2010–2019
„Kom, fylg mér“ með kristilegri elsku og þjónustu
Október 2016


„Kom, fylg mér“ með kristilegri elsku og þjónustu

Við komum til frelsarans, sem hans Síðari daga lærisveinar, með því að elska og þjóna börnum hans.

Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel var á sjúkrahúsi að ná sér eftir hjartaskurðaðgerð, þegar fimm ára gamall drengur, barnabarn hans, kom til hans í heimsókn. Þegar litli drengurinn horfði í augu afa síns, varð hann var við þjáningar hans. „Afi,“ sagði hann, „ef ég elska þig heitar, muntu þá [finna minna til]?“1 Í dag spyr ég ykkur álíka spurningar: „Ef við elskum frelsarann heitar, munum við þá þjást minna?“

Þegar frelsarinn bauð lærisveinum sínum að fylgja sér, lifðu þeir eftir Móselögmálinu, sem kvað á um „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn,“2 en frelsarinn kom til að uppfylla það lögmál með friðþægingu sinni. Hann kenndi nýja kenningu: „Ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“3

Lærisveinunum var kennt að hverfa frá háttum hins náttúrlega manns og tileinka sér hina ástúðlegu og umhyggjusömu hætti frelsarans, með því að láta af deilum og tileinka sér fyrirgefningu, góðvild og samúð. Það reyndist ekki alltaf auðveld að hlíta hinu nýja boðorði „elskið hver annan.“4 Þegar lærisveinarnir höfðu áhyggjur af því að eiga samskipti við syndara og ákveðinn hóp fólks, þá kenndi frelsarinn af þolinmæði: „það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“5 Spámaður einn í Mormónsbók sagði líka: „Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar.“6

Við komum til frelsarans, sem hans Síðari daga lærisveinar, með því að elska og þjóna börnum hans. Í þeirri viðleitni er ekki víst að við komumst hjá þrautum og þrengingum og þjáningum í holdinu, en við munum síður þjást andlega. Við getum jafnvel upplifað gleði og frið mitt í raunum okkar.

Okkar kristilega elska og þjónusta hefjast auðvitað á heimilinu. Foreldrar, þið eruð kölluð til að vera ástúðlegir kennarar og trúboðar barna ykkar og unglinga. Þau eru ykkar trúarnemar. Þið berið ábyrgð á að hjálpa þeim að snúast til trúar. Í raun þá erum við öll að sækjast eftir því að snúast til trúar – sem er að fyllast elsku frelsara okkar.

Elska hans hvetur okkur, sem fylgjendur Jesú Krists, til að styðja hvert annað í okkar jarðnesku ferð. Við getum þetta ekki einsömul.7 Þið hafið áður heyrt mig vitna í þennan Kvekara málshátt: Þér lyftið mér og ég mun lyfta þér og vér munum rísa saman [að eilífu].8 Við, sem lærisveinar, byrjum á því að gera þetta eftir skírn okkar, að sýna fúsleika okkar til „að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar.“9

„Að fræða hvert annað um kenningu ríkisins,“10 er leið til að elska og þjóna hvert öðru. Foreldrar og afar og ömmur, við hneigjumst til að syrgja ástand heimsins – að skólar séu ekki að kenna gott siðferði. Það er hins vegar margt sem við getum gert. Við getum hagnýtt okkur kennslustundir í fjölskyldum okkar –einmitt núna. Látið þær ekki fara forgörðum. Þegar ykkur gefast tækifæri til að miðla hugsunum ykkar um fagnaðarerindið og lífsins lexíur, leggið þá allt frá ykkur og ræðið við börn ykkar og barnabörn.

Við ættum ekki að hafa áhyggjur af því að vera ekki þjálfaðir trúarkennarar. Ekkert námskeið eða rit til þjálfunar kemur að meira gagni en ritningarnám, bænir, ígrundun og að leita handleiðslu heilags anda. Andinn mun leiða ykkur áfram. Ég lofa ykkur því að köllun foreldris fylgir sú gjöf að kenna á þann hátt sem hentar ykkur og börnum ykkar. Minnist þess að máttur Guðs til að hafa réttlát áhrif á okkur er kærleikur. „Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.“11

Æskufólk, sum ykkar eruð meðal öflugustu trúarskóla kennara okkar. Þið komið í kirkju til að læra, svo þið getið farið heim til að kenna og þjóna fjölskyldu ykkar, nágrönnum og vinum. Óttist ekki. Hafið trú til að vitna um það sem þið vitið að er sannleikur. Hugleiðið hvernig fastatrúboðarnir taka framförum vegna þess að þeir lifa trúfastlega einbeittu lífi – nota tíma sinn og hæfileika og bera öðrum vitni, þjóna þeim og blessa. Þegar þið gefið vitnisburð ykkar um fagnaðarerindið, þá mun trú ykkar og sjálfstraust aukast!

Ein áhrifaríkasta kristilega þjónustan sem við við getum veitt, er að hafa ritninganám, bænir og leiðsagnarfundi með fjölskyldunni. Leiðtogar kirkjunnar hafa, í yfir hundrað ár, boðið okkur að gefa þessu samfelldan tíma í hverri viku. Mörg okkar verða þó af blessununum sem þessu tengjast. Fjölskyldukvöld eru ekki fyrirlestrar frá pabba og mömmu. Þau eru sameiginlegar stundir þar sem einföldum andlegum hugmyndum og upplifunum er miðlað, til að hjálpa börnum okkar að miðla og gefa af sér og vitna og vaxa saman. Elska til hver annars mun aukast, ef við höfum vikuleg fjölskyldukvöld, og við þjáumst síður.

