Aðalráðstefna
Okkar stöðugi förunautur
Aðalráðstefna október 2023


Okkar stöðugi förunautur

Þú og ég höfum tækifæri til að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut okkar.

Ástkæru bræður mínir og systur, á þessari ráðstefnu höfum við verið blessuð með úthellingu opinberunar. Þjónar Drottins Jesú Krists hafa talað og munu mæla orð sannleika, hvatningar og leiðsagnar.

Ég er snortinn vegna þeirra vitnisburða sem gefnir hafa verið á ráðstefnunni, sem Drottinn talar til okkar persónulega með heilögum anda. Þegar við biðjum og hlýðum síðan ábendingum andans, öðlumst við meiri innsýn og blessanir til að leiðbeina okkur í gegnum þá erfiðu daga sem fram undan eru.

Við heyrðum á ný viðvörun Russells M. Nelson forseta: „Á komandi tíð verður hins vegar ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“1

Þessi spámannlega viðvörun hefur leitt mig til umhugsunar um hvað ég gæti kennt börnum mínum, barnabörnum og barnabarnabörnum um hvernig hægt sé að hafa þessa nauðsynlegu leiðsögn á þeim erfiðu dögum sem fram undan eru.

Þessi boðskapur í dag er því stutt bréf til afkomenda minna, sem gæti hjálpað þeim þegar ég er ekki með þeim á spennandi dögum framtíðar. Ég vil að þau viti hvað ég hef komist í skilning um sem gæti hjálpað þeim.

Ég hef hlotið betri skilning á því hvað þau þurfa til að njóta stöðugra áhrifa heilags anda á þeim tíma sem við erum uppi á. Og ég hef fundið mig knúinn til að tala í dag um persónulega reynslu mína af því að bjóða til mín heilögum anda, eins nálægt og mér var unnt, til að vera mér stöðugur förunautur. Bæn mín er sú að ég geti hvatt þau.

Ég myndi byrja á því að fá þau til að íhuga og biðja varðandi syni Helamans, Nefí og Lehí, og aðra þjóna Drottins sem með þeim störfuðu. Þeir mættu harðri andstöðu. Þeir þjónuðu á ranglátum stað og þurftu að takast á við hræðilegar blekkingar. Ég finn hugrekki, og þið gætuð það líka, í þessu eina versi úr heimildum Helamans:

„En á sjötugasta og níunda ári hófust miklar erjur. En svo bar við, að Nefí og Lehí og margir bræðra þeirra, sem þekktu hinar sönnu kenningar, þar eð þeir fengu daglega margar opinberanir, prédikuðu fyrir fólkinu, og þeim tókst að binda enda á ágreining þess þetta sama ár.“2

Þessi frásögn hvetur mig og hún gæti hvatt ykkur. Synir Helamans hlutu kennslu og leiðsögn af mörgum upplifunum með heilögum anda. Það fullvissar mig um að við getum lært af andanum orð á orð ofan, meðtekið það sem við þurfum og síðan að meðtaka meira þegar við erum tilbúin til þess.

Ég hef álíka hvatningu af frásögninni um það þegar Nefí var beðinn um að fara aftur til Jerúsalem til að sækja töflur Labans. Þið munið eftir ákvörðun hans. Hann sagði: „Ég mun fara og gjöra það sem Drottinn hefur boðið.“3

Reynsla Nefís af heilögum anda í þessum erindagjörðum hefur margoft veitt mér hugrekki þegar ég hef tekist á við verkefni sem ég vissi að væru verkefni frá Drottni, en sem virtust langt utan minnar fyrri og utan þess sem ég sá sem getu mína.

Þið munið hvað Nefí sagði um reynslu sína: „Og kvöld var komið, og ég fékk [bræður mína] til að fela sig utan múranna. Þegar þeir voru komnir í felur, laumaðist ég, Nefí, inn í borgina og í átt að heimkynnum Labans.“

Hann heldur áfram og segir: „Andinn leiddi mig, og ég vissi ekki fyrirfram, hvað gjöra skyldi.“4

Ég hef verið hvattur af því að vita að Nefí var leiðbeint af andanum mínútu fyrir mínútu allt kvöldið í erindagjörðum Drottins.

Við þörfnumst, og þið munuð þarfnast, stöðugs samfélags heilags anda. Við þráum það, en vitum af reynslu að ekki er auðvelt að ná því. Við hugsum öll, segjum eða gerum eitthvað í daglegu lífi sem getur misboðið andanum.

Þegar það gerist, og það mun gerast, gætum við fundið fyrir vanþóknun Drottins. Og við gætum freistast til að finnast við vera ein. Þá er mikilvægt að muna eftir hinu örugga fyrirheiti sem við hljótum í hverri viku þegar við iðrumst og meðtökum sakramentið, „svo að andi hans sé ætíð með [okkur]“.5

Ef þið hafið skynjað áhrif heilags anda í dag, getið þið tekið það sem ljúfa staðfestingu á því að friðþægingin er virk í lífi ykkar.

