Það var venjulegur sunnudagur, venjulegur fundur með venjulegum kirkjuþegnum. Ég horfði á það er fólkið gekk inn í kapelluna og gekk lotningafullt að lausum sætum. Hvísl, á síðustu sekúndunum bergmálaði í gegnum salinn. Mæður og feður reyndu að þagga niður í orkumiklum börnum, og stundum tókst það ekki. Venjulegt.

Þá, rétt áður en að fundurinn hófst, komu orð í huga minn, innblásin af andanum

Þessir kirkjuþegnar höfðu ekki bara komið til þess að sinna skyldu eða hlusta á ræðumenn.

Það var dýpri og þýðingameiri ástæða fyrir því að þau höfðu komið.

Þau höfðu komið til að tilbiðja.

Á meðan á fundinum stóð fylgdist ég með ýmsum safnaðarmeðlimum. Þau höfðu á sér nærri himneskan svip, viðhorf lotningar og friðar. Eitthvað við þá hlýjaði mér um hjartarætur. Reynslan sem þau voru að upplifa á þessum sunnudegi var alveg einstök.

Þau voru að tilbiðja.

Þau voru að upplifa himininn.

Ég sá það á svip þeirra.

Ég gladdist og tilbað með þeim. Á sama tíma og ég gerði svo, talaði andinn við hjarta mitt. Þann dag lærði ég eitthvað um sjálfan mig, um Guð og um hlutverk sannrar tilbeiðslu í lífi okkar.

Tilbeiðsla í daglegu lífi okkar

Síðari daga heilagir eru óviðjafnanlegir þegar það kemur að því að þjóna í kirkjuköllunum. Stundum förum við í gegnum starfið kerfisbundið eins og að við værum einungis að vinna verkefni. Stundum skortir mæting okkar á fundum og þjónustan í ríkinu hinn heilaga þátt tilbeiðslunnar. Án þess erum við að missa af óviðjafnanlegum andlegum fundi við hið eilífa, sem við höfum rétt á sem börn ástríks himnesks föður.

Langt frá því að vera tilviljunarkennt, ánægjulegt atvik þá er tilbeiðsla ómissandi og miðlægur þáttur í andlegu lífi okkar. Það er nokkuð sem við ættum að þrá, leita að og stefna að því að upplifa.

Hvað er tilbeiðsla?

Þegar við tilbiðjum Guð þá nálgumst við hann með lotningarfullri ást, auðmýkt og kærleika. Við viðurkennum og meðtökum hann sem æðsta konung okkar, skapara heimsins og ástkæran og óendanlega ástríkan föður.

Við virðum hann og vegsömum.

Við gefumst honum.

Við lyftum hjörtum okkar í máttugri bæn, unnum orði hans, gleðjumst í náð hans og heitum að fylgja honum af einlægri tryggð.

Að tilbiðja Guð er það mikið ómissandi þáttur í lífi lærisveina Jesús Krists að ef við náum ekki að meðtaka hann í hjörtum okkar munum við leita hans án árangurs í ráðum okkar, kirkjum og musterum.

Sannir lærisveinar laðast að því að „[tilbiðja] hann, sem gjörði himin og jörð og hafið og uppsprettur vatnanna - [ákalla] nafn Drottins dag og nótt.“6

Við getum lært mikið um sanna tilbeiðslu með því að skoða hvernig aðrir, fólk sem var kannski ekki svo ólíkt okkur, hittist, hegðaði sér og tilbað í návist hins guðdómlega.

Undur, þakklæti og von

Fyrri hluta 19.aldar hafði hinn kristni heimur svo til hafnað þeirri hugmynd að Guð talaði enn við manninn. Það var svo vorið 1820 sem þetta breyttist að eilífu, þegar auðmjúkur sveitastrákur fór inn í trjálund og kraup í bæn. Frá og með þeim degi hefur streymi sýna, opinberana og himneskra birtinga baðað jörðina, veitandi íbúum hennar dýrmæta þekkingu varðandi eðli og tilgang Guðs og samband hans við manninn.

Oliver Cowdery lýsti þessum dögum sem „[ógleymanlegum]. … Hvílík gleði! Hvílík undur! Hvílík dásemd!“7

Orð Olivers sýna fyrstu þættina sem fylgja sannri tilbeiðslu á hinu guðlega, yfirgnæfanleg lotning og djúpt þakklæti.

Á hverjum degi, og þá sérstaklega á hvíldardeginum, fáum við það einstaka tækfæri að upplifa undur og dásemd himna og dásömum Guð fyrir blessandi góðvild hans og yfirgnæfandi miskunn.

Þetta mun leiða okkur að von. Þetta eru fyrstu þættir tilbeiðslu.

Ljós, þekking og trú.

Á hinum blessaða hvítasunnudegi fór andinn inn í hjörtu og huga lærisveina Krists og fyllti þá af ljósi og þekkingu.

Fram að þeim degi voru þeir stundum óöruggir með það sem þeir ættu að gera. Jerúsalem var hætturlegur staður fyrir fylgjendur frelsarans og þeir hafa eflaust velt því fyrir sér hvað myndi verða um þá.