Við skulum minnast þess að mikilvægasta starfið sem við vinnum í fjölskyldu okkar, er gert fyrir áhrif heilags anda. Hvenær sem við hækkum röddina í reiði, þá mun andinn yfirgefa okkur og fjölskyldur okkar. Þegar við tölum af kærleika, þá getur andinn dvalið með okkur. Minnumst þess líka að börn okkar og barnabörn meta elsku okkar eftir því hve mikinn tíma við verjum með þeim. Mestu skiptir þó að þið missið ekki þolinmæðina og gefist upp!

Ritningarnar greina frá því að þegar sum andabarna himnesks föður hafi valið að fylgja ekki áætlun hans, hefðu himininn grátið.12 Sumir foreldrar, sem hafa elskað og kennt börnum sínum, gráta líka yfir því að uppvaxin börn þeirra velja að fylgja ekki áætlun Drottins. Hvað geta foreldrar gert? Við getum ekki beðist fyrir svo sjálfræði þeirra hverfi. Minnist föður glataða sonarins, sem beið þolinmóður eftir því að sonur hans kæmi „til sjálfs sín,“ og gætti að honum. Meðan „hann var enn langt í burtu,“ þá hlóp hann til hans.13 Við getum beðið um handleiðslu til að vita hvenær skal tala og hvað skal segja, og stundum hvenær skal þegja. Minnist þess að börn okkar og fjölskyldumeðlimir völdu eitt sinn að fylgja frelsaranum. Stundum er það einungis upplifanir eigin lífs sem vekja hinar helgu tilfinningar að nýju. Þegar uppi er staðið, þá verður það að vera þeirra ákvörðun að velja að elska og fylgja Drottni.

Það er önnur sérstök leið fyrir lærisveina til að sýna elsku til frelsarans. Í dag hrósa ég öllum þeim sem þjóna Drottni með því að annast aðra. Hve Drottinn elskar ykkur! Þið fylgið honum með ykkar hógværu og lítillátu þjónustu, sem lofaði: „Faðir yðar, sem sér í leynum, mun sjálfur opinskátt umbuna yður.“14

Mér verður hugsað til eins nágranna míns, en eiginkona hans var með Alsheimer-sjúkdóminn. Hvern sunnudag hjálpaði hann henni að klæða sig fyrir kirkjusamkomur, greiddi hár hennar, farðaði hana og setti á hana eyrnarlokka. Með þessari þjónustu var hann öllum körlum og konum í deildinni góð fyrirmynd – í raun öllum heiminum. Dag einn sagði eiginkona hans við hann: „Mig langar bara að sjá eiginmann minn aftur og vera hjá honum.“

Hann svaraði: „Ég er eiginmaður þinn.“

Hún svaraði ljúflega: „Ó, það er gott!“

Ég get ekki rætt um umönnun án þess að minnast á minn sérstaka umönnunaraðila – sem mér finnst vera sérstakur lærisveinn frelsarans – minn eilífa förunaut, Mary. Hún hefur algjörlega helgað sig samúð, umönnun og elsku. Hendur hennar endurspegla hans ljúfu og huggunarríku snertingu. Ég væri ekki hér án hennar. Með henni mun ég geta staðist allt til enda og verið með henni í eilífu lífi.

Ef þið þjáist mikið, með öðrum eða einsömul, þá hvet ég ykkur til að leita umhyggju frelsarans. Reiðið ykkur á hans kærleiksríka faðm.15 Takið á móti huggun hans. „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.“16

Bræður og systur, ef við höfum ekki gert það fyllilega ennþá, þá skulum við tileinka okkur betur fyrirgefningu, góðvild og kærleika. Við skulum lægja stríðið sem geysar í hjarta hins náttúrlega manns og tileinka okkur umhyggju, elsku og frið Krists.17

Ef „þér hafið kynnst dýrð Guðs … [og] þekkt gæsku hans“18 svo og „friðþæginguna, sem frá grundvöllun veraldar var fyrirbúin,“19 þá „munuð [þið] ekki hafa hug á að gjöra hver öðrum mein, heldur lifa í friði.“ … Og þér munuð ekki leyfa, að börn yðar … [muni] brjóta lögmál Guðs, takast á og munnhöggvast hvert við annað, … heldur munuð þér kenna þeim að … elska hvert annað og þjóna hvert öðru.“20

Skömmu áður en frelsarinn var krossfestur, kenndi hann postulum sínum: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður,“21 og „ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“22

Ég ber vitni um að hin sanna stelling frelsarans gagnvart okkur er eins og höggmyndin Kristur, eftir Thorvaldsen, sýnir. Hendur hans eru stöðugt útréttar,23 og segja: „Kom fylg mér.“ Við fylgjum honum með því að elska og þjóna hvert öðru og halda boðorðin hans.

Ég ber mitt sérstaka vitni um að hann lifir og elskar okkar fullkominni elsku. Þetta er hans kirkja. Thomas S. Monson er spámaður hans á jörðu í dag. Ég bið þess að við megum elska himneskan föður og son hans heitar og þjást minna. Í nafni Jesú Krists, amen.