Eins og öldungur Jeffrey R. Holland hefur sagt: „Alltaf þegar þessi öfgaaugnablik okkar koma, megum við ekki láta undan óttanum um að Guð hafi yfirgefið okkur eða að hann heyri ekki bænir okkar. Hann heyrir vissulega til okkar. Hann sér okkur vissulega. Hann elskar okkur vissulega.“6

Þessi fullvissa hefur hjálpað mér. Þegar mér finnst ég vera fjarlægur Drottni, þegar svör við bænum mínum virðast dragast, hef ég lært að fylgja leiðsögn Nelsons forseta um að endurskoða líf mitt til að fá tækifæri til að iðrast. Hann áminnir okkur: „Dagleg iðrun er vegur hreinleikans og hreinleika fylgir kraftur.“7

Ef þið eigið erfitt með að finna fyrir heilögum anda, gætuð þið hugleitt hvort verið gæti að þið þyrftuð að iðrast vegna einhvers og hljóta fyrirgefningu.8 Þið getið beðist fyrir í trú til að vita hvað ykkur ber að gera til að verða hreinsuð og verða þannig hæfari fyrir stöðugt samfélag heilags anda.

Ef þið viljið fá samfélag heilags anda, verðið þið að vilja það af réttum ástæðum. Tilgangur ykkar verður að vera tilgangur Drottins. Ef ásetningur ykkar er of eigingjarn, munið þið eiga erfitt með að skynja og taka á móti ábendingum andans.

Lykilatriðið fyrir mig og fyrir ykkur er að vilja það sem frelsarinn vill. Ásetningur okkar þarf að vera knúinn af hreinum kærleika Krists. Bænir okkar þurfa að vera: „Allt sem ég vil er það sem þú vilt. Verði þinn vilji.“

Ég reyni að muna eftir fórn frelsarans og kærleika hans til mín. Þegar ég síðan bið til himnesks föður til að færa þakkir, finn ég kærleika og fullvissu um að bænir mínar séu heyrðar og að ég muni hljóta það sem er best fyrir mig og ástvini mína. Það styrkir vitnisburð minn.

Af öllu því sem heilagur andi ber vitni um, er dýrmætast fyrir okkur að hljóta vitni um að Jesús er Kristur, lifandi sonur Guðs. Frelsarinn lofaði: „Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.“9

Fyrir mörgum árum fékk ég símtal frá þjakaðri móður. Hún sagði mér að dóttir hennar hefði flutt langt að heiman. Hún skynjaði af því litla sambandi sem hún hafði við dóttur sína að eitthvað hræðilegt væri að. Hún sárbað mig um að hjálpa.

Ég komst að því hver heimiliskennari dótturinnar var. Af þessu orði getið þið vitað að þetta gerðist fyrir löngu síðan. Ég hringdi í hann. Hann var ungur. Hann sagði mér þó að hann og félagi hans hefðu báðir verið vaktir upp um nóttina, ekki aðeins með áhyggjur af dótturinni, heldur með innblástur um að hún væri að taka ákvarðanir sem myndu leiða til sorgar og eymdar. Aðeins með þann innblástur andans fóru þeir til að hitta hana.

Í fyrstu vildi hún ekki segja þeim frá aðstæðum sínum. Af innblæstri báðu þeir hana um að iðrast og velja þann veg sem Drottinn hafði fyrir hana. Hún áttaði sig þá, ég trúi vegna andans, að eina leiðin til þess að vita það sem þeir vissu um líf hennar var frá Guði. Móðir fól áhyggjur sínar himneskum föður og frelsaranum af kærleika. Heilagur andi hafði verið sendur til þessara heimiliskennara vegna þess að þeir voru fúsir til að þjóna Drottni. Þeir höfðu fylgt leiðsögn og fyrirheiti sem finna má í Kenningu og sáttmálum:

„Lát brjóst þitt og vera fullt af kærleika til allra manna og til heimamanna trúarinnar. Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál þína sem dögg af himni.

Heilagur andi verður þér stöðugur förunautur, og veldissproti þinn óbreytanlegur veldissproti réttlætis og sannleika. Og yfirráð þín skulu verða ævarandi yfirráð og streyma til þín án þvingana alltaf og að eilífu.“10

Ég ber vitni um að Drottinn hefur staðið við loforð sitt. Heilagur andi er sendur til hinna trúföstu sáttmálsmeðlima kirkju Jesú Krists. Upplifun ykkar verður einstök og andinn mun leiðbeina á þann hátt sem best fellur að trú ykkar og getu til að hljóta opinberun fyrir ykkur sjálf og þau sem þið elskið og þjónið. Ég bið þess af öllu hjarta að fullvissa ykkar megi aukast.

Ég ber mitt vitni um að Guð faðirinn lifir. Hann elskar ykkur. Hann heyrir hverja bæn ykkar. Jesús Kristur bað vissulega til föðurins um að senda heilagan anda til að leiða og hugga okkur og vitna fyrir okkur um sannleikann. Guð faðirinn og hans elskaði sonur birtust Joseph Smith í trjálundi. Spámaðurinn Joseph Smith þýddi Mormónsbók af gulltöflum með gjöf og krafti Guðs.

Himneskir sendiboðar endurreistu prestdæmislykla. Russell M. Nelson forseti er spámaður Guðs fyrir alla jörðina.

Sem vitni um Jesú Krist, veit ég að hann lifir og leiðir kirkjuna sína. Þið og ég höfum tækifæri til að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut og fá þessi sannindi staðfest þegar við minnumst og elskum frelsarann, iðrumst og biðjum um að elska hans sé í hjörtum okkar. Ég bið þess að við megum njóta þeirrar blessunar og samfélags heilags anda, í dag og alla okkar ævidaga. Ég elska ykkur. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.