Þegar heilagur andi fyllti hjörtu þeirra þá hvarf efi og tregða. Í gegnum óviðjafnanlega reynslu sannrar tilbeiðslu þá meðtóku hinir heilögu himneskt ljós, þekkingu og styrktan vitnisburð. Það leiddi að trú.

Frá þeim tímapunkti þá störfuðu postularnir og hinir heilögu af einbeittum huga. Með dirfsku kenndu þeir Jesú Krist um allan heim.

Þegar við tilbiðjum í anda, bjóðum við ljósi og sannleika inn í sálu okkar sem styrkir svo trú okkar. Þetta eru einnig ómissandi þættir sannrar tilbeiðslu.

Þjónusta lærisveinsins og kærleikur

Í Mormónsbók lærum við að frá þeirri stundu sem Alma yngri var frelsaður frá þjáningum afleiðinga uppreisnar sinnar þá var hann aldrei samur. Hann „[ferðaðist] um allt … [land] og meðal allra … og [kappkostaði] að bæta úr öllu, sem [hann hafði gert] kirkjunni til miska.“8

Stanslaus tilbeiðsla hans til hins almáttuga Guðs tók á sig mynd þjónustu hins ákafa lærisveins.

Sönn tilbeiðsla breytir okkur í einlæga og einbeitta lærisveina ástkærs meistara og frelsara okkar, Jesú Krists. Við breytumst og verðum líkari honum.

Við verðum skilningsríkari og umhyggjusamari. Eigum auðveldara með að fyrirgefa. Kærleiksríkari.

Við skiljum að það er ómögulegt að segja að við elskum Guð á sama tíma og við hötum, vísum á bug eða virðum þá að vettugi sem í kringum okkur eru.9

Sönn tilbeiðsla leiðir að óhagganlegri ákvörðun um að ganga veg lærisveinsins. Það leiðir óyggjandi til kærleika. Þetta eru einnig ómissandi þættir tilbeiðslu.

Að ganga inn um hlið hans með þakklæti

Þegar ég hugsa til baka, til þess sem hófst sem venjulegur sunnudagsmorgun, í venjulegu samkomuhúsi, í þessari venjulegu stiku, þá er ég enn hrærður yfir þessari óvenjulegu andlegu reynslu sem mun ávallt blessa líf mitt.

Ég lærði að jafnvel þó að við séum framúrskarandi tímastjórnendur, einnig gagnvart köllunum okkar og verkefnum, jafnvel þó að við hökum við í öllum kössunum á listanum yfir hinn „fullkomna“einstakling, fjölskyldu eða leiðtoga, ef við tilbiðjum ekki hinn miskunnsama lausnara, himneska konung og dýrlega Guð þá erum við að missa af meiri hluta gleðinnar og friðarins í fagnaðarerindinu.

Þegar við tilbiðjum Guð þá viðurkennum við og meðtökum hann með sömu lotningunni og hinir fornu í Ameríku. Við nálgumst hann með óskiljanlegri tilfinningu undrunar og aðdáunar. Við furðum okkur á mildi Guðs í þakklæti. Þannig öðlumst við von.

Við hugleiðum orð Guðs og það fyllir sálu okkar með ljósi og sannleika. Við meðtökum andlegt sjónarsvið sem einungis er hægt að sjá í gegnum ljós heilags anda.10 Þannig öðlumst við trú.

Er við tilbiðjum þá fágast sálir okkar og við skuldbindum okkur til að ganga í fótspor ástkærs frelsara okkar, Jesús Krists. Frá þessari ályktun öðlumst við kærleika.

Þegar við tilbiðjum þá opnast hjörtu okkar í lofgjörð til blessaðs Guðs okkar að morgni, á miðjum degi og að kvöldi.

Við helgum og heiðrum hann stöðugt – í samkomuhúsum okkar, heimilum, musterum og í öllum okkar verkum.

Þegar við tilbiðjum, opnum við hjörtu okkar fyrir læknandi mætti friðþægingar Jesú Krists.

Líf okkar verður tákn og tjáning fyrir tilbeiðslu okkar.

Bræður mínir og systur, andleg reynsla hefur minna að gera með það sem er að gerast í kringum okkur og allt að gera með það sem er að gerast í hjörtum okkar. Það er mitt vitni að sönn tilbeiðsla mun umbreyta venjulegum kirkjusamkomum í óvenjulega andlega veislu. Hún mun auðga líf okkar, víkka út skilning okkar og styrkja vitnisburð okkar. Því um leið og við snúum hjörtum okkar til Guðs, eins og sálmaskáldið til forna þá „[göngum við]inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum: [Við lofum] hann, [vegsömum] nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“11

Við munum blómstra og þroskast í von, trú og kærleika í gegnum einlæga og innilega tilbeiðslu. Í þessu ferli munum við safna himnesku ljósi inn í sálir okkar sem gæðir líf okkar guðlegri þýðingu, viðvarandi friði og ævarandi gleði.

Það er blessun tilbeiðslu í lífi okkar. Ég ber ykkur auðmjúklega vitni um þetta í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.